Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

08.03.2013 20:40

Páll Ólafsson skáld fæddist 8. mars 1827

Páll Ólafsson skáld fæddist 8. mars 1827 á Dvergasteini og ólst upp á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði, sonur Ólafs Indriðasonar, prests og skálds á Kolfreyjustað, og f.h.k., Þórunnar Einarsdóttur húsfreyju.

Hálfbróðir Páls, samfeðra, var Jón, ritstjóri, alþm. og skáld, sem þýddi Frelsið eftir John Stuart Mill og gerði allt vitlaust með sínum róttæka og hvassyrta Íslendingabrag sem réðst gegn dönsku valdi og áhrifum hér á landi.

Páll stundaði heimanám hjá föður sínum og var við nám einn vetur hjá Sigurði Gunnarssyni í Vallanesi. Hann var umboðsmaður þjóðjarða í Múlaþingi 1865-96 og gildur bóndi, lengst af á Hallfreðarstöðum 1856-62 og aftur 1866-92 en bjó auk þess á Eyjólfsstöðum í tvö ár og í Nesi. Hann var alþm. Norðmýlinga 1867, 1873 og 1874-75 er hann sagði af sér þingmennsku.

Páll var glaðsinna glæsimenni, annálaður hestamaður og höfðingi heim að sækja. Hann var húmoristi og án efa eitt af öndvegisskáldum 19. aldar enda átti hann einstaklega létt með að yrkja: „Óðar en ég andann dreg, oft er vísan búin.“ Kviðlingar hans eru leiftrandi og leikandi léttir þar sem rím, stuðlar og höfuðstafir, leggjast eins og af sjálfu sér á sína staði í tilgerðarlausu töluðu máli.

Fyrri kona Páls, Þórunn Pálsdóttir, lagði grunn að fjárhag hans en hann hafði verið ráðsmaður hjá henni og var sextán árum yngri en hún. Er hún lést, 1880, kvæntist Páll Ragnhildi, dóttur Björns Skúlasonar sem var áhugamaður um skáldskap eins og Páll og besti vinur hans. Ragnhildur var sextán árum yngri en Páll og voru þau byrjuð að draga sig saman þó nokkru áður en fyrri kona Páls lést. Til Ragnhildar orti Páll eldheit ástarljóð en mörg þeirra fundust fyrir rúmum þrjátíu árum.

Páli eyddist mjög fé á efri árum og var síðustu árin hjá Jóni bróður sínum í Reykjavík. Hann lifði þó að sjá helstu kvæði sín komin á bók en Jón hafði séð um útgáfuna.

Páll lést á Þorláksmessu 1905

Sólskríkjan

Sólskríkjan mín situr þarna á sama steini
og hlær við sínum hjartans vini, 
honum Páli Ólafssyni.

 

Páll Ólafsson  f.  8. mars 1827 - d. 23. desember 1905

 

Ó, blessuð vertu sumarsól

Ó, blessuð vertu sumarsól,

er sveipar gulli dal og hól

og gyllir fjöllin himinhá

og heiðarvötnin blá.

 

Nú fossar, lækir, unnir, ár

sér una við þitt gyllta hár,

nú fellur heitur haddur þinn

á hvíta jökulkinn.

 

Þú klæðir allt í gull og glans,

þú glæðir allar vonir manns,

og hvar sem tárin kvika' á kinn

þar kyssir geislinn þinn.

 

Þú  fyllir dalinn fuglasöng,

nú finnast ekki dægrin löng,

og heim í sveitir sendirðu æ.

Úr suðri hlýjan blæ.

 

Þú frjógar, gleður fæðir allt

um fjöll og dal og klæðir allt,

og gangirðu' undir gerist kalt,

þá grætur þig líka allt.

 

Ó blessuð vertu sumarsól,

er sveipar gulli dal og hól,

og gyllir fjöllin himin há

og heiðarvötnin blá. 

Skráð af: Menningar-Staður