Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

10.04.2013 06:14

Magnús Karel Hannesson 61 árs: - Lyftir andanum og eyðir allri þreytu

Það er alltaf nóg að gera hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sviðsstjóri rekstrar- og útgáfusviðs, Magnús Karel Hannesson, er til dæmis á fullu að undirbúa menningarráðstefnu morgundagsins og má varla vera að því að hugsa um 61 árs afmæli sitt í dag. Bregst samt ekki vinnufélögunum og mætir væntanlega með góðgæti til þess að hafa með morgunkaffinu.

Magnús Karel er borinn og barnfæddur Eyrbekkingur og hefur búið á Eyrarbakka alla tíð. Nýtur þess að aka til vinnu í Reykjavík og heim aftur. „Ég hlusta svolítið á útvarp á leiðinni, eða hef það í gangi, sem ég geri eiginlega ekki á öðrum tíma,“ segir hann og bætir við að þótt hann fari á milli nær daglega sé sú stund ávallt ánægjuleg. „Leiðin er skemmtileg og þegar ég kem úr Reykjavík austur á fjallsbrúnina og sé yfir allt Suðurlandsundirlendið með öllum sínum fallega fjallahring þá er það ekki til annars en að lyfta andanum og eyða allri þreytu.“

Að sjálfsögðu tekur Magnús Karel daginn snemma. Hann segir að umferðin sé drjúg í Þrengslunum í bítið og aukist til muna í Svínahrauninu. Hún sé samt ekkert í líkingu við það sem hún hafi verið fyrir hrun haustið 2008. Hann gerir ráð fyrir að vera fyrr á ferðinni í dag en venjulega, þarf að koma við í bakaríi á leiðinni í vinnuna. „Það er skylda að bjóða starfsmönnunum upp á tilbreytingu með morgunkaffinu,“ segir afmælisbarnið. 

 

 

Hjónin Magnús Karel Hannesson og Inga Lára Baldvinsdóttir á Eyrarbakka.

 

 

 

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 10. apríl 2013.

 

Skráð af: Menningar-Staður