Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

29.07.2013 17:32

Eyrbekkingur í þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar

 

Gleðistund. Afmælisbarnið Viktoría Líf Þorleifsdóttir fór í óvænta heimsókn til Landhelgisgæslunnar í gær, heilsaði upp á þyrlusveitina og skoðaði björgunarþyrluna TF-LIF. Með henni eru þeir Magnús Örn Einarsson stýrimaður frá Gamla-Hrauni og býr á Eyrarbakka, Benóný Ásgrímsson flugstjóri og Tómas Vilhjálmsson flugvirki.

 

„Þetta er fallegasta nafn í heimi“

• Nýfæddu barni var bjargað með björgunarþyrlu fyrir 10 árum

• Barnið var skírt í höfuðið á þyrlunni

• Viktoría Líf heimsótti björgunarmenn og þyrluna á 10 ára afmælisdaginn

• Kraftaverk

 

Í gær voru 10 ár liðin frá því að þyrlan TF-LIF fór í útkall til Vestmannaeyja og sótti þangað nýfætt barn sem varð fyrir miklum súrefnisskorti í fæðingu. Stúlkan náði góðum bata eftir meðferð á vökudeild barnaspítalans og hlaut síðar nafnið Viktoría Líf í höfuðið á þyrlunni.

„Þetta er fallegasta nafn í heimi. Mér finnst alveg magnað að við vorum farin að ræða um þetta nafn áður en allt þetta gerðist,“ segir Eva Sveinsdóttir, móðir Viktoríu Lífar Þorleifsdóttur.

„Þetta var svakaleg lífsreynsla og ekki alveg eins og ég bjóst við,“ segir Eva en þetta var hennar fyrsta barn.

Fjölskylda Viktoríu Lífar kom henni á óvart í gær með bíltúr út á flugvöll þar sem þyrlan var skoðuð og spjallað við fjóra áhafnarmeðlimi sem voru á vakt þessa örlagaríku nótt fyrir 10 árum. Viktoría Líf hélt að hún væri á leiðinni í afmælið sitt í Skemmtigarðinn í Smáralind.

 

Var vart hugað líf

„Hún kom í heiminn klukkan sex mínútur yfir 7. Fæðingin var mjög erfið en hún hafði staðið yfir frá því klukkan 4 daginn áður,“ segir faðir stúlkunnar, Þorleifur Kjartan Jóhannsson.

Viktoríu Líf var vart hugað líf að sögn Kjartans því hún varð fyrir miklum súrefnisskorti í fæðingunni.

Þyrlan TF-LIF var ræst út í snatri og með henni kom barnalæknir og súrefniskassi því ekki var til hreyfanlegur kassi í Vestmannaeyjum.

„Okkur var strax gerð grein fyrir því að þetta væri mjög alvarlegt ástand. Þegar við komum á vökudeild barnaspítalans í Reykjavík var hún sett í öndunarvél og kæld niður til að koma í veg fyrir frumuskemmdir,“ segir Eva.

 

Lítið kraftaverk

„Í gleymi því aldrei þegar ég heyrði hana gráta á þriðja degi og það var ein besta stund lífs míns,“ segir Eva en dóttir hennar hafði varla gefið frá sér hljóð fram að því vegna þess að hún var svo sár eftir öndunarvélina.

Foreldrarnir telja augljóst að þyrlan bjargaði lífi Viktoríu Lífar og segja að hún væri a.m.k. ekki heilbrigð í dag ef þyrlan Líf hefði ekki verið kölluð út.

„Þessi þekking, aðstaða og tæki eru ekki til staðar í Vestmannaeyjum og sem betur fer erum við með þessa þyrlu og allt þetta frábæra starfsfólk og maður þakkar bara guði fyrir það,“ segir Kjartan.

Meðferðin á vökudeild barnaspítalans gekk mjög vel en læknarnir ætluðu engu að síður að fylgjast vel með Viktoríu Líf næstu árin þar sem hún varð fyrir miklum súrefnisskorti.

„Þeir hættu bara að fylgjast með henni þegar hún var eins árs. Þeir sögðu að það þyrfti ekki að fylgjast með þessu barni því allt gekk svo vel og hún var svo dugleg,“ segir Eva. „Læknarnir sögðu að hún væri lítið kraftaverk.“

Viktoría Líf nýtur lífsins í dag eins og flestir aðrir jafnaldrar hennar. Hún gengur í skóla ásamt því að leggja stund á fimleika.

Hún fær alltaf að heyra fæðingarsöguna sína á afmælisdaginn sinn enda er hún ansi sérstök.

ÞYRLUSVEIT LANDHELGISGÆSLUNNAR KALLAR EFTIR LAUSN Í MÁLEFNUM ÞYRLULÆKNA

Frábært framtak og gott að allt fór vel að lokum

„Það er alveg frábært framtak hjá þeim að mæta í heimsókn til okkar og við kunnum virkilega að meta það,“ segir Magnús Örn Einarsson á Eyrarbakka, stýri- og svigmaður hjá Landhelgisgæslunni.

„Það er virkilega gott að heyra að allt fór vel að þessu tilviki því maður sinnir bara sinni vinnu og fer svo heim að sofa þegar vaktin er búin. Oft veit maður lítið sem ekkert um hvað gerist í framhaldinu,“ segir Tómas Vilhjálmsson, flugvirki og spilmaður, en þeir voru báðir í áhöfninni sem bjargaði Viktoríu Líf fyrir 10 árum.

Þeir gagnrýna ástandið sem ríkir um stöðu þyrlulækna hjá Landhelgisgæslunni en mikil óvissa er til staðar um fjárhagslegan grundvöll fyrir þeirra störf.

Vanalega eru tveir flugmenn, stýrimaður, læknir og flugvirki í þyrluáhöfn TF-LIF og þessa sterka liðsheild skiptir miklu máli að þeirra mati. „Snögg viðbrögð lækna skipta oft sköpum og þeir meta þörfina fyrir hjálpina hverju sinni,“ segir Magnús.

Þeir skora á stjórnvöld að tryggja það að læknar séu ávallt um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar við sjúkra- og björgunarflug hér á landi.

 

Lengst til vinstri er Magnús Örn Einarsson á Eyrarbakka.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 29. júlí 2013

 

Skráð af Menningar-Staður