Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

13.08.2013 17:27

Óperan Ragnheiður frumflutt í Skálholti

Kirkja Brynjólfs biskups Sveinssonar, frá Holti í Önundarfirði,  í Skálholti.

 

Það er glæsilegur hópur einsöngvara sem flytur óperuna um Ragnheiði

 

Óperan Ragnheiður frumflutt í Skálholti

 

Á föstudaginn, 16. ágúst n.k. kl 20, verður óperan Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson frumflutt í Skálholti af 50 manna sinfóníuhljómsveit, níu einsöngvurum og Kammerkór Suðurlands, en stjórnandi þess kórs frá upphafi er Hilmar Örn Agnarsson, fyrrverandi organisti í Skálholti.

Hljómsveitarstjóri í þessari uppsetningu er finninn Petri Sakari, en hann er íslendingum vel kunnur fyrir frábær störf sem aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands árin 1988-1993 og aftur frá 1996-1998.

Óperan byggir á ástar- og örlagasögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur í Skálholti, en saga hennar hefur snert dýpri streng í þjóðarsálinni en flestir atburðir úr Íslandssögunni. Óperan er síðrómantískt verk, melódískt og við alþýðuskap, eins og segir í auglýsingu um verkið og tekur um 2,5 klst í flutningi. Friðrik Erlingsson frá Eyrarbakka samdi textann við óperuna, en flutningurinn í Skálholti verður á tónleikaformi.

Meðal einsöngvaranna eru Þóra Einarsdóttir sem Ragnheiður Brynjólfsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson sem Daði Halldórsson og Viðar Gunnarsson sem Brynjólfur biskup. Bergþór Pálsson syngur hlutverk sr Hallgríms Péturssonar.

Sýningar verða föstudaginn 16., laugardaginn 17. og sunnudaginn 18. ágúst í Skálholti kl 20 og fást miðar keyptir á midi.is - Miðaverð er kr. 9.800

Sæti í Skálholtskirkju eru ekki mörg, svo það er um að gera að tryggja sér miða í tíma. Aðstandendur geta lofað mögnuðum viðburði.

 

Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson frá Eyrarbakka


Skráð af Menningar-Staður.