Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

02.09.2013 05:57

Rokkaður sýslumaður - Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi - 60 ára

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Hrútavinurinn Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi.

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Á brúðkaupsdegi Melkorku.  Frá vinstri: Þórdís, Kjartan, Melkorka, afmælisbarnið, Kristrún og Kolfinna.

 

Rokkaður sýslumaður - Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi - 60 ára

 

Ólafur Helgi fæddist í Reykjavík 2.9. 1953. Hann gekk í Barnaskólann á Ljósafossi, Héraðsskólann á Laugarvatni, Gagnfræðaskólann á Selfossi, lauk stúdentsprófi frá MR 1972, embættisprófi í lögfræði við HÍ 1978, námi í opinberri stjórnsýslu og stjórnun við Endurmenntunarstofnun HÍ 1999 og er stjórnsýslufræðingur MPA frá HÍ.

Ólafur var í sveit í Arnarbæli í Grímsnesi, starfsmaður Landsvirkjunar, var í Þýzkalandi sumarið 1973 og vann á bílaþvottastöð í nokkra mánuði og hefur ekki þvegið bíl síðan. Á háskólaárunum starfaði hann í Landsbankanum og hjá sýslumanninum og bæjarfógetanum á Ísafirði.

Ólafur var dómarafulltrúi sýslumanns Árnesinga og bæjarfógetans á Selfossi 1978-84, settur bæjarfógeti á Siglufirði 1983, skattstjóri Vestfjarðaumdæmis 1984-91, sýslumaður Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði 1991-1992, sýslumaður þar 1992-2002, og hefur verið sýslumaður á Selfossi frá ársbyrjun 2002. Ólafur var stundakennari við Gagnfræðaskóla Selfoss, FSU og MÍ og hefur haldið fyrirestra fyrir útlendinga um almannavarnir, snjóflóð og jarðskjálfta. Meistaraprófsritgerð hans fjallaði um stjórnsýslu almannavarna.

Hann sat í stjórn Vöku 1973-74, í flokksráði Sjálfstæðisflokksins 1978-85, í stjórn FUS í Árnessýslu 1978-85 og formaður 1979-81, í stjórn SUS 1979-85, í bæjarstjórn Selfosskaupstaðar 1982-84, í bæjarráði 1982-83 og 1984, sat í bæjarstjórn og bæjarráði Ísafjarðar 1986-91, var forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs þar 1990-91, sat í stjórn Orkubús Vestfjarða 1986-91, var formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga 1990-91, sat í héraðsnefnd og héraðsráði Ísafjarðarsýslu á sama tíma, en hefur ekki haft afskipti af stjórnmálum síðan.

Ólafur var formaður skólanefndar MÍ 1996-2001, situr í stjórn Blóðgjafafélags Íslands frá 2002, er formaður félagsins frá 2004, er í stjórn International Federation of Blood Donor Organization frá 2005 og virkur blóðgjafi um langt árabil.

Ólafur hefur setið í stjórn Sýslumannafélags Íslands, í stjórn Lögreglustjórafélags Íslands og er formaður þess.

 

30 Rolling Stones-tónleikar

Ólafur er þekktur áhugamaður um hljómsveitina Rolling Stones og hefur sótt 30 tónleika hennar í Bandaríkjunum, Englandi, Skotlandi, Hollandi, Þýzkalandi og síðast á Glastonbury í sumar. Þeir hittust á Ísafirði, Ólafur og Mick Jagger, 1999, og urðu þar fagnaðarfundir.

Ólafur er áhugamaður um stjórnsýslu, almannavarnir, rokk- og blústónlist, ferðalög og fjölskylduna. Hann hefur verið Rótarýmaður í nærri 35 ár, var forseti tveggja klúbba, á Selfossi og Ísafirði, umdæmisstjóri íslenzka Rótarýumdæmisins 1994-95, sat í stjórn Rotary Norden tímaritsins 1999-2012, hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir alþjóðahreyfinguna og er mjög annt um útrýmingu lömunarveiki í heiminum, átak Rótarý – Polio Plus.

Ólafur syndir á hverjum degi og gengur talsvert, er ekki áhugamaður um líkamsrækt en les mikið, einkum sögulegan fróðleik, starfstengt efni og um rokktónlist. Hann hefur sent frá sér smásagnasafnið Von að morgni.

 

Fjölskylda

Ólafur Helgi kvæntist 3.10. 1976 Þórdísi Jónsdóttur, f. 3.10. 1958, húsmóður, stúdent og hárgreiðslukonu. Hún er dóttir Jóns Magnúsar Magnússonar, fyrrum yfirverkstjóra í Reykjavík, og Kristrúnar Bjarneyjar Hálfdánardóttur húsmóður.

Börn Ólafs Helga og Þórdísar eru Kristrún Helga, f. 29.10. 1980, félagsráðgjafi hjá Hafnarfjarðarbæ en maður hennar er Ómar Freyr Ómarsson lögfræðinemi og er sonur þeirra Ríkharður Helgi, f. 2008; Melkorka Rán, f. 7.6. 1983, sjálfstætt starfandi en maður hennar er Scekin Erol hótelstarfsmaður og er sonur þeirra Volkan Víkingur, f. 2011; Kolfinna Bjarney, f. 5.7. 1992, verzlunarstjóri; Kjartan Thor, f. 6.7. 1992, nemi í sagnfræði við HÍ.

Hálfbróðir Ólafs Helga, sammæðra, er Jökull Veigar, f. 21.12. 1948, rafvirki á Álftanesi.

Alsystkini Ólafs Helga eru Skúli, f. 1.9. 1954, viðskiptafræðingur og MBA, búsettur í Colorado í Bandaríkjunum; Hjálmar, f. 1.3. 1958, viðskiptafræðingur og MBA í Reykjavík, starfsmaður sérstaks saksóknara; Bergdís Linda, f. 1.8. 1963, BA í íslensku, starfsmaður Tollstjórans.

Foreldrar Ólafs Helga: Kjartan T. Ólafsson, f. 24.7. 1924, fyrrv. vélfræðingur við Sogsvirkjanir, nú á Selfossi, og k.h., Bjarney Ágústa Skúladóttir, f. 26.10. 1926, d. 4.8. 2008, húsfreyja.

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Tveir frægir. Ólafur Helgi og Mick Jagger er þeir hittust á Ísafirði árið 1999.

Morgunblaðið mánudagurinn 2. september 2013

 

Rolling Stones-sveitin Granít frá Vík í Mýrdal og sýslumaðurinn á sviðuni í Hótel Selfossi á 10 ára afmælisfagnaði Hrútavinafélagsins Örvars haustið 2009. 

F.v.: Hróbjartur Vigfússon, Sveinn Pálsson, Ólafur Helgi Kjartansson, Guðmundur Pétur Guðgeirsson, Kristinn J. Níelsson og Bárður Einarsson

 

Ólafur Helgi Kjataransson og Kristinn J. Níelsson.

 

Skráð af Menningar-Staður