Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

05.09.2013 05:27

Smíðar fallegustu orgelin

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Orgelsmiðir.   Haldið upp á 20 ára starfsafmæli Jóhanns Halls, t.h. Með honum er Guðmundur Gestur Þórisson.

 

Smíðar fallegustu orgelin

• Jóhann Hallur hefur stundað orgelsmíðar í 20 ár

• Sjá á eftir verkefnum frá þjóðkirkjunni til útlanda

 

Þann 1. september átti Jóhann Hallur Jónsson tvítugsstarfsafmæli hjá Orgelsmiðju Björgvins Tómassonar. Af því tilefni var slegið í köku og kveikt á afmæliskertum í morgunkaffinu og átti fréttaritari Morgunblaðsins þar leið um.

Björgvin hóf störf sem orgelsmiður á Íslandi árið 1986, eftir átta ára dvöl við nám og störf í Þýskalandi, en hann er eini menntaði orgelsmiður landsins. Árið 1988 smíðaði hann sitt fyrsta orgel en við þrjú fyrstu hljóðfærin vann með honum vinur hans og samstarfsmaður frá Þýskalandi, Peter Fuchs.

Björgvin söng með kór Hallgrímskirkju og fyrir hvítasunnu árið 1993 var verið að smíða prédikunarstól fyrir kirkjuna. Þar var að verki Jóhann Hallur húsgagnasmiður. Björgvin dáðist svo að handbragði Jóhanns að hann bauð honum starf við orgelsmíðar, enda var hann þá einn að störfum á verkstæði sínu. Jóhann tók heldur fálega í þá málaleitan, enda var hávært orgel kirkjunnar að gera út af við hann við prédikunarstólssmíðina.

 

Sagði upp hjá Söginni

Hann kom þó í heimsókn á verkstæðið, sem þá var til húsa á Blikastöðum í Mosfellssveit, og kynnti sér starfsemina. Nokkrum dögum síðar mætti hann aftur, var þá búinn að segja upp störfum hjá Söginni og var tilbúinn að hefja orgelsmíðar hinn 1. september. Síðan hafa þeir félagar starfað saman en eitt af fyrstu verkum Jóhanns var að smíða hið glæsilega orgel Digraneskirkju í Kópavogi. Í því verki liggja eftir hann um 2.000 klst. í vinnu.

Þegar Björgvin flutti orgelverkstæðið frá Blikastöðum austur í Hólmarastarhúsið, eða gamla frystihúsið á Stokkseyri, árið 2005, fluttu þeir félagar báðir austur. Þar bættist þriðji maðurinn í hópinn, Guðmundur Gestur Þórisson smiður. Þeir hafa síðan starfað saman þrír og synir Björgvins stundum hlaupið undir bagga þegar mikið liggur við.

Eftir hrun dró heldur úr eftirspurn eftir kirkjuorgelum og hafa þeir félagar, Jóhann og Guðmundur, því orðið að taka að sér smíðaverkefni utan verkstæðisins. Þeir eru listasmiðir eins og fréttaritari hefur áþreifanlega komist að raun um, þar sem þeir endurbyggðu nærri 100 ára gamalt hús hans á Stokkseyri. Þeir vilja þó sinna sínu starfi sem mest og hneykslast Jóhann á að orgelnefnd þjóðkirkjunnar skuli ekki hafa sýnt starfsemi þessarar einu orgelsmiðju landsins viðhlítandi virðingu og það sé sárt að sjá á eftir verkefnum til útlanda sem þeir geta sinnt hér. Síðasta verk þeirra félaga var orgel í Vídalínskirkju í Garðabæ, en engin stórverkefni eru framundan.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 5. september 2013

 

F.v.: Jóhann Hallur Jónsson og Guðmundur Gestur Þórisson.

 

 

 

Skráð af menningar-Staður