Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

24.09.2013 06:25

Sumarið var vel undir meðallagi

 

 

Sumarið var vel undir meðallagi

 

• Sunnlendingar að ljúka heyskap í seinna lagi

 

Bændur á Suðurlandi keppast við að klára heyskap þessa dagana, en ágætlega viðraði til þeirra verka í gær og um helgina. Kulda- og vætutíð fyrr í sumar kom niður á sprettunni og hafa fæstir bændur náð þriðja slætti. Flestir eru að ljúka seinni slætti og er það í seinni kantinum, að sögn Sveins Sigurmundssonar, framkvæmdastjóra Búnaðarsambands Suðurlands. Mikil vætutíð í lok ágúst og byrjun september olli töfum í heyskapnum.

Sveinn segir heyskaparsumarið á Suðurlandi vel undir meðallagi og fara þurfi mörg ár aftur í tímann til að finna lakara ár. „Menn líkja þessu sumri mikið við sumarið 1983 hvað sprettuna varðar. Elstu menn muna þó versta árið nokkur sinni, eða 1955, en það er þó ljóst að 2013 fer líka í sögubækurnar,“ segir Sveinn.

Hann segir marga bændur hafa orðið fyrir tjóni þegar hey fauk burtu í hvassviðrinu á dögunum. „Það sem búið var að slá, og var aðeins farið að þorna, bara fauk í burtu. Á sumum stöðum fauk allt að helmingur af heyinu,“ segir Sveinn en rokið hafði einnig slæm áhrif á kornuppskeruna. Fyrstu niðurstöður heysýna benda hins vegar til þess að hey séu óvenju gæðamikil og það megi rekja til hægari sprettu en áður.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 24. september 2013.

 

Heyannir fyrir nokkrum árum. F.v.: Einar Helgason, Ólafur Auðunsson og Ólafur Már Ólafsson.

 

Skráð af Menningar-Staður