Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

11.10.2013 18:44

Björgvin G. Sigurðsson ráðinn umsjónarmaður Menningarpressunnar

Björgvin G. Sigurðsson og dóttir.

 

Björgvin G. Sigurðsson ráðinn umsjónarmaður Menningarpressunnar

 

Björgvin G. Sigurðsson hefur verið ráðinn umsjónarmaður Menningarpressunnar. Hefur hann yfirumsjón með umfjöllun um menningu og listir á Pressunni, en ætlunin er að stórauka menningarumfjöllun á næstunni, segir Björn Ingi Hrafnsson ritstjóri Pressunnar.

„Ég tel spurn eftir vandaðri umfjöllun um það sem er helst að gerast í íslensku menningarlífi og bað Björgvin að taka þetta verkefni að sér. Ég er mjög ánægður með að hann hafi tekið þeirri áskorun,“ segir Björn Ingi.

Björgvin segist vera gamalreyndur blaðamaður og hann hlakki til að takast á við ný verkefni. „Framundan er mikil vertíð í margvíslegri útgáfu og því verður örugglega nóg að gera,“ segir hann. „Ég hef lengi haft mikinn áhuga á listum og menningu hverskonar og hlakka því sérstaklega til að geta helgað mig umfjöllun um menninguna í allri sinni breidd.“

Björgvin er fæddur árið 1970. Að loknu stúdentaprófi frá  Fjölbrautaskóla Suðurlands lauk hann BA-prófi í sögu og heimspeki HÍ 1997 og stundaði svo meistaranám í heimspeki. Hann var blaðamaður á Vikublaðinu 1996-1997, ritstjóri Stúdentablaðsins 1997-1998, framkvæmdastjóri Reykvískrar útgáfu 1999 og framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar og þingflokks Samfylkingarinnar 1999-2002.

Björgvin var alþingismaður fyrir Samfylkinguna árin 2003-2013 og viðskiptaráðherra 2007-2009. Hann var jafnframt samstarfsráðherra Norðurlanda 2008-2009. Hann var formaður þingflokks Samfylkingarinnar 2009-2010 og formaður fjölmargra þingnefnda á þingferli sínum. Hann er nú varaþingmaður fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi.

Björgvin er í sambúð með Maríu Rögnu Lúðvígsdóttur og eiga þau sex börn.

 

Af www.pressan.is

 

Björgvin G. Sigurððson við menningarstörf í réttarsúpuhátíð haust.

Hann er að veita Sigurjóni Erlingssyni verðlaun í vísnakeppninni að Skarði.

Skráð af Menningar-Staður