Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

17.10.2013 12:43

Hvað varð til þess að Elfar Guðni byrjaði að mála myndir

Elfar Guðni Þórðarson með nokkrar Önundarfjarðarmyndir frá fyrri ferðum vestur.

Elfar Guðni og Helga Jónasdóttir eiginkona hans dvelja þessa dagana vestur að Sólbakka á Flateyri.

 

Hvað varð til þess að Elfar Guðni byrjaði að mála myndir?

 

Elfar Guðni svarar:

Hvað varð til þess að ég byrjaði að mála myndir ? 

Það er nú saga að segja frá því.  Kannski var þetta undirliggjandi, ég bara gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en upp úr 1972.  Þá kom hann Steingrímur í Roðgúl á Stokkseyri. 

En áður en ég segi frá Steingrími í Roðgúl þá verð ég að minnast á hann Gunnar Gestsson í Sandvík á Stokkseyri.  Ég kenni hann við Sandvík því þar átti hann heima í mörg ár.  Þangað fór maður að láta klippa sig, Gunnar var klippari góður og gríðarlega flinkur málari og málaði mjög fallegar myndir.  Maður fékk að berja þær augum þegar maður fór að láta klippa sig.  Þá sýndi Gunnar mér það sem hann var að mála í það og það skiptið.  Alltaf fundust mér myndirnar vera fallegar og maður skildi ekki alveg hvernig það væri hægt að gera svona myndir.  Kannski langaði mig að prófa en lagði ekki í það, því að svona myndir gæti maður aldrei málað.  Samt man ég eftir að hafa prófað að mála með vatnslitum en það var mjög lítið og ræfilslegt.  Ég man líka eftir því ef maður kafar djúpt í hugann að ég gerði myndir úr trjáberki þar hreyfst ég að frænda mínum honum Arthúri Ólafssyni eða Grími myndlistarmanni eins og hann kallaði sig, en hann bjó í Svíþjóð í mörg ár.  Hefði ég gjarnan viljað kynnast honum meira en hann lést fyrir nokkrum árum.  Það var til lítil mynd eftir Arthús á mínu heimili gerð úr tré og vatnslitum og notað silfurberg með.  Ég held að áhrifin frá þessari mynd hafi komið fram í myndunum sem ég gerði úr trjáberkinum og eitthvað held ég að ég hafi málað með vatnslitum líka en allt var þetta frekar máttlaust og ég hélt bara áfram á sjónum. 

En aftur að Steingrími St. Th. Sigurðssyni í Roðgúl, hann kom eins og stormsveipur inn í frekar rólegt samfélag sem Stokkseyri var.  Ég var á þessum tíma að vinna við smíðar í frystihúsinu, og einn daginn sá ég þennan nýja mann í Roðgúl vera að mála úti og það gekk mikið á.  Ég var nú frekar feiminn og heimóttarlegur en eitthvað gaf ég mig að honum því mig langaði að sjá hvað hann væri að gera, og hvernig myndir hann málaði.  Það er skemmst frá því að segja að þetta fannst mér eitthvað skrítið, mikið af litum út um allt og allt var þetta gert með tilþrifum.  Kannski fannst mér þetta ekki nógu gott eða flott og akkúrat á þessum tímapunkti ákvað ég að prófa að mála mynd.  Ég fór til Steingríms og spurði hann hvaða liti hann notaði og sagðist hann nota acryl liti sem væri hægt að blanda með vatni.  Ég bögglaðist til að skrifa heitið á litunum á lokið á smíðatösku sem ég var með ACRYL.  Og svo fór ég til Reykjavíkur og keypti liti og upp frá því var ekki aftur snúið. 

Áður en ég segi meira frá því þá verður það að koma skýrt fram að á þessum tímapunkti skynjaði ég ekki þetta litaflæði og tilfinninguna sem Steingrímur lagði í sínar myndir.  Þegar ég fór að átta mig á þessu öllu saman þá sá ég að þarna voru margar stórkostlegar myndir sem voru gerðar með tilþrifum og tilfinningu og voru myndirnar svolítið eins og Steingrímur sjálfur miklar tilfinningar og kraftur.

 

Fulltrúar úr Öldungaráði Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurland mættu fyrir ári, þann 17. okt.  2012 þegar Elfar Guðni varð 69 ára, til hans á vinnustofuna og sýningarsalinn í Svartakletti og afhentu honum formlega fánastöng sem Tæknideild Hrútavinafélagsins voru búnir að koma fyrir í eystri garðinum við Sjólyst. Hrútavinafélagið er eins og kunnugt er skilgetið félagslegt afkvæmi félagsstarfs Önfirðinga og Vestfirðinga á Suðurlandi og fer hróður þess víða.

Eftir kaffi og með því var haldið að Sjólyst og fáni af stærstu gerð var dreginn að húni á hinni veglegu fánastöng sem er gjöf frá Hrútavinafélaginu Örvari hvar Elfar Guðni hefur verið virkur félagi alla tíð.

 

Lundin hans er prúð og pen,

pennslum otar hljóður.

Liggur í honum listagen,

lífsins málar gróður.

 

Kristján Runólfsson

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður