Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

18.10.2013 06:13

Nýtt íslenskt orgel frá Stokkseyri í Vídalínskirkju

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Nýtt orgel .

Organistinn Jóhann Baldvinsson og presturinn Friðrik J. Hjartar kampakátir við nýja orgelið í Vídalínskirkju í Garðabæ.

 

Nýtt íslenskt orgel frá Stokkseyri í Vídalínskirkju

 

Nýtt orgel verður vígt í Vídalínskirkju í Garðabæ á sunnudaginn. Orgelið er íslenskt, smíðað og hannað af Björgvini Tómassyni orgelsmið. Það kostar um 45 milljónir króna.

„Þetta er gríðarleg lyftistöng fyrir tónlistar- og menningarlífið í bænum og breytir öllu messuhaldinu, ekki síst hjónavígslunum,“ segir séra Friðrik J. Hjartar, prestur í Garðaprestakalli, og bætir við: „Organistinn svífur um.“

Orgelið sem fyrir var í kirkjunni var frá Ungverjalandi. Það var fjögurra radda og til bráðabirgða þegar það var keypt fyrir tæpum tuttugu árum.

„Það er ánægjulegt að hægt sé að framleiða svona íslenskt stórvirki. Það er mál manna sem hafa litið inn að þetta er gríðarlega vel gert og fallegt handverk,“ segir Friðrik.

Hann segir þó að einn galli sé á gjöf njarðar; orgelið sé svo stórt að fækka þurfti sætum í kirkjunni til að koma því fyrir en kirkjan er iðulega fullsetin.

Orgelið verður vígt með formlegum hætti á sunnudaginn. Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, mun helga orgelið til þjónustunnar og predika. Að því loknu bjóða Lionsmenn upp á súpu í safnaðarheimilinu.

Söfnun stendur yfir til kaupa á orgelinu og hefur bæjarbúum verið kynnt sala á pípunum. „Við erum þakklát fyrir framlag bakhjarlanna og einkum bæjarstjórans Gunnars Einarssonar,“ segir Friðrik.

 

Garðbæingar áhugasamir

„Það var ánægjulegt að smíða fyrir Garðbæinga því margir komu og litu inn þegar verið var að setja orgelið upp,“ segir Björgvin Tómasson orgelsmiður.

Hann segir að hvert einasta orgel sé sérhannað inn í hverja kirkju. Það sem passi vel í eina passi ekki endilega í aðra. Björgvin segir að eitt af því skemmtilega við að starfa í litlu fyrirtæki sé að fylgja hljóðfærinu eftir alveg frá grunni; hanna, smíða og stilla.

„Það er hart í ári hjá kirkjunni. Við höfum fundið verulega fyrir því. Það er rólegt yfir þessu en sérstaklega hefur verið sárt að sjá á eftir verkefnum til útlanda.“ Í því samhengi bendir hann á að mikið hefur verið talað um að efla íslenskt atvinnulíf en slíkt sé meira í orði en á borði. Til að mynda sé smíði við eitt pípuorgel vinna í eitt ár fyrir þrjá menn.

Sem stendur bindur Björgvin vonir við að geta haldið áfram að smíða orgel í Guðríðarkirkju sem átti að vera tilbúið 2010 en hefur dregist vegna fjárskorts.

Um þessar mundir eru 25 ár frá því fyrsta orgel Björgvins var vígt í Akureyrarkirkju og er það enn í fullu fjöri.

 

 

1.150 pípur í orgelinu

Orgelið er 20 radda pípuorgel með tveimur hljómborðum, pedala og 1.150 pípum. Það var smíðað á Stokkseyri af Björgvini Tómassyni og hefur ópustöluna 34, sem segir til um fjölda þeirra orgela sem hafa verið smíðuð á verkstæði Björgvins. Búast má við að orgelin sem smíðuð eru standi í kirkjum næstu 150 árin. Björgvin segir þetta vera sannkallaða fjárfestingu til framtíðar.

Björgvin nam orgelsmíði í Þýskalandi en námið tók átta ár.

Aðrir sem komu að smíðinni ásamt Björgvini eru hagleikssmiðirnir þeir Jóhann Hallur Jónsson og Guðmundur Gestur Þórisson.

 
Morgunblaðið föstudagurinn 18. október 2013
 
Björgvin Tómasson
F.v.: Jóhann Hallur Jónsson og Guðmundur Gestur Þórisson.
 
Skráð af menningar-Staður