Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

07.12.2013 09:34

Hrafnseyrarbræðurnir og upphaf skólahalds á Eyrarbakka

Jens SigurðssonJón Sigurðsson

Hrafnseyrarbræðurnir:

T.v.: Jens Sigurðsson fæddur 6. júlí 1813 á Hrafnseyri við Arnarfjörð - dáinn 2. nóvember 1872
T.h.: Jón Sigurðsson forseti fæddur 17. júní 1811 á Hrafnseyri við Arnarfjörð - dáinn 7. desember 1879 
Foreldrar þeirra voru séra Sigurður Jónssonn, prestur á Hrafnseyri og kona hans Þórdís Jónsdóttir, prstsdóttir frá Holti í Önundarfirði.

 

Hrafnseyrarbræðurnir og upphaf skólahalds á Eyrarbakka

 

Í dag, 7. desmeber 2013, þegar minnt er á dánardag Jóns Sigurðssonar forseta þann 7. desember 1879, er ekki úr vegi að rifja upp aðkomu þeirra Hrafnseyrarbræðra Jóns og Jens Sigurðssona að upphafi skólahalds á Eyrarbakka 1852.

Því er birtur hér kafli úr Tímaritinu Menntamál  25. árgangur  -maí 1952

 

Barnaskólinn á Eyrarbakka hundrað ára.

 

Haustið 1852 tók barnaskóli til starfa á Eyrarbakka, og hefur sú stofnun eigi lagzt niður síðan. Þetta er elzti barnaskóli landsins, sem á sér óslitna starfssögu. Að vísu höfðu barnaskólar risið hér á legg áður (í Vestmannaeyjum, á Hausastöðum og í Reykjavík), en þeir lögðust allir niður.

Af tilefni þessa afmælis hitti ritstjóri Menntamála séra Árelíus Níelsson að máli. Er hann fróðastur manna um sögu þessa skóla, enda hefur hann sett saman bók um hana. Mun hún koma út á næsta hausti.

 

Það, sem hér fer á eftir, er haft eftir séra Árelíusi.

 

Undirbúningur undir stofnun skólans stóð um þriggja ára skeið. Sá, sem fyrstur kom fram með þá hugmynd að stofna þarna skóla, virðist hafa verið Jens Sigurðsson, síðar rektor Lærðaskóans í Reykjavík og bróðir Jóns forseta. Var Jens  um þær mundir  (1845-1846) kennari í „Húsinu" (þ. e. hjá Thorgrímsen). Stofnendur skólans voru þrír, þeir Guðmundur Thorgrímsen verzlunarstjóri, séra Páll Ingimundarson og Þorleifur ríki Kolbeinsson á Háeyri.

 

— Stórgjafir voru gefnar í þessu skyni. Mest gáfu þeir Einar Sigurðsson í Eyvakoti og Adólf Petersen í

Steinakoti. Gjafir bárust víða að af landinu og jafnvel erlendis frá, t. d. sendi Jón Sigurðsson forseti í Kaupmannahöfn  skólanum 10 ríkisdali.

 

En stofnendurnir áttu ekki eintómri vinsemd og skilningi að mæta. Um 40 búendur í grenndinni rituðu

undir mótmælaskjal, þar sem því var haldið fram, að byggðarlaginu mundi ofviða að standast straum af kostnaðinum af slíkri stofnun.

Fyrsti skólastjórinn var Jón Bjarnason, síðar prestur. Hann var þar aðeins eitt ár. Svo var lengi vel um hina biðu eftir brauði. Einna þekktastur þeirra var Magnús Helgason, síðar skólastjóri Kennaraskólans. Hann var skólastjóri á Eyrarbakka um 1880. Var þá uppi sú ráðagerð að stofna þar gagnfræðaskóla. Þegar hann fluttist þaðan, féll niður allt umtal um það.

— Lengst allra hefur Pétur Guðmundsson verið skólastjóri þessa skóla, eða rúman aldarfjórðung. Nú er þar skólastjóri Guðmundur Daníelsson rithöfundur.

 

Sameiginlegt skólahald fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri hélzt til 1897. Fyrsta skólahúsið var reist, um leið og skólinn var stofnaður. Það stóð á Háeyri. Þar var kennt fram að 1880. Var þá það hús selt, en nýtt og mikið skólahús reist að Skúmsstöðum. Var kennt þar til 1913. Var þá reist það hús, sem enn er í notkun. Hefur það nú verið stækkað um þriðjung, og verður hin nýja viðbót vígð á hausti komanda.

Á Stokkseyri hefur einnig verið reist nýtt skólahús, mikið og vandað. Verður það einnig vígt í haust. Á báðum þessum stöðum hafa einnig verið reistar vandaðar skólastjóraíbúðir.

 

Fyrir kom það fyrr á árum, að lítið sem ekkert var hægt að kenna í skólahúsinu sakir eldsneytisskorts, en alla þessa hundrað vetur hefur einhver kennsla farið fram á vegum skólans, svo að þráðurinn hef ur aldrei slitnað í sögu hans.

 

Vilja Menntamál færa Eyrbekkingum og Stokkseyringum beztu árnaðaróskir af tilefni þessa afmælis. Er þessu  byggðarlagi mikill sómi að -því að hafa rutt þannig brautina í menningarmálum þjóðarinnar.

Menntamál  25. árgangur  - maí 1952


Skólahúsið á Eyrarbakka sem byggt var 1913.Skráð af Menningar-Staður