Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

07.12.2013 06:45

Lilja Inga Jónatansdóttir - Fædd 24. janúar 1956 - Dáin 26. nóvember 2013 - Minning

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Lilja Inga Jónatansdóttir.

 

Lilja Inga Jónatansdóttir - Fædd 24. janúar 1956 -

Dáin 26. nóvember 2013 - Minning

 

Lilja Inga Jónatansdóttir fæddist á Eyrarbakka 24. janúar 1956. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 26. nóvember 2013.

Foreldrar Lilju Ingu voru Jónatan Jónsson, f. 3. desember 1921, d. 28. mars 2006 og Sigrún Ingjaldsdóttir, f. 10. nóvember 1932. Lilja var næstelst í hópi sex systkina. Systkini Lilju eru Bjarni Þór, f. 18. desember 1950, Guðrún, f. 19. júní 1957, Ólöf, f. 20. apríl 1959, Gíslína Sólrún, f. 24. mars 1962 og Eyrún, f. 5. október 1966.

Lilja giftist þann 15. ágúst 1981 eftirlifandi eiginmanni sínum, Guðmundi Helga Guðnasyni, f. 4. nóvember 1951. Hann er sonur hjónanna Guðna Guðmundssonar, f. 19. febrúar 1925, d. 8. júlí 2004 og Katrínar Ólafsdóttur, f. 30. september 1927, d. 27. febrúar 1994 .

Synir Lilju og Guðmundar eru: 1) Guðni, f. 9. desember 1980. Dóttir Guðna og Berglindar Sigurðardóttur er Emilía Hlín, f. 11. mars 2004. 2) Sigurður Tómas, f. 19. október 1982.

Lilja ólst upp á Eyrarbakka en hélt til náms til Reykjavíkur og tók stúdentspróf frá Menntaskólanum við Tjörnina árið 1975. Hún lauk námi í meinatækni frá Tækniskóla Íslands árið 1978 og starfaði lengstan hluta starfsævinnar sem meinatæknir á Landspítalanum, eða í um 30 ár, þar til hún lét af störfum vegna veikinda.

Lilja bjó lengst af með fjölskyldunni í Reykjavík en flutti ásamt eiginmanni sínum að Ásabergi á Eyrarbakka árið 2007.

Útför Lilju Ingu fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 7. desember 2013, og hefst athöfnin kl. 14

______________________________________________________________________

Minningarorð Eyrúnar systur

Það er þyngra en tárum taki að kveðja í dag elskulega systur sem var næstelst í systkinahópnum og elst okkar systra. Hún var lengst af í forystusveit í fjölskyldunni og leysti þau verkefni sem þurfti að leysa af snarræði og með bros á vör og gjarnan var leitað til hennar eftir áliti og aðgerðum í flestum málum. Létt og glaðvær lund, jafnaðargeð og góð kímnigáfa voru hennar aðalsmerki. Lilja var fljóthuga og snör í snúningum í lífi og starfi, bæði þegar hún í starfi sínu þeyttist um ganga Landspítalans og heima fyrir. Hún var fljót að snara fram veislu þegar við átti og var höfðingi heim að sækja. Lilja var áhugasöm um fjölskylduna og systkinabörnin og fengu dætur mínar ómælt að njóta elsku hennar og umhyggju. Aldrei man ég eftir að okkur hafi orðið sundurorða. Greiðvikni var Lilju í blóð borin og þegar aðstoðar var þörf voru Lilja og Gummi gjarnan fyrst á staðinn. Síðustu árin glímdi Lilja við heilsuleysi og þó að krabbameinið hafi ekki greinst fyrr en fyrir rúmu ári hafði Lilju lengi grunað hvers kyns væri en þrátt fyrir ótal ferðir til lækna fannst meinið ekki fyrr en allt of seint. Lilja hafði ótrúlega jákvætt viðhorf, ómælt baráttuþrek og lífsvilja, en allt kom fyrir ekki og varð hún að lokum að lúta í lægra haldi fyrir þessum illvíga sjúkdómi. Ekki er það í fyrsta sinn sem upplifunin er að ekki hafi verið rétt gefið við útdeilingu lífsins gæða en ekki þýðir að deila við dómarann. Ég vil að leiðarlokum þakka Lilju ljúfa samfylgd í gegnum árin og votta ástvinum öllum dýpstu samúð. Megi góðar minningar um frábæra konu verða okkur styrkur og ljós í lífinu.

Drottinn þig blessi, lýsi leiðir,

létt í spori heldur þú á braut.

Frelsarinn brosir, faðm út breiðir,

fjarri þá ertu kvöl og þraut.

Vakandi syrgir viðkvæm lundin,

varirnar þakkir flytja hljótt.

Kærleika vafin kveðjustundin

komin og býður góða nótt.

(Hörður Zóphaníasson)

 

Þín systir

Eyrún.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 7. desember 2013

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður