Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

08.12.2013 21:15

Lægsta tilboð í nýja fangelsið á Hólmsheiði liðlega 1,8 milljarðar

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins
Á Hólmsheiðinni.  Vinningstillaga Arkís gerði ráð fyrir að fangelsið yrði klætt stáli.

 

Lægsta tilboð í nýja fangelsið á Hólmsheiði liðlega 1,8 milljarðar

 

Aðeins munaði 2,5 milljónum á lægsta tilboði og því næstlægsta í smíði fangelsis og gerð fangelsislóðar á Hólmsheiði.

Þegar tilboð voru opnuð hjá Ríkiskaupum á fimmtudag kom í ljós að Íslenskir aðalverktakar hf. höfðu boðið rúmlega 1,8 milljarða í verkið, samtals 1.819.963.591 kr., svo allrar nákvæmni sé gætt. Jáverk ehf. bauð á hinn bóginn 1.822.496.000 kr. sem er 2,5 milljónum hærra, nánar tiltekið er munurinn 2.532.409 krónur. Munurinn er aðeins 0,13% af kostnaðaráætlun fyrir fangelsið sem var rúmlega 1,9 milljarðar.

 

97,4 millj. undir áætlun

Lægsta tilboð var 97,4 milljónum undir kostnaðaráætlun en það jafngildir 5,1%. Þrjú tilboð bárust og átti Ístak hf. hæsta boðið, upp á ríflega tvo milljarða, um 127,6 milljónum yfir kostnaðaráætlun. Framkvæmdasýsla ríkisins fer nú yfir tilboðin.

Nokkuð er síðan vinnu við jarðvinnu og heimlagnir innan lóðar lauk. Vinnu við heimlagnir utan lóðar er nýlega lokið.

Smíði fangelsisins á að vera lokið í síðasta lagi 1. desember 2015.

Fangelsið verður 3.700 fermetrar að stærð og í því verður rými fyrir 56 fanga. Það á að koma í staðinn fyrir Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og kvennafangelsið í Kópavogi. Einnig er gert ráð fyrir að gæsluvarðhaldsdeild á Litla-Hrauni, þar sem eru sex klefar, verði lögð niður og klefarnir nýttir fyrir afplánun.

Morgunblaðið laugardagurinn 7. desember 2013

 

Skráð af Menningar-Staður