Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

09.12.2013 06:35

Merkir Íslendingar - Hemmi Gunn

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Hermann Gunnarsson.

 

Merkir Íslendingar - Hemmi Gunn

 

Hermann Gunnarsson fæddist á Bárugötunni í Reykjavík  9. desember 1946. Foreldrar hans voru Björg Sigríður Hermannsdóttir húsfreyja og Gunnar Gíslason vélstjóri. Gunnar var bróðir Jóhanns lögfræðings og Guðmundar forstjóra B&L, föður Gísla, fyrrv. forstjóra B&L, föður Ernu, forstjóra BL. Björg Sigríður var systir hins gamalkunna markvarðar, Hermanns í Val, og systir Kristbjargar, móður Kolbeins, landsliðsmanns í körfuknattleik, og Vigdísar, landsliðskonu í handknattleik Pálsbarna.

Hermann átti þrjú systkini.

Börn Hermanns: Sigrún, f. 1971; Þórður Norðfjörð, f. 1973; Hendrik Björn, f. 1975; Björg Sigríður, f. 1983; Edda, f. 1986, og Eva Laufey Kjaran, f. 1989.

Hermann lauk prófum frá Verslunarskólanum. Hann var einn fremsti knattspyrnumaður hér á landi á sjöunda áratugnum, varð fjórum sinnum Íslandsmeistari með Val, þrisvar bikarmeistari, var kosinn Knattspyrnumaður ársins 1968, lék með Eisenstadt í Austurríki 1969, varð þrisvar markakóngur og lék 20 A-landsleiki. Auk þess var hann landsliðsmaður í handbolta.

Hermann var blaðamaður og auglýsingastjóri Vísis 1967-69, skrifstofumaður á Skattstofu Reykjavíkur 1972-77, frétta- og íþróttafréttamaður á RÚV 1977-85, dagskrárgerðarmaður á Bylgjunni 1986-87 og hjá Sjónvarpinu frá 1987 þar sem hann stjórnaði vinsælasta íslenska sjónvarpsskemmtiþætti fyrr og síðar, Á tali hjá Hemma Gunn. Auk þess var hann fararstjóri hjá Útsýn og Veröld um skeið og skemmti með Sumargleðinni.

Vorið 2005 hóf göngu sína nýr tónlistargetraunaþáttur undir stjórns Hermanns, Það var lagið, sem sýndur var á Stöð 2. Þá stjórnaði hann þættinum Í sjöunda himni á Stöð 2 veturinn 2006-2007.

Hermann var einstaklega elskulegur, opinn og skemmtilegur en átti ekki alltaf sjö dagana sæla í oft einmanalegu einkalífi. Hann varð bráðkvaddur í Taílandi 4. júní 2013.

Morgunblaðið mánudagurinn 10. desember 2013 - Merkir Íslendingar.

Hermann Gunnarsson á upprunslóð í Dýrafirði þar sem hann dvaldi oft.Skráð af Menningar-Staður