Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

01.03.2014 08:20

Uppátækjasamur og bráðfjörugur Eyjapeyi

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Glæsileg hjón Árni Johnsen og Halldóra Filippusdóttir.

 

Uppátækjasamur og bráðfjörugur Eyjapeyi

Árni Johnsen, fyrrv. blaðamaður og alþingismaður – 70 ára

 

Árni fæddist í Vestmannaeyjum 1. mars 1944 og ólst þar upp. Hann lauk kennaraprófi frá KÍ 1967.

Árni var kennari í Vestmannaeyjum 1964-65 og í Reykjavík 1966-67. Hann var starfsmaður Surtseyjarfélagsins með aðsetur í Surtsey sumar og haust 1966 og 1967, blaðamaður við Morgunblaðið 1967-83 og 1987-91, dagskrárgerðarmaður við Ríkisútvarpið um árabil frá 1965 og við Sjónvarpið frá stofnun og um langt árabil.

 

Árni var varaþm. Suðurlandskjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1988, 1989, 1990 og 1991, alþm. Suðurlandskjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1983-87 og 1991-2001, og alþm. Suðurkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn 2007-2013.

Árni er félagi í Bjargveiðimannafélagi Vestmannaeyja, var kynnir á Þjóðhátíð Vestmannaeyja í rúma þrjá áratugi og jafnframt stjórnandi Brekkusöngsins í tæp 40 ár, var formaður tóbaksvarnanefndar 1984-88, var formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins 1990-2001, sat í stjórn Grænlandssjóðs frá 1987, í stjórn Norrænu stofnunarinnar á Grænlandi, NAPA, um árabil, sat í Flugráði 1987-2001 og var stjórnarformaður Sjóminjasafns Íslands um árabil frá 1987.

Árni sat í fjárveitinganefnd Alþingis 1983-87, í fjárlaganefnd 1983-87 og 1991-2001, í samgöngunefnd 1991-2001 og 2007-2013 og var formaður hennar 1999- 2001, sat í menntamálanefnd 1991-2001, í félagsmálanefnd 2007-2013, sat í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 1994-2001 og 2007-2013 og var formaður nefndarinnar 1996-2001 og varaformaður frá 2007.

 

Árni hefur haft frumkvæði að og stýrt framkvæmdum fjölmargra verkefna á sviði sögu og menningar, s.s. byggingu bæjar Eiríks rauða og Þjóðhildarkirkju á Grænlandi, Stafkirkjunnar í Vestmannaeyjum, Herjólfsbæjarins í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum og Þorláksbúðar í Skálholti, svo eitthvað sé nefnt.

 

Út hafa komið eftirtaldar bækur eftir Árna: Eldar í Heimaey, 1973; Kvistir í lífstrénu, samtalsþættir, 1982; Kristinn í Björgun, 1986; Fleiri kvistir, samtalsþættir, 1987; Þá hló þingheimur, ásamt Sigmund, 1990; Enn hlær þingheimur, 1991, Lífsins melódí, 2004 og Kristinn á Berg, 2005. Auk þess hefur hann ritað fjölda bókarkafla og mörg hundruð greinar í innlend og erlend blöð og tímarit og gjarnan birt eigin ljósmyndir með þeim en hann á 50.000 mynda ljósmyndasafn.

Út hafa komið eftirfarandi hljómplötur með Árna: Eyjaliðið; Milli lands og Eyja; Þú veist hvað ég meina; Ég skal vaka (lög Árna og fleiri við ljóð Halldórs Laxness); Vinir og kunningjar; Stórhöfðasvítan; Gaman að vera til I og II, og Fullfermi af sjómannalögum I og II. Hann hefur samið nær hundrað sönglög og texta, tvær svítur fyrir sinfóníuhljómsveit, Stórhöfðasvítuna og Sólarsvítuna og er nú að ljúka upptöku á plötum með 130 barnalögum, flestum þeim þekktustu sl. hálfa öld. Þá hefur hann gert tugi myndverka í grjót, stál og fleiri efni.

Í tilefni afmælisins heldur Árni upptökutónleika í Salnum í Kópavogi með landsþekktum tónlistarmönnum. Þar verða leikin og sungin 40 gullfalleg íslensk sönglög með undirtektum salarins en textum verður varpað á tjald.

Fyrir tónleikana verður boðið upp á gúllassúpu og frumsýnd Sólarsvítan sem Sinfóníuhljómsveit Úkraínu tók upp í sumar.

 

Fjölskylda

Eiginkona Árna er Halldóra Filippusdóttir, f. 17.2. 1941, flugfreyja. Hún er dóttir Filippusar Tómassonar trésmíðameistara og Lilju Jónsdóttur húsfreyju en þau eru bæði látin.

Sonur Árna og Halldóru er Breki, f. 10.5. 1977, atvinnuflugmaður, búsettur í Vestmannaeyjum en sonur hans er Eldar Máni.

Dætur Árna frá fyrra hjónabandi með Margréti Oddsdóttur eru Helga Brá, f. 25.8. 1966, starfsmaður við HÍ, búsett í Reykjavík en maður hennar er Jón Gunnar Þorsteinsson og eru dætur þeirra Margrét Lára og Þórunn Helena; Þórunn Dögg, f. 15.1. 1968, kennari og starfar við ferðaþjónustu, búsett í Hafnarfirði en maður hennar er Jón Erling Ragnarsson og eru dætur þeirra Una, Andrea og Telma.

Stjúpsonur Árna er Haukur A. Clausen, f. 9.10. 1959, tölvuforritari, búsettur í Reykjavík.

Hálfsystkin Árna, sammæðra, eru Margrét Áslaug Bjarnhéðinsdóttir, f. 3.1. 1950, kaupkona; Þröstur Bjarnhéðinsson, f. 13.5. 1957, stundar veitinga- og hótelrekstur; Elías Bjarnhéðinsson, f. 6.7. 1964, tölvufræðingur.

Foreldrar Árna voru Ingibjörg Á. Johnsen, f. 1.7. 1922, d. 21.7. 2006, kaupmaður í Vestmannaeyjum, og Poul C. Kanélas, nú látinn, var búsettur í Detroit í Bandaríkjunum, af grískum ættum. Stjúpfaðir Árna var Bjarnhéðinn Elíasson, f. 27.8. 1921, d. 8.10. 1992, skipstjóri og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 1. mars 2014

.

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður