Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

07.03.2014 05:58

Íslendingar hafa aldrei verið fleiri

 

Íslendingar hafa aldrei verið fleiri

 

Landsmenn voru 325.671 talsins í ársbyrjun og hafði fjölgað um 3.814 frá sama tíma í fyrra, eða um 1,2% frá 1. janúar 2013 til 1. janúar 2014, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

„Það fluttu fleiri til landsins en frá því og felst aukningin í því en yfirleitt er alltaf náttúruleg fjölgun á Íslandi, tölur yfir fædda og dána haldast stöðugar,“ segir Guðjón Hauksson sérfræðingur hjá Hagstofunni.

Á árinu 2013 fluttu 1.598 fleiri til landsins en frá því, þá voru aðfluttir 7.071 en brottfluttir 5.473. Var það í fyrsta sinn frá árinu 2008 sem aðfluttir voru umfram brottflutta. Á tímabilinu 2009-2012 fluttust samtals 8.692 fleiri frá landinu en til þess.

 

Fleiri á höfuðborgarsvæðinu

Hlutfallslega mesta fólksfjölgunin 2013 var á Suðurnesjum, þar sem fjölgaði um 1,7% eða um 354 einstaklinga. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær bjuggu tæplega 21.600 manns á Suðurnesjum um áramótin og höfðu íbúarnir þá aldrei verið fleiri. Af þeim búa 14.527 í Reykjanesbæ.

Flestir fluttu þó á höfuðborgarsvæðið en þar voru íbúar 3.077 fleiri 1. janúar 2014 en ári fyrr. Það jafngildir 1,5% fjölgun íbúa á einu ári. Fólki fjölgaði einnig um 1,1% á Suðurlandi, um 0,7% á Austurlandi, 0,4% á Vesturlandi og 0,2 á Norðurlandi eystra. Fólksfækkun var á tveimur landsvæðum, á Vestfjörðum þar sem fækkaði um 59 manns, eða 0,8%, og á Norðurlandi vestra en þar fækkaði íbúum um 26, eða 0,4%.

Guðjón segir að á þessum tveimur landsvæðum sé yfirleitt fækkun á milli ára og að hún hafi verið stöðug frá því um 1990. Hann segir samt engan fólksflótta vera frá ákveðnum landsvæðum og fjölgunin sé ekki heldur af neinni sérstakri stærðargráðu.

 

Fjölgar í þéttbýli

Þegar fólksfjölgunin er skoðuð eftir kynjum þá fjölgaði konum og körlum sambærilega á árinu en þann 1. janúar 2014 voru karlar 1.065 fleiri en konur í landinu. Tíu árum áður, í ársbyrjun 2004, voru á landsvísu 367 fleiri karlar en konur.

„Á bóluárunum fluttu mun fleiri karlar til landsins heldur en konur og síðan fæðast yfirleitt aðeins fleiri drengir heldur en stúlkur. Kynjahlutfallið er breytilegt eftir landsvæðum, það eru fleiri konur í þéttbýli og á höfuðborgarsvæðinu heldur en út á landi, þar eru karlar yfirleitt fleiri,“ segir Guðjón.

Enn fjölgar í þéttbýlinu en þann 1. janúar bjuggu 305.642 manns í þéttbýli og hafði þá fjölgað um 4.178 á árinu. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu 20.029 manns. Þá vekur Guðjón athygli á því hversu fámenn mörg sveitarfélög eru. Af þeim 74 sveitarfélögum sem eru í landinu séu einungis níu með yfir 5.000 íbúa. Alls voru 42 sveitarfélög með undir 1.000 íbúa og íbúatala sex sveitarfélaga er undir 100. Sveitarfélögunum hefur ekki fækkað frá fyrra ári.

Sveitarfélögunum hefur aðeins fækkað um fjögur frá 1. janúar 2009 þegar þau voru 78, hins vegar var fjöldi sveitarfélaga í byrjun árs 1998 163, segir í Hagtíðindum

 

612 fleiri kjarnafjölskyldur

Kjarnafjölskyldunum hefur fjölgað um 612 frá því fyrir ári síðan, en þann 1. janúar síðastliðinn voru þær 78.780 en árið áður 78.168. Þá voru þann 1. janúar 4.160 einstaklingar í hjónabandi sem ekki voru samvistum við maka.

 

Íslendingar

325.671 manns bjuggu á Íslandi 1. janúar 2014.

 

3.814 fleiri bjuggu á Íslandi 1. janúar 2014 en 1. janúar 2013.

 

3.077 fleiri bjuggu á höfuðborgar-svæðinu 1. janúar 2014 en á sama tíma árið áður.

 

354 fleiri bjuggu á Suðurnesjum í ársbyrjun 2014 en í ársbyrjun 2013.

 

59 færri bjuggu á Vestfjörðum í byrjun ársins en á sama tíma árið áður.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 7. mars 2014

 


Skráð af Menningar-Staður