Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

11.03.2014 10:31

Merkir Íslendingar - Lárus Blöndal

Lárus Blöndal.

 

Merkir Íslendingar - Lárus Blöndal

 

Lárus Blöndal Guðmundsson bóksali fæddist á Eyrarbakka 11. mars 1914. Foreldrar hans voru Guðmundur Guðmundsson, kaupfélagsstjóri á Eyrarbakka, og Ragnheiður Lárusdóttir Blöndal húsfreyja.

Guðmundur var bróðir Sigurðar bankaritara á Selfossi, afa Þorsteins Pálssonar, fyrrv. ráðherra. Guðmundur var sonur Guðmundar, Guðmundssonar, bóksala á Eyrarbakka, og Ingigerðar Ólafsdóttur.

Ragnheiður Blöndal var systir Jósefínu, ömmu Matthíasar Johannessen skálds og fyrrv. ritstjóra Morgunblaðsins og langömmu Haraldar Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins. Bróðir Ragnheiðar var Haraldur Blöndal ljósmyndari, afi Halldórs Blöndal, fyrrv. ráðherra. Ragnheiður var dóttir Lárusar Blöndal, sýslumanns og alþm. á Kornsá Björnssonar, ættföður Blöndalættar Auðunssonar. Móðir Ragnheiðar var Kristín Ásgeirsdóttir, bókbindara á Lambastöðum, bróður Jakobs, prests í Steinnesi, langafa Vigdísar Finnbogadóttur, en móðir Kristínar var Sigríður, systir Þuríðar, langömmu Vigdísar.

Meðal átta systkina Lárusar bóksala var Kristín, móðir Sigríðar Rögnu Sigurðardóttur sem sá um barnaefni Sjónvarspins.

Eftirlifandi eiginkona Lárusar er Þórunn Kjartansdóttir húsfreyja og eignuðust þau fimm börn. Meðal þeirra er Kjartan Lárusson, fyrrv. forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands.

Lárus starfaði við Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar frá 1936, varð verslunarstjóri við opnun Bókaverslunar Ísafoldar í Austurstræti, 1939, en stofnaði Bókabúð Lárusar Blöndal á Skólavörðustíg í Reykjavík, 1943, og rak hana ásamt útibúi til 1991. Hann sat í stjórn Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, var lengi formaður Félags íslenskra bókaverslana, formaður Innkaupasambands bóksala, sat í stjórn Kaupmannasamtaka Íslands, í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur og í stjórn Eyrbekkingafélagsins í Reykjavík.

Lárus lést 25. júní 2004.

Morgunblaðið þriðjudagur 11. mars 2014 - Merkir Íslendingar


Skráð af Menningar-Staður