Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

16.03.2014 09:00

Göngum, göngum

.

.

alt

Sandra Dís Hafþórsdóttir

 

Göngum, göngum

Sandra Dís Hafþórsdóttir skrifar:

 

Það eru nokkrir áratugir síðan amma mín heitin fór að ganga sér til heilsubótar. Á hverjum degi gekk hún hringinn eins og hún kallaði það og var sannfærð um að það væri ástæðan fyrir því að henni varð aldrei misdægurt. Til að byrja með þótti hún skrítin að vera að þessu enda fáir sem sáu ástæðu til að arka um þorpið án þess að eiga erindi eitthvert en í dag þykir þetta eðlilegasti hlutur í heimi. Sífellt fleiri eru meðvitaðir um gildi hreyfingar og áhugi almennings á útivist hefur aukist mikið. Samhliða því vaknar áhugi fólks á sínu nærumhverfi. Þegar gengið er daglega um sveitarfélagið tekur fólk eftir ýmsu sem betur má fara, margir koma þeim ábendingum áleiðis til sveitarfélagsins og er það vel.   

 

Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að kortleggja vinnu við umhirðu sveitarfélagins, slátt, gróðursetningar og önnur smærri verk en einnig hafa verið lagðir fjármunir í stærri verk til að bæta ásýnd bæjarkjarnanna okkar hér í Árborg. Dæmi um þetta er endurnýjun gangstétta á Eyrarbakka og göngustígagerð víða um sveitarfélagið.

 

Í ansi mörg ár hafði íbúum á Stokkseyri og Eyrarbakka verið lofað göngustíg á milli þorpanna og á þessu kjörtímabili var loksins hafist handa við að gera hann. Ekki hefur þó tekist að klára hann ennþá en það er meðal annars vegna þess að breyta þarf skipulagi vegna legu stígsins. Það mál er í ferli og vonumst við til að hægt verði að klára stíginn áður en langt um líður. Þetta mun, að mínu mati, skipta mjög miklu máli fyrir íbúa á Eyrarbakka og Stokkseyri og þá ekki síst fyrir börnin. 

Göngustígagerð á Selfossi hefur líka verið í gangi á kjörtímabilinu. Falleg gönguleið meðfram Ölfusá er mikið notuð og nú nýverið voru boðnar út framkvæmdir vegna göngustíga víða um Selfoss. Það er gaman að sjá hversu margir nýta sér þessar gönguleiðir. Framkvæmdir á borð við þessar stuðla að fjölskylduvænu samfélagi og hvetja til hreyfingar og útivistar og það er mín skoðun að halda eigi áfram á þessari braut í uppbyggingu á göngustígum innan sveitarfélagsins.

 

Sandra Dís Hafþórsdóttir, bæjarfulltrúi og sækist eftir 2.sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fer 22. mars nk.

 

 

Skráð af Menningar-Staður