Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

02.06.2014 06:08

Auðvelt að fá stuðning við Ástu

Ásta Stefánsdóttir og Gunnar Egilsson.

 

Auðvelt að fá stuðning við Ástu

• Sjálfstæðismenn í Árborg skutu skoðanakönnunum ref fyrir rass og héldu meirihluta

 

„Ég tel að okkur hafi gengið vel að stjórna. Þegar við komum því til skila, fór fólk að átta sig og vildi hafa okkur áfram,“ segir Gunnar Egilsson, efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu Árborg. Flokkurinn hélt meirihluta sínum í sveitarfélaginu undir forystu Ástu Stefánsdóttir, framkvæmdastjóra Árborgar, sem tók við leiðtogastörfum fyrir kosningarnar.

Skoðanakannanir bentu til að sjálfstæðismenn myndu tapa meirihlutastöðu sinni í Árborg. Gunnar segir að það hafi verið vonbrigði en menn jafnframt gert sér grein fyrir því að margir hefðu ekki tekið afstöðu í könnuninni.

 

Litlar breytingar á hópnum

Óeining var í hópnum sem vann síðustu kosningar og í kjölfarið hætti einn bæjarfulltrúinn. Þá gaf Eyþór Arnalds, sem fór fyrir hópnum í síðustu kosningum, ekki kost á sér áfram. Að öðru leyti stendur sami hópur að framboðinu.

„Við vorum með góðan hóp og unnum vel í kosningabaráttunni. Það var auðvelt að hringja til að fá stuðning við Ástu. Fólk vill hafa hana áfram.“

Ásta Stefánsdóttir vann prófkjör sjálfstæðismanna en óskaði eftir því að fara í 5. sætið sem er baráttusæti listans til að halda meirihluta. Herbragð hennar gekk upp. Flokkurinn fékk 51% atkvæða og fimm menn kjörna. Framsóknarflokkurinn tapaði fylgi en hélt sínum fulltrúa, Samfylking er áfram með tvo menn, Björt framtíð fékk einn fulltrúa en VG tapaði sínum bæjarfulltrúa.

 

Málefni aldraðra brýn

„Við stöndum í miklum framkvæmdum við að byggja sundlaug, skolphreinsikerfi og skólabyggingu. Málefni aldraðra eru stærsta verkefnið framundan, að reyna að leysa úr þeim. Það vantar hjúkrunarrými og betri aðstöðu fyrir eldri borgara,“ segir Gunnar.

Morgunblaðið mánudagurinn 2.júní 2014Skráð af Menningar-Staður