Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

17.12.2016 09:09

Skötuveisla og matarmenning

 


Hjörtur Þórarinsson.

 

Skötuveisla og matarmenning

 

Matarmenning Íslendinga og geymsla matvæla hefur þróast í árhundruð. Matvæli hafa ávallt verið vandmeðfarin. Geymsla matvæla hefur verið þolpróf formæðra okkar. Mörg húsráð hafa glatast en sum þeirra eru enn að sanna kosti sína. Geymsla fiskjar var eitt af úrlausnarverkefnum forfeðra okkar. Þurrkun og hersla hefur verið mikið notuð, en kæsing dugði við einstakar tegundir. Kæsingin hentaði best skötunni. Þessi þjóðarréttur hefur náð vaxandi vinsældum. Mikla sérstöðu hefur hann haft á Vestfjörðum en útbreiðsla og vinsældir skötunnar hefur vaxið jafnt og þétt um allt land. Íslendingar erlendis fá senda skötu til sín til hátíðarverðar á Þorláksmessu.

 

Tenging skötunnar við Þorláksmessu mun vera komin úr katólskum sið. Á síðasta degi jólaföstunnar átti síst af öllu að borða kjöt. Í „Sögu daganna” eftir Árna Björnsson segir frá hvernig vísa úr Vopnafirði lýsir Þorláksmessumat langt utan skötusvæðisins.

 

Á Þorláksdag í matinn minn 
morkinn fékk ég hákarlinn
harðan fiskinn hálfbarinn 
og hákarlsgrútarbræðinginn.

 

Skötu- og saltfisksveisla


En nú skulum við snúa okkur að nútímanum. Því Kiwanisklúbburinn Búrfell hefur síðustu ellefu árin verið með Skötu- og saltfisksveislu rétt fyrir jólin. Veislan hefur verið haldin til fjáröflunar fyrir klúbbinn Strók á Suðurlandi. Fiskbúð Suðurlands hefur verið aðal styrktaraðili þessarar veislu með klúbbnum síðastliðin ellefu ár. Þeim fer fjölgandi sem eru sólgnir í skötuna okkar og vilja styðja þetta málefni. 

 

Í dag Laugardaginn 17. desember 2016 verður veislan kl. 11:50–13:30 í Eldhúsinu  við Tryggvagötu á Selfossi og kostar 2.900 kr.

 

Allir eru hjartanlega velkomnir meðan matarbirgðir endast

 

Glaðir í salinn sestir
sólgnir í skötuna flestir.
Með fnykilm af fiski 
og flotið á diski
sanna það saddir gestir.

 

Hjörtur Þórarinsson


Skráð af Menningar-Staður