Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.01.2018 18:11

Nýhættur Sólheimastjóri í sjóböð á Eyrarbakka

 

 

Guðmundur Ármann Pétursson.

 

Nýhættur Sólheimastjóri í sjóböð á Eyrarbakka

 

Guðmundur Ármann Pétursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sólheima, hefur fengið vilyrði frá bæjarráði Árborgar fyrir landi við höfnina á Eyrarbakka og í fjörunni vestan hennar þar sem hann ætlar að koma upp baðhúsi með sjóböðum. Þá hyggst hann reka þar ferðamannagistingu í smáhýsum og setja upp sýningu um leyndardóma fjörunnar og örnefni við Eyrarbakka í fræðsluhúsi á bryggjunni.

Guðmundur Ármann sótti um landið í nafni félags síns, 1765 ehf., sem hann stofnaði með konu sinni í nóvember, og kom á fund bæjarráðs á fimmtudag til að kynna hugmyndina. Í kjölfarið samþykkti bæjarráðið að veita honum vilyrði fyrir landinu til sex mánaða. Í erindi sem hann sendi bænum fyrir viku kemur fram að í baðhúsinu skuli vera sjóböð innan- og utandyra og veitingastaður. Þar segir einnig að á fræðslusýningunni um örnefni verði sérstaklega horft til heimilda í bókinni Örnefni í Eyrarbakkahrepp eftir Guðmund Þórarinsson.

 

Guðmundur Ármann Pétursson er 48 ára og lét í sumar af störfum sem framkvæmdastjóri Sólheima í Grímsnesi eftir 29 ára starf á staðnum. Hann býr að Hrísbrú í Grímsnes- og Grafningshreppi og situr þar í sveitarstjórn sem fulltrúi K-lista óháðra kjósenda.

Nafn félagsins, 1765 ehf., vísar að líkindum til ársins 1765, þegar danskir kaupmenn reistu sér íbúðarhús á Eyrarbakka í kjölfar þess að erlendir kaupmenn fengu leyfi til fastrar búseti á Íslandi allt árið. Tíu dönsk kataloghús voru flutt inn og byggð hér og þar um landið, en einungis tvö standa enn eftir: Faktorshúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði og Húsið á Eyrarbakka.


Ruv.


Skráð af Menningar-Staður