![]() |
Þórdís Sólmundardóttir er fimmtug í dag. |
Veitingakonan Þórdís rekur Pylsuvagninn á Selfossi.
Ég er stödd á Tenerife og ætla að halda upp á afmælið mitt hér með vinum mínum og manni,“ segir Þórdís Sólmundardóttir sem á fimmtugsafmæli í dag, mánudaginn 7. janúar 2019.
Hún hélt jólin sömuleiðis hátíðleg á Tenerife með eiginmanni, sonum og móður, og kom þangað 22. desember. Móðir hennar og synir eru farin heim til Íslands en vinirnir komu í staðinn. „Við erum tíu hérna í allt núna.“ Þórdís hefur einu sinni áður haldið jólin erlendis, en þá var hún á Gran Canaria og segir að það hafi verið ljúft þá eins og nú.
Þórdís rekur Pylsuvagninn á Selfossi ásamt móður sinni, sem stofnaði hann árið 1984 ásamt þáverandi maka og fósturföður Þórdísar. Staðurinn fagnar því 35 ára afmæli á næsta ári.
Þórdís, sem hefur ávallt búið á Selfossi, sér núna um reksturinn ásamt móður sinni, Ingunni Guðmundsdóttur. „Það hefur ýmislegt breyst á þessum tíma en samt eru hamborgararnir og pylsurnar alltaf vinsælust. Það nýjasta á matseðlinum er fish 'n' chips, sem var fyrir útlendingana en Íslendingar eru líka duglegir að kaupa það.“
Eiginmaður Þórdísar er Símon Ingvar Tómasson, fangavörður á Litla-Hrauni, en hann verður sextugur á föstudaginn. Synir þeirra eru Magnús Bjarki, f. 1995, Eyþór, f. 1998, og Sólmundur Ingi, f. 2005
Morgunblaðið 7. janúar 2019.
Skráð af Menningar-Staður.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is