Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

22.01.2020 21:49

Merkir Íslendingar - Einar Benediktsson

 

 

Einar Benediktsson (1864 - 1949).

 

 

Merkir Íslendingar - Einar Benediktsson

 

80 ára ártíð Einars Benediktssonar 21. janúar 2020

 

Einar Benediktsson, skáld og athafnamaður, fæddist að Elliðavatni 31.október 1864, sonur Benedikts Sveinssonar, yfirdómara og alþm., og Katrínar Einarsdóttur.

 

Einar lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1884 og lögfræðiprófi 1892. Hann var með föður sínum á Héðinshöfða 1892-94, stofnaði Dagskrá 1896, fyrsta íslenska dagblaðið, var málflutningsmaður í Reykjavík og síðan sýslumaður á Stóra-Hofi í Rangárvallasýslu frá 1904 en fór utan 1907 og var búsettur í Noregi, Edinborg, Kaupmannahöfn og í Lundúnum til 1921, stundaði kaupsýslu og beitti sér fyrir nýtingu íslenskra auðlinda. Hann var búsettur í Reykjavík frá 1921 en bjó tólf síðustu æviárin í Herdísarvík.

 

Ljóðabækur Einars eru:


Sögur og kvæði, 1897;

Aldamótaljóð, 1900;

Hafblik, 1906;

Hrannir, 1913;

Vogar, 1921;

Hvammar, 1930;

Ólafs ríma Grænlendings, 1930,

og Alþingishátíðarljóð, 1930.

 

Einar var fullþroskað skáld í sinni fyrstu ljóðabók sem er í senn í anda raunsæis og nýrómantíkur. Skáldskapur hans varð tilkomumeiri eftir því sem á leið. Hann varð skáld hinna löngu hástemmdu setninga um algilda visku og æðstu sannindi – heimspekilega þenkjandi og hallur undir algyðistrú.

 

Um Einar varð snemma til fjöldi sagna, um stórlyndi hans, höfðingsskap og tröllaukna drauma um stóriðju og verksmiðjuframkvæmdir. Ljóð hans eru þess eðlis að aðdáendur hans nánast dýrkuðu hann og töluðu þá gjarnan um Skáldið með stóru essi. Þórbergur Þórðarson var á tímabili ritari hans og undir miklum áhrifum frá honum og til eru sagnir af fundum hans með ungum skáldum, s.s. Tómasi Guðmundssyni, Halldóri Laxness og Steini Steinarr. Ýmsir hafa skrifað um Einar en ítarleg og stórskemmtileg ævisaga hans, eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing, kom út í þremur bindum á árunum 1997-2000.

 

Einar lést 21. janúar 1940 og var jarðsettur, fyrstur Íslendinga, í heiðursgrafreit á Þingvöllum.
Í gær var því 80 ára ártíð hans.
Eitt bros - getur dimmu í dagsljós breytt, 
sem dropi breytir veig heillar skálar. 
Þel getur snúist við atorð eitt. 
Aðgát skal höfð í nærveru sálar. 
Svo oft leyndist strengur í brjósti sem brast 
við biturt andsvar, gefið án saka. 
Hve iðrar margt líf eitt augnakast, 
sem aldrei verður tekið til baka.


 

.

Herdísarvík.
.
 
 


Skráð af Menningar-Bakki.