Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

21.03.2020 08:27

Jón Ingi Sigurjónsson - Fæddur 23. feb. 1936 - Dáinn 7. mars 2020 - Minning

 


Jón Ingi Sigurjónsson (1936 - 2020)
 

 

Jón Ingi Sigurjónsson

 

- Fæddur 23. feb. 1936 - Dáinn 7. mars 2020 - Minning


Jón Ingi Sig­ur­jóns­son, Jonni, fædd­ist í Norður­koti á Eyr­ar­bakka 23. fe­brú­ar 1936. Hann andaðist á Land­spít­al­an­um í Foss­vogi 7. mars 2020.

 

For­eldr­ar hans voru Guðbjörg Lilja Böðvars­dótt­ir frá Skálm­holts­hrauni í Flóa, f. 9.4. 1914, d. 9.9. 2006, og Sig­ur­jón Valdi­mars­son frá Norður­koti, f. 22.10. 1910, d. 25.8. 1952. Systkini Jóns Inga eru Guðný Erna, f. 14.1. 1937, bú­sett í Kópa­vogi, Böðvar, f. 6.12. 1938, d. 30.9. 2018, Valdi­mar, f. 18.10. 1951, bú­sett­ur á Sel­fossi. Upp­eld­is­bróðir Jóns Inga er Er­lend­ur Ómar, f. 14.1. 1950, bú­sett­ur í Þor­láks­höfn.

 

Þann 26. nóv­em­ber 1966 gift­ist Jón Ingi Mar­gréti Ólafs­dótt­ur f. 4.2.1943, d. 10.5. 1995, frá Götu­hús­um á Eyr­ar­bakka. For­eldr­ar Mar­grét­ar voru Guðbjörg Magnea Þór­ar­ins­dótt­ir, f. 25.8. 1917, d. 8.2. 1951, og Ólaf­ur Ólafs­son húsa­smiður, frá Þor­valds­eyri á Eyr­ar­bakka, f. 26.2. 1922, d. 16.4. 2001. Þau skildu.

 

Jón Ingi var bú­sett­ur á Túngötu 63 á Eyr­ar­bakka alla tíð. Hann fór snemma til sjós, vann hjá Raf­magnsveit­um rík­is­ins og síðar við fisk­vinnslu og í pönnu­verk­smiðjunni Alp­an á Eyr­ar­bakka. Jonni söng í kirkju­kór Eyr­ar­bakka­kirkju í 54 ár og með Karla­kór Sel­foss.

 

Útför Jóns Inga fer fram frá Eyr­ar­bakka­kirkju í dag, 21. mars 2020, klukk­an 13. Vegna aðstæðna í sam­fé­lag­inu fer at­höfn­in fram í kyrrþey.

_________________________________________________________________________________________


 

Minningarorð Svanhildar Guðmundsdóttur

 

Deyr fé,

deyja frænd­ur,

deyr sjálf­ur ið sama;

en orðstír

deyr al­dregi,

hveim er sér góðan get­ur.

(Úr Há­va­mál­um)

 

Það varð brátt um hann Jonna, hann veikt­ist al­var­lega og var dá­inn eft­ir nokkra daga. Það er mér ljúft og skylt að minn­ast hans með nokkr­um orðum.

 

Ég man eft­ir hon­um frá æsku­ár­um mín­um á Eyr­ar­bakka, það voru sjö ár á milli okk­ar, hann var eldri.

 

Þegar hann og Magga frænka mín urðu par þá kynnt­ist ég mann­in­um Jonna frá Norður­koti. Hann var mikið prúðmenni og reglumaður að öllu leyti. Hann var vel að sér í ætt­fræði og grúskaði mikið í þeim fræðum og ekki kom maður að tóm­um kof­un­um þegar maður spurði um menn og mál­efni sem tengd­ust Eyr­ar­bakka.

 

Jonni átti mikið bóka­safn, hann var vel les­inn og gam­an var að ræða við hann um það áhuga­mál okk­ar beggja.

 

Kon­an hans Jonna var Mar­grét Ólafs­dótt­ir frænka mín og jafn­aldra. Hún ólst upp hjá ömmu sinni og afa á Þor­valds­eyri en ég hjá ömmu okk­ar og móður­bróður í Götu­hús­um.

 

Magga og Jonni bjuggu alltaf á Eyr­ar­bakka í hús­inu sem þeir bræður Böðvar og hann byggðu sam­an. Í mörg ár komu þau alltaf til okk­ar hjóna á Strand­ir þar sem við vor­um á hverju sumri í gamla hús­inu á Eyri í Ing­ólfs­firði. Það var mikið gleðiefni að fá þau þangað í fás­innið. Þar var margt brallað, báts­ferðir á Norður-Strand­ir, rekaviðarferðir, berja­ferðir voru vin­sæl­ar og eft­ir­minni­leg­ar. Ekki má gleyma að minn­ast á veiðiferðirn­ar á bátn­um okk­ar „Þyt St-14“. Jonni vakti þá al­menna at­hygli á bryggj­unni í Norðurf­irði þegar hann dró á sig klof­stíg­vél­in sín, en sá út­búnaður hafði þá ekki sést á Strönd­um í mörg ár.

 

Við rifjuðum upp ánægju­stund­ir við eld­hús­borðið á Eyri. Mat­ar­veisl­urn­ar og söng­stund­irn­ar, þar var Jonni liðtæk­ur, hann var góður söngmaður og söng lengi í kirkju­kór Eyr­ar­bakka­kirkju og um tíma með Karla­kór Sel­foss.

 

Jonni missti kon­una sína hana Möggu fyr­ir 25 árum, hún var hon­um allt í öllu og söknuður hans mik­ill og okk­ar allra. Nú eru þau von­andi sam­einuð í Sum­ar­land­inu.

 

Það eru erfiðir tím­ar í heims­byggðinni, ekki sér fyr­ir end­ann á þess­um hræðilega far­aldri. Maður von­ar og biður að brátt sjái til sól­ar, að sum­arið komi og sól­in skíni á okk­ur á ný. Með þess­um orðum þakka ég Jonna vini mín­um sam­fylgd­ina og sendi öll­um ást­vin­um hans inni­leg­ar samúðarkveðjur.

 

Svan­hild­ur Guðmunds­dótt­ir.

_____________________________________________________________Minningarorð Írisar Böðvarsdóttur

 

Það er í meira lagi ein­kenni­legt þegar ein­hver sem hef­ur fylgt manni alla tíð hverf­ur burt svo skyndi­lega eins og nú hef­ur gerst. Jón Ingi, eða Jonni eins og hann var alltaf kallaður, var föður­bróðir minn og bjó ásamt konu sinni Mar­gréti Ólafs­dótt­ur eða Möggu á efri hæðinni á æsku­heim­ili mínu, Túngötu 63 á Eyr­ar­bakka.

 

Alla mína æsku fór ég reglu­lega upp á efri hæðina þar sem ég tefldi við Jonna eða horfði á sjón­varpið með þeim Möggu. Svo var drukkið kaffi og spjallað. Þegar ég flutt­ust svo aft­ur á bakk­ann árið 2003 tók við nýr kafli í líf­inu hjá okk­ur Jonna. Hann hafði þá verið ekk­ill í átta ár og árið áður hafði móðir mín lát­ist og bræðurn­ir, pabbi og Jonni orðnir ein­ir á Túngöt­unni. Ein þeir voru al­deil­is ekki ein­ir.

 

Í á ann­an ára­tug voru þeir heima­gang­ar á heim­ili mínu og fylgdu okk­ur í ferðalög, á ýmsa viðburði og sam­kom­ur. Jonni var mjög hæg­lát­ur og regluf­ast­ur maður. Hann hafði yndi af því að hitt­ast og ekki var verra ef góður mat­ur og gott rauðvín var í boði.

 

Hann var söng­elsk­ur og söng lengi með Karla­kór Sel­foss og yfir 50 ár með kór Eyr­ar­bakka­kirkju. Bók­hneigður var hann með ein­dæm­um og byrjaði barn­ung­ur að liggja með nefið í bók­um og las þá allt sem hann komst yfir. Í seinni tíð má segja að nán­asta fjöl­skylda hafi verið hon­um allt. Hann fylgd­ist ein­stak­lega vel með ætt­ingj­um sín­um, hann var svo stolt­ur þegar þeim gekk vel og fylgd­ist vel með börn­um mín­um og fór á tón­leika, leik­rit og flesta viðburði sem tengd­ust þeim.

 

Í tutt­ugu ár hef­ur þú haldið jól með okk­ur og við verið sam­an flest ára­mót. En nú er bleik brugðið, kallið kom óvænt því þrátt fyr­ir háan ald­ur varstu ein­stak­lega hress og hugsaðir um þig sjálf­ur á all­an hátt. Þú varst eini maður­inn sem opnaðir dyrn­ar hjá mér án þess að banka. Það þykir mér vænt um og lýs­ir hversu vel kom á með okk­ur. Í síðustu Vest­mann­eyja­ferð okk­ar í sum­ar sem var ein­stak­lega vel heppnuð í frá­bæru veðri varstu svo glaður þegar þú kvadd­ir okk­ur að kvöldi að þú sagðir „mikið er gott að eiga góða vini og þekkja gott fólk“. Þrátt fyr­ir að mér finn­ist að þú hljót­ir að vera á leiðinni og dyrn­ar opn­ist þá er það ekki svo.

 

Nú hafa aðrar dyr opn­ast. Þú varst mjög trúaður maður og ég óska þess að dyrn­ar hafi opn­ast til Möggu þinn­ar sem þú misst­ir allt of snemma. Ég mun setja Ilmskúf­inn á leiði ykk­ar og í beðið fyr­ir fram­an eld­hús­glugg­ann og kart­öfl­urn­ar munu fara niður.

 

Elsku kæri frændi minn, blessuð sé minn­ing þín góði dreng­ur.

 

 

Sástu suð´r í Flóa

sum­arskrúðið glóa,

þegar græn­ust gróa

grös um Ísa­fold?

Sástu vítt um vengi

vagga stör á engi?

Sástu djarfa drengi

dökka rækta mold?

(Frey­steinn Gunn­ars­son)

 

Þín frænka og vin­ur,

 

Íris.
 Morgunblaðið laugardagurinn 21. mars 2020


Skráð af Meningar-Bakki