Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

22.03.2020 08:25

25 ár að baki

 


Bjarni Harðarson var í fararbroddi að stofnun Bændablaðsins.

 

 

25 ár að baki

 

Það er dálítið sérstakt að mitt í heimsfaraldri alvarlegs sjúkdóms skuli Bændablaðið standa á þeim tímamótum að eiga 25 ára afmæli. Eðli máls samkvæmt hafa hátíðahöld og lúðrablástur því orðið að víkja, líkt og fleiri merkisviðburðir sem slegið hefur verið á frest í þjóðfélaginu vegna COVID-19 faraldursins. 

 

Bændablaðið kom fyrst út undir merkjum nýstofnaðra Bændasamtaka Íslands hinn 14. mars árið 1995. Síðan eru komin út 559 tölublöð og auk þess hafa verið gefin út 7 tölublöð af Tímariti Bændablaðsins sem gefið er út í tengslum við Búnaðarþing ár hvert.

 

Nafn Bændablaðsins á sér samt lengri forsögu. Það var snemmsumars 1987 að nokkrir bændasynir á mölinni með Bjarna Harðarson í fararbroddi komu sér saman um að stofna til blaðaútgáfu fyrir bændur landsins. Blaðið var nefnt Bændablaðið en á bak við það stóð félagið Bændasynir hf. Blað þetta kom út í tæplega 8 ár og skapaði þegar best var 2–3 störf á ritstjórn sem fyrst var til húsa á Skúlagötu í Reykjavík. Það flutti síðar austur að bænum Einarshöfn á Eyrarbakka. Síðasta árið var blaðið gefið út af Jóni Daníelssyni á Tannstöðum í Hrútafirði sem seldi Bændasamtökum Íslands nafnið í árslok 1994. 

 

Árið 2007 var vef Bændablaðsins, bbl. is, hleypt af stokkunum. Árið 2014 var enn bætt um betur og ný endurhönnuð vefsíða tekin í gagnið sem er í stöðugri þróun.

 

Tímarits Bændablaðsins kom út í fyrsta skiptið við setningu Búnaðarþings þann 1. mars 2015 þegar Bændablaðið var nýbúið að eiga 20 ára afmæli. Síðan hefur það komið út á hverju ári í tengslum við Búnaðarþing eða ársfundi Bændasamtaka Íslands. Á árinu 2018 kom ritið reyndar út tvisvar og var seinna tölublaðið þess árs tileinkað landbúnaðarsýningu sem haldin var í Laugardalshöll í október 2018.

 

Í byrjun árs 2020 urðu þau tímamót að hleypt var af stokkunum hlaðvarpi Bændablaðsins sem nefnt hefur verið Hlaðan. Þar láta þáttastjórnendur úr ólíkum áttum ljós sitt skína og hægt er að hlusta á þá þætti þegar fólki hentar í gegnum tengil á vefsíðu Bændablaðsins bbl.is.

 

Markmið Bændasamtakanna með Bændablaðinu var í upphafi að gefa út blað sem skyldi sent út til allra bænda og vera upplýsandi um málefni stéttarinnar. Því var líka ætlað að kynna fyrir öðrum stefnu Bændasamtakanna og veita gagnlegar upplýsingar um stöðu landbúnaðarins. Eða eins og Jón Helgason, þáverandi formaður Búnaðarfélags Íslands, sagði í fyrsta leiðaranum þann 14. mars árið 1995. 

 

„Með slíku kynningarstarfi sköpuðust auknir möguleikar á að hafa áhrif á umræðu um landbúnað og gera hana jákvæðari.“

 

Til að tryggja þetta markmið hafa efnistök blaðsins verið með þeim hætti að ólíkir þjóðfélagshópar finni þar eitthvað við sitt hæfi. Til að staðreyna áhrifamátt blaðsins var á árinu 2012 ákveðið að blaðið tæki þátt í lestrarkönnun Capacent Gallup með stærstu prentmiðlum landsins. Þær kannanir hafa síðan ár eftir ár sýnt það svart á hvítu að markmið útgáfunnar hafa náðst býsna vel. Blaðið hefur náð til breiðs hóps lesenda bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og um allt land. Samkvæmt könnunum Gallup hefur Bændablaðið verið öflugasti prentmiðillinn á landsbyggðinni árum saman og er í öðru sæti í heild á landsvísu. Auglýsendur hafa greinilega kunnað að meta þetta. Með liðstyrk þeirra hefur síðan tekist að skapa öflugan tekjugrunn sem tryggt hefur rekstur útgáfunnar. Fyrir þetta og mikla tryggð lesenda við blaðið, erum við öll sem vinnum að útgáfu Bændablaðsins, afar þakklát.

 

Hörður Kristjánsson 

ritstjóri Bændablaðsins.


 

 Bændablaðið fimmtudaginn 19. mars 2020.
 Skráð af Menningar-Bakki.