![]() |
Gyllir ÍS 261 við bryggju á Flateyri rétt eftir 1980. |
Gvendardagur er 16. mars
Gyllir ÍS 261 er 45 ára 16. mars 2021
Gvendardagur er 16. mars. Þá lést Guðmundur góði Arason Hólabiskup árið 1237. Guðmundar- eða Gvendardagur varð messudagur í Hólabiskupsdæmi ári 1315 þegar bein hans voru tekin upp.
Mikil helgi var á Guðmundi meðan katólska entist þótt hann væri aldrei lýstur helgur maður opinberlega, og eimdi lengi eftir af dýrkun hans, einkum á norðanverðum Vestfjörðum þar sem heimildir eru um nokkurt tilhald á messudegi Guðmundar allt fram á 20. öld.
Sunnanlands var gert ráð fyrir veðrabrigðum til hins verra þennan dag eða Geirþrúðardag daginn eftir, og jafnvel talið ills viti ef það brást.
Á síðasta fjórðungi 20. aldar var á Flateyri horft til Gvendardags sem mikils happadags í Önundarfirði eftir að skuttogarinn Gyllir ÍS 261 kom í fyrsta sinn til Flateyrar á Gvendardegi 16. mars 1976. Það var Útgerðarfélag Flateyrar hf. sem átti Gylli en það félag var dótturfélag Hjálms hf. á Flateyri sem var stofnaður þann 22. september 1968.
Gyllir heitir nú Stefnir ÍS- 28 og er gerður út frá Ísafirði og er 45 ára í dag - 16. mars 2021.
Nafnið Hjálmur var samþykkt á stofnfundi Hjálms hf. eftir tillögu Eysteins G. Gíslasonar fyrrum kennara á Flateyri. Í greinargerð með tillögu sinni benti Eysteinn á að “Hjálmur” væri vörn mikilvægasta líkamshlutarins og fyrirtæki sem þetta væri slíkt hið sama fyrir byggðarlag eins og Flateyri og Önundarfjörð. Fyrir væru nöfn félaga á Flateyri í sama dúr svo sem “Verkalýðsfélagið Skjöldur” og “Kvenfélagið Brynja.” Þessi tillaga var samþykkt með lófaklappi þó ágæt tillaga að öðru nafn hafi legið fyrir stofnfundinum í upphafi frá fundarboðendum.
![]() |
- Flateyri við Önundarfjörð rétt eftir 1980. |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Tónleikaferð
Siggi Björns og Franziska Günther
um Ísland í maí/júní 2021
Bjartsýni! Bara Bjartsýni!
Við skötuhjúin erum langt komin með að bóka tónleikaröð á Íslandi í maí
og fram á sjómannadag.
Þetta er efni úr okkur eigin smiðju og sögur við hæfi, þ.e.s. "Lög og loginn sannleikur"
Svona lítur þetta út í augnablikinu.
Sennilega verður einhverju bætt við.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Ísólfur Pálsson (1871 - 1941). Í gær voru 150 ár frá fæðingu hans. |
Ísólfur Pálsson fæddist á Syðra-Seli í Stokkseyrarhreppi 11. mars 1871.
Foreldrar hans voru Páll Jónsson, f. 1832, drukknaði 1887, bóndi og hreppstjóri á Syðra-Seli, og k.h. Margrét Gísladóttir, f. 1830, d. 1914, húsfreyja, en þau voru bæði komin af Bergsætt.
Foreldrar Páls voru hjónin Ólöf Magnúsdóttir og Jón Sturlaugsson, bóndi á Syðsta-Kekki í Stokkseyrarhr..Faðir Jóns var Sturlaugur Jónsson bóndi og forsöngvari í Grjótlæk, sonur Jóns Bergssonar b. í Grjótlæk. Annar sonur Jóns Bergssonar var Grímur, langafi Sigfúsar Einarssonar tónskálds. Jón var sonur Bergs Sturlaugssonar sem Bergsætt er komin af en Bergur var fyrsti nafnkenndi forsöngvari Stokkseyrarkirkju.
Foreldrar Margrétar voru hjónin Sesselja Grímsdóttir og Gísli Þorgilsson, bóndi og formaður á Kaðlastöðum í Stokkseyrarhr., einnig nefndir Kalastaðir. Gísli var lengi forsöngvari á Stokkseyri.
Meðal systkina Ísólfs var Bjarni, organisti í Götu, faðir Friðriks tónskálds.
Ísólfur kvæntist Þuríði Bjarnadóttur, f. 4.7. 1872, d. 22.3. 1957. Þau eignuðust tólf börn, þar á meðal Pál, tónskáld og organista, Sigurð úrsmið og organista, og Pálmar hljóðfærasmið.
Ísólfur og Þuríður bjuggu í 20 ár á Stokkseyri og síðan í Reykjavík. Stundaði Ísólfur fyrst formennsku og var hann organisti við Stokkseyrarkirkju og stjórnaði kór og söngkvartett. Var orgelleikur hans annálaður, en hann virðist hafa verið sjálfmenntaður að flestu leyti.
Ísólfur fékkst nokkuð við hljóðfæraviðgerðir og svo fór að hann fór utan 1912 og lærði hljóðfærasmíði og -stillingar í Danmörku og Þýskalandi, og starfaði við það eftir að heim kom. Hann gerði m.a. upp orgelin í Fríkirkjunni og Dómkirkjunni og smíðaði orgel fyrir kapellu Háskóla Íslands.
Ísólfur samdi fjölda sönglaga og er þekktast þeirra Í birkilaut (Draumur hjarðsveinsins).
Ísólfur Pálsson lést 17. febrúar 1941.
Skráð af Menningar-Bakki.
|
||
105 ár
frá stofnun Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins
12. mars 1916 komu tuttugu fulltrúar frá sjö verkalýðsfélögum í Reykjavík og Hafnarfirði saman í Bárubúð í Reykjavík til að stofna samband félaganna sem um leið var stjórnmálaflokkur jafnaðarmanna, Alþýðuflokkurinn.
Félögin sem stóðu að stofnun sambandsins voru Verkamannafélagið Dagsbrún, Verkakvennafélagið Framsókn, Hásetafélag Reykjavíkur, Hið íslenska prentarafélag, Bókbindarafélag Íslands, Verkamannafélagð Hlíf og Hásetafélag Hafnarfjarðar. Meðlimir félaganna voru um 1500 á þessum tíma. Árið 1917 gekk Verkalýðsfélagið Baldur á Ísafirði í sambandið.
Árið 1940 var lögum ASÍ breytt og Alþýðuflokkurinn skilinn frá sambandinu til að mynda breiða samstöðu vinnandi manna hvar í flokki sem þeir stæðu. Öll alþýðuflokksfélög gengu úr ASÍ, sem eftir það varð eingöngu verkalýðssamband. Alþýðusamband Íslands er stærsta fjöldahreyfing launafólks á landinu. Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um réttindi þeirra. Félagsmenn í ASÍ eru um hundrað þúsund í 5 landssamböndum og 51 aðildarfélögum um land allt. Félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ eru starfandi á flestum sviðum samfélagsins, á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum. Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um hagsmuni þeirra og réttindi.
Fyrstu stjórn Alþýðusambandsins skipuðu Ottó N. Þorláksson forseti, Ólafur Friðriksson varaforseti og Jón Baldvinsson ritari. Haustið 1916 var Jón Baldvinsson prentari kosinn forseti ASÍ og um leið formaður Alþýðuflokksins. Gegndi hann því embætti allt til dauðadags árið 1938. Jón Baldvinsson var Vestirðingur, fæddur og uppalinn á Strandseljum í Ögurhreppi í Ísafjarðardjúpi. Hann komst ungur í prentnám við prentsmiðju Þjóðviljans unga sem Skúli Thoroddsen alþingismaður gaf út á Ísafirði. Þegar Skúli flutti búferlum til Bessastaða og síðar Reykjavíkur með fjölskyldu, blað og prentsmiðju fylgdi Jón Baldvinsson með. Jón var kosinn á Alþingi árið 1920 og var eini þingmaður Alþýðuflokksins á þeim tíma. Hann var framkvæmdastjóri Alþýðubrauðgerðarinnar í Reykjavík frá árinu 1918.
Fjórir forsetar Alþýðusambands Íslands hafa verið Vestfirðingar. Auk Jóns Baldvinssonar eru það Helgi Hannesson frá Dynjanda í Jökulfjörðum, síðar kennari á Ísafirði og formaður Verkamannafélagsins Baldurs á Ísafirði. Hann var forseti ASÍ 1948-1954. Þá tók við Hannibal Valdimarsson kennari, formaður Baldurs og forseti Alþýðusambands Vestfjarða. Hann var forseti ASÍ lengst allra fyrir utan Jón Baldvinsson, frá 1954-1971. Loks má nefna að Benedikt Davíðsson trésmiður varð forseti ASÍ árið 1988, en hann var fæddur og uppalinn á Patreksfirði.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Guðfinna Sveinsdóttir (1928 - 2021). |
Guðfinna Sveinsdóttir - Fædd 15. júní 1928 -
-Dáin 10. febrúar 2021 - Minning
Guðfinna Sveinsdóttir fæddist 15. júní 1928 að Laugarlandi í Vestmannaeyjum. Hún lést á Dvalarheimilinu Sólvöllum, Eyrarbakka, miðvikudaginn 10. febrúar 2021.
Foreldrar Guðfinnu voru Sveinn Jónasson, f. 1902, d. 1981, verkamaður og síðar bóndi að Rotum undir Vestur-Eyjafjöllum, og Ragnhildur Jóhannsdóttir húsfreyja, f. 1904, d. 1972.
Systkini:
Sigurður, f. 1929, d. 2003, Jóhann Bergur, f. 1930, d. 2004, Nína, f. 1933, d. 1990, Jónas, f. 1937, d. 2000, Sveinn Víkingur, f. 1941, Hrafnhildur, f. 1943, d. 1997.
Þann 26. desember 1953 giftist Guðfinna Sigurði Eiríkssyni, frá Fíflholts-Vesturhjáleigu í Vestur-Landeyjum, f. 22.3.1928, d. 14.12. 2019. Foreldrar hans voru Eiríkur Björnsson bóndi, f. 1887, d. 1943, og Þórunn Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 1888, d. 1972.
Guðfinna og Sigurður eignuðust fimm börn:
Trausti, f. 12. desember 1950, Viðar, f. 30. apríl 1950, Einar Bragi, f. 18. júlí. 1953, d. 15. 7. 2018, Svandís Rana, f. 5. 8. 1954, og Eygló Alda f. 17. 11. 1964.
Trausti er kvæntur Sigríði Sæmundsdóttur, sonur þeirra er Sigmundur Unnar, unnusta Anna Sólmundsdóttir. Barnabörnin eru þrjú.
Viðar, sambýliskona hans er Guðbjörg Bjarnadóttir. Börn Viðars eru Sigurður Grétar, sambýliskona Britta Magdalena, Viðar Þór og Ólöf Valborg, sambýlismaður Arnar Freyr. Barnabörnin eru átta.
Einar Bragi kvæntist Soffíu A. Jóhannsdóttur, börn þeirra eru Guðfinna Kristín, Jóhanna Sigrún, sambýlismaður Kristinn Helgason, Jóhann Freyr, sambýliskona Erna Geirmundsdóttir, og Þórunn Ósk. Barnabörnin eru níu.
Svandís Ragna, sambýlismaður hennar var Árni Alexandersson en hann er látinn.
Eygló Alda, sambýlismaður Sigvard Sigurðsson Hammer, börn þeirra eru Berglind Ósk, eiginmaður Eiríkur Ingvi Jónsson, Bjarki Þór, sambýliskona Linzi Trosh, Sandra Sif, eiginmaður Guðmundur H. Björgvinsson. Barnabörnin eru sjö.
Guðfinna ólst upp í Efri-Kvíhólma undir Vestur-Eyjafjöllum, hjá föðurömmu sinni og afa, Guðfinnu Jónasdóttur og Jónasi Sveinssyni. Á uppvaxtarárum hjálpaði hún til við bústörfin heima við. Seinna, sem ung kona, fór hún í vist m.a. undir fjöllunum, Selfossi og í Vestmannaeyjum. Nokkur haust vann hún í sláturhúsinu á Hellu þar sem hún kynntist Sigga sínum, árið 1946, sem síðar varð eiginmaður hennar. Þau fóru saman á vertíð til Vestmannaeyja en árið 1950 fluttu þau að Indriðakoti undir Vestur-Eyjafjöllum og hófu þar búskap, bjuggu þar í tíu ár en þá fluttust þau að Ormskoti í sömu sveit. Árið 1965 brugðu þau búi og fluttust á Eyrarbakka. Þar vann hún meðal annars í fiski, á Litla-Hrauni og á dvalarheimilinu Sólvöllum.
Hún var mikil félagsvera og lét sig félags- og líknarmál miklu varða, starfaði í kvenfélagi undir Eyjafjöllum og á Eyrarbakka, einnig eldri borgara félagi Eyrarbakka og var m.a. formaður í þeim öllum. Einnig hafði hún mjög gaman af leiklist, söng og hvers kyns gamanmáli, var virk í leikfélögum á báðum stöðum og söng í kór frá 14 ára aldri til 91 árs.
Útförin fór fram frá Eyrarkirkju laugardaginn 6. mars 2021.
______________________________________________________________________________
Minningarorð Kristínar Eiríksdóttur Ingibjargar Eiríksdóttur
Á ungdómsárum þarf ekki mikið til að skapa ævintýri og því var það mjög spennandi fyrir okkur krakkana sem bjuggum í nágrenni við húsið Garðafell á Eyrarbakka þegar þangað flutti fimm manna fjölskylda. Þetta voru hjónin Guðfinna og Sigurður með þrjá syni og tvær dætur. Þorpið okkar hafði rúmlega fimm hundruð íbúa og því var þessi flutningur talsverð viðbót við mannlífið. Það var ekki til að skemma hverfið þar sem húsið Garðafell stóð, og þar voru talsvert fleiri stelpur en þarna fjölgaði strákunum, þrír sætir og skemmtilegir og táningsaldurinn rétt að bresta á hjá okkur flestum. Já þetta breytti talsverðu fyrir þorpið.
Hjónin á Garðafelli, Ninna og Siggi eins og þau voru kölluð í daglegu tali, tóku strax virkan þátt í samfélaginu af miklum myndarskap. Sigurður keypti vörubíl sem hann átti og rak lengstum, Ninna með sitt stóra heimili gekk í Kvenfélag Eyrarbakka, tók þátt í leikstarfsemi og lék stór hlutverk í sýningum sem þá voru settar á svið. Hún gekk í kirkjukór Eyrarbakkakirkju og söng þar í fjölda ára, sterk og góð í altrödd.
Á árunum 1975-1980 tók hún við starfi formanns Kvenfélags Eyrarbakka og starfaði einnig lengi í ýmsum nefndum SSK, Samtaka sunnlenskra kvenna.
Já, það sópaði að henni hvar sem hún fór, glaðleg, mannblendin, hreinskilin og skemmtileg, alltaf skvísa, litrík í klæðaburði hafði getu og gaman af að sauma á sig og dæturnar.
Hún stofnaði ásamt nágranakonu sinni, Dísu í Hátúni, fyrirtæki og unnu þær saman í talsverðan tíma með aðstöðu í kjöllurum húsa sinna að því starfi og var oft glatt á hjalla hjá þeim, hlaupandi á milli húsanna við vinnu sína.
Við inngöngu í Kvenfélag Eyrarbakka kynnumst við systurnar Ninnu kvenfélagskonu og seinna tekur Kristín frá Hátúni við formennsku. Þá var Guðfinna alltaf til taks í alls konar skemmtilegheitum og studdi vel við formanninn, allt til þess er aðstæður gerðu það ekki lengur kleift.
Þau hjónin Ninna og Sigggi tóku á móti fólki á Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka og buðu heim í „opið hús“ og studdu þar með samveru brottfluttra og búenda með því framlagi sínu, ásamt fjölskyldunni. Mátti vart á milli sjá hvern það gladdi mest; gestina eða gestgjafana. Þarna var þessari fjölskyldu allri best lýst.
Við kveðjum Ninnu með þakklæti. Það var gæfa fyrir þorpið flutningur fjölskyldunnar að Garðafelli á Eyrarbakka.
Systurnar frá Hátúni,
Kristín Eiríksdóttir og Ingibjörg Eiríksdóttir.
Skráð af Menningar-Bakki.
Jenna Jensdóttir (1918 - 2016)
Merkir Íslendingar - Jenna Jensdóttir
Jenna Jensdóttir fæddist 24. ágúst 1918 á Læk í Dýrafirði. Foreldrar hennar voru hjónin Ásta Sóllilja Kristjánsdóttir og Jens Guðmundur Jónsson, bóndi og kennari.
Systkini Jennu: Jón, f. 1916, Áslaug tvíburasystir, f. 1918, Sigríður, f. 1922, Hilmar, f. 1924, Kristján, f. 1931, Soffía, f. 1935. Hálfbróðir Gunnbjörn, f. 1945.
Þegar Jenna var 16 ára knúði sorgin dyra en þá fékk móðir hennar krabbamein og lést í kjölfar þess. Þá yfirgaf Jenna heimahagana, fór fyrst í vinnumennsku í Stykkishólmi og síðan suður til að afla sér menntunar.
Jenna giftist 2. maí 1942 Hreiðari Stefánssyni, kennara, f. 1918, d. 1995. Foreldrar hans voru Benedikta Sigvaldadóttir, f. 1897, d. 1976, og Stefán Guðjónsson, f. 1894, d. 1978. Eldri sonur Jennu er Ástráður Benedikt, f. 1942, læknir og yngri sonur Jennu og Hreiðars er Stefán, f. 1947, læknir,
Jenna stundaði leiklistarnám hjá Lárusi Pálssyni, var í kvöldskóla KFUM og í Námsflokkunum en fór síðan í Kennaraskólann. Hún lauk tveimur vetrum kennaranámsins en fluttist til Akureyrar með Hreiðari Stefánssyni, eiginmanni sínum, sem þá hafði lokið kennaraprófi.
Í viðtali við Vísi þann 16. apríl 2011 segir Jenna: „En svo hætti ég í Kennaraskólanum því maðurinn minn var einu ári á undan mér og hann fór til Akureyrar og stofnaði það sem kallað var smábarnaskóli fyrir fjögurra, fimm og sex ára börn. Ég fór með honum þó að ég ætti eitt ár eftir. Sjáðu hvað tímarnir hafa breyst, mér þótti svo sjálfsagt að fara með honum þó að ég væri búin að þræla fyrir þessu námi. En prófið tók ég mörgum árum seinna.“
Hjónin stofnuðu Hreiðarsskóla árið 1942 og kenndu lestur í rúm 20 ár. Jenna kenndi jafnframt við Barnaskóla Akureyrar til ársins 1962 og síðan í Gagnfræðaskóla Akureyrar í eitt ár. Hún lauk kennaraprófi utanskóla vorið 1963 en hún lagði einnig stund á nám í bókmenntafræði við Háskóla Íslands og á árunum 1975-1976 var hún í skóla í Danmörku og Svíþjóð.
Eftir flutning til Reykjavíkur árið 1963 kenndi Jenna í um tvo áratugi á unglingastigi Langholtsskóla og við Námsflokka Reykjavíkur. Síðar á æviskeiðinu sagðist Jenna ávallt hafa kunnað best við að kenna fjórtán, fimmtán og sextán ára börnum því á þeim aldri væru þau að vakna til þess að verða fullorðin. Jenna var að auki bókmenntagagnrýnir og greinahöfundur við Morgunblaðið í tæpa þrjá áratugi.
Jenna var í stjórn Kvenfélagsins Framtíðarinnar og í barnaverndarnefnd Akureyrar. Hún var formaður Félags íslenskra rithöfunda um skeið og sinnti trúnaðarstörfum fyrir Rithöfundasamband Íslands og var hún gerð að heiðursfélaga sambandsins árið 2014. Hún var stofnfélagi í Alfadeild Alþjóðasamtaka kvenna í fræðslustörfum árið 1975 og sinnti því starfi til dauðadags. Þá var hún lengi í skólasafnanefnd Reykjavíkur auk annarra nefndarstarfa.
Jenna var mjög ung þegar hóf skriftir og þegar hún var sextán ára gömul höfðu skrif hennar birst á prenti og hlaut hún verðlaun í samkeppni Ríkisútvarpsins aðeins 17 ára gömul. Jenna og Hreiðar voru höfundar 24 bóka fyrir börn og unglinga en þekktastar þeirra eru Öddubækurnar svokölluðu en þær urðu sjö talsins. Hjónin voru bæði skráð sem höfundar Öddubókanna en Jenna sagði síðar í viðtali við Vísi að hún hefði skrifað þær ein. Hún sagði þau hjón alltaf hafa skrifað hvort í sínu lagi en þau hafi ákveðið að setja nöfn þeirra beggja á bækurnar því þau hafi hugsað sem svo að Hreiðarsskóli yrði þekktari ef bækurnar væru einnig merktar Hreiðari.
Jenna gaf einnig út ljóðabók og nokkur smásagnahefti auk þess sem fjöldamargar sögur hennar og ljóð hafa birst í útvarpi, blöðum og tímaritum.
Jenna hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, m.a. Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur 1973 og viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins 1974. Einnig fékk hún viðurkenningar úr Rithöfundasjóði Íslands 1979, 1987 og 1995. Hún var heiðruð á Menningarhátíð Seltjarnarness haustið 2015.
Síðustu 20 árin bjó Jenna ein í íbúð sinni á Seltjarnarnesi en eiginmaður hennar lést árið 1995. Í tæpt ár fram að andláti sínu naut hún umönnunar á hjúkrunardeild Hrafnistu en ævikvöldsins naut hún jafnframt í nærveru sona sinna, Ástráðs Benedikts og Stefáns, sem og barna- og barnabarna.
Jenna Jensdóttir lést þann 6. mars 2016.
Útför Jennu fór fram frá Hallgrímskirku 21. mars 2016.
Bækur eftir Jennu og Hreiðar:
Aðrar bækur eftir Jennu:
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
--- Úr myndasafninu ---
Öldungaráðið á Stokkseyri í febrúar 2006
Farið yfir teikningar og greinargerð
um Turnana vestan Stokkseyrar
sem Ístak og Hrútavinir ætluðu að byggja
![]() |
. |
.
![]() |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Sigurður Eggerz (1875 - 1945). |
Sigurður Eggerz ráðherra fæddist á Borðeyri 1. mars 1875. Foreldrar hans voru Pétur Friðriksson Eggerz, kaupstjóri þar, og Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja.
Í ættum Sigurðar og fjölskyldu eru óvenju margir alþingismenn og ráðherrar, s.s. bróðir hans, Guðmundur, alþingismaður og sýslumaður, og tveir mágar hans, Páll Ólafsson, ritstjóri og alþingismaður, og Ólafur Thorlacius alþingismaður, faðir Kristjáns Thorlacius sem var formanns BSRB og varaþingmaður.
Þá var Sigurður kvæntur Solveigu, dóttur Kristjáns Jónssonar ráðherra, bróður Péturs ráðherra og Steingríms, alþingismanns og bæjarfógeta á Akureyri, en þeir voru synir Jóns Sigurðssonar, alþingismanns og héraðshöfðingja á Gautlöndum, og eru því af Gautlandsætt og Reykjahlíðarætt, fjölmennustu ráðherraætt landsins.
Tengdamóðir Sigurðar var hins vegar Anna Þórarinsdóttir, dóttir Þórarins Böðvarssonar alþingismanns sem átti ræturnar að Holti í Önundarfirði.
Sigurður lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1895 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1903. Hann var sýslumaður á nokkrum stöðum, lengst af i Vík í Mýrdal, var alþingismaður 1911-1915, 1916-1926 og 1927-1931. Hann varð ráðherra Íslands 1915 en sagði af sér ári síðar er konungur vildi ekki fallast á fyrirvarann um uppburð íslenskra mála í Ríkisráði Dana. Þá var Sigurður fjármálaráðherra 1917-20 og forsætisráðherra 1922-24.
Sigurður var síðan bankastjóri Íslandsbanka frá 1924 þar til bankinn var lagður niður 1930. Hann sinnti lögmannsstörfum í Reykjavík, var bæjarfógeti á Ísafirði 1932-34 og á Akureyri 1934-1945.
Sigurður var fyrirmannlegur og höfðinglegur á velli, þótti flekklaus, ljúfur og alþýðlegur, og umtalsverður áhugamaður um skáldskap eins og fleiri stjórnmálamenn þá.
Sigurður lést 16. nóvember 1945.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
--- Úr myndasafninu ---
Ingvar Magnússon á Eyrarbaka
er hér í slipp (klippingu) hjá Kjartani Björnssyni
á Rakarastofu Björns og Kjartans við Austurveginn á Selfossi.
Skráð af Menningar-Bakki
![]() |
--- Úr myndasafninu ---
Hrútavinir heiðra Elfar Guðna Þórðarson
F.v.: Siggeir Ingólfsson, Elfar Guðni Þórðarson, Jón Jónsson
og Björn Ingi Bjarnason.
Skráð af Mennibgar-Bakki,
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is