Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

17.11.2019 06:58

Steinunn Sigurðardóttir með nýja bók

 

 

Rithöfundurinn Steinunn Sigurðardóttir.

 

Steinunn Sigurðardóttir með nýja bók

 

Steinunn Sigurðardóttir skáld hefur sent frá sér jöklabálk sem nefnist Dimmumót. Hann fjallar um breytta ásýnd jökulsins “hennar”, Vatnajökuls, í ljósi hamfarahlýnunar. Bálkurinn hefur sjálfsæviögulegt ívaf, og einnig heimildaívaf, það heyrast raddir úr sveitunum við Vatnajökul, en návígi íbúanna þar við jökulinn er einstakt í heiminum.

 

Sérstakur viðburður helgaður nýju bókinni, Dimmumótum, og jöklaskrifum Steinunnar SIgurðardóttur í fyrri bókum var haldinn í Nýheimum þekkingarsetri á Höfn í Hornafirði 15. nóvember 2019. Þar töluðu auk Steinunnar Þorvarður Árnason forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði og Soffía Auður Birgisdóttir, fræðimaður við setrið.

 

Steinunn er eitt af höfuðskáldum okkar. Hún á fimmtíu ára rithöfundarafmæli á þessu ári, og mun vera nánast einsdæmi um feril skrifandi konu á Íslandi. Hún sendi frá sér fyrstu ljóðabók, Sífellur, þegar hún var nítján ára. Sautján árum síðar kom svo fyrsta skáldsaga hennar, Tímaþjófurinn, sem er ein mest umrædda skáldsaga síðustu áratuga á Íslandi og var sett á svið Þjóðleikhúss 2017 með Nínu Dögg Filippusdóttur í titilhlutverkinu, Öldu Ívarsen.

 

Steinunn sendir jöfnum höndum frá sér skáldsögur og ljóð, og verk hennar hafa síðasta aldarfjórðung komið út í þýðingum jafnt og þétt, ekki síst í Þýskalandi og Frakklandi.

 

Steinunn gegnir nú á haustönn starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands, en meðal viðurkenninga sem hún hefur unnið til eru verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Steinunn lætur íslenst mál til sín taka víðar en á eigin ritvelli og hún fjallaði nýverið í hátíðarfyrirlestri Jónasar Hallgrímssonar um nýyrðasmíð íslenskra ljóðaskálda, um leið og hún gagnrýndi ofnoktun orða, sem hún telur að geti stuðlað að orðafátækt.

 

Þá hefur Steinunn nú í nokkur ár stjórnað námskeiðum á Heilsustofnun Nlfí í Hveragerði, sem miða að uppbyggingu sálarlífs gegnum skapandi skrif.

 

Steinunn Sigurðardóttir er Sunnlendingur í húð og hár. Hún dvaldist í æsku sinni á sumrin hjá móðurfólki sínu í Eyvík í Grímsnesi, svo og hjá föðurfólki sínu á Seljalandi í Fljótshverfi – en þaðan sér hún jökulinn í nýja ljóðabálknum, Dimmumót.

 

Hún les úr Dimmumótum á viðburði Listasafns Árnesinga í Hveragerði 2. desember 2019 – og þar koma fram fleiri höfundar.

 

Steinunn hefur verið búsett í Þýskalandi og Frakklandi, en hún hefur átt sitt annað heimili á Selfossi síðan 1997 þegar hún og maður hennar, Þorsteinn Hauksson, tónskáld, festu kaup á einbýlishúsi miðsvæðis í bænum.Skráð af Menningar-Bakki.

16.11.2019 19:34

Merkir Íslendingar - Jón Sveinsson

 


Jón Sveinsson - Nonni - (1857 - 1944).

 

 

Merkir Íslendingar - Jón Sveinsson

 

 

Jón Sveinsson (Nonni) fæddist að Möðruvöllum í Hörgárdal 16. nóvember 1857.

Hann var sonur Sveins Þórarinssonar, amtskrifara á Möðruvöllum i Hörgárdal, og k.h., Sigríðar Jónsdóttur húsfreyju. Foreldrar hans eignuðust átta börn en þrjú þeirra létust haustið 1860 úr barnaveiki.

 

Árið 1865 flutti fjölskyldan til Akureyrar og settist að í svokölluðu Pálshúsi. Faðir Nonna lést 1869 úr sullaveiki. Þá var búið tekið til gjaldþrotaskipta og varð Sigríður að láta öll börnin frá sér nema Ármann. Hún flutti síðar til Kanada og giftist þar aftur.

 

Nonna var hins vegar boðin námsdvöl í Frakklandi og fór utan 1870. Hann dvaldi fyrst í Kaupmannahöfn en lauk síðan stúdentsprófi frá Collége de la Providence, Jesúítaskóla í Amiens í Frakklandi, 1878. Þá lærði hann heimspeki og nam guðfræði í Ditton-Hall í Lancashire á Englandi.

 

Nonni vígðist prestur í Jesúítareglunni 1891 og var kennari við St. Andreas Collegium í Ordrup í Danmörku til 1912. Þá gerðist hann rithöfundur og flutti fyrirlestra víða um heim, mest um Ísland, sögu þess og bókmenntir.

 

Barnabækur Nonna um hann og Manna, bróður hans, og um bernskuár þeirra við Eyjafjörðinn urðu mjög vinsælar í Þýskalandi og víðar í Evrópu og voru þýddar á þriðja tug tungumála.

 

Nonni kom til Íslands 1894 og ári síðar átti hann samstarf við kaþólska biskupinn í Danmörku, Johannes von Euch, um fjársöfnun fyrir holdsveikraspítala á Íslandi. Danskir Oddfellow-bræður stofnuðu slíkan spítala í Laugarnesi 1898 en söfnunarfé Nonna rann til stofnunar Landakotsspítala. Hann kom aftur til Íslands á Alþingishátíðina 1930 í boði ríkisstjórnarinnar.

 

Nonnasafn á Akureyri er bernskuheimili Nonna og á þjóðdeild Þjóðarbókhlöðunnar í Reykjavík er sérsafn Nonna þar sem sjá má bréf hans, skjöl og rit á hinum ýmsu tungumálum.

 

Nonni lést 16. október 1944.Skráð af Menningar-Bakki.

16.11.2019 19:16

Jónas Hallgrímsson 1807 - 1845

 

 

Minningarskjöldur efst til vinstri að St. Pederstræde 140 í Kaupmannahöfn.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Jónas Hallgrímsson 1807 - 1845

 

 

Jónas Hallgrímsson fæddist þann 16. nóvember árið 1807 að Hrauni í Öxnadal.

Skoða fæðingarvottorð

 

Hann var sonur hjónanna Hallgríms Þorsteinssonar aðstoðarprests og Rannveigar Jónasdóttur.

 

Jónas átti þrjú systkini. Þorsteinn var elstur, fæddur árið 1800, næst í röðinni var Rannveig, fædd árið 1802, þriðji í röðinni var Jónas og yngst var Anna Margrét, fædd árið 1815.

 

Árið 1808 fluttist Jónas með fjölskyldu sinni að Steinsstöðum í Öxnadal. Þar ólst hann upp til níu ára aldurs en þá missti hann föður sinn sem drukknaði í Hraunsvatni. Eftir föðurmissinn var Jónas sendur í fóstur til móðursystur sinnar að Hvassafelli í Eyjafirði og er talið að þar hafi hann dvalið til ársins 1820.

 

Jónas fermdist þann 27. maí árið 1821 heima í Öxnadal en veturna 1821-1823 dvaldi hann í Skagafirði þar sem hann var í heimaskóla hjá séra Einari H. Thorlacius.

 

Jónas stundaði almennt nám í Bessastaðaskóla í sex vetur frá 1823 til 1829 og naut til þess skólastyrks. Eftir útskrift frá Bessastaðaskóla flutti Jónas til Reykjavíkur og gerðist skrifari hjá Ulstrup bæjar- og landfógeta og bjó á heimili fógetans. Jafnframt því að vera skrifari fógeta var Jónas skipaður verjandi í nokkrum málum fyrir landsrétti.

 

Sagt er að veturinn 1831-1832 hafi Jónas beðið Christiane Knudsen en hún hafi hafnað bónorði hans.

 

Í ágúst árið 1832 sigldi Jónas frá Reykjavík til Kaupmannahafnar. Eftir að hafa staðist inntökupróf hóf hann nám lögfræði í Hafnarháskóla og bjó á Garði fyrstu fjögur árin í náminu á meðan hann naut Garðstyrks. Jónas flutti af Garði vorið 1836 og hafði þá snúið sér að námi í náttúruvísindum og fékk styrk úr Sjóðnum til almennra þarfa til að stunda rannsóknir og nám í náttúruvísindum. Náttúruvísindanáminu lauk Jónas svo vorið 1838.

 

Á námsárunum í Kaupmannahöfn stofnaði Jónas tímaritið Fjölni ásamt þeim Brynjólfi Péturssyni, Konráði Gíslasyni og Tómasi Sæmundssyni. Einnig orti hann kvæði, skrifaði sögur, samdi og flutti erindi og vann að ýmsum þýðingum.

 

Vorið 1837 fór Jónas til Íslands. Hann ferðaðist um landið um sumarið og stundaði rannsóknir í náttúruvísindum og sneri til baka til Kaupmannahafnar um haustið.

 

Í ágúst 1838 hlaut tillaga Jónasar um að Hið íslenska bókmenntafélag réðist í ritun Íslandslýsingar samþykki og var Jónas valinn í nefnd sem átti að sjá um framkvæmd verksins.

 

Vorið 1839 hélt Jónas aftur til Íslands til að stunda vísindarannsóknir og vinna við fyrirhugaða Íslandslýsingu. Á ferð sinni um landið þetta sumar ofkældist hann og þjáðist upp frá því af lungnameini. Hann dvaldi í Reykjavík veturinn 1839-1840 og var mikinn hluta vetrar rúmliggjandi.

 

Vorið 1840 vann Jónas að Íslandslýsingunni en jafnframt lagði hann til við Reykjavíkurdeild Hins íslenska bókmenntafélags að haldnar yrðu veðurdagbækur víðsvegar um Ísland. Tillagan var samþykkt og var Jónas skipaður í þriggja manna nefnd um verkið.

 

Sumarið 1840 ferðaðist Jónas um Ísland og vann að ýmsum rannsóknum. Hann dvaldi í Reykjavík veturinn 1840-1841.

 

Sumarið 1841 fór Jónas í fjórðu rannsóknarferð sína um Ísland og dvaldi svo í Reykjavík veturinn 1841-1842 við ýmis vísindastörf og skýrsluskrif og kom m.a. á fót vísi að náttúrugripasafni. Einnig vann hann að þýðingu bókarinnar Stjörnufræði eftir G. F. Ursin sem kom út í íslenskri þýðingu í maí árið 1842.

 

Sumarið 1842 fór Jónas í fimmtu rannsóknarferð sína um Ísland. Um haustið, eftir að hafa ferðast sumarlangt um Austurland veiktist hann, og lá veikur þangað til hann hélt til Kaupmannahafnar frá Eskifirði.

 

Þegar til Kaupmannahafnar kom var hann ráðinn, ásamt Jóni Sigurðssyni, sem fastur starfsmaður Hins íslenska bókmenntafélags til að rita Íslandslýsingar.

 

Jónas dvaldi sumarið 1843 á Sóreyju á Sjálandi og vann að skýrslum frá Íslandsferðum en einnig að ritum um eldgos og jarðskjálfta á Íslandi.

 

Jónas sneri aftur til Kaupmannahafnar frá Sórey í maí árið 1844 og dvaldi þar það sem eftir var ævinnar.

 

Að kvöldi þess 21. maí 1845 hrasaði Jónas í stiga á leið upp í herbergið sitt, í St. Pederstræde 140 í Kaupmannahöfn, og fótbrotnaði. Daginn eftir var hann fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést að morgni 26. maí 1845, aðeins 37 ára gamall.

 

Útför Jónasar var gerð 31. maí 1845 og var lík hans grafið í Assistentskirkjugarði í Kaupmannahöfn. Hið íslenska bókmenntafélag kostaði jarðarförina.
Skráð af Menningar-Bakki.

16.11.2019 18:32

Merkir Íslendingar - Ásthildur Thorsteinsson

 

Ásthildur Thorsteinsson (1857 - 1938).

 

Merkir Íslendingar - Ásthildur Thorsteinsson

 

 

Ásthild­ur Jó­hanna Thor­steins­son fædd­ist 16. nóv­em­ber 1857 á Kvenna­brekku í Döl­um.

For­eldr­ar henn­ar voru hjón­in Guðmund­ur Ein­ars­son, pró­fast­ur og alþing­ismaður, og Katrín Ölafs­dótt­ir frá Flat­ey. Ásthild­ur var meðal tíu fyrstu nem­end­anna í Kvenna­skól­an­um í Reykja­vík og varð efst í bekkn­um.

 

Eig­inmaður Ásthild­ar var Pét­ur J. Thor­steins­son stór­kaupmaður. Þau bjuggu á Bíldu­dal, í Hell­erup í Dan­mörku, Reykja­vík og Hafnar­f­irði, og byggðu húsið Galta­fell á Lauf­ás­vegi. Þau eignuðust ell­efu börn og komust tíu þeirra á legg.

 

Höfðings­skap­ur og gjaf­mildi Ásthild­ar urðu land­fleyg og á Bíldu­dal var hún sögð „sól­skinið sjálft fyr­ir all­an þann mann­fjölda“ og heim­ili þeirra í Hell­erup var sam­komu­hús ís­lenskra mennta­manna. Þegar hallaði und­an fæti hjá Pétri sagði Ásthild­ur að sér hefði þótt verst við það hvað hún hafði þá lítið til að gefa.

 

Ásthild­ur stofn­setti leir- og glervöru­versl­un í Kola­sundi og sá sjálf um rekst­ur búðar­inn­ar og þótti góður yf­ir­maður. Hún þótti hag­mælt og samdi sög­ur og ljóð.

 

Ásthild­ur lést 1. apríl 1938.Morgunblaðið laugardagurinn 16. nóvember 2019.


 Minnismerki Ásthildar og Péturs á Bíldudal var reist árið 1951.


 

 


Skráð af Menningar-Bakki.

16.11.2019 08:36

Dagur íslenskrar tungu

 

 

 

 

  -Dagur íslenskrar tungu-

 

 

Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

 

Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.

 

Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur.

 

Hinn 16. nóvember skal draga fána á stöng á húsum opinberra stofnana, sem eru í umsjá valdsmanna eða sérstakra forstöðumanna ríkisins, sbr. 2. gr. forsetaúrskurðar um fánadaga og fánatíma nr. 5/1991 . Einnig fer vel á því að aðrir dragi íslenska fánann að húni á degi íslenskrar tungu.

    -Himnakoss Jónasar- 16. nóv. 2019
 
 

Skráð af Menningar-Bakki.

15.11.2019 20:04

Fólkið og fjárlögin

 

 

 

 

 -Fólkið og fjárlögin-

 

 

Verið öll hjartanlega velkomin

 

á opinn fund með Oddnýju og Ágústi!

 

 

Opinn fundur verður á laugardaginn 16. nóvember 2019 í húsnæði Samfylkingarinnar Eyrarvegi 5, Selfossi. kl. 11:00.Þau Ágúst Ólafur Ágústsson og Oddný G. Harðardóttir ætla að fara yfir umræðuna um fjárlögin sem fer fram í þessari viku, en auk þess verður tækifæri til að spjalla um hvað er að frétta af samgöngumálum, lækkun veiðigjalda til útgerðarinnar og heilbrigðismál.Tilvalið tækifæri til að ræða stöðuna í stjórnmálunum!Samfylkingin.
Skráð af Menningar-Bakki.

14.11.2019 21:09

Vilbergur Magni Óskarsson, kennari og fagstjóri skipstjórnar - 60 ára

 

 

Vilbergur Magni Óskarsson,

 

kennari og fagstjóri skipstjórnar – 60 ára

 

 

Lærifaðir skipstjóranna

 

Vil­berg­ur Magni Óskars­son er fædd­ur 14. nóv­em­ber 1959 á Sel­fossi, en ólst upp á Eyr­ar­bakka. „Áður en ég varð 10 ára var ég far­inn að aðstoða kart­öflu­bónda við að taka upp á haust­in. Í þorp­inu voru nokkr­ir kart­öflu­bænd­ur og ég held að flest börn­in í þorp­inu hafi á þess­um árum unnið við að taka upp kart­öfl­ur á haust­in fram að skóla­byrj­un. Held reynd­ar að skól­inn hafi ekki getað byrjað fyrr en búið var að taka upp. En ann­ars eyddi maður flest­um stund­um í fjör­unni á þess­um tíma og kom yf­ir­leitt vot­ur heim.“

 

Magni vann í skóla­frí­um, í grunn- og gagn­fræðaskóla, í fisk­vinnslu hjá Fiski­veri og í frysti­hús­inu, aðallega í salt­fiski, en á sumr­in hjá hreppn­um. Hann fór fyrst á sjó­inn 16 ára sem há­seti í af­leys­ing­ar á Vala­fell, sem frysti­húsið átti, síðan sem kokk­ur á bátn­um Aski og þaðan yfir á stærri bát sem hét Sól­borg og var þar um vet­ur­inn 1976-1977 á neta­veiðum. „Eft­ir humar­vertíð á báti sem hét Ála­borg, sum­arið 1977, sótti ég um starf hjá Eim­skip og var ráðinn há­seti um borð í Brú­ar­fossi, sem var í Am­er­ík­u­sigl­ing­um. Sem var mikið æv­in­týri fyr­ir 17 ára strák.

 

Á Brú­ar­fossi var ég fram í maí 1978 er ég lenti í slysi um borð og sigldi ekki meira það sum­arið og sett­ist á skóla­bekk í Stýri­manna­skól­an­um þá um haustið. Á milli bekkja í Stýri­manna­skól­an­um var ég stýri­maður á humar­vertíð á Jó­hanni Þorkels­syni frá Eyr­ar­bakka. Eft­ir að ég lauk far­manna­prófi 1981 var ég há­seti á tog­ar­an­um Bjarna Herjólfs­syni fram á haust en fór þá sem stýri­maður á flutn­inga­skipið Ísnes og var þar til ára­móta 1981-82, er ég fór í Varðskipa­deild Stýri­manna­skól­ans.“ Magni lauk far­manna­prófi frá Stýri­manna­skól­an­um 1981, varðskipa­deild 1982 og út­gerðar­tækni frá Tækni­skóla Íslands 1983.

 

„Eft­ir að námi lauk starfaði ég um tvö ár sem skrif­stofu­stjóri hjá inn­flutn­ings­fyr­ir­tæki, en fór aft­ur á sjó­inn sem stýri­maður á Drífu ÁR frá Eyr­ar­bakka og tók við þeim báti sem skip­stjóri á vertíðinni 1986 og var þar fram á haust er bát­ur­inn var leigður vest­ur á firði. Haustið 1986 sótti ég um starf hjá Land­helg­is­gæsl­unni, en ég hafði hug á að prófa það og vera í nokkra mánuði. Þar var ég stýri­maður og skip­stjóri til árs­ins 2004. Fékk þar þjálf­un sem spil- og sigmaður á þyrlu Gæsl­unn­ar, TF-SIF, og starfaði í flug­deild­inni, ásamt því að fara á varðskip­in sem stýri­maður nokkra túra á ári til 1992 er ég tók við sem yf­ir­stýri­maður á Ægi og fór minn fyrsta túr sem skip­herra þar haustið 1994. Frá þeim tíma var ég á stjórn­stöð og í flug­deild og leysti af nokkra mánuði á hverju ári sem skip­herra á ein­hverju skip­anna, Óðni, Ægi og Tý. Á þess­um tíma tók ég þátt í mörg­um eft­ir­minni­leg­um björg­un­um bæði á fólki og skip­um og einnig flot­kví sem er í Hafn­ar­fjarðar­höfn. Eft­ir­minni­legt er fyrsta björg­un­in sem ég tók þátt í eft­ir að ég lauk þjálf­un sem sigmaður, en þá björguðum við flug­manni af væng flug­vél­ar hans sem nauðlent hafði í sjón­um og var að sökkva.“

 

Magni var send­ur á veg­um LHG í stjórn­un­ar­nám í danska sjó­liðsfor­ingja­skól­ann í Kaup­manna­höfn vet­ur­inn 1999-2000. Hann átti í nokk­ur ár sæti á veg­um LHG í nefnd sem skipu­lagði fjölþjóðleg­ar björg­un­aræf­ing­ar á Norður-Atlants­hafi, sem voru á veg­um Nato. Einnig var hann um tíma tengiliður LHG við varn­ar­liðið á Kefla­vík­ur­flug­velli.

 

„Haustið 2003 var mér boðið starf við kennslu í Stýri­manna­skóla Namib­íu á veg­um Þró­un­ar­sam­vinnu­stofn­un­ar Íslands og var þá í launa­lausu leyfi frá LHG í eitt ár. Ég fór einn út til Namib­íu í byrj­un janú­ar 2004 en fjöl­skyld­an kom til mín í júní og var hjá mér í þrjá mánuði. Notuðum við tæki­færið og ferðuðumst tals­vert um Namib­íu og Suður-Afr­íku.“

 

Þegar heim var komið var Magni ráðinn sem sviðstjóri skip­stjórn­ar­sviðs Mennta­fé­lags­ins, sem hafði tekið við rekstri Stýri­manna­skól­ans í Reykja­vík og Vél­skóla Íslands. Magni fór í kennslu­rétt­inda­nám í Kenn­ara­há­skóla Íslands til þess að öðlast kennslu­rétt­indi á fram­halds­skóla­stigi og lauk því 2006. Við sam­ein­ingu Stýri­manna­skól­ans og Vél­skól­ans árið 2006 og Iðnskól­ans í Reykja­vík árið 2008 í Tækni­skól­ann urðu til nokkuð sjálf­stæðir fag­skól­ar. Þar á meðal var Skip­stjórn­ar­skól­inn sem Magni var ráðinn skóla­stjóri yfir.

 

„Í störf­um mín­um þar stóð ég m.a. fyr­ir nokkr­um breyt­ing­um á nám­inu og þar á meðal að koma á dreif­námi með staðlotu­fyr­ir­komu­lagi þar sem nem­end­um, til dæm­is þeim sem starfa á sjó, gafst kost­ur á að stunda skip­stjórn­ar­nám og ná sér í skip­stjórn­ar­rétt­indi án þess að þurfa að taka sér frí í nokk­ur ár til þess að setj­ast á skóla­bekk. Ég steig til hliðar sem skóla­stjóri þegar Vél­tækni­skól­inn og Skip­stjórn­ar­skól­inn voru sam­einaðir und­ir einn skóla­stjóra og tók að mér fag­stjórn skip­stjórn­ar ásamt kennslu.“

 

Magni hef­ur átt sæti í sendi­nefnd á veg­um Íslands sem farið hef­ur á fundi hjá Alþjóðasigl­inga­mála­stofn­un­inni (IMO) í London, þegar til umræðu hafa verið mennt­un­ar- og ör­ygg­is­mál sjó­manna. Magni hef­ur setið í starfs­greinaráði sjáv­ar­út­vegs og sigl­inga­greina frá 2005 og verið formaður ráðsins frá 2010. Hann er sér­fróður meðdómsmaður í Héraðsdómi. Hann sat í samn­inga­nefnd Stýri­manna­fé­lags Íslands, fyr­ir hönd stýri­manna hjá Land­helg­is­gæslu Íslands, 1988-1998, var formaður Starfs­manna­fé­lags Land­helg­is­gæsl­unn­ar 1989-1990 og stjórn­ar­maður 1992-1995 og hef­ur verið stjórn­ar­maður í Holl­vina­sam­tök­um varðskips­ins Óðins frá 2010.

Áhuga­mál Magna eru bát­ar og skip, flugu­veiði og ferðalög, fjöl­skyld­an og sum­ar­bú­staður fjöl­skyld­unn­ar.

 

Fjöl­skylda

Eig­in­kona Magna er Brynja Björg­vins­dótt­ir, f. 19.5. 1962, lyfja­fræðing­ur. For­eldr­ar henn­ar: Hjón­in Björg­vin Guðmunds­son, f. 15.11. 1932, d. 30.8. 1992, vél­stjóri og harðfisk­verk­andi á Stokks­eyri, og Krist­ín Jó­steins­dótt­ir, f. 21.12. 1932, hús­móðir, nú bú­sett í Kópa­vogi.

 

Börn Magna og Brynju eru:
1) Óskar Örn Vil­bergs­son, f. 5.7. 1983, viðskipta­fræðing­ur og húsa­smíðameist­ari og starfar sjálf­stætt við bók­haldsþjón­ustu og rekstr­ar­ráðgjöf. Maki: Elísa­bet Ómars­dótt­ir leik­skólaliði. Börn: Em­il­ía Rún, f. 2010, Al­ex­and­er Magni, f. 2015, og Anna Krist­ín Óskars­dótt­ir, f. 2016, bú­sett á Eyr­ar­bakka;

2) Björg­vin Vil­bergs­son, f. 12.1. 1990, verk­fræðing­ur og stýri­maður og starfar hjá Mar­el. Maki: Shel­by Morg­an sér­kenn­ari, bú­sett í Hafnar­f­irði;

3) Krist­ín Vil­bergs­dótt­ir, f. 16.11. 1991, nemi í HÍ, bú­sett í Hafnar­f­irði;

4) Ásta Þór­unn Vil­bergs­dótt­ir, f. 20.1. 2000, nemi í HR, bú­sett í Hafnar­f­irði.

 

Systkini Magna eru:
Lilli­an V. Óskars­dótt­ir, f. 14.8. 1952, bús. í Kópa­vogi;

Ragn­heiður Óskars­dótt­ir, f. 1.4. 1955, skrif­stofumaður, bús. á Eyr­ar­bakka;

Sig­ríður Óskars­dótt­ir, f. 8.4. 1957, starfar hjá KPMG, bús. á Eyr­ar­bakka;

Eyrún Óskars­dótt­ir, f. 20.3. 1964, list­fræðing­ur og grunn­skóla­kenn­ari, bús. í Reykja­vík;

Edda Óskars­dótt­ir, f. 27.1. 1967, dr. í sér­kennslu­fræðum, lektor við HÍ, bús í Reykja­vík;

Hall­grím­ur Óskars­son, f. 19.12. 1970, fast­eigna­sali, bús. á Sel­fossi;

Barði Páll Óskars­son, f. 3.6. 1970, d. 13.7. 1991.

 

For­eldr­ar:

Hjón­in Óskar Magnús­son frá Flateyri, f. 19.3. 1931, fv. skóla­stjóri Barna­skól­ans á Eyr­ar­bakka; og Ásta Þór­unn Vil­bergs­dótt­ir frá Eyrarbakka, f. 9.7. 1932, d. 9.2. 2016, hús­móðir og verka­kona.

 

 
Morgunblaðið fimmtudagurinn 14. nóvember 2019Skráð af Menningar-Bakki.

13.11.2019 06:57

Merkir Íslendingar - Þuríður Einarsdóttir

 

 
 

 

 

Merkir Íslendingar - Þuríður Einarsdóttir

 

 

Þuríður Ein­ars­dótt­ir, oft­ast nefnd Þuríður formaður, fædd­ist árið 1777 á Stétt­um í Hrauns­hverfi á Eyr­ar­bakka. For­eldr­ar henn­ar voru Ein­ar Ei­ríks­son, bóndi þar, og k.h. Helga Bjarna­dótt­ir.

 

Þuríður bjó í for­eldra­hús­um þar til hún varð 25 ára göm­ul. Hún byrjaði að róa á vor­vertíð hjá föður sin­um 11 ára göm­ul og gerðist full­gild­ur há­seti á vetr­ar­vertíð hjá Jóni í Mó­hús­um, þá rúm­lega tví­tug að aldri. Hún fékk leyfi frá sýslu­manni til að klæðast karl­manns­föt­um og klædd­ist ekki kven­manns­föt­um eft­ir það.

 

Síðan bjó hún í Stokks­eyr­ar­hverfi, lengst af á Götu og var formaður þar, fyrst á vor- og haust­vertíð, síðan á vetr­ar­vertíðum. Hún flutti á Eyr­ar­bakka 1830 og bjó þar til æviloka að und­an­skild­um ár­un­um 1840-1847 þegar hún dvald­ist við versl­un­ar­störf í Hafnar­f­irði. Fyrsta ára­tug­inn sem hún bjó á Eyr­ar­bakka var hún formaður í Þor­láks­höfn á vetr­ar­vertíðum og stýrði át­tær­ingi og aflaði vel. Hún var lengst af sjálfr­ar sín, ým­ist við smá­búhok­ur eða sem hús­kona á Skúms­stöðum þar til sein­ustu 8-9 árin sem hún lifði, er hún varð að þiggja sveit­ar­styrk.

 

Þuríður bjó um tveggja ára skeið með manni að nafni Er­lend­ur Þor­varðar­son í Eystri-Mó­hús­um. Þau eignuðust stúlku sem hét Þór­dís en hún lést fimm ára göm­ul. Löngu síðar, eða árið 1820, gift­ist hún vinnu­manni sín­um, Jóni Eg­ils­syni, sem þá var 21 árs, en þeirra hjóna­band stóð ekki lengi.

 

Þuríður varð fræg fyr­ir að koma upp um Kambs­ránið, en það var rán sem framið var á bæn­um Kambi í Flóa 1827. Ræn­ing­arn­ir skildu eft­ir sig verks­um­merki m.a. skó, járn­flein og vett­ling. Hún taldi sig þekkja hand­bragðið á skón­um og að för á járn­flein­in­um pössuðu við steðja í eigu Jóns Geir­munds­son­ar á Stétt­um í Hraun­gerðis­hreppi, sem var einn ráns­mann­anna.

 

Þuríður formaður lést í Ein­ars­höfn 13. nóvember 1863.

 

 

Þuríður Ein­ars­dótt­ir (1777 - 1860).
Skráð af Menningar-Bakki.

12.11.2019 17:13

Hverfaráð Stokkseyrar efnir til opins íbúafundar

 


Barnaskólinn á Stokkseyri.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Hverfaráð Stokkseyrar

 

efnir til opins íbúafundar

 

 

Hverfaráð Stokkseyrar efnir til opins íbúafundar í dag, þriðjudaginn 12. nóvember 2019 kl. 20:00 í sal Barnaskólans á Stokkseyri.


Á fundinum verða bæjarstjóri Árborgar ásamt bæjarfulltrúum og munu þau sitja fyrir svörum.


Hverfaráðið hvetur alla til að mæta.

 


Skráð af Menningar-Bakki.

11.11.2019 06:40

Merkir Íslendingar - Matthías Jochumsson

 

 

Matthías Jochumsson (1835 - 1920)

 

 

Merkir Íslendingar - Matthías Jochumsson

 

 

Matthías Jochumsson fæddist 11. nóvember 1835 að Skógum í Þorskafirði, sonur Jochums Magnússonar og Þóru Einarsdóttur. Þóra var systir Guðmundar, pr. á Kvennabrekku, föður Ásthildar, móður Muggs, og föður Theodóru Thoroddsen skáldkonu, ömmu Dags Sigurðarsonar skálds.
 

 

Foreldrar Matthíasar bjuggu við barnaómegð og gestanauð á harðæristímum og fór því Matthías til vandalausra 11 ára. Hann var til sjós og í vinnumennsku og sinnti verslunarstörfum í Flatey þar sem hann kynntist fólki sem kom honum til mennta. Hann útskrifaðist frá Prestaskólanum þrítugur að aldri.
 

 

Matthías var prestur á Kjalarnesi en þar missti hann fyrstu og aðra eiginkonu sína með stuttu millibili. Hann sagði þá af sér prestsskap, fór utan og varð síðan ritstjóri Þjóðólfs. Eftir að Matthías giftist þriðju konu sinni var hann prestur að Odda á Rangárvöllum í nokkur ár en síðan á Akureyri.
 

 

Matthías og Steingrímur Thorsteinsson voru helstu skáldmæringar síðrómantísku stefnunnar. Vinátta þeirra var einlæg þótt oft hvessti á milli þeirra. Matthías var skáld mannlífs, örlaga og tilfinninga en Steingrímur skáld hinnar ósnortnu náttúru. Matthías var mælskur, andríkur og tilfinninganæmur en Steingrímur vitsmunalegra og líklega vandvirkara skáld. Matthías var auk þess eitt mesta trúarskáld þjóðarinnar. Hann orti lofsönginn sem síðar varð þjóðsöngur Íslands. Þá samdi hann leikritið Skugga-Svein, sem var klassískt leikhúsverk hér á landi á fyrstu áratugum íslenskrar leiklistar.


 

Að Skógum er minnismerki um Matthías, lágmynd eftir Helga Gíslason og bautasteinn úr Vaðalfjöllum.

Að Sigurhæðum á Akureyri er safn helgað minningu hans.

Ævisaga hans, eftir Þórunni Valdimarsdóttur, Upp á Sigurhæðir, kom út haustið 2006.


 

Matthías lést 18. nóvember 1920.
 Skráð af Menningar Bakki.