Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

20.07.2019 07:47

Gjör rétt, þol ei órétt

 

 

 

 

Gjör rétt, þol ei órétt

 

 

Eftir Viðar Guðjohnsen og Ólaf Hannesson

 

 

Snemma á síðasta ári stóðu ákveðnir fjölmiðlar með hrakmáluga í broddi fylkingar að pólitískri aðför að mannorði Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Því miður virðist það færast í aukana að haldið sé uppi fréttaflutningi þar sem saklausir er sagðir sekir og tilhæfulausum dylgjum dreift eins og um sannleik sé að ræða. Allir sem hafa einhverja sómakennd í brjósti sér hljóta að mótmæla því sem þingmaðurinn hefur þurft að þola.

 

Fram voru settar tilhæfulausar ásakanir, dylgjur og lygar þar sem stór orð féllu en ásakanirnar hafa ítrekað verið hraktar, m.a. af bæði forsætisnefnd Alþingis og skrifstofu Alþingis. Ásmundur gerðist í raun ekki sekur um neitt annað en að hann er duglegur að sinna vinnunni sinni og heldur tryggð við kjósendur.

 

Gott er að halda því til haga að kjördæmi Ásmundar, Suðurkjördæmi, er langstærsta kjördæmi landsins og langar vegalengdir einkenna kjördæmið en því má einnig halda til haga að eitt hlutverk þingmanna er að vera fulltrúar og til þess að vera góður fulltrúi þarf þingmaður að vera í tengslum við fólkið sitt. Besta leiðin til þess að vera í tengslum við fólkið í landinu er að fara til fólksins og tala við það.

 

Burðarstoðir lýðræðisins þurfa viðhald og þetta er ein leið til þess að efla þær stoðir. Viðhaldskostnaðurinn í þessu tilfelli er margrædd akstursgjöld og þau eru lítil í samhengi hlutanna. Ef við fáum betri þingmenn og þingmenn sem eru í tengslum við almenning verður slík auðlind ekki metin til fjár. Það er ekki gott fyrir þingmenn að einangra sig í litlum hluta Reykjavíkur eða á samfélagsmiðlum.

 

Traust til Alþingis mælist í lágmarki þessa dagana og ekki hjálpa sendingar frá Brussel. Gjá hefur myndast á milli þings og en það hlýtur að vera samstaða um að brúa þessa gjá. Til þess að brúa þessa gjá hljóta þingmenn að athuga hvernig þeir geta aukið tengsl sín við þjóðina og það hefur Ásmundur svo sannarlega gert. Það vitum við sjálfstæðismenn. Ásmundur þekkir hvern krók og kima í Suðurkjördæmi og fólki þykir vænt um þá staðreynd.

 

Það hefur verið einstaklega dapurlegt að fylgjast með hvernig vegið er að mannorði Ásmundar og maður hefði nú haldi að allt fólk með einhvern vott af sómakennd myndi í það minnsta sjá að sér og biðjast afsökunar þegar forsætisnefnd Alþingis komst fyrr á árinu að þeirri niðurstöðu „að ekkert hafi komi fram sem gefi til kynna að hátterni hans [Ásmundar] hafi verið andstætt siðareglum fyrir alþingismenn“ eða þegar siðanefnd Alþingis, sem er m.a. skipuð dósent í lögfræði, komst að þeirri niðurstöðu að framganga þingkonu Pírata, braut gegn siðarreglum Alþingis með alvarlegum og ógeðfelldum hætti. Hvað þá þegar skrifstofustjóri Alþingis hefur ítrekað bent á að skrifstofa Alþingis hafi engin gögn sem benda til þess að rangt hafi verið haft við. Tvívegis hafi skrifstofan gert athugun á akstursbók Ásmundar í kjölfar umræðunnar en þar væri „ekkert að finna sem vakti grun um misferli.“ 

 

Allt þetta liggur fyrir en sómakennd „góða fólksins“ virðist því miður ekki meiri en svo að það heldur áfram að ásaka þingmanninn um eitthvað sem ekki stenst. Fréttablaðið birti sem dæmi, þann 8. júní sl., skrif þar sem fyrrnefnt álit siðanefndar Alþingis (og úrskurður Persónuverndar um að mannréttindi hafi verið fótum troðin þegar þingmenn voru hleraðir á laun) var lagt að jöfnu við fjöldamorð í Búrma.

 

Því miður eru slík mannorðsmorð ekki einsdæmi og ástæðan er einföld. Stjórnmálamenn með sjálfstæðan vilja eru orðnir að pólitískum skotspónum umrótsafla sem veigra sér ekki við að ala á höfuðsyndum Biblíunnar með lygum, útúrsnúning og dylgjum í hugmyndafræðilegu stríði sínu.

 

- Ráðið - 

eftir Pál Árdal kemur enn og aftur upp í hugann.

 

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,

þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,

en láttu það svona í veðrinu vaka,

þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

 

En biðji þig einhver að sanna þá sök,

þá segðu að til séu nægileg rök,

en náungans bresti þú helst viljir hylja,

það hljóti hver sannkristinn maður að skilja,

 

og gakktu nú svona frá manni til manns,

uns mannorð er drepið og virðingin hans,

og hann er í lyginnar helgreipar seldur,

og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur,

 

en þegar svo allir hann elta og smá,

með ánægju getur þú dregið þig frá,

og láttu þá helst eins og verja hann viljir,

þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.

 

Og segðu hann brotlegur sannlega er

en syndugir aumingja menn erum vér,

því umburðarlyndið við seka oss sæmir,

en sekt þessa vesalings faðirinn dæmir.

 

Svo leggðu með andakt að hjartanu hönd,

með hangandi munnvikum varpaðu önd,

og skotraðu augum að upphimins ranni,

sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.

 

Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,

ég held þínum vilja þú fáir náð,

og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður,

en máske að þú hafir kunnað þau áður.
 

-------


Viðar er sjálfstæðismaður og lyfjafræðingur.

Ólafur er framkvæmdasjtóri.

 

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 18. júlí 2019.Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

 

 

20.07.2019 07:29

Fjölmennasta Skötumessan

 

 

 

Fjölmennasta Skötumessan

 

 

 Um 500 manns snæddu skötu og annað góðgæti

Allur ágóði til góðgerðarmála

Styrkir á fimmtu milljón króna

 

„Þetta var ótrúlega magnað, það hafa aldrei áður mætt svona margir,“ sagði Ásmundur Friðriksson, alþingismaður og frumkvöðull Skötumessunnar í Garðinum. Fjölmennasta Skötumessan til þessa var haldin á miðvikudagskvöld í Miðgarði Gerðaskóla. Skötumessan er löngu orðin árlegur viðburður og haldin á miðvikudegi næst Þorláksmessu á sumri, sem er 20. júlí. Þetta var í fyrsta sinn sem hátíðin var haldin í sameinuðu sveitarfélagi, Suðurnesjabæ. 

 

Um 500 manns gæddu sér á skötu, saltfiski, plokkfiski og tilheyrandi meðlæti frá Skólamat. Fjölbreytt skemmtiatriði voru á dagskrá og var Sigríður Andersen alþingismaður, sem tengd er Móakoti í Garði, ræðumaður kvöldsins.

 

Á Skötumessu er „borðað til blessunar“ eins og séra Hjálmar Jónsson orðaði það. Allir gefa vinnu sína og afraksturinn rennur óskiptur til góðgerðarmála.

 

Skötumessan deildi að þessu sinni út styrkjum að upphæð á fimmtu milljón króna. Nutu bæði einstaklingar og félög góðs af. Stærsta styrkinn fékk Björgunarsveitin Suðurnes; fullkomna tölvustýrða dúkku sem notuð verður til æfinga á endurlífgun og fyrstu hjálp á vettvangi. Ýmis önnur félög og einstaklingar á Suðurnesjum styrktu kaupin á dúkkunni.Morgunblaðið föstudagurinn 19. júlí 2019.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

F.v.: Siggeir Ingólfsson og Ásmundur Friðriksson á góðri stund í

Félagsheimilinu Stað þann 22. maí 2019. 
 Skráð af Menningar-Bakki.

19.07.2019 06:47

Merkir Íslendingar - Svanborg Ingimundardóttir

 

 

Svanborg Ingimundardóttir (1913 - 1948).

 

 

Merkir Íslendingar - Svanborg Ingimundardóttir

 

 

Svanborg Ingimundardóttir, húsfreyja í Goðdal í Bjarnarfirði á Ströndum, fæddist 19. júlí 1913. Hún lést 12. desember 1948 þegar snjóflóð féll á bæinn í Goðdal.

 

Í Goðdal bjó Svanborg ásamt eiginmanni sínum, Jóhanni Kristmundssyni, og börnum þeirra, Bergþóri, Hauki, Erlu, Svanhildi og Ásdísi. Elstu börnin þrjú, Bergþór, Haukur og Erla, voru fjarverandi í skóla þegar snjóflóðið féll. Aðrir heimilismenn í Goðdal voru Jónína Jóhannsdóttir, föðursystur Jóhanns bónda, Guðrún dóttir hennar og Jónas Sæmundsson, sonur Guðrúnar.

 

Flóðið varð um sexleytið á sunnudegi þegar heimilisfólk var í eldhúsinu. Skyndilega heyrðist gríðarlegur hávaði og snjóflóð skall á bæinn og færði hann í kaf. Talið er að Svanborg, sem var 35 ára, hafi látist svo til samstundis, ásamt Jónínu sem var 75 ára og Guðrúnu, 53 ára.

 

Ekki var langt á milli Jóhanns og Jónasar í snjóflóðinu og gátu þeir lengi vel talast við og um tíma heyrðist einnig í Ásdísi litlu sem var tveggja ára, en svo þagnaði hún. Loks hætti Jóhann að heyra í Jónasi.

 

Enginn kom að bænum í Goðdal fyrr en fjórum sólarhringum eftir að flóðið féll. Jóhann bóndi fannst á lífi en hann hafði verið með meðvitund allan þann tíma sem hann lá í snjónum. Jónas fannst með lífsmarki en andaðist fljótlega. Hann var 19 ára gamall. Svanhildur, sjö ára dóttir Jóhanns og Svanborgar, náðist á lífi en lést skömmu síðar úr hjartabilun.

 

Jóhann Kristmundsson var 42 ára er slysið varð og lifði í nokkur ár eftir það. Til eru áhrifamikil viðtöl við hann og vel ritaðar frásagnir hans um harmleikinn.

 

Bergþór, sonur Svanborgar og Jóhanns, lýsti móður sinni svo:

„Hún var greind kona, hlédræg, hljóðlát og blíð. Hún var afar dugleg og iðjusöm.“ Emil Als, sem var í sveit í Goðdal árið 1938, skrifaði um þá dvöl sína í sunnudagsblað Morgunblaðsins árið 2003 og sagði: „Svanborg var þýð í framkomu og stýrði heimili sínu með festu sem hún lét ekki bera mikið á. Minningar um hana eru allar þægilegar.“
Skráð af Menningar-Bakki.

18.07.2019 05:45

Merkir Íslendingar - Eðvarð Kr. Sigurðsson

 

 

Eðvarð Kr. Sigurðsson (1910 - 1983).

 

 

Merkir Íslendingar - Eðvarð Kr. Sigurðsson

 

 

Eðvarð Kristinn Sigurðsson, alþingismaður og formaður verkamannafélagsins Dagsbrúnar, fæddist í Nýjabæ í Garði hinn 18. júlí 1910. Hann var sonur Sigurðar Eyjólfssonar sjómanns og k.h., Ingibjargar Sólveigar Jónsdóttur húsfreyju.

 

Eðvarð stundaði ýmis verkamannastörf í Reykjavík til 1944. Þá hóf hann störf hjá verkamannafélaginu Dagsbrún og starfaði þar síðan, lengst af síns starfsferils. Eðvarð sat í stjórn Dagsbrúnar frá 1942 og var formaður félagsins 1961-82. Á þeim árum var hann einn helsti málsvari íslenskrar verkalýðshreyfingar enda formaður Verkamannasambands Íslands frá stofnun þess 1964-75.

 

Eðvarð var landskjörinn alþm. 1959-71 og þingmaður Reykvíkinga fyrir Alþýðubandalagið 1971-79. Hann sat í nefnd er undirbjó lög um atvinnuleysistryggingar, sat í lífeyrissjóðanefnd og í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs.

 

Eðvarð bjó lengst af í litlum, mjög snotrum torfbæ sem stóð við Þormóðsstaðaveg á Grímsstaðaholti, rétt vestan við elstu hjónagarðana þar sem nú er gangstéttin að austanverðu við Suðurgötu. Bærinn, sem hét Litla-Brekka, var reistur árið 1918 og var ekki nema 40-50 fermetrar að gólffleti. Hann var í raun sambland af reykvískum steinbæ og torfbæ, með hlöðnum langveggjum, timburþili á göflum og torfþaki. Bærinn var rifinn í febrúar 1981 og var þá síðasti torfbærinn í Reykjavík að Árbæ frátöldum.

 

Þarna ólst Eðvarð upp og bjó þar lengi með móður sinni og systur, þar til þær önduðust, og síðan einn, þar til bærinn varð að víkja fyrir framkvæmdum við hjónagarða.

 

Eðvarð var fríður maður sýnum og virðulegur í framgöngu. Hann var prúðmennskan og hógværðin holdi klædd og barst lítt á í orðræðu, athöfn og klæðaburði. Hann naut almennt mikils álits, samherja sem pólitískra andstæðinga, enda samviskusamur í öllum sínum verkum og slyngur samningamaður.

 

Eðvarð lést 9. júlí 1983.

 

 


Skráð af Menningar-Bakki.

17.07.2019 17:28

Merkir Íslendingar - Helgi Sæmundsson

 

 

Helgi Sæmundsson (1920 - 2004).
 

 

Merkir Íslendingar - Helgi Sæmundsson

 

 

Helgi Sæmundsson fæddist í Baldurshaga á Stokkseyri 17. júlí 1920. Foreldrar hans voru Sæmundur Benediktsson, sjómaður og verkamaður þar, og k.h., Ástríður Helgadóttir húsfreyja.

 

Eiginkona Helga var Valný Bárðardóttir og eignuðust þau níu syni. Meðal þeirra eru Helgi E. Helgason, fyrrv. sjónvarpsfréttamaður, Sigurður Helgason hjá Umferðarráði og Gísli innheimtumaður.

 

Helgi stundaði nám í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja og lauk prófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík vorið 1940. Helgi var blaðamaður við Alþýðublaðið 1943-52, ritstjóri Alþýðublaðsins 1952-59 og starfsmaður Bókaútgáfu Menningarsjóðs 1959-90. Hann var auk þess ritstjóri tímaritsins Andvara 1960-72, átti sæti í úthlutunarnefnd listamannalauna 1952-78 og var oft formaður nefndarinnar, sat í menntamálaráði Íslands og var lengi formaður þess, auk þess sem hann átti fyrir Íslands hönd sæti í dómnefnd um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1961-72.

 

Meðal rita Helga má nefna:

 

Sól yfir sundum, ljóð, 1940;

Sjá þann hinn mikla flokk (undir dulnefninu Lupus) 1956;

Í minningarskyni, 1967;

Íslenskt skáldatal I-H (ásamt öðrum), 1973-76;

Sunnan í móti, ljóð 1975;

Fjallasýn, ljóð, 1977;

Tíundir, ljóð, 1979;

Kertaljósið granna, ljóð, 1981;

Vefurinn sífelldi, ljóð 1987;

Streymandi lindir, ljóð 1997.

 

Helgi var eindreginn málsvari jafnaðarstefnunnar, átti lengi sæti í stjórn SUJ og í miðstjórn Alþýðuflokksins um árabil. Hann var ágætis skáld, tróð upp í skemmtiþáttum í útvarpi, m.a. í frægum útvarpsþáttum með öðrum skáldum og hagyrðingum, s.s. Steini Steinar, og var prýðilegur bókmenntarýnir.

 

Helgi var langt í frá smáfríður og var í þokkabót áberandi málhaltur. En hann var engu að síður flugmælskur, prýðilegur penni og orðheppinn, vinsæll og skemmtilegur.

 

Helgi lést 18. febrúar 2004.Skráð af Menningar-Staður.

16.07.2019 21:22

Eyrarbakki - söguleg byggð

 

 

 

Eyrarbakki – söguleg byggð

 

 

Eyrarbakki hefur sérstöðu meðal þéttbýlisstaða á Suðurlandi. Í þorpinu er varðveitt einstök, samfelld byggð húsa, sem reist voru á árunum 1880 til 1920, eða frá blómatíma Eyrarbakka sem höfuðstaðar Suðurlands. Eyrarbakki var miðstöð verslunar og viðskipta og hin forna Einarshöfn á Eyrarbakka var aðalhöfn Suðurlands nánast frá upphafi byggðar á Íslandi og fram undir síðari heimsstyrjöld.

 

Mörg þeirra húsa, sem reist voru kringum aldamótin 1900, eru enn uppistandandi og setja sterkan svip á götumyndina á Eyrarbakka. Af u.þ.b. 260 húsum í þorpinu eru 78 byggð 1919 eða fyrr, eða tæpur þriðjungur húsa. Samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012 eru öll hús sem eru 100 ára eða eldri friðuð. Aðeins eitt hús er friðlýst – Húsið sem reist var árið 1765 og er eitt elsta varðveitta timburhús á Íslandi. Húsið er sannkölluð þjóðargersemi.

 

Fjögur þessara húsa eru í eigu opinberra aðila – Húsið, Eyrarbakkakirkja, elsti hluti barnaskólans og elsti hluti fangelsisins á Litla-Hrauni. Önnur friðuð hús eru í eigu einstaklinga. Á undanförnum 40 árum hefur verið lyft grettistaki í varðveislu gömlu byggðarinnar á Eyrarbakka og flest friðuðu húsanna hafa fengið gott viðhald og endurbætur í anda húsverndar. Þannig hefur þessum mikilvæga menningararfi verið bjargað og varðveisla hans tryggð áfram.

 

Eigendur hafa margir hverjir fengið styrki úr húsafriðunarsjóði. Sjóðurinn var stofnaður með lögum árið 1975, en hlutverk er hans er „að stuðla að varðveislu og viðhaldi friðlýstra og friðaðra húsa og mannvirkja og veitir sjóðurinn styrki til viðhalds og endurbóta á friðlýstum og friðuðum húsum og mannvirkjum.“

 

Fyrsti styrkurinn úr húsafriðunarsjóði til endurbóta á húsi á Eyrarbakka var veittur árið 1979 og á þeim 40 árum sem liðin eru hafa 48 hús hlotið styrki úr sjóðnum, sum oftar en einu sinni. Alls hafa 135 styrkir verið veittir til verkefna á Eyrarbakka. Á verðlagi hvers árs er heildarfjárhæð styrkja 68,3 m.kr. en framreiknað m.v. byggingarvísitölu um 123 m.kr. Ljóst er að kostnaður húseigenda er margföld framangreind fjárhæð, en fjöldi styrkja sýnir hve hátt gamla byggðin á Eyrarbakka er metin með tilliti til húsverndar og varðveislu menningarminja. Rétt er geta þess að löngum hefur húsafriðunarsjóður verið fjárvana og framlög hins opinbera til sjóðsins í engu samræmi við þann mikla kostnað, sem fylgir varðveislu og viðhaldi friðlýstra og friðaðra húsa. Styrkir eru því í langflestum tilvikum aðeins lítið brot af framkvæmdakostnaði, og flestir aðeins táknræn viðurkenning.

 

Ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, sem um Eyrarbakka fara ljúka allir lofsorði á hve vel hefur tekist til við að varðveita og viðhalda hinni gömlu byggð, þótt auðvitað hafi í tímans rás verið höggvin skörð í heildarmyndina með ýmsum hætti.

 

Árið 2015 samþykkti Alþingi lög um verndarsvæði í byggð. Markmið laganna er „að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi og gilda lögin um byggð innan þéttbýlis og byggðarkjarna utan þéttbýlis sem ástæða er til að varðveita vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis.“ Það er sá ráðherra sem fer með málefni menningarminja sem tekur ákvörðun um vernd byggðar, skv. lögunum, að fenginni tillögu sveitarstjórnar eða Minjastofnunar Íslands.

 

Í leiðbeiningabæklingi Minjastofnunar Íslands segir m.a.: „Menningarsöguleg byggð hefur mikið gildi fyrir sveitarfélag og íbúa þess. Reynsla í nágrannalöndum sýnir að verndarsvæði í borgum og bæjum stuðla að því að auka vitund um þau verðmæti sem falin eru í eldri byggð, sögulegum byggingum og umhverfi þeirra. Markmið þess að gera byggð að verndarsvæði er að vernda menningarsöguleg og listræn verðmæti, bæta umhverfið og auka aðdráttarafl hverfa og bæjarhluta. Sögulegt umhverfi hefur mikið félagslegt og efnahagslegt gildi fyrir sveitarfélög og eykur lífsgæði íbúanna. Verndarsvæði í byggð verður iðulega eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og þar skapast ný atvinnutækifæri.“

 

Á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Árborgar í mars 2016 var að frumkvæði tveggja einstaklinga á Eyrarbakka ákveðið að fela framkvæmdastjóra sveitarfélagsins að vinna að því, að stór hluti þéttbýlisins á Eyrarbakka yrði afmarkaður sem sérstakt verndarsvæði, samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015.

 

Fjallað verður um verkefnið Eyrarbakki – verndarsvæði í byggð í næstu viku.

 

Magnús Karel Hannesson, íbúi á Eyrarbakka.

 

 Magnús Karel Hannesson.
 

 

Dagskráin 10. júlí 2019.Skráð af Menningar-Bakki.

16.07.2019 06:40

Merkir Íslendingar - Hafliði Magnússon

 

 

Hafliði Magnússon (1935 - 2011) við fossinn Dynjanda í Arnarfirði

sumarið 2009. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Merkir Íslendingar - Hafliði Magnússon

 

 

Hafliði Þórður Magnússon, listamaður frá Bíldudal, var fæddur þann 16. júlí 1935 og í dag eru því 84 ár frá fæðingun hans. Hafliði lést þann 25. júní 2011  á heimili sínu á Selfossi.
 

 

Hafliði var fæddur í Hergilsey á Breiðafirði. Hann fluttist þaðan 6 ára í Arnarfjörð þar sem fjölskyldan bjó á ýmsum stöðum en lengst af bjó hann á Bíldudal. Hann bjó einnig um tíma í Reykjavík.


 

Hafliði starfaði m.a. sem sjómaður og þá mest á síðutogurum, við fiskvinnslu og einnig kenndi hann sjóvinnu. Þá vann hann við uppbyggingu Mjólkárvirkjunar og endurgerð fæðingarbæjar Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð.


 

Frá árinu 1998 bjó Hafliði síðan á Selfossi ásamt sambýliskonu sinni Evu Þórarinsdóttur frá Suðureyri við Súgandafjörð. Á Selfossi vann hann ýmis störf, síðast hjá SG við trésmíðar þar sem hann lauk hefðbundinni starfsævi árið 2002.


 

En Hafliði Magnússon var fyrst og fremst rithöfundur, ljóðskáld, söngleikjahöfundur og málari. Þá lagði hann mikla rækt við sagnaþætti af ýmsum toga og flest í því tengdist Bíldudal og Arnarfirði. Hann var svo sannarlega margþættur listamaður og þeim störfum helgaði hann sig alfarið eftir að hann hætti störfum hjá SG.

 

 


Hafliði Magnússon á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.Skráð af Menningar-Bakki.

14.07.2019 14:26

Hjón stýrðu Litla-Hrauni

 

Mynd frá Björn Ingi Bjarnason.

F.v.: Vigfús Dan Sigurðsson, Jóhann Páll Helgason og Harpa Rut Heiðarsdóttir.

 

 

Hjón stýrðu Litla-Hrauni
 Í fyrsta sinn í 90 ára sögu Litla-Hrauns gerðist það í gær, laugardaginn 13. júlí 2019, að að hjón voru aðstoðar-varðstjórar á sömu vaktinni.

 

Þetta voru Harpa Rut Heiðarsdóttir, sem var aðstoðar-varðstjóri í Húsi- 3 og Vgfús Dan Sigurðsson, sem var aðstoðar-varðstjóri í Húsi-4.

 

Varðstjóri var Jóhann Páll Helgason.

 

Þau voru öll færð til myndar og flutt var hátíðarljóð:


Nú húsum ráða hjóna-par
á Hrauni aldrei áður.
Fagmennska á fullu þar
og feriltoppur dáður.Mynd frá Björn Ingi Bjarnason.

Vigfús Dan Sigurðsson og Harpa Rut Heiðarsdóttir.
Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

13.07.2019 20:28

Merkir Íslendingar - Karvel Pálmason

 

 

 

Karvel Pálmason (1936 - 2011)

 

 

Merkir Íslendingar - Karvel Pálmason

 

 

Karvel Pálma­son (Karvel Stein­dór Ingimar) fædd­ist í Bol­ung­ar­vík 13. júlí 1936.

For­eldr­ar hans voru Pálmi Árni Karvels­son sjó­maður þar í bæ og Jón­ína Eggertína Jó­els­dótt­ir ráðskona.

 

Karvel stundaði fjöl­breytt störf í Bol­ung­ar­vík á ár­un­um 1950-1971.

 

Hann var kjör­inn á Alþingi árið 1971 fyr­ir Frjáls­lynda vinstri­menn í Vestfjarðakjördæmi ásamt Hannibal Valdimarssyni. Karvel sat á þingi til árs­ins 1991. Hann var formaður þing­flokks Sam­taka frjáls­lyndra og vinstri manna á ár­un­um 1974-1978.

 

Karvel var formaður Verka­lýðs- og sjó­manna­fé­lags Bol­ung­ar­vík­ur um ára­bil, vara­for­seti Alþýðusam­bands Vest­fjarða, sat í miðstjórn Alþýðusam­bands Íslands og var um tíma vara­formaður Verka­manna­sam­bands Íslands. Karvel sat í hrepps­nefnd Hóls­hrepps á ár­un­um 1962-1970, í Rann­sókn­aráði rík­is­ins árin 1971-1978 og í stjórn Fiski­mála­sjóðs frá 1972-1989. Hann átti sæti í stjórn Byggðastofn­un­ar á ár­un­um 1991-1995 og sat í flugráði um tíma.

 

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Karvels er Martha Krist­ín Svein­björns­dótt­ir. Þau eignuðust fjög­ur börn.

 

Karvel lést 23. fe­brú­ar 2011.

 

 

Morgunblaðið laugardagurinn 13. júlí 2019.


Mynd frá Björn Ingi Bjarnason.

 

Karvel Pálmason syngur hér með Hljómsveitinni ÆFINGU

í Vagninum á Flateyri á sjómannadeginum árið 1991.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

13.07.2019 06:46

Merkir Íslendingar - Hákon Bjarnason

 

 

Hákon Bjarnason (1907 - 1989).

 

 

Merkir Íslendingar - Hákon Bjarnason

 

 

Hákon fæddist í Reykjavík 13. júlí  1907, sonur dr. Ágústs H. Bjarnason, heimspekings, prófessors og háskólarektors, og k.h. Sigríðar Jónsdóttur, kennari við Kvennaskólann.
 

Ágúst var sonur Hákonar Bjarnasonar, kaupmanns á Bíldudal, og k.h., Jóhönnu Kristínar Þorleifsdóttur, en Sigríður var dóttir Jóns Ólafssonar, ritstjóra og alþingismanns, og Helgu Eiríksdóttur húsfreyju. Hálfbróðir Jóns, samfeðra, var Páll Ólafsson skáld.
 

Hákon var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Guðrún Magnúsdóttir og eignuðust þau eina dóttur, Ingu deildarstjóra. Þau slitu samvistum.
 

Síðari kona hans var Guðrún Bjarnason og eignuðust þau fjögur börn: Laufeyju kennara; Ágúst grasafræðing; Björgu flugfreyju og Jón Hákon, skógtæknifræðing og skrúðgarðyrkjumeistara.
 

Hákon lauk stúdentsprófi frá MR 1926, prófi í skógrækt frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1932, og stundaði framhaldsnám í Englandi og í Stokkhólmi.
 

Að námi loknu varð hann framkvæmdastjórn Skógræktarfélags Íslands og var skipaður skógræktarstjóri ríkisins 1935.

Enginn einn maður hefur unnið íslenskri skógrækt jafn mikið og Hákon. Hann gegndi æðstu embættum er lúta að skógrækt hér á landi allan sinn starfsferil til 1977. Skógræktarhugsjónin átti oft undir högg að sækja og harða andstæðinga hér á landi, ekki síst meðal málsvara hefðbundins landbúnaðar. Þá kom oftast til kasta Hákonar að verja hugsjón sína. Hann var fyrsti hámenntaði skógræktarsinninn, vissi og benti á að Ísland væri í barrskógabeltinu og fann plöntur í Kanada og Alaska, s.s. ösp, lúpínu og sitkagreni sem hafa þrifist mjög vel við íslenskar aðstæður.
 

Hákon var skapmikill og stjórnsamur baráttumaður. En það var fyrst og fremst þekking hans og vísindaleg vinnubrögð sem urðu til þess að hugsjón hans varð á endanum ofan á.
 

Hákon lést 16. apríl 1989.
 Skráð af Menningar-Bakki.