Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

28.10.2019 06:40

Þögla barnið er sjálfstætt framhald Eitraða barnsins

 

 

 

 

-Þögla barnið- 

 

er sjálfstætt framhald

 

-Eitraða barnsins-

 

 

Guðmundur Brynjólfsson, rithöfundur á Eyrarbakka, sendir frá nú sér sakamálasöguna Þögla barnið sem er sjálfstætt framhald Eitraða barnsins sem út kom í fyrra og hlaut afbragðs móttökur lesenda og gagnrýnenda.

 

Laust fyrir aldamótin 1900 er maður drepinn á Vatnsleysuströnd. Líkið er hræðilega útleikið. En þótt Strandaringar láti sem þeir viti allt um morð þetta er enginn handtekinn. Engar sannanir liggja fyrir en heimamönnum stendur á sama.
Yfirvöld úti í kóngsins Kaupmannahöfn heimta rannsókn.

 

Eyjólfur Jónsson, sýslumaður Árnesinga, og rannsóknardómari í þessu einstaka máli fær inni í Landakoti á Vatnsleysuströnd og hefur eiginkonu sína, valkyrjuna Önnu Bjarnadóttur, með sér til halds og trausts. Smám saman fara þeim hjónum að birtast þegjandalegir draugar þessarar harðbalalegu sveitar þar sem menn eru drepnir, ekki bara einu sinni heldur jafnvel oft.

 

Saga Eyjólfs sýslumanns fléttast saman við atburði í Lundúnum þar sem sýsluskrifarinn Kár Ketilsson þvælist um og lætur ekkert gott af sér leiða. Yfir um og allt um kring er óslökkvandi brennivínsþorsti, breyskleiki fátækra manna og ást á réttlæti smælingjanna.Skráð af Menningar-Bakki.

27.10.2019 10:52

Merkir Íslendingar - Geir Vídalín

 


Aðalstræti 10 í Reykjavík.

Geir bjó í hús­inu frá 1807 til dauðadags.

Morg­un­blaðið/?Krist­inn Magnús­son

 

 

Merkir Íslendingar - Geir Vídalín

 

 

Geir Vídalín, fyrsti bisk­up­inn yfir öllu Íslandi síðan í ár­daga, fædd­ist 27. októ­ber 1761.

For­eldr­ar hans voru hjón­in Jón Vídalín, prest­ur í Lauf­ási, og Sig­ríður Magnús­dótt­ir, syst­ir Skúla fógeta.

 

Geir lauk prófi frá Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla 1789 og varð dóm­kirkjuprest­ur í Reykja­vík 1791 og bjó á Lamba­stöðum á Seltjarn­ar­nesi, sem þá var prests­set­ur Reyk­vík­inga. Hann flutti í Aðalstræti 10 árið 1807 og bjó þar til dauðadags.

 

Skúli var vígður Skál­holts­bisk­up 1797, en sat áfram á Lamba­stöðum enda stóð til að flytja bisk­ups­dæmið til Reykja­vík­ur. Þegar það dróst að skipa eft­ir­mann Hóla­bisk­ups sem lést 1798 var ákveðið að sam­eina bisk­ups­dæm­in og varð Geir því bisk­up yfir öllu Íslandi 1801. Allt frá því að Hóla­stóll var stofnaður 1106 höfðu verið tveir bisk­up­ar í land­inu.

 

Geir var prýðilega vel gef­inn, orðhepp­inn og hag­mælt­ur, frjáls­lynd­ur í trú­ar­efn­um og allra manna ör­lát­ast­ur. Hann sást ekki fyr­ir í greiðasemi sinni og varð gjaldþrota, svo að skipuð var nefnd sem sá um fjár­mál hans.

 

Eig­in­kona Geirs var Sig­ríður Hall­dórs­dótt­ir. Þau eignuðust fjóra syni en aðeins einn þeirra komst upp.

 

Geir Vídalín lést 20. september 1823.
 Morgunblaðið.

 


Skráð af Menningar-Bakki.

27.10.2019 09:06

Afmælistónleikar í Tré og list

 


Séra Gunnar Björnsson og sitjandi er Haukur Guðlaugsson.

 

 

Afmælistónleikar í Tré og list

 

 

Í glæsilegri orgelstofu gallerísins Tré og list í Flóahreppi fóru fram 75 ára afmælistónleikar sr. Gunnars Björnssonar.

Tónleikarnir voru á afmælisdegi Gunnars, þriðjudaginn 15. október 2019. Þar lék Gunnar ýmis klassísk verk á celló við undirleik Hauks Guðlaugssonar fyrrverandi söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og Agnes Löve. Tónleikarnir þóttu heppnast með ágætum. Agnesi Löve þekkja Rangæingar vel en hún var stundakennari við Tónlistarskóla Rangæinga 1988-1992 og skólastjóri við sama skóla 1992-99.

 

Haukur leikur enn af fingrum fram

 

Haukur Guðlaugsson er Sunnlendingur í húð og hár en hann er sonur Guðlaugs Pálssonar eða Lauga í Laugabúð á Eyrarbakka.

Það virðist ganga í ættir að vera ern og hress langt fram eftir aldri en eins og kunnugt er rak Guðlaugur verslun sína í 76 ár, frá desember 1917 fram í desember 1993, þar til hann lést 98 ára að aldri.  Haukur lék undir á fyrri hluta tónleikanna og mat þeirra sem á hlýddu að hann hefði engu gleymt. Haukur hefur víða komið við í tónlistinni á löngum ferli en hann var söngmálastjóri þjóðkirkjunnar um árabil og fyrrverandi skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar.

 Skráð af Menningar-Bakki.

27.10.2019 08:58

Líf mitt hefur verið samofið bókum

 


Inga Lára Baldvinsdóttir.
 

 

Líf mitt hefur verið samofið bókum

 

Inga Lára Baldvinsdóttir hefur búið á Eyrarbakka frá 1982 og látið sig hag og veg þorpsins varða. Ljósmyndir urðu hennar helsta viðfang en hún hefur sýslað með þær lengi á Þjóðminjasafni Íslands.

 

 Hvaða bók ertu að lesa núna?

Bækur berast til manns úr ýmsum áttum. Sumum frétti ég af í blöðum, því ég les blöð mikið. Sumir vilja meina að það sé mitt helsta tómstundagaman. Stundum gaukar einhver að mér bók sem viðkomandi hefur hrifist af af einhverjum ástæðum. Það á við um bókina sem ég er að lesa núna Why We Sleep heitir hún og er eftir Matthew Walker. Ég er í eins konar tveggja kvenna bókaklúbbi með samstarfskonu minni og hún hefur annan og breiðari bókaáhuga en ég með fræðilegra og samfélagslegra efni. Það er stundum áskorun að lesa það sem hún mælir með og ég hefði ekki lesið þær bækur annars. Efni bókarinnar er vekjandi. Eins og um sumt af því mikilvægasta í heiminum þá hefur vitneskjan um svefninn og gildi hans verið takmörkuð. Þýðing hans fyrir alla þætti heilsu fólks er að verða lýðum ljósari.

 

Hvers konar bækur höfða til þín?

Ætli skáldsögur hafi ekki vinninginn þegar ég vel bækur til lestrar. Ég hef samt ekki þanþol í mjög langar skáldsögur. En ég les frekar fjölbreytt efni. Ljóð, sagnfræði og hitt og þetta. Þar kemur sú mikla menningarstofnun bókasafnið á Selfossi sterkt inn. Ég vel oft eitthvað sem er nýlega skráð í safnið. Vegna vinnu í Reykjavík hefur Selfossdeild bókasafns Árborgar frekar orðið fyrir valinu í seinni tíð en deildin á Eyrarbakka, þar sem ég bý, vegna rýmri opnunartíma. Áskrift af bókaklúbbi Angustúru færir svo skáldskap frá öllum heiminum heim að dyrum.

 

Hvernig var lestraruppeldi þínu háttað?

Líf mitt hefur verið samofið bókum. Gæti ekki hugsað mér það án þeirra. Þær hafa stækkað heiminn og víkkað sjóndeildarhringinn auk þess að fræða og næra. Í ritgerð sem ég skrifaði 11 ára gömul lýsti ég framtíðarheimili mínu svona: „Um alla veggi eiga að vera bókahillur.“ Það hefur ekki allt ræst sem þar var skrifað en þetta hefur ræst. Mamma las fyrir okkur systkinin. Lét sig heldur ekki muna um að snara bókum um leið og hún las ef þær voru á öðrum tungumálum. Við fengum bækur á jólunum. Norrænu barnabókahöfundarnir voru þar mikilvægir, bæði Astrid Lindgren með sinn Ólátagarð og Ólátagötu, en ekki síður Anne Cath. Vestly með Óla Alexander8 börn og ömmu þeirra í skóginum og fleira. Seinna kom svo Tove Janson með múmínálfana þó að Gunna systir mín sem er yngri hafi kynnst þeim betur. Síðan var það eins og hjá minni kynslóð að öll framleiðslan frá Enid Blyton var lesin. Sorglegar bækur höfðuðu sérstaklega til mín eins og Bláskjár.

 

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Lesturinn kemur í skorpum. Ég skrifa niður nöfn höfunda og bóka sem ég les og hef gert í nokkur ár. Gef stundum stjörnur eða skrifa eitthvað örlítið um hvað mér fannst um bókina. Það hefur komið sér vel til að rifja upp nöfn höfunda og lesefnið. Það hefur dregið úr sjónvarpsáhorfi hjá mér og bóklestur komið í staðinn. Les orðið sjaldan í rúmi nema kannski ljóð. Opna þá bók af hendingu og les eitt ljóð fyrir svefninn. Síðan á ég samfélag með konum á Eyrarbakka um bóklestur með meiru.

 

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Það eru nokkrir höfundar sem ég fylgist með. Líklega eru þeir þá í uppáhaldi. Anne Enright er írsk, Ali Smith frá skosku eyjunum, Elisabeth Strout frá Main í Ameríku. Allt kvenrithöfundar. Ég reyni að lesa öðru hvoru bækur á ensku og dönsku til að reyna að halda við færni í þeim málum. Sú bók sem snerti mig mest fyrir síðustu jól af íslenskum bókum var bók Ragnars Helga Ólafssonar Bókasafn föður míns. Uppgjör um stöðu bókarinnar hjá bókaþjóðinni, en jafnframt mikið meira en það.

 

Hefur bók rænt þig svefni?

Ef ég er tendruð af bók virkar það þannig að ég byrja að lesa um leið og ég vakna. Bækur ræna mig ekki lengur svefni. 

 

En að lokum Inga, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Mig skortir skáldlega taug þannig að það yrði að vera miðlun á einhvers konar fróðleik.
 Skráð af Menningar-Bakki.

27.10.2019 08:28

Umsóknir um dvöl í íbúð fræðimanns í Kaupmannahöfn 2020

 


Jónshús í Kaupmannahöfn.
 

 

Umsóknir um dvöl í íbúð

 

fræðimanns í Kaupmannahöfn 2020

 

 

Íbúð fræðimanns í Kaupmannahöfn, samkvæmt reglum um hús Jóns Sigurðssonar, er laus til afnota árið 2020. Umsóknir um íbúðina skulu hafa borist skrifstofu Alþingis eigi síðar en þriðjudaginn 29. október 2019. Nánari upplýsingar er að finna á vef Jónshúss.

 

Fræðimenn, sem hyggjast stunda rannsóknir eða vinna að verkefnum í Kaupmannahöfn, geta sótt um afnot af íbúðinni, sem er á 4. hæð Jónshúss. Íbúðin er tveggja herbergja og fylgir henni allur nauðsynlegasti heimilisbúnaður. Afnotin eru endurgjaldslaus en þeim sem fá úthlutað ber þó að greiða fyrir þrif íbúðarinnar og rekstrarkostnað, alls kr. 60.000.

 

Dvalartími í íbúðinni fer eftir umfangi verkefnis og öðrum atvikum en er þó venjulega ekki lengri en tveir mánuðir. Úthlutunarnefnd ætlast til að dvalargestir nýti úthlutaðan tíma sinn að fullu við störf í Kaupmannahöfn.

 

Við úthlutun íbúðarinnar er höfð hliðsjón af eftirfarandi atriðum:

  1. Að verkefnið hafi fræðilegt eða hagnýtt gildi og þyki áhugavert.
  2. Að umsókn sé vandlega unnin.
  3. Að sem eðlilegust skipting sé milli kynja og fræðigreina.
  4. Að verkefnið verði ekki unnið annars staðar en í Kaupmannahöfn eða nágrenni.

 

Þeir sem eru í námi, þar á meðal doktorsnámi, eiga að jafnaði litla möguleika á úthlutun. Þá er höfð hliðsjón af því hvort sótt er um dvöl í fyrsta skipti en þegar umsækjendur eru jafnsettir skulu þeir ganga fyrir sem sækja um dvöl í fyrsta skipti.

 

Úthlutunarnefnd ráðgerir að ljúka störfum í nóvember.

 

Umsóknir um íbúðina skulu vera á sérstöku eyðublaði sem nálgast má á vef Jónshúss og merkist:

Umsókn um fræðimannsíbúð
b.t. Jörundur Kristjánsson
Skrifstofu Alþingis
101 Reykjavík.
Skráð af Menningar-Bakki.

26.10.2019 08:39

26. október 1995 - Snjóflóð féll á Flateyri

 

 

Flateyri nokkrum árum fyir snjóflóðið.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 - 26. október 1995 - Snjóflóð féll á Flateyri

 

Tuttugu manns fórust þegar snjóflóð féll úr Skollahvilft á byggðina á Flateyri við Önundarfjörð kl. 4.07 að nóttu þann 26. október 1995.Strax eftir að flóðið féll tókst að bjarga sex mönnum á lífi og fjórum um hádegi. Hundruð manna tóku þátt í leit og björgun, en erfitt var að komast á staðinn vegna veðurs. „Mannskæðustu náttúruhamfarir á landinu í manna minnum,“ sagði Tíminn.Skráð af Menningar-Bakki.

26.10.2019 08:34

26. október 2019 - Fyrsti vetrardagur

 


Fjallasýn séð fram Haukadal í Dýrafirði við sumarlok 2017.  Ljósm.: Davíð Davíðsson.

 

 

 -26. október 2019 – Fyrsti vetrardagur

 

 

Fyrsti vetrardagur er laugardagurinn að lokinni 26. viku sumars (eða 27. viku sumars sé um sumarauka að ræða).

 

Hann er fyrsti dagur fyrsta vetrarmánaðarins Gormánaðar, í gamla norræna tímatalinu.

 

Fyrsta vetrardag ber upp á 21.-27. október, nema í rímspillisárum, þá 28. október.

 

 Í gamla stíl var vetrarkoman 10.-17. október ef miðað er við föstudag.Skráð af Menningar-Bakki

25.10.2019 21:22

25. október 1852 - Barnaskólinn á Eyrarbakka var settur í fyrsta sinn

 

 

 

 

25. október 1852 -

 

Barnaskólinn á Eyrarbakka var settur í fyrsta sinn

 

 

Þann 25. október árið 1852 var  Barnaskólinn á Eyrarbakka var settur í fyrsta sinn.

 

Hann er elsti barnaskólinn sem enn er starfræktur. 
 


 


Skráð af Menningar-Bakki

22.10.2019 20:42

Heiðursstund Geira á Stað 14. okt. 2019

 


F.v. Elín Birna Bjarnfinnsdóttir, Ólafur Ragnarsson Ingólfur Hjálmarsson

og Siggeir Ingólfsson.
Heiðursstund Geira

 

   - á Stað 14. okt. 2019 -

 

 

Vinir alþýðunnar í Eyraþorpum  og Hrútavinir héldu kveðjuhóf fyrir Siggeir Ingólfsson f.v. staðarhaldara í Samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka þann 14. október 2019. Þar hafa þessir aðilar undir forystu Geira haldið marga veisluna á þeim 7 árum sem hann rak Stað. Nú var boðið upp á svið og að venju lögðu margir í púkkið en sviðin komu frá Magnúsi Greirssyni á Fornusöndum.

 

Að venju var bókahappadrætti og nú bækur brá Bókaútgáfunni Sæmundi á Selfossi. Margar ræður voru  fluttar og Siggeir mærður í bak og fyrir og fékk hann gjafabréf frá Hótel Selfossi með mat og gistingu sem kveðjugjöf Vina alþýðunnar sem voru um 50 talsins á þessari hátíð.

 

Nýir aðilar þau; Elín Birna Bjarnfinnsdóttir og Ingólfur Hjálmarsson tóku við rekstri að Stað í sumar og er sami kraftur þar og fyrr enda mikið að gerast í mannlífi og fögnuðum á Stað.Siggeir Ingólfsson, yfirstrandvörður Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi, er fluttur í Stykkishólm og mun þar sinna sérverkefnum Hrútavinafélagsins á nýjum stað enda hefur hann verið mjög virkur félagi í 20 ára farsælli sögu þess félags.Forseti Hrútavinafélagsins Örvars, Björn Ingi Bjarnason, skipaði Siggeir Ingólfsson sem yfir-eyjavörð Breiðafjarðareyja og Siggeir skipaði síðan Ingólf Hjálmarsson sem sinn eftirmann sem yfir-strandvörður á Suðurlandi.Samkoman var færð til myndar og er myndaalbúm á þessari slóð:

http://menningarstadur.123.is/photoalbums/292429/


Nokkrar myndir:

 

 

F.v.: Ásmundur Friðriksson og Siggeir Ingólfsson.

 

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

21.10.2019 06:51

Merkir Íslendingar - Sigurjón Ólafsson

 Sigurjón Ólafsson (1908 - 1982).
 

 

 

Merkir Íslendingar - Sigurjón Ólafsson 

 

 

Sigurjón Ólafsson myndhöggvari fæddist á Eyrarbakka 21. október 1908,

sonur Ólafs J. Árnasonar, verkamanns í Einarshöfn á Eyrarbakka, og Guðrúnar Gísladóttur. Hann var bróðir Guðna apótekara í Reykjavík og Gísla bakarameistara, föður Erlings leikara, föður Benedikts, leikara, leikstjóra og leikritahöfundar.

 

Fyrri kona Sigurjóns var Tove Ólafsson myndhöggvari en seinni og eftirlifandi kona hans er Inga Birgitta Spur sem hafði veg og vanda af listasafni hans í Laugarnesinu.

 

Sigurjón lauk sveinsprófi í málaraiðn frá Iðnskólanum í Reykjavík 1927, stundaði nám hjá Ásgrími Jónssyni listmálara og síðar Einari Jónssyni myndhöggvara, nám í höggmyndalist hjá prófessor E. Utzon-Frank við Listaháskólann í Kaupmannahöfn 1928-35 og dvaldi við nám í Róm. Hann var búsettur í Kaupmannahöfn 1928-46 en síðan á Laugarnestanga við Reykjavík.

 

Sigurjón var í hópi brautryðjenda abstraktlistar á Íslandi og er meðal virtustu myndhöggvara þjóðarinnar. Standmyndir og veggskreytingar eftir hann má víða sjá í Reykjavík, s.s. líkön af Friðriki Friðrikssyni, Héðni Valdimarssyni og Ólafi Thors. Þá gerði hann brjóstmyndir af séra Bjarna Jónssyni dómkirkjupresti og Tómasi Guðmundssyni skáldi. Af öðrum verkum hans sem prýða höfuðborgina má nefna Klyfjahest sem fyrst var fyrir ofan Hlemm og síðar milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar; Öndvegissúlurnar sem settar voru upp við Höfða, og minnismerki um stofnun lýðveldis á Íslandi 1944 sem sett var upp við Hagatorg, að ógleymdri veggmynd á stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar. Hann gerði auk þess um tvö hundruð mannamyndir af ýmsum þekktum Íslendingum.

 

Sigurjón var sæmdur heiðurspeningi úr gulli af Listaháskólanum í Kaupmannahöfn og sæmdur hinum virta heiðurspeningi Eckersbergs. Verk hans er að finna á virtum listasöfnum víða um heim.

 

Sigurjón lést 20. desember 1982 og hvílir í kirkjugarðinum á Eyrarbakka.

 

 

Er 100 ár voru frá fæðingu Sigurjón Ólafssonar þann 21. október 2008 stóð Hrútavinafélagið Örvar, Litla-Hraun og Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrir blysför að listaverkinu Kríjunni austan við Eyrarbakka.

 

Myndaalbúm frá blysförinnu: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/245975/

 Skráð af Menningar-Bakki.