Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.12.2019 17:40

Nýju lífi blásið í list Sigurjóns í Danmörku

 
Yfirlitssýningin Mangfoldige former eða Fjölbreytt form með verkum  Eyrbekkingsins Sigurjóns Ólafssonar  sem opnuð var í Listasafninu í Tønder í Danmörku nú um miðjan september hlýtur fimm stjörnur af sex mögulegum hjá Lars Svanholm, myndlistarrýni danska dagblaðsins Jyllands-Posten.

 

Svanholm segir um yfirgripsmikla sýningu að ræða sem blási nýju lífi í list listamanns sem fallið hafi í gleymskunnar dá í Danmörku. Rifjar hann upp að Sigurjón hafi búið, lært og starfað í Danmörku í 17 ár eða þar til hann fluttist alfarinn heim til Íslands 1945. Á Danmerkurárunum hafi Sigurjón starfað náið með listamönnum Cobra-hreyfingarinnar og listhópnum Linien. „Meðan hann starfaði í Danmörku var oft horft framhjá íslenskum bakgrunni hans. Þegar hann eftir seinna stríð flutti heim til Íslands virðist hann hafa verið sniðgenginn í dönsku listasögunni sem kom dönskum kollegum hans til góða,“ skrifar Svanholm í dómi sínum.

 

Bendir hann á að Sigurjón hafi haft fjölbreytni að leiðarljósi jafnt í efnisvali sem og mótífum. Svanholm hrósar Listasafninu í Tønder fyrir að beina kastljósi sínu að list Sigurjóns og tekur fram að sýningin gagntaki auðveldlega áhorfendur. Hrósar hann einnig 210 blaðsíðna sýningarskránni sem gefin var út samhliða sýningunni, þar sem hún veiti mikilvægar upplýsingar um listamanninn og list hans.

 

Sýningin stendur til 1. mars 2020.


Morgunblaðið mánudagurinn 2. desember 2019Dásemdin er degi hvers
Davíðs góði Moggi.
Læði hér í ljóða vers
listar væna bloggi.

 

 

 
 

Skráð af Menningar-Bakki.