Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Maí

09.05.2013 05:48

Harmónikufélag Selfoss með útgáfutónleika vegna nýs geisladisks

Nýlega er kominn út geisladiskur frá Harmónikufélagi Selfoss. Diskurinn heitir "Vangaveltur",  eftir samnefndu lagi Þorsteins Guðmundssonar (Steina Spil). Á diskinum er mjög fjölbreytt efni, íslenskt og erlent, flutt af hljómsveit félagsins og nokkrum einleikurum.  Útsetningar velflestra laganna á diskinum gerði Helgi E. Kristjánsson, sem einnig annaðist upptökur, hljóðblöndun og frágang disksins.  

Diskurinn er til sölu hjá harmónikufélagsmönnum. Í forsvari eru: Guðmundur Ægir Theodórsson - sími 862 7594. Þórður Þorsteinsson (Doddi) - sími 894 1286.

Í tilefni af útkomu disksins verða haldnir tónleikar í Tryggvaskála á Selfossi fimmtudaginn 9. maí kl. 20:30.

Ókeypis verður inn á tónleikana og diskurinn verður til sölu þar.

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

08.05.2013 21:43

Hljómsveitin Æfing frá Flateyri með glænýja plötu

Hljómsveitin Æfing í Vagninum á Flateyri 30. maí 2009  F.v.: Haldór Gunnar Pálsson, Siggi Björns, Önundur Hafseinn Pálsson, Árni Benediktsson, Ásbjörn Björgvinsson og Jón Ingiberg Guðmundsson.

 

Bændablaðið greinir frá:

Hljómsveitin Æfing frá Flateyri með glænýja plötu

– fyrstu 45 árin rakin í texta og lögum sem flest eru eftir Sigga Björns

Hljómsveitin Æfing á Flateyri heldur um þessar mundir upp á 45 ára afmæli sitt, en hún var stofnuð árið 1968. Er haldið upp á afmælið með miklum stæl og útgáfu á 16 laga hljómplötu. Flest lög og textar á plötunni eru eftir Sigga Björns en platan er tileinkuð Danna (Kristjáni Jóhannessyni), Sollu (Sólveigu Kjartansdóttur) og Söru Vilbergs.

 

Frá upphafi hafa einungis 13 strákar hlotið þann heiður að fá að spila með hljómsveitinni og hafa hvorki Mick Jagger né John heitinn Lennon komið þar til álita. Þó er ekki talið með öllu útilokað að Mick Jagger hafi verið að þreifa fyrir sér með inngöngu í hljómsveitina þegar hann heimsótti Ísafjörð fyrir nokkrum árum. Honum varð þó ekki kápan úr því klæðinu, enda varla í þeim klassa að sleppa þar inn fyrir dyr. Þó að hljómsveit Jaggers, Rolling Stones, sé farin að láta á sjá og komin til ára sinna á Æfing enn framtíðina fyrir sér þótt orðin sé 45 ára. Hljómsveitin hefur aldrei hætt en bara fengið sér kríu við og við á milli uppákoma Önfirðingafélagsins, eins og segir í plötuumslagi.

 

Í dag er hljómsveitin skipuð þeim Árna Benediktssyni, semer jafnframt einn af stofnendum sveitarinnar, Sigga Björns, Jóni Ingiberg Guðmundssyni, Ásbirni Þ. Björgvinssyni og Halldóri Gunnari Pálssyni Fjallabróður.

 

Í inngangi sem Siggi Björns ritar í veglegt umslag plötunnar segir m.a. að hann hafi fyrst komið inn í Æfingu á páskaballi á Flateyri árið 1971, fyrir náð og miskunn eldri bróður síns Ingólfs sem þar var fyrir í bandinu. Tilurð hljómsveitarinnar var þó sú að Danni, Árni, Simmi Ólafs og Eiríkur keyptu sér græjur árið 1968 og fóru að spila á böllum.

 

Á árinu 2009 komu nokkrir félagar saman í veitingastaðnum Vagninum á Flateyri til að minnast Danna og Sollu. Settu þeir saman eitt lag þar sem saga hljómsveitarinnar var rakin í léttum dúr. Þetta spurðist út og flykktust gamlir Flateyringar vestur og úr varð mikið fjör. Eftir þetta segist Siggi hafa fariðað kíkja í laga- og textaskúffu sína til að athuga hvort þar væri ekki eitthvað sem hentaði hljómsveitinni fyrir upptökur. Þar fann hann ýmislegt og bætti svo ýmsu við. Allt eru þetta lög og textar sem tengjast vestur á firði og á Eyrina með stemningu áranna frá 1970 til 1990. Á þeim tíma voru allir á kafi í vinnu á Flateyri sem annars staðar á Vestfjörðum og í ástandi sem allir héldu að myndi endast um ókomna tíð.

 

Siggi segir að á plötunni ægi saman öllum tónlistarstílum. Þar megi finna vals, kántrý, rokkabillý, ball-öður, vögguvísur og hipparokk en allt í Æfingarstíl. Auk tólf áður óútgefinna laga sem upphaflega átti að setja á plötuna var bætt við „B-hlið“ með fjórum „Maríum“ eins og þeir spiluðu á böllunum í gamla daga. „Þetta finnst kannski sumum vera stílbrot,“ segir Siggi Björns „en þetta er og verður alltaf sveitaballaband og svona gerum við það.“

 

Bændablaðið miðvikudagurinn 8. maí 2013

 

 

Hljómsveitin Æfing var með hitting í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka þann 1. maí sl. þega hljómsveitarstjórinn Árni Benediktsson t.v. afhenti Hendrik Tausen t.h. eintak af diskinum. Hendrik kynnti Hljómsveitina Æfingu á svið í fyrsta sinn á fundi í Verkalýðsfélaginu Skildi á Flateyri þann 27. desember 1968.

 

 

Eyrbekkingar og Sunnlendingar hafa hitt hljómsveitarstjóra Æfingar í Húsasmiðjunni í mörg ár þar sem hann er aðstoðar-verslunarstjóri.

 

"Fulla ferð Santíanó" Hljómsveitin Æfing frá Flateyri

Smella á slóðina: - http://www.youtube.com/watch?v=R_7SaMM7KIU

 

Skráð af Menningar-Staður

 

08.05.2013 06:30

8. maí 2013 - Jón Ingi Sigurmundsson er 79 ára

Jón Ingi Sigurmundsson er fæddur 8. maí 1934 á Eyrarbakka og er uppalinn þar. 

Hann lauk kennaraprófi og tónmenntakennaraprófi 1954 og hefur verið búsettur á Selfossi frá því að hann hóf kennslustörf þar 1954. Fyrstu árin sem kennari við Barna- og Miðskólann á Selfossi ásamt kennslu í píanóleik og tónfræði við Tónlistarskóla Árnessýslu, síðar sem aðstoðarskólastjóri og skólastjóri við Gagnfræðaskólann – Sólvallaskóla. 

Jón Ingi var skólastjóri Tónlistarskóla Árnessýslu 1968-1971 og hefur starfað ásamt almennri kennslu, nær óslitið við tónlistarkennslu, m.a. verið stjórnandi Stúlknakórs Gagnfræðaskólans á Selfossi og Kórs Fjölbrautaskóla Suðurlands. 

Jón Ingi stundaði framhaldsnám í Kaupmannahöfn 1958-59 og 1971-72. 

Fyrsti kennari hans í myndlist var Jóhann Briem. Jón Ingi er félagi í Myndlistarfélagi Árnessýslu og hefur sótt mörg námskeið í myndlist m.a. hjá Ólafi Th. Ólafssyni, Elísabet Harðardóttur, Svövu Sigríði Gestsdóttur, Hildi Hákonardóttur, Guðrúnu Svövu Sigurðardóttur og Katrínu Briem. Jón Ingi hefur einnig stundað myndlistarnám hjá Ulrik Hoff í Kaupmannahöfn og hjá Ron Ranson í Englandi. 

Jón Ingi hefur tekið þátt í mörgum samsýningum og haldið 22 einkasýningar m.a. á Selfossi, Eyrarbakka, í Eden Hveragerði, Gömlu-Borg, Þrastarlundi, Akureyri og í Horsens í Danmörku. 
Jón Ingi hefur aðallega unnið með olíu, pastel og vatnsliti. 

Fjöldi mynda Jóns Inga er í eigu einkaaðila, auk ýmissa fyrirtækja og stofnana m.a. Listasafns Árnessýslu og Landsbanka Íslands.

 

Jón Ingi á Vor í Árborg 2013

 

Jón Ingi Sigurmundsson sýnir að Tryggvagötu 40 á Selfossi í Eldhúsinu.
Formleg opnun kl.13:00 á uppstigningardag 9. maí en þá spila Hulda Kristín og Tómas Smári fyrir gesti.

 

 

 

F.v.: Eyrbekkingarnir Júlía Björnsdóttir og Jón Ingi Sigurmundsson við opnun sýningar hans í Reykholti í vetur.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

08.05.2013 06:14

Vor í Árborg 2013

 

Bæjar- og menningarhátíðin Vor í Árborg verður haldin dagana 9. – 12. maí .

Hátíðin hefst á uppstigningardegi og því bætist heill dagur við hátíðarhöldin sem verða með fjölbreyttu sniði líkt og undanfarin ár. Fjöldi dagskrárliða eru í boði má þar nefna fjölbreytta tónleika, bútasaumssýning, myndlistar- og ljóstmyndasýningar, opin hús og margt fleira.

Boðið verður upp á 40 - 50 mismunandi atriði á hátíðinni.

 

Dagskrá hátíðarinnar má sjá hér: http://www.arborg.is/wp-content/uploads/2013/04/Arborg.Dagskra.2013.lowres.pdf

 

 

Fyrsta menningarhátíðin "Vor í Árborg" var haldin í maí 2003 eða fyrir 10 árum. Hér er Inga Lára Baldvinsdóttir á Eyrarbakka, þáverandi formaður Menningarnefndar Árborgar, að veita Elfari Guðna Þórðarsyni, listmálara á Stokkseyri, menningarviðurkenningu Árborgar.

 

 

Skráð af: Menningar-Staður

 

08.05.2013 05:57

Jarðvinna ekki hafin við nýtt fangelsi

Framkvæmdir eru ekki hafnar við nýtt fangelsi á Hólmsheiði þótt rúmur mánuður sé liðinn frá því innanríkisráðherra tók fyrstu skóflustunguna. Frestunin stafar af kæru Gröfu og grjóts sem átti lægsta tilboð en fyrirtækið var ekki talið uppfylla skilyrði til að bjóða í verkið.

Kærunefnd útboðsmála hefur staðfest niðurstöðu Framkvæmdasýslu ríkisins og er því verið að ganga frá samningum við Ístak um jarðvinnu og lagnir. Reiknað er með að jarðvinna hefjist eftir eina til tvær vikur. Þá er áformað að bjóða út smíðavinnu við fangelsið um næstu mánaðamót.

 

Morgunblaðið greinir frá miðvikudaginn 8. maí 2013

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

 

 

Skráð af Menningar-Staður

07.05.2013 22:34

Peningum mokað út á Hellu

Segja má að peningum hafa verið mokað út úr menningarsal Oddasóknar á Hellu í dag því Menningaráð Suðurlands úthlutaði þar 44 milljónum króna til tæplega tvö hundruð menningarverkefna á Suðurlandi.

Hæstu styrkina hlutu heimildarmyndin „Útlendingur heima – uppgjör við eldgos“ (1 milljón), opinber flutningur á óperunni „Ragnheiður“ í Skálholtskirkju í sumar (1 milljón), Hveragerði Music and Harverst festival (1 milljón) og hæsta styrkinn, 1,5 milljón króna hlaut Listasafn Árnesinga í Hveragerði.  

Hæsti styrkurinn í flokki stofn og rekstrarstyrkja fór á Kirkjubæjarklaustur til Kirkjubæjarstofu, 3.500.000 kr. Í þessum flokki fékk Svf. Árborgar m.a. styrk upp á 1.000.000 kr. vegna Mjólkuriðnaðarsafns á Selfossi.

 

www.dfs.is greinir frá.

 

 

Íris Róbertsdóttir, formaður Menningarráðs Suðurlands. Ljósm.: Magnús Hlynur Hreiðarsson.

 

 

Hæstu styrkirnir á Eyrarbakka eru til Byggðasafns Árnesinga kr. 1.250.000 

og Merkigils með kr. 800.000

 

 

Skráð af Menningar-Staður

07.05.2013 18:55

Uppstigningardagur 9. maí 2013 - Dagur aldraðra

Uppstigningardagur er 9. maí 2013.

Helgihald er þá víða á Suðurlandi í tilefni uppstigningardags og samhliða er haldinn dagur aldraðra. Allir eru hjartanlega velkomnir. Eldri borgarar sérstaklega hvattir til að fjölmenna.

Sameiginleg guðsþjónsuta verður í Þorlákskirkju kl. 14 með eldri borgurum í Þorlákshafnar- og Hveragerðisprestaköllum. Tónar og Trix sjá um tónlistina. Prestarnir sr. Jón Ragnarsson, Hveragerði, sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, Eyrarbakka og Guðmundur Brynjarsson, djákni leiða helgihaldið. Kaffi verður drukkið í aðstöðu edlri borgara við Egilsbraut.

Í Rangárþingi er sameiginlega hátíð eldriborgara í Akureyjarkirkju í V.-Landeyjum kl. 14 og kaffi drukkið og hnallþórur etnar á eftir í félagsheimilinu Nálsbúð sem hjá kirkjunni stendur.

Í Vestmannaeyjum verður messað í Landakirkju kl. 14. Söngfélag eldri borgara sér um söng og undirspil á þessum degi. Kaffisamsæti verður í boði Kvenfélags Landakirkju í safnaðarheimilinu að lokinni messu. Þess má geta að það verður boðið uppá rútuferðir til og frá Hraunbúðum (sem er elliheimilið í Eyjum) fyrir og eftir messu.

Í Víkurkirkju verður guðsþjónusta kl. 14. Samkór Mýrdælinga leiðir sönginn undir stjórn Kára Gestssonar organista. Eftir guðsþjónustuna, sem ætluð er öllum í Vestur-Skaftafellssýslu, býður Víkursókn viðstöddum til kaffidrykkju á Halldórskaffi í Vík þar sem flutt verður tónlistardagskrá. Allir eru hjartanlega velkomnir en eldri borgarar í sýslunni, sérstaklega hvattir til að fjölmenna.

 

 

 

Þorlákskirkja í Þorlákshöfn.

 

 

 

 

 

Í Þorlákskirkju í Þorlákshöfn.

 

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

07.05.2013 13:58

Úr Lögregluskólanum í Lemondrykkju

Fangaverðir á Litla-Hrauni þreyta þessa dagana þrekpróf  við  Lögregluskólann í Reykjavík með góðum árangri.

 

Eftir þrekprófin í morgun fóru nokkrir fangaverðir í sögu- og menningarferð um höfuðborgina til styrkingar andans og öðru slíku.

Fyrst var farið í Ármúla og svæði þar um kring og rifjað upp þau góðu ár þegar Sambandsfyrirtækin voru þar sterk svo sem Samvinnutryggingar og Vinnumálasamband samvinnufélaganna. Þá var litið við á íþróttavöllunum í Laugardalnum og Laugardalshöllin borin augum; sagðar sögur og lýst framtíðarsýn.

 

Síðan var farið í veitingastaðinn Lemon á horni Hallarmúla og Suðurlandsbrautar og drukkið Límonaði- Lemon af bestu gerð hvað blandað var og þjónað til borðs af Eyrbekkingi.

 

Á heimleiðinni  í bílnum til Eyrarbakka voru svo tónleikar með Hljómsveitinni Æfingu frá Flateyri sem var að gefa út geisladisk og mikil hátíð verður vestra vegna þessa um hvítasunnuhelgina. Hrifning var með þennan disk Æfingar.

 

Menningar-Staður var með í för og færði til myndar.

 

 

 

Eyrbekkingurinn Víðir Björnsson við Lemon-blöndun.

 

 

 

 

Skálað og síðan drukkið Límonaði. F.v.: Aðalheiður Harðardóttir, Björn Ingi Bjarnason og Jóhann Ágústsson.

 

 


 

Skráð af Menningar-Staður

 

07.05.2013 12:25

44 milljónum úthlutað í dag til menningarmála á Suðurlandi

Úthlutun menningarstyrkja fyrir árið 2013 á vegum Menningaráðs Suðurlands fer fram í dag í menningarsal Oddasóknar á Hellu kl. 16:30.

Alls bárust 23 umsóknir um stofn- og rekstrarstyrki og var sótt um u.þ.b. 50 milljónir kr. Á fundi ráðsins sem haldinn var 17. apríl sl., var samþykkt að veita 14 verkefnum stofn- og rekstrarstyrki, samtals rúmlega 13 milljónir kr.

Alls bárust 174 umsóknir um verkefnastyrkir og var sótt um u.þ.b. 130 milljónir kr. Samþykkt að veita 119 verkefnum styrki, samtals rúmlega 31 milljónir kr.

Dagskrá dagsins verður þessi:

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Rangárþingi  ytra stýrir dagskrá.

Sigurður Smári Davíðsson spilar Game of Thrones Theme á gítar.

Dorothee Lubecki, menningarfulltrúi Suðurlands, mun kynna helstu niðurstöður stefnumótunarvinnu í menningarmálum á Suðurlandi 2013 - 2020.

Fulltrúi undirbúningshóps vegna stofnun Lista- og menningarfélags á Suðurlandi mun kynna hugmyndir um slíkan félagsskap.

Umræður.

Kári Torfason spilar Old Friends Song eftir Tschaikowski á píanó.

Íris Róbertsdóttir, formaður Menningarráðs Suðurlands flytur ávarp.

Kristín Magdalena Ágústsdóttir  og  Jón Bjarnason flytja Ave María eftir Sigvaldi Kaldalón.

Karítas Gunnarsdóttir, Mennta- og  menningarmálaráðuneyti og Dorothee Lubecki, menningarfulltrúi Suðurlands afhenda styrkina.

Brot úrheimildamyndinni Laufaréttir í 120 ár

Bakkatríóið frá Hvolsvelli flytir nokkur lög.

Kaffiveitingar að athöfn lokinni í boði Rangárþings ytra

 

 
Dorothee Lubecki, menningarfulltrúi Suðurland.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

07.05.2013 07:40

Rukkað fyrir söng í Skálholskirkju

Karlakórinn Þrestir í Hafnarfirði hefur alltaf lokið vortónleikaröð sinni og þar með vetrarstarfinu í Skálholtskirkju með ókeypis tónleikum 1. maí í Skálholtskirkju. Í ár voru hins vegar engir tónleikar og hafa margir lýst óánægju sinni með það, enda alltaf fullt í kirkjunni á tónleikum kórsins.

Ástæðan er sú að kirkjan vildi rukka núna í fyrsta skipti fyrir afnot af kirkjunni, 30.000 krónur.  Jón Kristinn Cortez , stjórnandi kórsins staðfesti við DFS af þeim sökum hefði kórinn hætt við tónleikana í vor, þessi kostnaður hefði bæst ofan á allan annan kostnað kórsins við tónleikan. Hann vonast þó til að Þrestir komi einhvern tímann aftur í Skálholt.

Ekki ókeypis tónleikar lengur

DFS hafði Samband við Kristján Val Ingólfsson, rektor í Skálholti til að spyrjast fyrir um nýju gjaldtökuna.

"Í ljósi þess að alltaf er skorið meira og meira niður í framlögum til rekstrar í Skálholti ákváðum við í fyrra að hætta að láta alltaf allt af hendi endurgjaldslaust í Skálholti, og þar á meðal að allir fengju að halda ókeypis tónleika í kirkjunni. Við þurfum jú að borga rekstrarkostnaðinn.  Þegar kórar hafa verið að selja inn, jafnvel nokkuð dýrt, án þess að skilja nokkuð eftir á staðnum, þá er lítil sanngirni í því.  Við kynntum okkur þetta og ákváðum að hafa hliðsjón m.a. af gjaldskrá Selfosskirkju. Við ákváðum sem sagt að þegar selt væri inn, þá skyldi greiða tíund af seldum miðum, en ef ekki væri selt inn þá skyldi greiða 30.000 krónur og innifalið í þeirri upphæð væri sú aðstaða sem láta þarf í té sem aðstaða fyrir að skipta um föt og þess háttar, sem ekki er mögulegt í kirkjunni sjálfri. Hins vegar var jafnframt ákveðið að þegar þess væri óskað, væri sjálfsagt að endurskoða þetta gjald, eins og til dæmis þegar litlir hópar koma á staðinn meira sér til ánægju, en til að kalla saman margt fólk, eða þegar um góðgerðarmál er að ræða. Fyrir utan þetta eru svo stefgjöldin,  sem við höfum látið flytjendum eftir að greiða, sem eru að lágmarki að mig minnir tæpar 7 þúsund krónur ef ekki er greiddur aðgangseyrir, en annars hluti af innkomu", sagði Kristján Valur.

www.dfs.is greinir frá.

Meðfylgjandi myndir eru frá tónleikum Þrasta í Skálholtskirkju 1. maí 2009 

Menningar-Staður færði til myndar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

F.v.: Hafliði Magnússon,Selfossi (Bíldudal - látinn), Einar Loftur Högnason, Selfossi, Björn Gíslason, Hafnarfirði (Patreksfirði), Jón Guðmundsson, Hafnarfirði (Bíldudal) og Þorsteinn Jóhannsson, Flateyri. 

 

Skráð af: Menningar-Staður