Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2013 Nóvember

18.11.2013 09:04

Stjórnun og forysta í ferðaþjónustu

 

 

Stjórnun og forysta í ferðaþjónustu

 

Stjórnun og forysta í ferðaþjónustu er nám sem Háskólinn í Reykjavík býður upp á og er sérsniðið að þörfum stjórnenda í ferðaþjónustu. Það hefst 20. nóvember en áhersla er lögð á hagnýta færni sem hægt að virkja í framkvæmd strax.

Markmið

Markmið námsins er að efla og styrkja stjórnendur í ferðaþjónustu í daglegum áskorunum sinna starfa í gegnum sannreyndar og hagnýtar leiðir.

Kennt í 4 lotum

Námið samanstendur af 4 lotum sem kenndar eru með fjögurra vikna millibili. Gert er ráð fyrir verkefnavinnu í hverri lotu en námið veitir ekki einingar og er próflaust. Einnig er boðið upp á að sækja stakar lotur úr námslínunni. Loturnar eru:

 • Fjármál og áætlanagerð í ferðaþjónustu
  20. nóvember 2013 
 • Markvisst markaðsstarf í ferðaþjónustu
  22. janúar 2014 
 • Forysta og árangursmiðað starfsumhverfi
  19. febrúar 2014 
 • Mannauðsstjórnun og ráðningar í ferðaþjónustu
  12. mars 2014 

Kennsluaðferðir

Námskeiðin eru byggð upp á fyrirlestrum, hópvinnu og umræðum. Kennsluaðferðir eru í senn fjölbreyttar og hagnýtar og kalla á virka þátttöku nemenda.

Nánari upplýsingar og skráning

Af www.ferdamalastofa.is

 

Skráð af Menningar-Staður

18.11.2013 07:49

Námskeið í vefsíðugerð á vegum SASS

Frá námskeiðinu.

 

Námskeið í vefsíðugerð á vegum SASS

 

Námskeiði í WordPress vefsíðugerð var haldið á Selfossi á dögunum á vegum SASS,  Sambands sunnlenskra sveitarfélaga

Fólk með mjög fjölbreytt áhugasvið sat námskeiðið og komu margar flottar hugmyndir af heimasíðum fram.

Kennari var Elmar Gunnarsson frá Hype.Vefur SASS greinir frá - http://www.sass.is/

 

Skráð af Menningar-Staður

17.11.2013 21:07

Bullandi sókn hjá Menningar-Stað

 

 

Bullandi sókn hjá Menningar-Stað

 

Heimsóknir og flettingar á heimsíðunni

www.mmenningarstadur.123.is

  vikuna  8. nóv. – 14. nóv. 2013

 

Dagsetning:     Gestir:     Flettingar:

  8. nóv.                170             1.348

  9. nóv.                192             2.438

10. nóv.                261            1.299

11. nóv.                143               822

12. nóv.                131            1.325

13. nóv.               187            1.136

14. nóv.               207            1.218

Samtals:          1.291            9.568

Meðaltal

á dag:                184              1.370     

 

Skráð af Menningar-Staður.

 

.

.

 

   

17.11.2013 06:43

Þorlákshöfn á sjó og landi

 

Þorlákshöfn á sjó og landi

 

Fyrir nokkrum mánuðum kom Þorkell Guðnason að máli við menningarfulltrúa Ölfuss og hafði mikinn áhuga á því að vekja athygli á bókum sem Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli skrifaði, og gefnar voru út árin 1938 og 1939.  

Þetta voru bækurnar Þorlákshöfn - á sjó og landi og Endurminningar Jóns frá Hlíðarenda - gamalt og nýtt frá Þorlákshöfn.  

 

Í ár eru liðin 130 ár frá atburðarrás sjóhrakninga sem rakin er í fyrri bókinni og því tilvalið að færa bækurnar í það form sem ef til vill eykur aðgengi að þeim.  Eftir að hafa fengið leyfi afkomenda voru bækurnar lesnar inn á hljóðbækur og skannaðar sem pdf skjöl.  Með þessu geta áhugasamir nálgast textana um netið og fengið þær lánaðar sem hljóðbækur auk þess sem þær eru til á bókasafninu í venjulegu pappírsformi.

 

Þorkell mun afhenda bókasafninu hljóðbókarútgáfuna á sérstakri dagskrá sem efnt er til af þessu tilefni í dag,  sunnudaginn 17. nóvember kl. 16:00. 

 

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem er einnig afkomandi Sigurðar frá Flóagafli, segir frá langafa sínum og aðdraganda skrifanna.  

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson les upp úr textanum og mun síðan syngja ýmsar vísur, m.a. eftir Bergþóru Árnadóttur.

 

Boðið verður upp á léttar kaffiveitingar og eru allir velkomnir.

 

Ráðhúsið í Þorlákshöfn en bókasafnið er þar til húsa.

 

Af www.olfus.is

 

Skráð af Menningar-Staður

17.11.2013 06:12

Samræður á sunnudegi í Listasafni Árnesinga

Listasafn Árnesinga í Hveragerði.

 

Samræður á sunnudegi í Listasafni Árnesinga

 

Rósa Gísladóttir myndlistarmaður og Ólafur Gíslason listfræðingur ræða um skúlptúra Rósu í Listasafni Árnesinga í dag, sunnudaginn 17. nóvember kl. 15. 

Verk Rósu hafa sterka tilvísun í klassíska hefð um leið og þau eru nútímaleg og vísa líka í hversdagsleikann. Á sýningunni í Listasafni Árnesinga eru þau sett upp eins og tvær kyrralífsmyndir af ólíkri stærðargráðu. Sú minni sem er frá árinu 1999 endurspeglar kyrralífsmálverk en í stóra salnum hefur nýjustu verkum Rósu verið stillt upp á sama hátt en þar eru stærðarhlutföllin slík að það er sem gesturinn gangi inn í verkið. Þessa stóru skúlptúra vann Rósa fyrir sýningu á hinu virta safni, Mercati di Traiano, í rústum Keisaratorganna í Róm sumarið 2012.

Ólafur Gíslason listfræðingur og fyrrum listgagnrýnandi hefur fylgst með Rósu í nokkurn tíma og mun ræða við Rósu og gesti safnsins um þá minningu sem verkin geyma um horfin gildi og þær stóru spurningar sem Rósa hefur náð að vekja með verkum sínum um stöðu listarinnar, tækninnar og siðmenninguna í samfélaginu. 

Verk Rósu í Hveragerði kallast líka á, á áhugaverðan hátt, við verkin á sýningunni Samstíga-abstraktlist sem einnig er í Listasafni Árnesinga. Yfirskrift beggja sýninga er Hliðstæður og andstæður sem gefur líka tilefni til samræðu.

Listasafn Árnesinga býður gesti velkomna til þess að taka þátt, hvort heldur með virkum spurningum eða til þess að hlýða á.

 

Skráð af Menningar-Staður

16.11.2013 20:05

Enginn grætur Íslending - Dagur íslenskrar tungu

Jónas Hallgrímsson.

 

Enginn grætur Íslending - Dagur íslenskrar tungu

 

Degi íslenskrar tungu var fagnað víða um land á afmælisdegi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar. 

Borgarbókasafnið tók að venju þátt í hátíðarhöldum á degi íslenskrar tungu. Sýnd var heimildarmyndina Hver var Jónas? 

Heimildamyndin Hver var Jónas? var sýnd í Kamesinu á 5. hæð í aðalsafni.  Myndin fjallar um afmælisbarn dagsins, Jónas Hallgrímsson, en hún var gerð árið 2007 í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli þjóðskáldsins. Meðal leikenda eru Steinn Ármann Magnússon, Valdimar Flygering og Þröstur Leó Gunnarsson. Myndin verður sýnd laugardaginn 16. nóvember kl. 15 og sýningartími er um 70 mínútur.

 

Fjölnir og ferill Jónasar

Á fæðingardegi skáldsins er vert að rifja upp sögu hans. Jónas Hallgrímsson fæddist mánudaginn 16. nóvember 1807 að Hrauni í Öxnadal. Móðir hans var Rannveig Jónsdóttir og faðir hans Hallgrímur Þorsteinsson. Jónas var tekinn í Bessastaðaskóla 1. október 1823 og útskrifaðist þaðan 10. júní 1829 og hlaut góðan vitnisburð.

Jónas réðst til starfa í Reykjavík hjá Ulstrup bæjar- og landfógeta, er skrifari þar samfleytt næstu þrjú ár og býr á heimili fógeta. 1834 senda Jónas, Brynjólfur Pétursson og Konráð Gíslason út boðsbréf dagsett 1. mars um stofnun tímaritsins Fjölnis. Á vordögum gengur Tómas Sæmundsson til liðs við þá þremenninga.

Fyrsta blað Fjölnis kemur út í byrjun sumars 1835 og mælist misjafnlega fyrir heima á Íslandi. Í þessu fyrsta hefti birtir Jónas kvæði sitt Ísland og var það fyrsta stórkvæði hans á prenti. Jónas var strax afkastamikill í sögu og ljóðagerð í Fjölni. Þar má meðal frægast telja; Grasaferð sem kom út árið 1835-36 en er talinn fyrsta smásagan sem samin var á íslensku og Stúlkan í turninum sem var fyrsta íslenska hrollvekjan en hrollvekjur voru mjög vinsælar í Evrópu á þeim tíma.

Meðal ljóða var Gunnarshólmi sem birtist í fjórða árgangi Fjölnis 1838 og sonnetan Ég bið að heilsa sem var fyrsta sonnetan sem samin var á íslensku en hún kom út í Fjölni árið 1844. Fjölnir er oft sagt vera boðunarrit rómantísku stefnunnar þó að ekki hafi allt efni þess tengst þeirri stefnu. Meðal efna í Fjölni voru mál um stafsetningu, fréttaskýringar, hreppaskipan og vísindagreinar.

 

Eitt af dýrustu kvæðum Jónasar er um ógrátna Íslendinginn enda hefur það lifað góðu lífi með þjóðinni alla tíð:

Enginn grætur Íslending,

einan sér og dáinn,

þegar allt er komið í kring,

kyssir torfa náinn.

 

Mér er þetta mátulegt

mátti vel til haga,

hefði ég betur hana þekkt

sem harma ég alla daga.

 

Lifðu sæl við glaum og glys,

gangi þér allt í haginn,

í öngum mínum erlendis

yrki ég skemmsta daginn.Menningarpressan - Björgvin G. Sigurðsson

 

Skráð af Menningar-Staður

16.11.2013 06:36

Merkir Íslendingar - Oddgeir Kristjánsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Oddgeir Kristjánsson.

 

Merkir Íslendingar - Oddgeir Kristjánsson

 

Oddgeir Kristjánsson fæddist í Vestmannaeyjum 16. nóvember 1911, sonur hjónanna Kristjáns Jónssonar og Elínar Oddsdóttur sem bæði komu úr Fljótshlíðinni og fluttu ung til Eyja. Hann var fimmti elstur af 16 alsystkinum en auk þess átti hann einn hálfbróður, samfeðra. Kona Oddgeirs var Svava Guðjónsdóttir og eignuðust þau þrjú börn.

Áhugi Oddgeirs á tónlist kom snemma í ljós en ekki voru tök á tónlistarnámi á barnmörgu heimili í Eyjum á þeim árum. Hann var þó ekki nema 12 ára er hann var farinn að leika á tenórhorn með Lúðrasveit Vestmannaeyja, og síðan á trompet. Oddgeir lærði á fiðlu hjá Þórarni Guðmundssyni í Reykjavík veturinn 1930-31 og var við tónfræðinám hjá Róberti A. Ottóssyni veturinn 1944-45. Hann var svo sjálfmenntarður á ýmis hljóðfæri, s.s. gítar.

Oddgeir lék á fiðlu með fyrstu danshljómsveit Vestmannaeyja frá 1930, Jazzinum. Auk þess tók hann nemendur í einkatíma heim til sín um langt árabil og kenndi á ýmis hljóðfæri, s.s. fiðlu, gítar og blásturshljóðfæri.

Oddgeir stundaði framan af verslunarstörf í Eyjum og var forstjóri Bifreiðastöðvar Vestmannaeyja til 1940. Þá hóf hann söng- og tónlistarkennslu við Barnaskóla Vestmannaeyja og kenndi þar til æviloka. Hann stjórnaði auk þess Lúðrasveit Vestmannaeyja alla tíð frá 1939.

Vestmannaeyingar áttu ýmis prýðileg tónskáld og dægurlagahöfunda, eins og Loft Guðmundsson, Ása í Bæ og Árna úr Eyjum.

Oddgeir bar þó líklega af þeim öllum enda er hann, ásamt Sigfúsi Halldórssyni og Jóni Múla, almennt talinn ástsælasta dægurlagatónskáld þjóðarinnar um og upp úr miðri síðustu öld.

Lögin hans Oddgeirs voru oft þjóðhátíðarlög í Eyjum, en meðal þekktari af perlum hans má nefna lög eins og Ég veit þú kemur; Sigling; Ship ohoj; Gamla gatan; Ágústnótt og Sólbrúnir vangar.

Oddgeir lést 18. febrúar 1966.

Morgunblaðið laugardagurinn 16. nóvember 2013

 

Vestmannaeyjar.

 

Skráð af Menningar-Staður

 

16.11.2013 06:27

Dagur íslenskrar tungu - Haldinn hátíðlegur í 18. sinn

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson.

 

Dagur íslenskrar tungu - Haldinn hátíðlegur í 18. sinn

 

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í dag á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar.

 

Fjöldi viðburða verður í boði í tilefni dagsins.

Helst ber að nefna að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhendir Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í Þjóðmenningarhúsinu kl. 14. Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík verða afhent í Hörpu kl. 13 að viðstaddri Vigdísi Finnbogadóttur fv. forseta.

Stóra upplestrarkeppnin hefst formlega í dag, en hún er nú haldin í 17. sinn.

Handritin í Þjóðmenningarhúsinu verða til sýnis milli kl. 11-17 í dag. Mímir, félags stúdenta í íslenskum fræðum við HÍ, stendur fyrir hátíðardagskrá í st. 201 í Árnagarði sem hefst kl. 15.

Opið er á Gljúfrasteini kl. 10-17 og er aðgangur ókeypis. Upplestur helgaður börnum hefst kl. 16. Heimildamyndina Hver var Jónas? verður sýnd á 5. hæð í aðalsafni Borgarbókasafnsins kl. 15.

Ítarleg dagskrá er á menntamalaraduneyti.is/menningarmal/dit

 

Morgunblaðið laugardagurinn 16. nóvember 2013

 

Framan við heimili Jónasar Hallgrímssonar í Kaupmannahöfn.

 

Skráð af Menningar-Staður

15.11.2013 22:07

| Heilsuleikskólarnir Brimver á Eyrarbakka og Æskukot á Stokkseyri

Tinna Björg Kristinsdóttir,  íþrótta og heilsufræðingur  sér  um skipulagningu og kennslu í hreyfi og jógatímum í  báðum leikskólum

 

Heilsuleikskólarnir Brimver á Eyrarbakka og Æskukot á Stokkseyri

Markmiðið er að auka gleði og vellíðan barnanna.

 

Brimver á Eyrarbakka og Æskukot á Stokkseyri  eru heilsuleikskólar.Yfirmarkmið þeirra  eru að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á holla næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Í vetur verður boðið upp á hreyfistundir tvisvar í viku auk þess fara börnin iðulega í gönguferðir um nágrennið.Með þessu vill leikskólinn leggja áherslu á að  barnið taki þátt í leikjum og æfingum sem reyna á samspil skynfæra og auki líkamsvitund þeirra að börnin þjálfist í grunnhreyfingum eins og að hlaupa, ganga, hoppa, stökkva, kasta , rúlla grípa snerta, og velta sér. Einnig að auka úthald, einbeitingu og styrk barnsins og að barnið fái útrás fyrir hreyfiþörf sína í fjölbreyttu umhverfi. Hreyfistundirnar eru hafðar fjölbreyttar þannig að hægt er að koma til móts við þarfir hvers og eins. Hreyfistundir í skólanum byggjast á liðleka-, styrktar og þolæfingum.  Æfingum með ýmis áhöld. Lögð er áhersla á samhæfingu, samvinnu og sjálfseflingu einnig er dans og leikræn tjáning mikilvæg.  Einnig eru leikskólinn Brimver og  Æskukot með krakkajóga. Jóga er alhliða lífsspeki  sem stuðlar að samtengingu líkama og hugar. Jógastundir með börnunum miðast af því að þau viðhaldi meðfæddum liðleika, byggi upp styrk og auki sveigjanleika, jafnvægi og einbeitingu, auk þess að stuðla að spennulosun og innri ró. Líkt og með hreyfistundunum er  lögð áhersla á að börnin upplífi ánægju af jógatímunum og eru hinar ýmsu æfingar fléttaðar inn í leik og sögur eða þeim búin umgjörð sem börnunum þykir áhugaverð. Boðið er upp á hreyfistundir tvisvar í viku í báðum skólum fyrir alla aldurshópa leikskólans sem eru börn  fædd  2009 -2012.

Jógastundir eru  hálfsmánaðarlega  í  hvorum skóla.

Tinna Björg Kristinsdóttir,  íþrótta og heilsufræðingur  sér  um skipulagningu og kennslu í hreyfi og jógatímum í  báðum leikskólum. Tinna Björg bauð foreldrum í báðum leikskólum í tíma með börnum sínum til að kynnast hvernig  tímarnir fara fram. Slökunaræfingarnar henta einnig ljómandi vel á kvöldin þegar börnin eru komin upp í rúm og þurfa að ná sér niður eftir amstur dagsins

Í jógastundunum hafa börnin lært hinar ýmsu jógastellingar, slökunar- og öndunaræfingar. Í jógatímunum ná börnin góðri slökun og þau elska að fara í ný og skemmtileg ævintýri sem kunna að leynast í jógaheiminum.

Starfið okkar fer vel á stað eins og venjulega og hlökkum við mikið til bæði börn og starfsfólk í vetur að vinna að  góðu og uppbyggilegu starfi hér í fallegu umhverfi við ströndina.

 

Af www.arborg.is


Leikskólinn Brimver á Eyrarbakka

Skráð af Menningar-Staður
 

15.11.2013 06:07

Hörður Thorarensen - Fæddur 7. september 1926 - Dáinn 9. nóvember 2013 - Minning

Hörður Thorarensen

 

Hörður Thorarensen - Fæddur 7. september 1926 - Dáinn 9. nóvember 2013 - Minning

 

Hörður Thorarensen fæddist að Kirkjubæ á Rangárvöllum þann 7. september 1926. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 9. nóvember 2013.

Hann var sonur hjónanna Steinunnar og Boga Péturs Thorarensen. Systkini hans voru Hulda, f. 1922, Ásta, f. 1924, Grímur, f. 1924, Skúli, f. 1930, Ragnheiður, f. 1933 og Jónína, f. 1935 og er hún ein á lífi af þeim systkinum.

Árið 1951 gekk Hörður að eiga Guðrúnu Ólafsdóttur Thorarensen frá Þorvaldseyri á Eyrarbakka. Foreldrar hennar voru Ólafur E. Bjarnason verkstjóri og Jenný Dagbjört Jensdóttir. Börn þeirra Guðrúnar og Harðar eru: 1) Ólöf Dagný, f. 1952, mannauðsstjóri hjá Vegagerðinni. Maður hennar er Helgi Bergmann Sigurðsson, arkitekt. Börn Ólafar og Helga eru Gunnar Björn nemi, f. 1980 og Sigrún kennari, f. 1983. Maður Sigrúnar er Heimir Rafn Bjarkason, verkefnastjóri, og eiga þau dæturnar Ólöfu Völu, f. 2006 og Elfu Rún, f. 2011. 2) Bogi Pétur, f. 1956. Unnusta hans var Sigrún Ágústsdóttir frá Birtingaholti. Þau Bogi og Sigrún fórust af slysförum í Ingólfsfjalli í janúar árið 1982. 3) Ari Björn, f. 1965, fangavörður. Kona hans er Ingunn Gunnarsdóttir, starfsmaður Sýslumannsins á Selfossi. Börn Ara og Ingunnar eru Guðrún Álfheiður, verkfræðingur, f. 1984, sambýlismaður hennar er Ólafur Rafn Brynjólfsson, verkfræðingur, Bogi Pétur, nemi, f. 1993 og Margrét, nemi, f. 1996.

Hörður ólst upp í Kirkjubæ við hefðbundin sveitastörf. Um tvítugt fór hann til Reykjavíkur og fór fljótlega til sjós á togurum þar. Tuttugu og fimm ára fór hann á vertíð til Þorlákshafnar og þar kynntist hann Guðrúnu. Þau hófu upp frá því búskap á Eyrarbakka og byggðu síðan húsið Túnprýði sem þau bjuggu í frá 1960 þar til þau fluttu að Selfossi árið 2007. Til sjós var hann lengi framan af á togurum frá útgerð Tryggva Ófeigssonar. Síðan var hann bæði skipstjóri og stýrimaður á bátum frá Eyrarbakka, en síðustu árin til sjós var hann á Alberti frá Grindavík, en hann hætti sjómennsku árið 1980. Eftir að hann hætti til sjós vann hann hjá Hraðfrystistöð Eyrarbakka og síðustu árin hjá Alpan. Hörður sat í hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps á sjöunda áratugnum. Spilamennska var hans aðaláhugamál og spilaði hann bridge og lagði kapal fram á síðasta dag. Þá hafði hann mikla ánægju af bókalestri og einnig hafði hann mikinn áhuga á ferðalögum innanlands og berjatínslu.

Útför Harðar fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, föstudaginn15. nóvember 2013, kl. 14.

_______________________________________________________________

Minningarorð Ingunnar Gunnarsdóttur

Í dag kveðjum við elskulegan tengdaföður minn. Á slíkum stundum finnur maður fyrir söknuði en ekki síður fyrir gleði, gleði að hafa kynnst þessum mæta manni og hversu mikið er að þakka.

Þegar ég kynntist Herði var hann hættur á sjó og farinn að vinna í landi. Eftir stutt samband eignuðumst við unga parið fljótlega dóttur og kom þá fljótt í ljós hvaða mann hann hafði að geyma því litla skottan hændist mjög að afa sínum. Hörður var ákaflega bóngóður og reyndist okkur vel á fyrstu búskaparárum okkar Ara. Hörður var í eðli sínu fámáll en hafði miklar skoðanir og var rökfastur í samræðum og gaf ekkert eftir, og ef hann var ósammála þá bara hló hann. Guðrún og Hörður voru ákaflega samrýnd og sem dæmi þá vann hann til 74 ára eða þar til Guðrún varð 67 ára því hann gat ekki hugsað sér að vera einn heima án hennar. Þau urðu fyrir stóru áfalli þegar þau misstu son sinn og tengdadóttur af slysförum. Sorgin var mikil en í sameiningu unnu þau úr henni með vinum og fjölskyldu og var þeim mikil ánægja þegar Bogunum og Sigrúnunum fór að fjölga. Einstök er vinátta þeirra við fjölskyldu Sigrúnar, Birtingaholtsfólkið.

Hörður og Guðrún höfðu alla tíð mikið yndi af ferðalögum. Ekki var alltaf mikill fyrirvari á þeim, að morgni var veðrið gott og spáin fín og um hádegi voru þau lögð af stað, eitthvað en trúlega vestur. Eftir nokkra daga hringdu þau og voru þá kannski á Austurlandi. Keyrt var skipulega eftir vegahandbókinni og helst reynt að komast sem víðast, heimsækja alla firði og flóa og helst á afskekkta staði, þeir eru því fáir staðirnir á Íslandi sem þau hafa ekki komið á. Oftar en ekki var einhverju barnabarninu boðið með og eiga þau öll góðar minningar um tjaldferðalög með ömmu og afa í pökkuðum bílnum þar sem rétt var pláss fyrir einn í aftursætinu. Í seinni tíð var tjaldferðalögunum hætt og sumarbústaðaferðir tóku við. Og þá var nágrennið grandskoðað.

Hörður hafði mikla ánægju af bóklestri og sótti vikulega góðan bunka í bókasafnið og las hann upp á nokkrum dögum. Helst sótti hann í spennusögur en las allt sem hann komst yfir og var mjög fróður um menn og málefni og las allar greinar í Mogganum. Síðasta árið var hann hættur að geta lesið vegna sjóndepru en var svo heppinn að komast í aðgerð og fá nýja augasteina í ágúst og má með sanni segja að hann hafi notið þess síðustu vikurnar.

Ekki er hægt að minnast á Hörð án þess að nefna spilin. Stokkurinn var aldrei langt undan og kapall lagður á eldhúsborðinu í tíma og ótíma. Hörður var líka bridgespilari af lífi og sál, spilaði með bridgefélögum í Tryggvaskála og seinna með eldri borgurum, en heima við gaf hann stundum fyrir fjóra við borðið og spilaði svo sjálfur úr öllum bunkum.

Seinni árin naut Hörður mikilla samvista við börn og barnabörn. Hann var áhugasamur um hag þeirra og vildi þeim allt hið besta.

En nú er komið að leiðarlokum, ég kveð tengdaföður minn með miklum söknuði.

Ingunn.

_____________________________________________________

Minningarorð Þórunnar Vilbergsdóttur og Óskars Magnússonar.

Enn fækkar þeim samferðamönnum á lífsgöngunni, sem nær okkur stóðu.

Það var í ársbyrjun 1953 sem ég var kynntur fyrir hjónunum á Strönd á Eyrarbakka, þeim Herði Thorarensen og Guðrúnu konu hans. Þau kynni hafa staðið alla tíð síðan. Eftir að ég fluttist til Eyrarbakka urðu samskiptin meiri. Saman vorum við Hörður kosnir í hreppsnefnd Eyrarbakka og alla tíð síðan höfum við verið samherjar á slíkum vettvangi.

Um hálfrar aldar skeið vorum við nágrannar, byggðum um líkt leyti hús á samliggjandi lóðum, númer 48 og 50 við Túngötuna. Eiginkonurnar nánar æskuvinkonur og sambandið alla tíð hið besta.

Hörður var sjómaður mestan hluta ævinnar, um skeið á togurum, eða vertíðarbátum, en seinustu ár hans til sjós voru á uppsjávarveiðiskipi. Nokkur ár var Hörður fangavörður á Litlahrauni. Við Eyrbekkingar urðum þess aðnjótandi að fá að hafa fyrsta stigs skipstjórnarfræðslu hjá okkur haustið 1963. Þann skóla sóttu 15 sjómenn á ýmsum aldri og öfluðu sér réttinda til skipstjórnar á skipum allt að 120 smálestum.

Hörður var einn þessara manna og í framhaldi af því gerðist hann stýrimaður og skipstjóri hér á Bakkanum um hríð, en síðan stýrimaður á stærri skipum en hér voru, og þá mest frá Grindavík. Eftir að í land kom, að lokinni sjómennskunni, vann Hörður í Hraðfrystistöð Eyrarbakka og síðar í álverksmiðjunni Alpan, meðan hún starfaði hér á landi.

Alla tíð var hann hinn mesti vinnuþjarkur, en ef stund gafst frá veraldaramstrinu, var hann helst með spil í hönd og spilamennsku stundaði Hörður að segja má til hinstu stundar. Bridds var honum næstum ástríða.

Nú hefur Hörður Thorarensen lokið sinni leið hér á meðal okkar og horfið til ókunnra stranda. Fjölskyldur okkar hafa á langri leið lifað bæði gleði og sorg og haft stuðning hvor af annari á erfiðum tímum.

Við Þórunn þökkum samfylgdina öll þessi ár og sendum Guðrúnu og börnum hennar og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur.

Þórunn og Óskar

 

Morgunblaðið föstudagurinn 15. nóvember 2013

 

Eyrarbakkakirkja

Skráð af Menningar-Staður