Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2014 Júlí

29.07.2014 20:24

Hundar draga úr ferðagleðinni

 Hundurinn - Depill- sem var hundur Hrútavinafélagsinsn Örvars.
Hér er Depill á góðri stund með Hrútavininum Sigga Björns sem býr í Þýskalandi.

 

Hundar draga úr ferðagleðinni

Hundapössun er of dýr eða vandfundin og því fara eigendur dýranna á mis við hitt og þetta í lífinu samkvæmt bandarískri könnun.

 

Sjö af hverjum tíu hundaeigendum segja að dýrahaldið minnki líkurnar á óvæntum ferðalögum. Þetta kemur fram í könnun á vegum DogVacay, bandarískrar vefsíðu sem aðstoðar fólk að finna pössun fyrir hundana sína.

Það er þó ekki bara ferðalög sem hundaeigendur fara á mis við því helmingur svarenda segist hafa skrópað í fjölskylduhitting vegna hundsins og sjöundi hver hefur misst af brúðkaupi eða öðrum stórviðburði. Ástæðuna fyrir þessum vanda er sú að erfitt er finna pössun fyrir gæludýrin eða þeim þykir hundagæsla of dýr.

Samkvæmt frétt Skift.com bjóða sífellt fleiri hótel og ferðaskrifstofur vestanhafs upp á sérstaka þjónustu fyrir þá gesti sem taka hundana með sér í fríið.

Af www.turisti.is


Skráð af Menningar-Staður

29.07.2014 05:19

Jón Hákon Magnússon - Fæddur 12. sept. 1941 - Dáinn 18. júlí 2014 - Minning

 


Jón Hákon Magnússon framan við Húsið á Eyrarbakka.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

.

Norðurkot á Eyrarbakka. Hús Jóns Hákonar Magnússonar og Áslaugar Harðardóttur.

 

Jón Hákon Magnússon - Fæddur 12. september 1941 -

Dáinn 18. júlí 2014 - Minning

 

Jón Hákon Magnússon fæddist í Reykjavík 12. september 1941. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 18. júlí 2014.

Jón Hákon var sonur hjónanna Svövu Sveinsdóttur húsmóður frá Hvilft í Önundarfirði, f. 12.9. 1909, d. 9.12. 1990 og Magnúsar Guðjóns Kristjánssonar skrifstofustjóra frá Flateyri við Önundarfjörð, f. 13.7. 1904, d. 2.11. 1993. Bróðir Jóns Hákonar var Ásgeir Haukur Magnússon, f. 23.7. 1936, d. 12.7. 2003, maki Jóna Sigurðardóttir, f. 19.1. 1936, d. 17.6. 1994. Synir þeirra eru Sigurður, f. 5.8. 1957 og Magnús, f. 1.2. 1964.

Jón Hákon kvæntist Áslaugu Guðrúnu Harðardóttur, f. 1.11. 1941 þann 30.9. 1961. Börn þeirra eru Áslaug Svava, f. 20.7. 1975, maki Haukur Marinósson, f. 29.9. 1967, og Hörður Hákon, f. 22.5. 1976.

Árið 1960 hélt Jón Hákon til Bandaríkjanna þar sem hann hóf nám við Macalester College í St. Paul í Minnesota. Árið 1964 lauk hann BA-prófi í stjórnmálafræði, sögu og blaðamennsku. Árið 2004 veitti skólinn Jóni Hákoni sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi ævistarf.

Á unglingsárum hóf Jón Hákon hóf störf sem blaðamaður hjá Tímanum og starfaði síðar um árabil sem blaðamaður, bæði hér á landi og í Bandaríkjunum. Hann var framkvæmdastjóri Slippfélagsins í Reykjavík, skrifstofustjóri hjá Flughjálp vegna Biafra-stríðsins, fréttamaður og þáttastjórnandi á fréttastofu Sjónvarps 1970-1979, sölu- og markaðsstjóri hjá bílaumboðinu Vökli hf. 1979-1981, framkvæmdastjóri markaðssviðs Hafskips hf. 1982-1985. Hann stofnaði KOM almannatengsl árið 1986 ásamt eiginkonu sinni og var framkvæmdastjóri fyrirtækisins fram til síðustu áramóta. Jón Hákon var blaðafulltrúi vegna 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974. Hann skipulagði einnig og annaðist rekstur alþjóðlegu fjölmiðlamiðstöðvarinnar vegna leiðtogafundar Reagans og Gorbatsjovs í Höfða árið 1986.

Jón Hákon tók virkan þátt í opinberri umræðu, skrifaði greinar í erlend dagblöð og tímarit um íslensk málefni og fjölda greina í innlend blöð og tímarit auk þess að vera álitsgjafi í fjölda útvarps- og sjónvarpsþátta. Hann gegndi fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum. Var m.a. í bæjarstjórn Seltjarnarness og forseti bæjarstjórnar um tíma og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var um langt árabil í forystu Samtaka um vestræna samvinnu, umdæmisstjóri Rótarýhreyfingarinnar starfsárið 1993-1994 og sat í varastjórn Ríkisútvarpsins síðasta ár.

Útför Jóns Hákonar Magnússonar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 29. júlí 2014, og hefst klukkan 15.
____________________________________________________________________________________

Minningarorð Illuga Gunnarssonar


Ég kynntist Jóni Hákoni fremur seint á lífsleiðinni. Vissulega þekkti ég til hans, eins og allir sem fylgjast með þjóðfélagsumræðunni, en við urðum ekki vinir fyrr en fyrir nokkrum árum. Þannig háttaði til að Jón réð mig til sín á KOM og þar naut ég þeirra forréttinda að vinna með honum. Ég veit ekki hversu mikið gagn Jón hafði af þessari ráðningu, en án nokkurs vafa gagnaðist hún mér. Það er mér ómetanlegt að hafa fengið að fylgjast með Jóni að störfum, hvernig hann greindi flókin og viðkvæm mál og skipulagði vörn og sókn eftir því sem við átti. Þekking Jóns og skilningur á íslensku samfélagi var einstakur, reynsla hans var víðtæk og fjölbreytt og því þarf ekki að undrast þá virðingu sem Jón naut sem fagmaður.

En þessir þættir eru mér ekki efstir í huga. Ofar er minning um einstaklega þægilegan og skemmtilegan mann. Það var virkilega gaman að spjalla við Jón Hákon um heima og geima. Ég var ekki alltaf sammála honum enda gerði hann aldrei kröfu um slík leiðindi, en það var ánægjulegt að rökræða við hann. Skoðanir hans voru rökstuddar og vandlega íhugaðar, öfgalausar og studdar dæmum sóttum víða að.

Við ræddum oftast um málefni líðandi stundar. En einnig um liðna tíð eins og gengur. Þá barst gjarnan talið að mannlífinu vestur í Önundarfirði. Sú ástæða var til, að móðir Jóns hafði verið í miklu vinfengi við Maríu Jóhannsdóttur, móður tengdaföður míns, Einars Odds Kristjánssonar. Jóni var tíðrætt um þá sögu og tengslin vestur. Sögur af bridgespili vinkvenna fram eftir nóttu eða örlagasögur frá stríðsárunum, allt voru þetta sögur sem Jóni voru kærar og auðvelt að skynja þann sterka þráð sem tengdi hann við sögu þeirra sem á undan honum höfðu gengið.

Jón Hákon reyndist mér mjög vel, bæði með ráðum og dáð. Ég kunni einstaklega vel við hann, enda glaður maður og reifur og það er sannarlega missir af honum. Áslaugu og börnum Jóns votta ég samúð mína, blessuð sé minning Jóns Hákons Magnússonar.

Illugi Gunnarsson.

 

 

Á árinu 2006. Illugi Gunnarsson lýsir yfir framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Neðri mynd: F.v.: Jón Hákon Magnússon, Albert Jónsson, Einar Oddur Kristjánsson og Hannes Sigurðsson.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason
 

 

________________________________________________________________________________________________________
 

Minningarorð Stefáns Friðfinnssonar

Það eru áratugir síðan við frændurnir Jón Hákon og ég kynntumst og sá kunningsskapur þróaðist fljótt upp í djúpa vináttu og náið samband.

Svo náið að í a.m.k. 35 ár höfum við verið í daglegu sambandi og stundum oft á dag til að ræða stór og smá mál allt eftir því sem okkur þótti nauðsynlegt að ræða. Stundum líka til að ræða ekkert sérstakt heldur bara svona til að heyrast.

Við leystum öll helstu vandamál heimsins og komum fram með ótrúlega snjallar lausnir á flestu því sem aflaga hefur farið á síðustu áratugum. Þó að enginn gerði neitt með lausnir okkar gáfumst við ekkert upp heldur fundum ennþá snjallari lausnir fyrir heim í vanda.

Það er þannig ekki við okkur að sakast þó sitthvað hafi farið úrskeiðis í heiminum síðustu áratugina því við Jón Hákon lögðum okkur sannarlega fram um að bæta bæði nánasta umhverfi okkar og heiminn allan ef því var að skipta með tillögum okkar. Jón Hákon var bæði vel lesinn og íhugull. Allt frá námsárum sínum í Bandaríkjunum var hann vel að sér og fylgdist náið með bandarískum stjórnmálum og þeim sem þar höfðu sig mest í frammi. Einnig gat hann af þekkingu rökrætt evrópsk stjórnmál og persónur svo ekki sé nú talað um íslensk stjórnmál í marga áratugi. Hann hafði hæfileika til að gera sér grein fyrir stærra samhengi hluta og sambandi orsaka og afleiðinga.

Það er góð lýsing á Jóni Hákoni að hann var drengur góður. Drengur góður sem alltaf vildi bæta það sem aflaga fór, sætta sjónarmið, leggja góðum málefnum lið og almennt fara frá hverju máli þannig að það væri betra en þegar hann kom að því.

Jón kom að mörgum starfsgreinum um ævina var blaðamaður, fréttamaður sjónvarps, starfaði við hjálparstarf í Biafra á sínum tíma, fékkst við bílainnflutning, vann hjá Hafskipi og síðustu áratugina við eigin almannatengslafyrirtæki, Kynning og Markað eða KOM. Þar nutu hæfileikar Jóns sín vel og var hann frumkvöðull á sviði almannatengsla á Íslandi svo sem þegar hann tók að sér fyrirvaralaust að undirbúa og reka blaðamannamiðstöð fundar Reagans og Gorbachevs í Reykjavík. Hann var líka félagsvera af bestu tegund og valdist til ótal trúnaðarstarfa fyrir alls kyns félagasamtök, svo sem Rotary, Samtök um vestræna samvinnu, hann sat í bæjarstjórn, og sóknarnefnd svo fátt eitt sé talið.

Alls staðar lagði hann gott til og sinnti þeim störfum sem honum voru falin af alúð og trúmennsku.

Hann átti alls staðar vini, hérlendis sem erlendis, og ræktaði vináttu við ótrúlegan fjölda skólabræðra, starfsfélaga og vina um allan heim. Margir þeirra sakna nú vinar og hafa sent samúðarkveðjur til fjölskyldunnar með þökkum fyrir vináttu Jóns Hákonar.

Mér eru minnisstæð heilræði Jóns sem hann gaf viðskiptavinum sínum um hvernig bregðast ætti við alvarlegum atvikum í rekstri er gátu skaðað orðspor fyrirtækja. „Segðu sjálfur frá, segðu það strax, segðu alla söguna og segðu satt.“

Það lýsir líka Jóni Hákoni og lífsskoðun hans. Hreinn og beinn og hafði ætíð það sem sannara reyndist.

Jón var fastur á sínum eigin skoðunum en virti samt skoðanir annarra og röksemdir og í okkar samskiptum, eins og hans við aðra, gilti að í þau fáu skipti sem okkur tókst ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu urðum við þá bara sammála um að vera ósammála og tapaði þá hvorugur í rökræðunum.

Við veiddum í góðum hópi vina í Laugardalsánni í áratugi og þóttumst þar komnir heim því báðir vorum við frændurnir ættaðir úr Djúpinu og áttum frændfólk á hverjum bæ. Þar urðu vinir nánari og lífið bjartara í náttúrufegurð Vestfjarða þar sem veiðin sjálf var kannski ekki aðalatriðið, þó oft væri góð, heldur samveran, sögurnar og félagsskapurinn. Í framhaldi af veiðiferðum stóð Jón Hákon fyrir reglulegu „samráði“ nokkurra vina og veiðifélaga um margra ára skeið sem verða okkur félögum minnisstæðar samkomur.

Ég mun sakna Jóns Hákonar meðan ég lifi og hef enn ekki sætt mig við tilhugsunina um að geta ekki hringt í hann til að leita lausna á vandamálum eða bara spjalla. Tilveran verður daufari við að eiga hann ekki lengur að.

Að leiðarlokum sendi ég Áslaugu vinkonu okkar, Áslaugu Svövu og Herði Hákoni innilegar samúðarkveðjur og vona að minningin um góðan dreng lini söknuð þeirra.

Stefán Friðfinnsson

 

Vestfirðingar í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka á Jónsmessuhátíð 2013.
F.v.: Önfirðingurinn Jón Hákon Magnússon á Seltjarnarnesi og Norðurkoti á Eyrarbakka og hjónin Stefán Friðfinnsson úr Ísafjarðardjúpi og Ragnheiður Ebeneserdóttir frá Flateyri.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

________________________________________________________________________________________________

 

Jón Hákon kom oft við að Stað. Fv.: Jón Hákon Magnússon og Siggeir Ingólfsson.

.

Framan við Stað fyrir nokkrum árum

F.v.: Magnús Sigurjónsson á Stokkseyri, Siggeir Ingólfsson á Eyrarbakka, Jón Hákon Magnússon á SEltjarnarnesi og Norðurkoti á Eyarrbakka og Þorsteinn Jóhannsson á Flateyri.
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Í Húsinu á Eyrarbakka fyrir nokkrum árum.
F.v.: Hjónin Áslaug Harðardóttir og Önfirðingurinn Jón Hákon Magnússon og hjónin Þórunn Vilbergsdóttir og Önfirðingurinn Óskar Magnússon.
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

  

Minningargreinar - Morgunblaðið þriðjudagurinn 29. júlí 2014.

 

Skráð af Menningar-Staður

28.07.2014 11:54

Guðmundur Brynjólfsson skipaður sendiherra

 

Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur á Eyrarbakka og sendiherra á Gotlandi.

 

Guðmundur Brynjólfsson skipaður sendiherra

 

Hrútavinafélagið Örvar gjörir kunnugt:

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi hefur  skipað  Guðmund Brynjólfsson, rithöfund  á Eyrarbakka, sendiherra í Visby á Gotlandi við suður-austur Svíðþjóð en þar dvelur hann við skriftir nú um stundir.

Þar er hrúturinn í hávegum hafður og er  hrútur við öll hlið á virkisveggnum. Og víða við þær götur hvar bílar eiga ekkert erindi þá er  hrútur við enda hennar.


Þessi skipun mun styrkja hið mikla og góða starf Hrútavina í Skandinavíu og Mið-Evrópu með Eyrarbakka sem möndul.

Þessi sendiherraskipun tekur gildi í dag 28. júlí 2014 - einveldisdeginum-

 

Í Visby á Gotlandi

.

Gotlands flag

.

 

 

Skráða f Menningar-Staður

28.07.2014 11:07

28. júlí 1662 - Kópavogsfundurinn

Þingstaðurinn við Kópavogslæk.

 

28. júlí 1662 - Kópavogsfundurinn

 

28. júlí 1662 Erfðahyllingin í Kópavogi (Kópavogsfundur).

Helstu forystumenn þjóðarinnar, m.a. Árni Oddsson lögmaður og Brynjólfur Sveinsson biskup í Skálholti, undirrituðu skuldbindingarskjal er miðaði að einveldi Danakonungs hér á landi.

Morgunblaðið mánudagurinn 28. júlí 2014 - Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson

 

.

Brynjólfur Sveinsson biskup í Skálholtib er 1000 krónu seðlinum.

.

.
Brynjólfur var fæddur að Holti í Önundarfirði þar sem minnisvarði um hann stendur.

.

.

.

Skráða f Menningar-Staður

 

28.07.2014 08:02

Merk saga Hússins rakin

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Húsið á Eyrarbakka.

 

Merk saga Hússins rakin

  Meðal elstu bygginga landsins

 

Árið 1765 var tilsniðið timburhús flutt hingað til lands og reist á Eyrarbakka. Húsið, eins og það nefnist, er á tveimur hæðum, 20 x 14 álnir að flatarmáli. Viðbygging við húsið var reist árið 1881 og nefnist Assistentahúsið og var í upphafi aðsetur verslunarþjóna Lefolii-verslunarinnar.

Húsið er til sýnis alla daga yfir sumartímann. Innandyra er reynt að hafa Húsið sem líkast því sem áður var og hefur verið notast við ljósmyndir og geta gestir tyllt sér í stofunni eða borðstofunni og skoðað þær heimildir sem til eru um bygginguna. Gamalt eldstæði er í eldhúsinu og allt er eins upprunalegt og hægt er. Á borðum eldhússins má til dæmis sjá safngripi sem allir tengjast kaffidrykkju Íslendinga á einhvern hátt og í stofunni er merkasti gripur safnsins sem er ævafornt píanó.

Morgunblaðið mánudagurinn 28. júlí 2014

 

.

.

 

Skráð af Menningar-Staður

28.07.2014 07:58

Aldamótahátíð á Eyrarbakka 9. ágúst 2014

 

               Aldamótahátíð á Eyrarbakka 9. ágúst 2014

                              Hjartanlega velkomin

27.07.2014 21:14

Útskipun á vikri í Þorlákshöfn 26. og 27. júlí 2014

 

F.v.: Trausti Sigurðsson á Eyrarbakka og Guðmundur Hjartarson í Þorlákshöfn.

 

Útskipun á vikri í Þorlákshöfn 26. og 27. júlí 2014

 

Á vegum -BM-Vallár- var skipað út nú á helginni í Þorlákshöfn  9.000 rúmmetrum af Hekluvikri í flutningaskipið   Wilson Tyne.

Þetta eru rétt um 5.670 tonn og fóru vörubílarnir sem óku vikrinum úr vikurfjallinu rétt vestan við höfnina í Þorlákshöfn  alls 600 ferðir til skips með vikurfarma.

Skipið siglir með farminn til Rotterdam í Hollandi þar sem vikrinum verður umskipað í pramma sem sigla um ár og skurði með vikurinn á endastað sem er í Þýskalandi.

Menningar-Staður var í Þorlákshöfn og fékk þessar upplýsingar hjá Guðmundi Hjartarsyni verkstjóra BM-Vallár á Þorlákshafnarbryggju og Trausta Sigurðssyni vöribílstjóra á Eyrarbakka en hann var með einn þeirra bíla sem fluttu vikurinn til skips.

Myndaalbúm er komið hér á Menningar-Stað.
Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/263904/


Nokkrar myndir hér:

 

.

.

.

.

.

.

.
Skráð af Menningar-Staður

27.07.2014 13:10

Málsbætur Marðar Valgarðssonar

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

 

Málsbætur Marðar Valgarðssonar

 

Mörður er ný skáldsaga eftir Bjarna Harðarsonar. Bókin er skrifuð í orðastað Marðar Valgarðssonar, goða á Hofi á Rangárvöllum, en hann er eins og kunnugt er ein af höfuðpersónum Njálssögu og sannarlega ekki sú vinsælasta.

Í dimmum skála liggur hinn aldni og umdeildi goði banaleguna hálfri öld eftir kristnitöku.

Í bókinni gengur höfundur á hólm við hefðbundna sýn Íslendinga á Njálssögu.

Morgunblaðið sunnudagurinn 27. júlí 2014


F.v.: Siggeir Ingólfsson og Bjarni Harðarson sem um tíma bjó á Eyrarbakka.

.

F.v.: Kristján Runólfsson og Bjarni Harðarson.Skráð af Menningar-Staður
 

27.07.2014 12:40

Larry Spotted Crow Mann og UniJon í Húsinu á Eyrarbakka 27. júlí 2014

alt

 

Larry Spotted Crow Mann og UniJon

í Húsinu á Eyrarbakka 27. júlí 2014

 

Larry Spotted Crow Mann er af ættflokki Nipmuc Indjána í Massachusetts í Bandaríkjunum. Hann er rithöfundur, skáld, sögumaður og trommari. Hann heldur fyrirlestra víða um heim, þar sem hann hvetur fólks til meðvitundar um stöðu Indjána og náttúrunnar. Hann er einnig þekkur fyrir að hjálpa ungum Indjánum til betra lífs eftir áfengis- og vímuefnavanda.

 

Larry Spotted Crow Mann á stutt stopp á Íslandi og mun halda tvö sagnakvöld meðan á dvöl hans stendur. Hann verður í Húsinu á Eyrarbakka, sunnudagskvöldið 27. júlí kl. 19:30. Með honum á Eyrarbakka munu einnig koma fram dúettinn UniJon, sem munu leika tónlist af nýútkominni plötu sinni Morning Rain. Larry verður einnig í vinnustofu listamannsins Tolla að Héðinsgötu 2 í Reykjavík, mánudagskvöldið 28. júlí kl 20.

Enginn aðgangseyrir, en frjáls framlög eru vel þegin. Þetta er fullkomið tækifæri til að eiga notalega kvöldstund í návist þessa áhugaverða listamanns.

Larry gaf nýverið út bókina “The Mourning Road to Thanksgiving”, sem er saga sem segir af raunverulegum vanda Indjána í núverandi menningarheimi Bandaríkjanna. Hann er nú á ferðalagi til Íslands og Grænlands til að kynna bók sína.

 

 

alt

 

Skráð af Menningar-Staður

27.07.2014 06:08

Markaskorarinn mikli á Eyrarbakka

 

Jóhanna Elín Halldórsdóttir með boltann.
Ljósm.: Guðmundur Karl Sigurdórsson og Halldór Páll Kjartansson.

 

 

 

Markaskorarinn mikli á Eyrarbakka

 

Um seinustu helgi fór fram 30. Símamót Breiðabliks í Kópavogi en mótið er fyrir stúlkur í 5. til 7. flokki.

 Er þetta langstærsta og elsta knattspyrnumót sem haldið er fyrir stúlkur á Íslandi.

Selfoss átti tíu lið á mótinu og hún leyndi sér ekki gleðin hjá rúmlega 70 þátttakendum Selfoss auk þjálfara og fjölda foreldra.

 

Jóhanna Elín Halldórsdóttir á Eyrarbakka er í einu af Selfossliðunum í 7. flokki og skoraði hún samtals 20 mörk á mótinu.

 

Leikirnir og mörg Jóhönnu Elínar Halldórsdóttur:

Selfoss-Haukar 5-3 -  (Jóhanna Elín 3)

Víkingur-Selfoss 4-1  - (Jóhanna Elín 1)

FH-Selfoss 3-2  - (Jóhanna  Elín 2)

Selfoss-Stjarnan 7-3 -  (Jóhanna  Elín 6)

Fram-Selfoss 2-1  -  (Jóhanna  Elín 1)

ÍR/Leiknir-Selfoss 3-1 -  (Jóhanna  Elín 1)

Selfoss-Breiðablik 1-1

Selfoss-Víkingur 6-4  - (Jóhanna Elín 6)

 

 

Fögnuður. 
 

 

 

Skráð af Menningar-Staður