Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2015 Janúar

15.01.2015 07:36

Merkir Íslendingar - Guðmundur Ingi Kristjánsson

 

 

 

Merkir Íslendingar - Guðmundur Ingi Kristjánsson

 

Guðmundur Ingi fæddist á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði 15. janúar 1907. Foreldrar hans voru Kristján Guðjón Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli, og k.h., Bessabe Halldórsdóttir.

Systir Kristjáns var Guðrún, amma Gests Ólafssonar skipulagsfræðings og langamma Þórunnar Valdimarsdóttur, rithöfundar og sagnfræðings. Kristján var sonur Guðmundar Pálssonar, bónda á Kirkjubóli, bróður Hákonar, langafa Sigurjóns Péturssonar heitins, sem var forseti borgarstjórnar.

Systir Bessabe var Friðrikka, amma Einars Odds Kristjánssonar alþm.

Systkini Guðmundar Inga voru Ólafur, skólastjóri í Hafnarfirði, faðir Kristjáns Bersa skólameistara og afi Ólafs Harðarsonar stjórnmálafræðings, Jóhanna á Kirkjubóli, og Halldór, rithöfundur og alþm.
 

Eftirlifandi eiginkona Guðmundar Inga er Þuríður Gísladóttir frá Mýrum í Dýrafirði og stjúpsonur hans Sigurleifur Ágústsson.


Guðmundur Ingi ólst upp á Kirkjubóli, var þar heimilisfastur alla tíð og bóndi þar frá 1944. Hann stundaði nám við eldri deild Alþýðuskólans á Laugum og eldri deild Samvinnuskólans í Reykjavík. Guðmundur Ingi var kennari í Mosvallahreppi af og til um langt árabil og auk þess skólastjóri heimavistarskólans í Holti 1955-74.

Guðmundur Ingi sat í stjórn ungmennafélagsins Bifröst, Héraðssambands ungmennafélaga Vestfjarða, stjórn Kaupfélags Önfirðinga, Búnaðarfélags Mosvallahrepps, var formaður Búnaðarsambands Vestfjarða, oddviti Mosvallahrepps um langt árabil og sýslunefndarmaður, sat í skólanefnd hreppsins og Héraðsskólans á Núpi og var þrisvar í framboði til Alþingis fyrir Framsóknarflokkinn.

Ljóðabækur Guðmundar Inga eru Sólstafir 1938, Sólbráð 1945, Sóldögg 1958, Sólborgir 1963 og Sólfar 1981. Hann var sæmdur riddarakrossi 1984 og var heiðursborgari Mosvallahrepps og Ísafjarðarbæjar.

Guðmundur Ingi lést 30. ágúst 2002.

 

Morgunblaðið 15. janúar 2015 - Merkir Íslendingar

 


Þuríður Gísladóttir frá Mýrum í Dýrafirði og Guðmundur Ingi Kristjánsson.Skráð af Menningar-Staður

 

14.01.2015 22:11

Gylfi ráðinn kennslustjóri - þrjátíu fangar í námi

 

image

Gylfi Þorkelsson.

 

Gylfi ráðinn kennslustjóri - þrjátíu fangar í námi

 

Gylfi Þorkelsson, kennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands, hefur verið ráðinn kennslustjóri í fangelsunum á Litla-Hrauni og Sogni. Gylfi tekur við starfinu af Ingis Ingasyni.

„Starfið leggst mjög vel í mig. Þetta er krefjandi og spennandi starf og í því felast miklir þróunarmöguleikar. Sífellt fleiri gera sér grein fyrir mikilvægi menntunar fyrir fanga til að greiða för þeirra aftur út í samfélagið. Þetta er víðáttumikill, óplægður akur, þó gott starf hafi vissulega verið unnið við þröngan kost, raunar ótrúlega gott miðað við aðstæður,“ sagði Gylfi í samtali við Sunnlenska.

„En framþróunin veltur að miklu leyti á fjárveitingavaldinu, skilningi á því að háar fjárhæðir sparast því fleiri sem ná að koma undir sig fótunum í samfélaginu og því færri sem koma aftur í fangelsi, að aukin framlög í þennan málaflokk munu spara þjóðfélaginu mikla peninga. Fyrir nú utan það sem mestu máli skiptir, að einstaklingarnir sem um ræðir öðlast betra líf.“

Gylfi þekkir vel til kennslu í fangelsum en hann hefur kennt í þeim í tvo áratugi. „Ég hef kennt í fangelsunum alveg frá fyrstu árum mínum við Fjölbrautaskóla Suðurlands, er íslenskukennari og hef alla tíð sinnt allri íslenskukennslu á Litla-Hrauni, í Bitru og á Sogni, utan eins árs þegar ég var í námsleyfi. Að langmestu leyti hefur gengið mjög vel og þetta verið skemmtileg vinna.

Á önninni sem er að hefjast eru alveg um þrjátíu nemendur skráðir í eitthvert nám, langflestir á Litla-Hrauni, sumir í einn eða tvo áfanga en aðrir í fleiri. Kennararnir sem að koma eru á annan tuginn, sumir fara á staðinn en aðrir eru með nemendur í fjarnámi,“ segir Gylfi.

Gylfi segir tvennt ólíkt að kenna í dagskólanum á Selfossi og í fangelsunum. „Ekki vegna þess að fangarnir séu í stórum dráttum eitthvað öðruvísi nemendur, allir nemendur eru bara mismunandi manneskjur með kostum sínum og göllum, heldur vegna þess að í dagskólanum fáum við stóran hóp, 25 til 30 manns í tiltölulega litlu rými, sem á að læra sama námsefnið, þrisvar í viku í þrjá, fjóra mánuði. Í fangelsunum eru 5-15 nemendur í stofunni, kannski hver í sínum áfanganum, alla vega hver á sínum stað í námsefninu, svo kennslan verður persónulegri. Möguleikarnir á einstaklingsmiðuðu námi, sem krafa er gerð um í lögum, eru miklu betri. Það er raunhæfara að aðstoða hvern og einn í samræmi við þarfir heldur en í stóru hópunum, þar sem nemendur eru líka mjög misvel staddir,“ segir Gylfi ennfremur.

Af:  www. sunnlenska.is


 

 

Margrét Frímannsdóttir lengst til hægri með kennurum á Litla-Hrauni við kveðjuathöfn þegar Ingi S. Ingason lét af störfun þar og á Sogni nú fyrir jólin.
Ingi S. Ingason í miðjunni á myndinni.

 

 

Ingis og Margrét.

.

.

 

.

 

 

Skráð af Menningar-Staður.

13.01.2015 13:47

Fundað með Guðföður í Brattsholti

 


Bjarkar Snorrason í Brattsholti - Guðfaðir Hrútavinafélagsins Örvars.
 

 

 

Fundað með Guðföður í Brattsholti

 

Ársfundur Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi með Guðföður félagsins, Bjarkari Snorrasyni,  var haldinn þriðjudaginn 13. janúar 2015 í Brattsholti í Stokkseyrarhreppi  hinum forna.

Eins og frægt er varð Hrútavinafélagið Örvar til á Hrútasýningu í fjárhúsinu á Tóftum hjá Bjarkari Snorrasyni og fleiri bændum af Suðurlandi haustið 1999.

Farið var yfir síðasta ár -2014- sem var veglegt 15 ára afmælisár Hrútavinafélagsins með hápunkti í Hringferð félagsins um Ísland. Þá var hort til framtíðar og bullandi stefnumótun í gangi varðandi árið  -2015-

Bjarkar Snorrason fékk bætiefni fyrir fundinn; bæði í andlegu fóðri og viðeigandi vökva. Þetta var bókin „Vestfirskir sjómenn í blíðu og stríðu“ og límonaði og lofaði Bjarkar hvorutveggja.


 

Fært til myndar og mæru:
 

Bjarkar nú við betri hag

bætiefnin laga.

Bók að vestan brus í lag

blessa slíka daga.

 


.

 


Guðrún Jóna Borgarsdóttir á Tóftum og Bjarkar Snorrason í Brattsholti.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

13.01.2015 07:36

"Að sunnan" - Mæta með samtals 50 ára starfsreynslu á N4

 

 

"Að Sunnan" - Mæta með samtals 50 ára starfsreynslu á N4

 

Margrét Blöndal, hin góðkunna dagskrárgerðarkona, og Sighvatur Jónsson, fjölmiðlamaður frá Vestmannaeyjum, skrifuðu í gær, 12. janúar 2015, undir samning við N4 um framleiðslu þáttanna „Að sunnan“ sem sýndir verða á N4 á miðvikudagskvöldum í vetur. Margrét og Sighvatur hafa gríðarlega mikla reynslu af fjölmiðlum, hvorki meira né minna en 50 ár samtals.

Margrét Blöndal hefur unnið við fjölmiðla í 31 ár, bæði í útvarpi, sjónvarpi og við blaðaskrif. Undanfarin ár hefur hún stýrt þættinum Bergsson og Blöndal með Felix Bergssyni á Rás2. „Ég er full tilhlökkunar. Ég hef fylgst með N4 frá upphafi og það hefur glatt mig mjög að sjá stöðina vaxa og dafna. Það verður gaman að vinna í skapandi og skemmtilegu umhverfi og þeytast með Hvata um Suðurland þvert og endilangt. Ég er full tilhlökkunar enda erum við strax farin að fá jákvæð og gleðileg viðbrögð frá Sunnlendingum," segir Margrét Blöndal.

Sighvatur hefur unnið við fjölmiðla í 19 ár, jafnt útvarp sem sjónvarp. Hann er menntaður margmiðlunarsérfræðingur og tölvunarfræðingur frá Danmörku. Sighvatur hefur rekið framleiðslufélagið SIGVA media undanfarin tíu ár sem hefur framleitt heimildarmyndir og sjónvarpsefni fyrir RÚV og 365 miðla. Sighvatur hefur verið fréttaritari RÚV á Suðurlandi ásamt því sem hann er umsjónarmaður Vinsældalista Rásar 2. „Það er mjög spennandi að taka þátt í þessu framleiðsluverkefni með N4 á Suðurlandi. Margréti þekki ég vel vegna starfa okkar á Rás 2 og hún er einn jákvæðasti og brosmildasti samstarfsmaður sem ég hef kynnst. Við hlökkum til að taka hús á Sunnlendingum á næstunni og bæta fjórðungnum við ágæta landsbyggðardagskrá N4," segir Sighvatur.

Þættirnir „Að sunnan“ verða sýndir á miðvikudagskvöldum kl. 18:30 og endursýndir á klukkustunda fresti í sólarhring. Fjallað verður um allt milli himins og jarðar á svæðinu frá Hveragerði til Hafnar í Hornafirði. „Það er hreint út sagt algjör himnasending að fá svona hæfileikaríkt og yndislegt fólk með samtals hálfrar aldar reynslu úr bransanum til liðs við okkur. Við á N4 höfum mikinn áhuga á því að færa út kvíarnar og ég er spennt fyrir því að Suðurlandið sé með þessu að bætast við. Svo vona ég auðvitað að fleiri svæði og enn fjölbreyttara efni bætist við í flóruna þegar fram líða stundir,“ segir Hilda Jana Gísladóttir dagskrárstjóri N4.

 

Af Facebook - N4

Skráð af Menningar-Staður

 

13.01.2015 07:00

Merkir Íslendingar - Hannibal Valdimarsson

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Hannibal Valdimarsson

 

Merkir Íslendingar - Hannibal Valdimarsson

 

Hannibal fæddist í Fremri-Arnardal í Skutulsfirði 13. janúar 1903. Foreldrar hans voru Valdimar Jónsson, bóndi þar, og k.h. Elín Hannibalsdóttir.

Bróðir Hannibals var Finnbogi Rútur, alþm. og bankastjóri.

Eiginkona Hannibals var Sólveig Ólafsdóttir og urðu synir þeirra landsþekktir, þeir Arnór heimspekiprófessor, Ólafur, rithöfundur og fyrrv. vþm., og Jón Baldvin, fyrrv. alþm. ráðherra, formaður Alþýðuflokksins og sendiherra.

Hannibal stundaði sjósókn og verkamannavinnu á unglingsárum og lauk prófi frá kennaraskólanum í Jonstrup 1927. Hann var skólastjóri í Súðavík 1929-31, stundaði skrifstofustörf hjá Samvinnufélagi Ísfirðinga, kenndi 1931-38 og var skólastjóri Gagnfræðaskólans á Ísafirði 1938-54. Hann hóf afskipti af verkalýðsbaráttu um 1930, var formaður Verkalýðsfélags Álftfirðinga í tvö ár og Verkalýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði 1932-39, forseti Alþýðusambands Vestfjarða 1934-54 og forseti ASÍ 1954-71, bæjarfulltrúi á Ísafirði 1933-49, alþm. 1946-73 og ráðherra í tveimur vinstristjórnum, Hermanns Jónassonar 1956-58 og Ólafs Jóhannessonar 1971-73.

Hannibal fór á þing fyrir Alþýðuflokkinn 1946, var formaður flokksins 1952-54, klauf flokkinn 1956 og gekk til kosningasamstarfs við Sósíalista sem forsvarsmaður Málfundafélags jafnaðarmanna undir nafni Alþýðubandalags og var formaður þess 1956-68, skildi þá við Alþýðubandalagið og stofnaði Samtök frjálslyndra og vinstrimanna 1969 og var formaður þeirra er þau unnu stórsigur í þingkosningum 1971 og felldu Viðreisnarstjórnina.

Samtök Hannibals tóku þá þátt í nýrri vinstristjórn sem Hannibal rakst illa í enda bendir ýmislegt til að hann hefði fremur kosið að framlengja Viðreisnarstjórn með Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki en að mynda nýja vinstristjórn. Hann lauk síðan stjórnmálaferlinum í gamla góða Alþýðuflokknum sem hann hafði ungur gefið hjarta sitt.

Hannibal lést 1. september 1991.
 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 13. janúar 2015 - Merkir Íslendingar
 

Skráð af Menningar-Staður

 

12.01.2015 17:01

Opnað fyrir umsóknir um Eyrarrósina

 

 

Opnað fyrir umsóknir um Eyrarrósina

 

Eyrarrósin verður veitt í ellefta sinn í mars næstkomandi, fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Markmið viðurkenningarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Umsækjendur um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð og það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem staðið hafa saman að verðlaununum frá upphafi árið 2005.

Tíu verkefni verða valin á Eyrarrósarlistann og þrjú þeirra hljóta tilnefningu til Eyrarrósarinnar ásamt peningaverðlaunum og flugmiðum frá Flugfélagi Íslands. Eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna, 1.650.000 kr. Hin tvö hljóta 300.000 kr. og auk þess fá öll þrjú tilnefndu verkefnin flugmiða með Flugfélagi Íslands.

UMSÓKNUM SKAL FYLGJA:

 • Lýsing á verkefninu
 • Lögð skal fram greinargóð lýsing á verkefninu, umfangi þess, sögu og markmiðum.
 • Tíma- og verkáætlun
 • Gera skal grein fyrir stöðu og áætlaðri framvindu verkefnisins og áformum á árinu 2015. Skilyrði er að verkefninu hafi nú þegar verið hleypt af stokkunum.
 • Upplýsingar um aðstandendur
 • Lagðar skulu fram ítarlegar upplýsingar um helstu aðila sem að verkefninu standa og grein gerð fyrir þeirra þætti í því.
 • Fjárhagsáætlun
 • Tilgreina skal tekjur og gjöld verkefnisins á þessu ári. Uppgjör ársins 2014 fylgi umsókn.

Ef umsókn fylgja ekki ofangreindar upplýsingar verður hún ekki tekin til greina.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 8. febrúar 2015 og verður öllum umsóknum svarað. Umsóknir skal senda rafrænt til Listahátíðar í Reykjavík á netfangið eyrarros@artfest.is

Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem staðið hafa saman að verðlaununum frá upphafi árið 2005. Umsækjendur um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð.

Handhafar Eyrarrósarinnar frá upphafi:

 • Þjóðlagahátíðin á Siglufirði (2005)
 • LungA, Listahátíð ungs fólks á Austurlandi (2006)
 • Stranda­galdur á Hólmavík (2007)
 • Rokkhátíð alþýðunnar; Aldrei fór ég suður (2008)
 • Landnámssetur Íslands (2009)
 • Bræðslan á Borgarfirði eystra (2010)
 • Sumartónleikar í Skálholtskirkju (2011)
 • Safnasafnið á Svalbarðsströnd (2012)
 • Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi (2013)
 • Áhöfn­in á Húna (2014)

Af: www.byggdastofnun.is

 

Húni II

.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

12.01.2015 11:43

Bjarni Harðarson og Menningarráð Hrútavinafélagsins

 

 

Frá Menningarráðsfundi í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi þann 8. jan 2015.
F.v.: Siggeir Ingólfsson, Bjarni Harðarson og Kristján Runólfsson.

 

Bjarni Harðarson og Menningarráð Hrútavinafélagsins

 

Bjarni Harðarson skrifar á Facebook-síðu sinni:

Sjáiði hvað við hrútavinir í Flóanum erum orðnir mikið alþjóðlegir og framúrstefnumenn.

Hér tjáum við okkur alfarið með handapati og táknmáli en opnuðum munninn einasta í hljóðlausum varatáknum - frá vinstri taliðSiggeir IngólfssonBjarni Harðarson og Kristján Runólfsson.

Þegar samskipti eru svona hljóðlaus gerir líka minna til þó að allir tali í einu eins og hér á sér greinilega stað.

 

Kristján Runólfsson bætti við vísu vegna þessa:

Orðin sýnast einskins verð,
enginn stendur þó á gati,

allir skilja annars gerð,
allt er tjáð með handapati.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

11.01.2015 07:13

Hrútavinavísa Guðmundar Stefánssonar í Hraungerði

 

Hrútavinirnir - Blævarvinirnir

F.v.: Þórður Guðmundsson, Stokkseyri, Rúnar Eiríksson, Eyrarbakka, Kristján Runólfsson, Hveragerði og Siggeir Ingólfsson, Eyrarbakka.

 

Hrútavinavísa Guðmundar Stefánssonar í Hraungerði

 

Eftir fund Menningaráðs Hrútavina þann 8. janúar 2015, í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi, sendi Guðmundur Stefánsson í Hraungerði, -  til Hrútavinua þessa vísu

Farin burtu fengitíð,

að Fossi margir skunda.

Blævarvinir bragasmíð

á bókakaffi stunda.

 

PS. Blær (ft. blævar) þýðir hrútur á fornu máli (sbr. blæsma).

Afi minn á Eyrarbakka talaði um að fara upp að Fossi, þegar hann ætlaði að fara upp að Selfóssi.

(Hér var líka talað um að fara út að Ölfusá eða út að Skála (Tryggvaskála))

 

Hrútavinurinn - Blævarvinurinn - Guðmundur Stefánsson í Hraungerði.
 

Skráð af Menningar-Staður 

 

10.01.2015 07:06

Nokkrir sunnlenskir listamenn á meðal launþega

 

image

Guðmundur S. Brynjólfsson, rithöfundur á Eyrarbakka, fær þriggja mánaða laun.

Ljósm.: sunnlenska.is/Sigmundur

 

Nokkrir sunnlenskir listamenn á meðal launþega

 

Í dag var birt úthlutun listamannalauna árið 2015 og má finna nokkra sunnlenska listamenn þar í hópi 267 einstaklinga og hópa.

Til úthlutunar voru 1.601 mánaðarlaun, sótt var um 10.014 mánuði. Alls bárust 769 umsóknir frá einstaklingum og hópum (1296 einstaklingar) um starfslaun og ferðastyrki og var úthlutað til 267 einstaklinga og hópa. Samkvæmt fjárlögum 2015 eru mánaðarlaunin 321.795 kr. Um verktakagreiðslur er að ræða.

Meðal þeirra Sunnlendinga sem eru á úthlutunarlistanum eru Sirra Sigrún Sigurðardóttir sem fær níu mánaða laun úr launasjóði myndlistarmanna. Úr launasjóði rithöfunda fær Guðmundur Brynjólfsson þriggja mánaða laun, Friðrik Erlingsson sex mánaða laun og Sölvi Björn Sigurðsson tólf mánaða laun.

Hreiðar Ingi Þorsteinsson færi þriggja mánaða laun úr launasjóði tónskálda og Elín Gunnlaugsdóttir sex mánaða laun úr sama sjóði.

Úthlutunina má kynna sér hér.

Af www.sunnlenska.is

Skráð af menningar-Staður.

09.01.2015 07:12

Jólin kvödd á Selfossi í kvöld - föstudagskvöld 9. jan. 2015

 

 

 

Jólin kvödd á Selfossi í kvöld - föstudagskvöld 9. jan. 2015

 

Jólin verða kvödd á Selfossi með glæsilegri þrettándagleði í kvöld -föstudaginn 9. janúar 2015. Gleðin verður með hefðbundnu sniði og sér Ungmennafélag Selfoss um framkvæmdina.

Að vanda verður farin blysför frá Tryggvaskála kl. 20:00 að brennustæði á tjaldstæði Gesthúsa þar sem kveikt verður í þrettándabálkesti. Jólasveinarnir kveðja og álfar og tröll mæta á svæðið. Þá verður glæsileg flugeldasýning í umsjón félagsins með stuðningi Björgunarsveitar Árborgar.

Þeim sem taka þátt í blysförinni er bent á bílastæði við Ráðhúsið, Krónuna og Hótel Selfoss. Nokkur bílastæði eru við Austurveg en á leið göngunnar að brennustæðinu er fjöldi góðra bílastæða við leikskólann Álfheima og Vallaskóla, við Sundhöll Selfoss og Fjölheima.

Vegna blysfararinnar lokast Engjavegur frá Reynivöllum að Rauðholti og er fólki bent á að leggja í nálæg bílastæði. Má nefna að mikill fjöldi bílastæða er við íþróttahúsið Iðu og Fjölbrautaskóla Suðurlands auk góðra bílastæða við leikskólann Hulduheima. Þá eru og bílastæði við Selið en eins og áður segir er mælst til þess að bílum sé ekki lagt við Engjaveg á milli Reynivalla og Rauðholts.

Þar sem fjöldi ungra barna sækir þrettándagleðina er þeim tilmælum beint til fólks að vera ekki með flugelda nærri blysförinni eða við brennuna.

Af www.sunnlenska.is

 

Skráð af Menningar-Staður