Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2015 Febrúar

24.02.2015 17:03

24. feb. 1924 - Stytta af Ingólfi gefin landi og þjóð

 

 

Ingólfur Arnarson á Arnarhóli í Reykjavík.

 

24. feb. 1924 - Stytta af Ingólfi gefin landi og þjóð

 

Styttan af Ingólfi Arnarsyni var afhjúpuð á Arnarhóli í Reykjavík þann 24. febrúar árið 1924 að viðstöddu miklu fjölmenni. Í fréttum frá þeim tíma er reyndar talað um líkneski en ekki styttu eins og nú tíðkast.
 

Líkneskið var gert af Einari Jónssyni myndhöggvara en hann var ekki við staddur vígslu þess því hann var staddur í útlöndum. 

Það var Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík sem kostaði gerð listaverksins og gaf það landi og þjóð. Formaður félagsins, Jón Halldórsson trésmíðameistari frá Vöðlum í Önundarfirði, afhenti landsstjórninni verkið við afhjúpun og Sigurður Eggerz forsætisráðherra þakkaði gjöfina.

 

Fréttablaðið þriðjudagurinn 24. febrúar 2015

 

 


Arnarhóll í Reykjavík.

Skráð af Menningar-Staður.

 


 

24.02.2015 15:46

Prentsögusetrið verður hýst á Eyrarbakka

 


Stjórn Prentsöguseturs sem verður á Eyrarbakka.

(F.v.) Svanhvít Ólafsdóttir, Jón Sandholt, Haukur Haraldsson, Svanur Jóhannesson, Heimir Jóhannsson og Þóra Björnsson. Á myndina vantar Þórleif Friðriksson. Ljósmynd/Ragnheiður Traustadóttir.

 

Prentsögusetrið verður hýst á Eyrarbakka

 

Síðastliðinn laugardag var haldinn stofnfundur Prentsöguseturs, sem verða mun til húsa á Eyrarbakka.

Fundurinn var haldinn í fyrirlestrarsal Landsbókasafns í Þjóðarbókhlöðunni og sátu hann fjörutíu manns.

 

Með stofnun Prentsöguseturs er stigið skref sem lengi hefur verið í undirbúningi. Umræða um Prentminjasafn hefur lengi verið í gangi, enda fáar stéttir sem gengið hafa í gegnum jafn róttækar breytingar í tækni og vinnubrögðum og bókagerðarfólk. Tilfinningin fyrir nauðsyn þess að varðveita söguna hefur, ekki síst þess vegna, verið rík innan stéttarinnar.

Á stofnfundinum fluttu þau Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur, Bjarni Harðarson bóksali og kaffivert og Björn G. Björnsson fræðandi og skemmtileg erindi; Ragnheiður um uppgröft að Hólum í Hjaltadal, þar sem prenthús staðarins var m.a. grafið upp, Bjarni um bókabæina austanfjalls, en Prentsögusetur mun tengjast því verkefni og Björn fjallaði um möguleika í skipulagningu safna. Oddgeir Þór Gunnarsson, varaformaður Félags bókagerðarmanna, flutti stofnfundinum kveðju félagsins og lagði fram rausnarlegt fjárframlag til að auðvelda setrinu fyrstu skrefin. Einnig flutti Sigurður B. Halldórsson, lögfræðingur Samtaka iðnaðarins, fundinum kveðju samtakanna.

 

Í markmiðslýsingu og framtíðarsýn Prentsöguseturs segir m.a. að markmið Prentsöguseturs sé að stuðla að söfnun, skráningu og varðveislu minja sem tengjast prentsmiðjurekstri á Íslandi frá upphafi, með megináherslu á þróun tækjabúnaðar, efnisnotkunar og vinnubragða. Einnig að stuðla að rannsóknum, sýningum og kynningum á því sem setrið hefur yfir að ráða þessu tengt og því rannsóknarstarfi sem fram fer hverju sinni.

Markmiðinu um söfnun skal náð með öflun heimilda, ritaðra eða munnlegra, tækja og verkfæra, myndefnis og annars sem tengist prentiðnaði á Íslandi og tök eru á að nálgast. Setrið skal sjá um skráningu og varðveislu, annað hvort sjálft eða með sérstökum samningum við önnur söfn, setur eða varðveislustofnanir.

Markmiðinu um rannsóknir skal náð með markvissri söfnun og úrvinnslu heimilda og rannsókna á því sem til er í þeim safnakosti sem fyrir er á landinu. Setrið skal kynna niðurstöður rannsókna á þess vegum fyrir almenningi með sýningum, viðburðum og útgáfustarfi.

Leitast verður við að nota í kynningar- og sýningarstarfi þá nýjustu tækni sem gerir gestum og gangandi mögulegt að fá sem skýrasta mynd af tækniþróun og sögu prentiðnaðar á Íslandi.

Prentsögusetur hyggst ná þessum markmiðum sínum með eigin starfi og faglegu samstarfi við sérfræðinga og áhugafólk, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga, ásamt því að koma á samstarfverkefnum innanlands og utan. Prentsögusetrið leggur áherslu á að opna dyr sínar fyrir færustu vísindamenn og einnig fyrir áhugafólki um söguna. Prentsögusetri er ætlað að miðla upplýsingum um rannsóknir sínar til almennings og fræðasamfélagsins eftir því sem við á hverju sinni.

 

Kosið var í stjórn og varastjórn Prentsöguseturs á stofnfundinum; í aðalstjórn þau Haukur Már Haraldsson, Heimir Br. Jóhannsson, Svanur Jóhannesson, Þóra Elfa Björnsson og Þórleifur V. Friðriksson, en þau Jón Arnar Sandholt og Svanhvít Stella Ólafsdóttir í varastjórn. Stjórnin mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi.

Af. www.sunnlenska.is

 


Svanur Jóhannesson í Hveragerði

 

Bjarni Harðarson á Selfossi.

Skráð af Menningar-Staður

24.02.2015 15:27

RÚMUM 175 MILLJÓNUM ÚTHLUTAÐ ÚR FRAMKVÆMDASJÓÐI FERÐAMANNASTAÐA

 


Meðal þeirra sem fengu styrk er Sveitarfélagið Árborg -

Uppbygging Knarrarósvita á Stokkseyri Kr. 2.030.000,- styrkur til endurbóta á vitanum og endurnýjun göngustígs.

Markmið styrkveitingar er að styðja við sjálfbæra ferðamennsku á svæðinu og auka öryggi ferðamanna.
 

 

RÚMUM 175 MILLJÓNUM ÚTHLUTAÐ ÚR FRAMKVÆMDASJÓÐI FERÐAMANNASTAÐA

 

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um fyrstu úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2015. Að þessu sinni fengu 50 verkefni styrk fyrir 175,7 milljónir króna, til hönnunar og framkvæmda á ferðamannastöðum.

Hæstu styrkir 12 milljónir króna

Sem fyrr eru verkefnin fjölbreytt og dreifast víða um land. Hæstu styrkina, 12 milljónir króna, hljóta Vatnajökulsþjóðgarður vegna salernisaðstöðu við Snæfellsskála og Akraneskaupstaður vegna framkvæmda við Breiðina. Snæfellsbær fær 10 milljón króna styrk vegna aðgengis við Bjarnarfoss í Staðarsveit og 3 verkefni fá styrk á bilinu 8-9,5 milljónir króna.

Styrkjum má skipta í eftirfarandi flokka:

  • Skipulag og hönnun, 7 styrkir kr. 18.9 milljónir
  • Framkvæmdir, 24 styrkir kr. 118.6 milljónir
  • Náttúruvernd og viðhald, 19 styrkir kr. 38, 2 milljónir

Að auki fékk Djúpavogshreppur 9 milljón króna styrk vegna skipulags og framkvæmda við Teigarhorn vegna sérstakra aðstæðna á svæðinu. Fjármagnað er með ónýttum eftirstöðvum eldri styrkja.

Sótt um fyrir 831 milljón

Alls bárust alls 103 umsóknir frá opinberum- og einkaaðilum sem hafa umsjón með ferðamannastöðum víðsvegar um landið. Heildarupphæð styrksumsókna var rúm 831 milljón króna en heildarkostnaður við verkefnin er áætlaður um 2 milljarðar króna.

Verulegur árangur náðst

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er nú á sínu fjórða starfsári og hefur frá upphafi úthlutað rúmlega 340 styrkjum að upphæð tæplega 1,5 milljarðar króna. Fullyrða má að verulegur árangur hafi þegar náðst af starfi sjóðsins. Víða um land má benda á spennandi verkefni sem orðið hafa að veruleika fyrir tilstuðlan þess fjármagns sem sjóðurinn hefur úthlutað, þótt vissulega sé enn víða þörf á úrbótum.

Næsta úthlutun

Gert er ráð fyrir að næst verði auglýst eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum í haust og þá vegna framkvæmda á árinu 2016.

Af www.ferdamalastofa.is

 

Skráð af Menningar-Staður

24.02.2015 13:16

Merkir Íslendingar - Sigríður Tómasdóttir í Brattholti

 

 

Sigríður Tómasdóttir.

 

 

Merkir Íslendingar - Sigríður Tómasdóttir í Brattholti

 

Sigríður Tómasdóttir fæddist í Brattholti við mynni Gullfossgljúfurs 24. febrúar 1871. Foreldrar hennar voru Tómas Tómasson, bóndi í Brattholti, sonur Tómasar Tómassonar, bónda þar, og k.h. Margrét Þórðardóttir.

 

Sigríður var þekkt fyrir baráttu sína gegn því að Gullfoss yrði virkjaður og lýsti hún því yfir að hún myndi fleygja sér í fossinn yrði hann virkjaður.

Gullfoss var að hálfu leyti í landi Brattholts og að hálfu í eigu Jaðars. Fyrst var Tómas faðir Sigríðar harður gegn því að selja fossinn, sagðist ekki vilja selja vin sinn, en svo fannst honum að hann stæði í vegi fyrir framförum í landinu og ákvað að að semja um leigu á fossinum. Þegar leigurétturinn var framseldur hafði orðið hugarfarsbreyting hjá Tómasi, hefur það verið rekið til áhrifa frá Sigríði, og neitaði hann að taka við greiðslu fyrir leigunni. Mál var höfðað gegn feðginunum og töpuðu þau því og því var ekkert til fyrirstöðu að fossinn yrði virkjaður. Barátta Sigríðar vakti hins vegar athygli þjóðarinnar á náttúruvernd og virkjun fossins var ekki lengur sú „nauðsyn“ til að efla framfarir í landinu eins og hún hafði verið í huga margra.

Eftir að Tómas og Margrét féllu frá hélt Sigríður áfram búskap í Brattholti ásamt Einari Guðmundssyni sem hafði á barnsaldri verið tekinn í fóstur að Brattholti.

 

Gísli Sigurðsson segir um hana í árbók Ferðafélags Íslands 1998 um Biskupstungur: „Í henni var listræn æð og harla óvenjulegt á þeim tíma, að hún fékkst við að teikna myndir, bæði af jurtum og dýrum og hannyrðakona var hún góð. Sigríður var samt „útivinnandi“ í þeim skilningi, að hún gekk jöfnum höndum að útiverkum og innanbæjarvinnu...“

 

Árnesingafélagið, menntamálaráðuneytið og Samband sunnlenskra kvenna reistu Sigríði minnisvarða við Gullfoss árið 1978 vegna baráttu hennar.

Sigríður lést í Hafnarfirði 17. nóvember 1957.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 24. febrúar 2015

 

Hrútavinir við Gullfoss.

Skráð af Menningar-Staður

23.02.2015 22:38

Séð og jarmað Ársrit 2013

 

 

 
 

Séð og jarmað Ársrit 2013

Smella á þessa slóð:
Séð og jarmað Ársrit 2013
 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

23.02.2015 17:23

Opinn fundur um staðsetningu Ölfusárbrúar 26. febrúar 2015

 

 

Opinn fundur um staðsetningu Ölfusárbrúar 26. febrúar 2015

 

Verslunarmannafélag Suðurlands boðar til opins fundar í sal félagsins á Austurvegi 56, Selfossi, 3. hæð, fimmtudagskvöldið 26. febrúar 2015 frá kl. 20:00 til 22:00 til að ræða málefni nýrrar Ölfusárbrúar og staðsetningu hennar.

Frummælendur verð:

  • Guðmundur Valur Guðmundsson, verkefnisstjóri Vegagerðarinnar.
  • Svanur Bjarnason, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Suðursvæði.
  • Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar,
  • Guðmundur Lárusson, bóndi í Stekkum.
  • Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi í Árborg.
  • Erla Gísladóttir, kaupmaður á Selfossi

Umræður og fyrirspurnir á eftir.

Fundarstjóri verður Gils Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurlands.

Fundurinn er öllum opinn meðan húsrúm leyfir.

Skráð af Menningar-Staður

23.02.2015 17:19

Hádegisuppákoma um áhrf nýrrar brúar yfir Ölfusá

 

 

Hádegisuppákoma um áhrf nýrrar brúar yfir Ölfusá

 

Hádegisuppákoma Fjölheima í febrúar er næsta miðvikudag, 25 febrúar 2015.

Í þetta sinn kemur Magnús Gísli Sveinsson en hann rannsakaði í BS verrkefni sínu í viðskiptafræði hugsanleg áhrif sem ný brú yfir Ölfusá gæti haft á þjónustuaðila hér á árbakkanum.

Ritgerð Magnúsar ber heitið „Áhrif hjáleiðar um Selfoss á verslun og þjónustu“. Í henni var gerð rannsókn á hverjar verslunarvenjur sumarhúsaeigenda í Grímsnes- og Grafningshreppi eru með það að markmiði að sjá hvort þær breytist ef þjóðvegur eitt væri færður norður fyrir Selfoss. Að auki var rætt við hagsmunaaðila og afstaða þeirra til framkvæmdarinnar könnuð og hvaða áhrif þeir teldu að færsla vegarins norður fyrir Selfoss hefði á þeirra rekstur.

Magnús munu segja frá sínum rannsóknum og helstu niðurstöðum og er því hér er einstakt tækifæri til að kynna sér vinnu Magnúsar við rannsókn á þessu mikilvæga málefni sem er mikið í umræðunni meðal íbúa á svæðinu.

Aðgangur er ókeypis en Birta mun bjóðaa upp á veitingar, samlokuhlaðborð og drykki með á 1.000 kr. og því er mikilvægt að skrá þáttöku í með því að senda tölvupóst á fjolheimar@gmail.com eða í síma 560 2030.

Athugið að fundurinn er í þetta sinn á miðvikudegi en ekki fimmtudegi og hefst kl 12.10 og stendur til 12.50

Allir eru velkomnir í Fjölheima
 

Skráð af Menningar-Staður

23.02.2015 09:53

Merkir Íslendingar - Dóra Þórhallsdóttir

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Dóra Þórhallsdóttir.

 

Merkir Íslendingar - Dóra Þórhallsdóttir

 

Frú Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú fæddist í Reykjavík 23.febrúar 1893. Foreldrar hennar voru Þórhallur Bjarnarson, prófastur í Reykholti, forstöðumaður Prestaskólans, alþm. og biskup Íslands, og k.h., Valgerður Jónsdóttir húsfreyja.

Þórhallur var sonur Björns Halldórssonar, prófasts í Laufási, og k.h., Sigríðar Einarsdóttur, en Valgerður var dóttir Jóns Halldórssonar, hreppstjóra á Bjarnastöðum, og Hólmfríðar Hansdóttur.

Systkini Dóru: Tryggvi forsætisráðherra, kvæntur Önnu Klemenzdóttur, Svava húsfreyja, gift Halldóri Vilhjálmssyni, skólastjóra Bændaskólans á Hvanneyri og Björn, sem lézt árið 1916.

Dóra giftist 3.10. 1917 Ásgeiri Ásgeirssyni, guðfræðingi, alþm., forsætisráðherra og öðrum forsta íslenska lýðveldisins 1952-68. Hann var sonur Ásgeirs Eyþórssonar, kaupmanns og bókhaldara, og Jensínu Bjargar Matthíasdóttur.

Börn Dóru og Ásgeirs: Þórhallur ráðuneytisstjóri, Vala forsætisráðherrafrú og Björg sendiherrafrú.

Frú Dóra ólst upp í Reykjavík, lengst af í Laufási við Laufásveg, á gestkvæmu menningarheimili. Hún var tvítug er hún missti móður sína og tók þá við stjórn heimilisins og stýrði því í fjögur ár. Hún og Ásgeir hófu sinn búskap í Laufási og bjuggu þar til 1932, er hann varð forsætisráðherra. Þá fluttu þau í ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu.

Dóra sótti fundi ungmennafélaga á uppvaxtarárum sinum, sat í stjórn Lestrarfélags kvenna, í skólanefnd Kvennaskóla Reykjavíkur og sóknarnefnd Dómkirkjusafnaðarins. Henni var umhugað um kirkjusókn og málefni Þjóðkirkjunnar og lagði gjarnan áherslu á að rækt yrði lögð við söngkennslu í skólum. Hún var auk þess mikil hannyrðakona og lætur eftir sig fjölda fallegra muna.

Frú Dóra þótti glæsilegur fulltrúi þjóðar sinnar, virðuleg í fasi og klæddist gjarnan íslenska þjóðbúningnum við hátíðlegar athafnir.

Dóra lést 10. september 1964.

Morgunblaðið mánudagurinn 23. febrúar 2015 - Merkir Íslendingar


 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

23.02.2015 09:01

Áhrif opinberra aðhaldsaðgerða miklar

 

 

Alma Lísa Jóhannsdóttir sérfræðingur hjá SFR stéttarfélagi í  almanna­þjónustu.
Hún bjó um tíma á Eyrarbakka.

 

Áhrif opinberra aðhaldsaðgerða miklar

Minna aðdráttarafl ríkisins sem vinnuveitanda

 

Helmingur stjórnenda í ríkisrekstri telur aðdráttarafl ríkisins sem vinnuveitanda hafa versnað á síðastliðnum fimm árum en hefur tiltrú á starfsmönnum ríkisins. Niðurskurður verkefna og frestun nýrra verkefna eru algengustu niðurskurðaraðgerðir í kjölfar fjárhagskreppunnar. Yfir 60% stjórnenda í ríkisrekstri á Íslandi segja aðhaldsaðgerðir í kjölfar fjárhagskreppunnar helst hafa falist í flötum niðurskurði.

Algengasta afleiðing þessa var að verkefnum var frestað eða hætt var við þau. Aðhaldsaðgerðirnar virðast hafa haft víðtæk áhrif á starfsfólk. Helmingur stjórnenda segjast hafa stöðvað mannaráðningar, 22% segjast hafa farið í uppsagnir starfsmanna og 35% segja aðgerðirnar hafa falið í sér launafrystingar.

Þetta má lesa úr í einni stærstu samanburðarrannsókn á opinberri stjórnsýslu sem gerð hefur verið í Evrópu (COCOPS Coordinating for Cohesion in the Public Sector of the Future), en þar hafa m.a. skoðanir og reynsla opinberra stjórnenda á Íslandi í tengslum við umbætur í ríkisrekstrinum verið kannaðar. Könnunin sem skýrslan byggir á var gerð hérlendis árið 2014.

Reynsla SFR stéttarfélags í almannaþjónustu af umbótum innan þess opinbera er misjöfn. Það hefur m.a. verið stefna ríkisstjórnar innar til nokkurra ára að fækka stofnunum með því að sameina þær. Stjórnvöld virðast ekki hafa markað sér stefnu um hvernig skuli standa að þessu og hvað skuli haft að leiðarljósi. Aðstæður starfsfólks eru því afar ólíkar, meðalhófs og jafnræðis er ekki alltaf gætt, og samráð við starfsfólkið sjálft og hagsmunaaðila þeirra er mismikið. Skilningur á mikilvægi þessa vegna þeirra víðtæku áhrifa sem breytingar og umbætur geta haft á aðstæður og vellíðan á vinnustað vantar því miður of oft. Það er mat SFR að stjórnsýslan hafi ekki nýtt sér reynslu þeirra reynslumeiri í nægilega miklum mæli við sameiningar og breytingar á ríkisstofnunum þannig að þær gangi sem best skyldi.

 

Stjórnendur telja umbætur krísukenndar

Niðurstöður skýrslu COCOPS sýna að íslenskir stjórnendur telja hlutverk sitt fyrst og fremst vera að ná árangri, að tryggja skilvirka nýtingu fjármagns og óhlutdræga framkvæmd laga og reglna. Fjórðungur stjórnendur telja gæði opinberar stjórnsýslu hafa þróast í átt til betri vegar á síðast liðnum fimm árum.Helmingur segir þau hafa staðið í stað en því miður telja 26% gæðin hafa versnað sem hlýtur að vera áhyggjuefni í kjölfar þeirra áherslna sem lagðar hafa verið á góða stjórnsýsluhætti á undanförnum árum. Innan heilbrigðis- og velferðar-þjónustunnar eru afleiðingarnar af sparnaði og niðurskurði víðtækar. Ekki einungis á þá sem nýta þjónustuna heldur einnig á vinnuaðstæð- ur og kjör starfsfólks.

 Félagsmenn SFR finna margir fyrir verulega auknu álagi og valda aðhaldsaðgerð- irnar því miklum áhyggjum sérstaklega í ljósi þess að ekki virðist vera farið í þær í kjölfar þarfagreiningar eins og skýrslan staðfestir.

Yfir helmingur stjórnenda telur umbætur vera krísukenndar og ólíkar frá einu tilviki til annars og að þær snúist meira um niðurskurð og sparnað en að bæta þjónustu. Þá eru þeir einnig þeirrar skoðunar að þær komi frekar ofan frá en innan úr stofnununum. Pólitískur stuðningur við umbætur virðist skipta meira máli hérlendis en beiting kerfisbundinna og samræmdra aðferða við ákvörðunartöku.

Dýpt kreppunnar virðist einnig hafa áhrif á árangur af stjórnsýsluumbótum. Tækifæri til umbóta í kreppu leiða ekki til mikils árangurs samkvæmt niðurstöðunum en Ísland hefur einkennst af frekar mikilli viðleitni til umbóta eftir fjármálakreppuna með miðlungs eða frekar slökum árangri.

Það er umhugsunarvert að stjórnendur telja stjórnmálamenn ekki virða sérfræðiþekkinguna innan stjórnsýslunnar og eru þeir þeirrar skoðunar að með því að fjarlægja málefni af vettvangi stjórnmálanna mætti vænta meiri langtímastefnu

 

Starfsfólk hleypur hraðar

Verkefnum innan hins opinbera hefur ekki fækkað en starfsmenn eru færri. Þjónustan á ekki að vera lakari og starfsfólk hleypur hraðar. Ljóst er að skýrslan gefur okkur mikilvægar upplýsingar um þætti sem verður að laga. Fagmennska, skilvirkni og góðir stjórnsýsluhættir eru grundvöllur góðrar almannaþjónustu og verðum við að standa vörð um hana.

Ánægjulegt er að stjórnendur virðast samkvæmt skýrslunni treysta starfsfólki sínu. 96% stjórnenda telja starfsfólk sitt áreiðanlegt. Liðlega 85% stjórnenda telja samskipti sín við starfsmenn vera opin og heiðarleg, að aðilar hafi trú á hverjir á öðrum, deili upplýsingum, hafi metnað og framtíðarsýn ásamt því að liðsandinn er sterkur. Þetta eru afar góður grundvöllur til samvinnu. Í allri umbótavinnu ber að hafa í huga að er mannauðurinn er lífæð hverrar stofnunar og trú á honum grundvöllur farsællar samvinnu.
 

Fréttatíminn - helgin 20. - 22. febrúar 2015
Alma Lísa Jóhannsdóttir.


Skráð af Menningar-Staður

 

22.02.2015 09:49

Hafnarborg í Hafnarfirði - Hljóðön - Breytilegt ljós og bergmál

 

F.v.: Una , Hlín og Hrönn.

 

Hafnarborg í Hafnarfirði - Hljóðön – Breytilegt ljós og bergmál

 

Í kvöld -sunnudaginn 22. febrúar kl. 20- verða þriðju tónleikarnir í tónleikaröðinni Hljóðön haldnir í Hafnarborg og bera þeir yfirskriftina Breytilegt ljós og bergmál. Þar koma fram Hlín Pétursdóttur Behren, sópransöngkona, Hrönn Þráinsdóttir, píanóleikari og Una Sveinbjarnardóttir, fiðluleikari. Tónleikarnir gefa sérstaka innsýn inn í hljóðheim og hugarefni ólíkra tónskálda frá Finnlandi og Íslandi, þeirra Kaiju Saariaho og Elínar Gunnlaugsdóttur, má þar finna fyrir ólíkum efnistökum þó einnig megi finna sameiginlega þætti í verkum þeirra. Frumflutt verða tvö verk eftir Elínu „Sumardagurinn fyrsti“ við ljóð eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson og „échO“ við ljóð eftir marokkóska skáldið Siham Issami og er það samið sérstaklega fyrir tónleikana. Verkið fjallar mannsröddina og um dísina Ekkó og hvernig hún veslast upp af ástarsorg þangað til ekkert er eftir af henni nema bergmál raddar hennar. Tvö einleiksverk eftir Kaiju Saariaho verða flutt fyrir fiðlu annars vegar og svo fyrir píanó hins vegar. Einnig verður flutt verk fyrir sópran og fiðlu og svo verk fyrir söngrödd og rafhljóð.

Flytjendur tónleikanna eru allir í fremstu röð tónlistarmanna á Íslandi en það eru:

Hlín Pétursdóttir Behrens, sópran, hefur komið fram sem gestur í óperuhúsum víðsvegar um Þýskaland, auk þess að syngja í Austurríki, Sviss, Frakklandi og Svíþjóð og kynna íslenska tónlist á ljóða- og kirkjutónleikum. Auk óperu- og óperettutónlistar hefur Hlín sungið öll helstu verk kirkjubókmenntanna, tekið þátt í flutningi kammerverka og nútímatónlistar, auk þess að halda ljóðakvöld og kemur hún reglulega fram á tónleikum í Þýskalandi og hér heima.

Hrönn Þráinsdóttir, píanóleikari, hefur komið fram á tónleikum víða, m.a. í Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu, Noregi, Grænlandi og á Íslandi sem einleikari, meðleikari og við flutning kammertónlistar og  hefur tekið þátt í ýmsum hátíðum eins og Ung Nordisk Musik og Við Djúpið á Ísafirði og hátíðarinnar Berjadaga á Ólafsfirði. Hún hefur verið virk í flutningi nýrrar tónlistar m.a. á Myrkum Músíkdögum og frumflutt ýmsa nýja tónlist með kammersveitinni Ísafold.

Una Sveinbjarnardóttir, fiðluleikari, kom einnig fram á síðustu tónleikum Hljóðanar í Hafnarborg þar sem frumflutt var verkið ÞYKKT, eftir hana sjálfa sem vakti mikla athygli og hlaut glæsilega dóma. Una hefur komið fram á tónleikum víða í Evrópu og í Bandaríkjunum og hefur hún leikið með mörgum hjómsveitum í Evrópu og má þar nefna Ensemble Modern í Frankfurt, Rundfunk-Sinfóníuhljómsveitina í Berlín, Deutsche Oper í Berlín, Klangverwaltung í München og m.a. verið konsertmeistari Klassísku Fílharmóníunnar í Bonn, Sinfóníuhljómsveitarinnar í Þrándheimi og hljómsveitar Íslensku óperunnar. Þá hefur hún leikið með Kammersveit Reykjavíkur frá 1995. Una leikur með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kennir við Tónlistarskólann í Reykjavík, Nýja Tónlistarskólann og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

 

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist frá 20. og 21. öldinni þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Nafn tónleikaraðarinnar skírskotar til smæstu merkingargreinandi hljóðeininga tungumála, grunneininga sem púsla má ólíkt saman svo úr verði tilraun til merkingar. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu.

Aðgöngumiðar á tónleikana eru seldir í afgreiðslu Hafnarborgar, á opnunartíma safnsins og klukkustund fyrir tónleika. Hægt er að panta miða í s. 585-5790. Almennt miðaverð er kr. 2500, fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.

 

Hlín Pétursdóttir Behrens frá Stokkseyri.Af www.hafnarborg.is

Skráð afd Menningar-Staður