Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2015 Júní

09.06.2015 06:39

Aðalsafnaðarfundur Eyrarbakkakirkju 10. júní 2015

 

 

 

Aðalsafnaðarfundur Eyrarbakkakirkju 

        miðvikudaginn 10. júní 2015

 

 


Dagskráin 4. júní 2015


Skráð af Menningar-Staður
 

08.06.2015 07:08

Flogið á annarra vængjum

 

 

Gunnar Marel Hinriksson sagnfræðingur.

 

Flogið á annarra vængjum

 

Þegar ég var barn á Selfossi var mér sagt að maður fengi svarta tungu af því að segja ósatt. Hvort það eigi við um tún ef á þeim eru byggð ósannindi skal ósagt látið, en það er óneitanlega leiðinleg tilhugsun að Sigtún verði að svartri tungu.

Selfoss sem svið fyrir minnisvarða um kaþólska helgistaði á miðöldum og borgaralega byggingarlist 19. aldar er í besta falli lélegur brandari en í versta falli skeytingarleysi um sögulegar staðreyndir og tilraun til að villa um fyrir gestum bæjarins. Ætli íbúum Egilsstaða þætti það góð hugmynd ef þar yrði settur upp minnisvarði um miðaldagerð Hafnarfjarðarhafnar og sýning um síldarævintýrið á Siglufirði?

Selfosskirkja var vígð árið 1956. Lengra aftur nær saga kirkjuhalds á þessum stað ekki, hvað þá að hann hafi verið valdamiðstöð. Árið 1703 bjuggu sex sálir á Selfossi, hjónin Jón Erlendsson og Guðrún Vigfúsdóttir ásamt þremur börnum þeirra og einum vinnumanni.

Frummælendur hugmynda um nýjan miðbæ á Selfossi hafa gefið útTeiknibók á heimasíðu þeirra, www.midbaerselfoss.is. Titillinn er í sjálfu sér afhjúpandi, því hann er tilvísun til miðaldahandritsins AM 673a III 4to sem er þekkt undir nafninu íslenska teiknibókin. Þannig reyna þeir að ljá hugmyndum sínum sögulegan blæ en eru í raun farnir að nálgast það sem hefur verið kallað menningarnám (e. cultural appropriation).

Í nefndri bók má meðal annars lesa eftirfarandi:

„Það er hér sem bæjarlífið hversdagslíf, verslun og viðskipti prjónast saman við myndræna og raunverulega upplifun af horfnum sögulegum byggingum áþreifanlegum og raunverulegum, í fullri stærð og gerð eins og þær hafi alltaf verið þarna.“

Við þetta er nokkuð að athuga. Í fyrsta lagi, um hvaða „horfnu sögulegu byggingar“ er verið að ræða? Í kynningarefni er lögð áhersla á hinar og þessar byggingar héðan og þaðan af Suðurlandi, en einnig sögufræg hús á Stykkishólmi, Ísafirði og Akureyri, svo fáein dæmi séu nefnd. Hús sem mörg hver standa enn, vel að merkja. Það er fátækur bær sem þarf að skreyta sig með stolnum fjöðrum úr fjarlægum landshlutum.

Í öðru lagi er hér talað um að þessar byggingar verði „áþreifanlegar“ og „raunverulegar“. Vissulega áþreifanlegar, en raunverulegar? Hvaða skilning ber að leggja í það orð í þessu samhengi? Augljóslega ekki að þær verði á raunverulegum stað sínum, en verður í þeim verði rafmagn, brunavarnir eða aðgengi fyrir alla? Verður gildandi byggingareglugerð ekki fylgt? Ef hins vegar þessi atriði verða til staðar, þá er allt tal um sögulegan raunveruleika orðin tóm og húsin ekki annað en leikmyndir. Það leiðir okkur að þriðja atriðinu, hugmyndinni um „myndræna og raunverulega upplifun […] í fullri stærð“. Höfundar tillagnanna virðast gera sér grein fyrir því að hér geti aldrei verið um annað að ræða en leikmynd fyrst þeir taka svona til orða.

Fjórða og síðasta atriðið sem ég vil nefna úr þessu stutta textabroti úr kynningarefninu er svo fullyrðingin um að byggingarnar muni verða gerðar „eins og þær hafi alltaf verið þarna.“ Það er vitanlega óframkvæmanlegt og gaman væri að heyra hvað íbúar Stykkishólms, Ísafjarðar eða Akureyrar segja um það ef skopstælingar af táknrænum byggingum þeirra birtast á Selfossi. Þessi orð afhjúpa afstöðu formælenda tillögunnar til sögunnar. Hún virðist ekki vera annað í þeirra huga en óskilgreind þoka sem má móta og breyta eftir hagsmunum hverju sinni. Og það er ekki bara rangt, heldur hættulegt. Þessi húsalíkön geta ekki lýst neinum öðrum sögulegum raunveruleika en þessum: Vorið 2015 var kynnt hugmynd um að endurskrifa fæðingarvottorð Selfossbæjar í tilraun til að afla tekna af straumi ferðamanna. Allt tal um sögulegan raunveruleika í þessu samhengi stenst ekki skoðun.

Í byggingarlist er til hugtakið folly, sem mætti þýða sem flónska. Það lýsir m.a. hönnunartísku lystigarða í Evrópu á 18. öld, þegar í þeim voru reistar byggingar í anda grískra og rómverskra rústa. Þetta þykir nú á tímum skondin flónska, að hafa ætlað sér að byggja fornleifar. Selfoss og ekki síst Árborg öll hefur alla burði til að skrifa sína eigin sögu og sveitarfélaginu er óhætt að ætla sér stærra hlutverk en að verða vaxmyndasafn utan um afrek annarra. 
Fimmtudaginn 7. maí sl. birtist í Dagskránni grein frá bæjarráði Árborgar. Það er jákvætt að sjá að bæjarráð hefur lagt eyrun við þeirri góðu gagnrýni sem fram hefur komið í mörgum greinum vegna þessara hugmynda. Þó olli grein bæjarráðs vonbrigðum, því þar var ekki svarað því sem fram hefur komið um virðingaleysi þessara hugmynda við hvað er raunverulega sögulegt og þar er skautað á ódýran hátt fram hjá fílnum í herberginu: Af hverju er stefnt að því að byggja á einum stað í sveitarfélaginu eftirlíkingu af því sem er til annarsstaðar í sama sveitarfélagi? Bæjarráð hefur ekki neitt betra fram að færa en almenn merkingarlítil orð um að „tengja þorpin við ströndina […] inn í verkefnið“ og heimasmíðaða gerð brauðmolakenningarinnar á þá leið að „uppbygging á einum stað í sveitarfélaginu styrki allt sveitarfélagið sem eina heild.“

Þá virðist bæjarráð hafa gert sér grein fyrir því hve óraunhæfar þessar hugmyndir eru, því það reynir að leiða athyglina frá þeim eins og þær hafa verið kynntar með því að vísa á óræðan hátt í að á næstunni muni „íbúar standa frammi fyrir töluvert breyttum og þróaðri hugmyndum en kynntar voru“ og að ástæða sé til þess „að taka fram að ekki er tímabært að leggja fullnaðarmat á áform þróunarfélagsins fyrr en þau liggja fyrir í endanlegu formi.“ Fyrr í sömu málsgrein bendir bæjarráð á lögbundið athugasemdaferli þar sem íbúum muni gefast kostur á að segja sína skoðun. En til hvers voru þær þá kynntar á þann hátt sem raunin var? Af þessu má ráða að sú gagnrýni sem þegar hefur komið fram hefur greinilega borið árangur. Ef hugmyndirnar munu taka verulegum breytingum þegar deiliskipulagið verður kynnt verða þær skoðaðar upp á nýtt á forsendum þeirrar kynningar. Þangað til beinum við sem þykja hugmyndirnar í núverandi mynd vondar spjótum okkar að þeim eins og þær liggja fyrir, enda hefur gagnrýnin beinst að grunnforsendum verkefnisins, ekki tilteknum útfærsluatriðum þess.

Nema þá kannski að að væntanleg kynning á deiliskipulaginu muni ekki „prjónast saman við myndræna og raunverulega upplifun af horfnum sögulegum [tillögum] [ó]áþreifanlegum og [ó]raunverulegum, [ekki] í fullri stærð og gerð [heldur] eins og þær hafi [aldrei] verið þarna.“

 

Gunnar Marel Hinriksson sagnfræðingur

Af. www.df.sisSkráð af Menningar-Staður

06.06.2015 12:28

Sjómannadagurinn á Eyrarbakka 7. júní 2015

 

.

 

Sjómannadagurinn á Eyrarbakka 7. júní 2015

 

Dagskrá sjómannadagsins á Eyrarbakka, sunnudaginn 7. júní 2015,  hefst með dorgveiðikeppni kl. 11:00 á Eyrarbakkabryggju.

Þyrla Landhelgisgæslu Íslands verður á svæðinu kl. 11:45 og boðið verður upp á siglingu á björgunarsveitarbátum um höfnina.Sjómannadagsmessa verður í Eyrarbakkakirkju kl. 14:00 þar sem séra Anna Sigríður Pálsdóttir prédikar.

Að messu lokinni mrssu verður flaggað -Brimflöggum- vestan við Félagsheimilið Stað.

Opið hús verður hjá Björgunarsveitinni BJörg á Eyarrbakka kl. 15:00 – 17:00.

Vígsla nýrra tækja Björgunarsveitarinnar verður eftir messu vestan við Stað.

 

Kaffisala slysavarnadeildarinnar verður í Félagsheimilinu Stað kl. 15:00 – 17:00

 

Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka.

 

Myndaalbúm frá aðfangadagsmorgni sjómannadagsins 2015 er komið á Menningar-Stað.
Smella á þessa slóð:
http://menningarstadur.123.is/photoalbums/272559/

Nokkrar myndir hér:

 

.

.

.


 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

06.06.2015 08:14

Hjólabókin um Árnessýslu komin út

 

 
 

Hjólabókin um Árnessýslu komin út

 

Hjólabækurnar að vestan eiga sér enga hliðstæðu hér á landi:
 

Fjórða Hjólabókin eftir Ómar Smára Kristinsson er komin út hjá Vestfirska forlaginu. Fjallar hún um Árnessýslu. Í mestu ferðamannasýslu landsins er fjöldinn allur af spennandi leiðum fyrir hjólreiðafólk. Hér er lýst tólf hjólreiðaleiðum, auðveldum og erfiðum, sem eiga það sameiginlegt að þær liggja í hring og að hægt er að loka hringnum á einum degi.
 

   Hverri leiðarlýsingu fylgja tillögur að fleiri ferðum. Auk þess  er fjallað um átta léttar hringleiðir sem ekki teljast til dagleiða. Einnig er í bókinni að finna kort af almenningssamgöngum og umferðarþunga. Helstu hagnýtu upplýsingar um hverja leið eru útlistaðar í máli og á kortum. Allar leiðirnar eru teiknaðar með litaskala sem útskýrir hve brattinn er mikill. Slík útfærsla hefur ekki verið notuð fyrr. Rúmlega 200 ljósmyndir gefa innsýn í sýsluna, hvernig þar er umhorfs og hverskonar vegir og stígar bíða lesenda.
 

   Fyrri Hjólabækurnar fjölluðu um Vestfirði, Vesturland og Suðvesturland. Ljóst er að Hjólabækurnar að vestan eiga sér enga hliðstæðu hér á landi.
 

Góða ferð

Ómar Smári Kristinsson

Vestfirska forlagið

 

 


Grænu svæðin á kortinu sýna hvaða hrigleiðum er lýst í nýjustu Hjólabókinni.

Fjólubláu svæðin eru fyrir reiðhjól með hjálpardekkjum.

.

 
Sunnlendingurinn á Ísafirði - Ómar Smári Kristinsson.

Skráð af Menningar-Staður
 

 

 

 

 

05.06.2015 23:42

Sólsetur 5. júní 2015

 

 

 

Sólsetur 5. júní 2015

 

-Flóinn-
Veður 05.06.15 kl 23:21: 
Hiti: 7.8°C 
Norðan 0.9 m/s 
Úrkoma dagsins 0.2 mm 
Sólarupprás 3:13
Sólsetur 23:32

 


 

Skráð af Menningar-Staður

05.06.2015 21:54

Dönsk stemmning við Stað 5. júní 2015

 

 

Dönsk stemmning við Stað 5. júní 2015

 

Dönsk stemmning var í og við Félagsheimilið Stað á Eyrarbakka í morgun,  - 5. júní 2015 – á þjóðhátíðardegi Dana.

Sérstakur gestur í Alþýðuhúsinu í morgun var Eyrbekkingurinn í Hveragerði, Garðar Hannesson.

Farið var nokkuð í Eyrarbakkaupprifjanir með Garðari og ennig skilgreind staða hans sem tengdasonar Önundarfjarðar.

Kona Garaðrs er Steinunn Þórarinsdóttir Þorfinnssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur frá Hjarðardal í Önundarfirði. Þau bjuggi á Spóastöðum nærri Skálholti.

Garðar og Steinunn bjuggi í Reykholti í BIskupstungum og Hveragerði þar sem hann var símstöðvarstjóri á báðum stöðum. Hann rak einnig Félagsheimilið Aratungu frá 1961 – 1975.

Myndaalbúm er komið á Menningar-Stað
Smella á þessa slóð:
  http://menningarstadur.123.is/photoalbums/272554/

 

Nokkrar myndir hér:

 

F.v.: Garðar Hannesson, Reynir Jóhannsson og Siggeir Ingólfsson.

 

F.v.: Garðar Hannesson og Siggeir Ingólfsson.

.

.

.

Skráð af Menningar-Staður

05.06.2015 19:51

Vilja reisa hótel á Óseyrartanga

 

Ölfusá, Óseyrarbrú og séð til Eyrarbakka og Stokkseyrar.  Ljósmynd / Mats Wibe Lund

 

Vilja reisa hótel á Óseyrartanga

 

Fyrirtækið Makron í Garðabæ vill reisa 64 herbergja hótel á nýrri lóð á Óseyrartanga í Ölfusi, skammt frá veitingastaðnum Hafinu bláa.

Hafa forsvarsmenn fyrirtækisins kynnt fyrirætlanir sínar fyrir sveitarstjórn Ölfuss, sem telur hugmyndina falla vel að stefnu sveitarfélagsins á ferðaþjónustumálum.

Verði af smíði hótelsins er um að ræða lágreista hótelbyggingu með fyrrnefndum 64 herbergjum og veitingaraðstöðu á um tveggja hektara lóð. Aðkoma að hótelinu er frá Eyrarbakkavegi, en ekki er ætlunin að skerða aðgang almennings að ströndinni þar fyrir neðan.

Eftir því sem heimildir Sunnlenska segja er ætlunin að hótelið verði í Icelandair hótelkeðjunni. 
 

Af www.sunnlenska.is

 

Skráð af Menningar-Staður

05.06.2015 18:18

Óskastundir með Æfingu

 

Guðmundur Ingi Einarsson.

 

Óskastundir með Æfingu

 

Guðmundur Ingi Einarsson, varðstjóri á Litla-Hrauni og búsettur á Eyrarbakka, upplifði eina af stóru stundum lífs síns í Alþýðuhúsinu á Eyrarbakka í morgun er hann fékk í verðlaun gulldiskinn með Hljómsveitinni Æfingu frá Flateyri.

 

Hér má heyra Hljómsveitina Æfingu með hressilegt sjómannalag.
Smella á slóðina hér að néðan.

https://www.youtube.com/watch?t=64&v=R_7SaMM7KIU

 

 

Skráð af Menningar-Staður
 

05.06.2015 10:09

Mikið í gangi á Eyrarbakka

 

Siggeir Ingólfsson eða Geiri á Bakkanum. Ljósm.: Örn Guðnason.

 

Mikið í gangi á Eyrarbakka

 

Siggeir Ingólfsson eða Geiri á Bakkanum eins og hann er oft nefndur tók við rekstri íþrótta- og félagsheimilisins Staðar á Eyrarbakka í byrjun árs 2013 og er búinn að sjá um reksturinn í tvö og hálft ár. Ritstjóri Dagskrárinnar hitti Geira á Stað síðastliðinn föstudag og rakti úr honum garnirnar um það helsta er tengist rekstri staðarins og ýmsu bralli sem Geiri og félagar hans tengjast.

Leigt út fyrir alls konar uppákomur
„Starfið felst aðallega í því að þjónusta fyrir sveitarfélagið þessa starfsemi sem er hérna í húsinu þ.e. leikfimi og íþróttir. Líka starf kvenfélagsins, ungmennafélagsins og þeirra sem eru hérna með starfsemi sem sveitarfélagið greiðir fyrir. Svo leigi ég salinn út fyrir alls konar uppákomur, allt frá skýrnarveislum til erfidrykkja. Það er í raun allur lífsferill fólksins. Þettar eru íbúar hér í þorpinu, brottfluttir og ýmsir aðrir. Síðan eru haldin hér ættarmót og fyrirtækjaveislur þar sem fólk kemur og grillar og borðar og fer síðan oft í einhverjar óvissuferðir. Þetta er eiginlega óendanlegt og er alltaf að aukast,“ segir Geiri.

 

Gönguferðir á milli þorpanna


„Svo er ég með mikið af gönguferðum hérna frá staðnum t.d. á milli þorpanna. Ég er alltaf að bíða eftir blessuðum göngustígnum þ.e. að hann klárist alla leið þannig að það verði auðveldara að fara með hópa. Þá er byrjað hér í anddyrinu þar sem gömlu myndirnar eru af Eyrarbakka og svo er sagt örlítið frá þeim. Ég er líka að fara með fólk hérna í krikju og sýna því beitiskúrinn gamla.“

Skógræktarfélag stofnað
„Við stofnuðum um daginn Skógræktarfélag Eyrarbakka. Það er dálítið stór hópur, ætli það séu ekki um 40 stofnfélagar. Við ætlum að hlúa svolítið að trjágróðri hér í kring og ná okkur í aðeins meira skjól. Það er náttúrulega langhlaup sem gerist ekki á fáum vikum. Það verða hugsanlega barnabarnabörnin og barnabarnabarnabörnin mín sem njóta þess í framtíðinni. Þannig verður maður að hugsa í skógrækt. Við tókum okkur líka til íbúar hér á Eyrarbakka um liðna helgi og tókum almennilega til. Fórum um allt þorpið og hreinsuðum og þrifum. Svo komum við saman og grilluðum á eftir. Þannig að það er ýmislegt í gangi.“

 

Vinir alþýðunnar reystu sundvörðu
 

„Við eru hérna nokkrir félagar sem köllum okkur „Vini alþýðunnar“, svona 15–20 kallar, sem komum saman hérna á Stað og fáum okkur kaffisopa á morgnana og taka stöðuna á lífinu og tilverunni. Við tókum okkur til nýlega og reystum gamla sundvörðu upp á sjógörðunum sem var hérna alveg frá því fyrir aldamót. Á þessari sundvörðu var fánastöng sem við erum búnir að reysa núna og þar voru brimflöggin uppi. Það var flaggað eftir því hvernig brimið var og menn látnir vita út á sjó. Þá voru ekki komnar talstöðvar í bátana þannig að þetta var tengingin á milli lands og báts. Það var flaggað eftir því hversu mikið brim var og hvort lendandi var eða ekki. Okkur datt í hug nokkrum félögum að framkvæma þetta bara og fórum í það. Tréð sem við settum upp á garðinn var sennilega gróðursett í Rússlandi í kringum árið 1900. Það er búið að vera hér sem rafmagnsstaur upp á Mýri frá 1948. Nú er það komið hingað upp á sjógarð þannig að það veit enginn hvort þetta tengist að hluta til skógrækt. Það veit enginn hvert tré fer.“

 

Meira líf í þorpinu


„Það er mikið í gangi hérna á Eyrarbakka. Núna er t.d. komið Hostel sem búið er að opna í frystihúsinu gamla og það á að halda áfram þar með byggingu á hóteli. Svo veit ég að það er mikið að gera á veitingastaðnum í Rauða húsinu. Maður verður var við það eftir að Hostelið opnaði að það er töluvert fleiri hópar á ferðinni og það eru fleiri gistingar hérna. Fólk stoppar oft í einn tvo daga. Það verður mikið meira líf í þorpinu. Þetta hvetur allt hvað annað. Svo hef ég verið með hérna í anddyrinu upplýsingamiðstöð opna fyrir ferðamenn. Ég var að telja um daginn að það eru að koma á svona degi 250–300 manns upp á sjógarðinn. Það koma að vísu ekki allir inn til mín, en það er mikið af bílaleigubílum. Fólki þykir gaman að koma hér og fara niður í fjöruna. Vð settum stigann niður í fjöru hérna þannig að það er auðveldara aðgengi fyrir fólk og börn og alla að komast hérna.“

 

Allir velkomnir í spjall
 

Geiri segir að þeir félagar í Vinum alþýðunnar séu að gramsa í ýmsu, eins og hann orðar það. „Það eru allir velkomnir og mega vera með að gera eitthvað eða gera ekki, bara að koma og spjalla og hvetja. Þegar ég byggði hérna palli og skábrautina fyrir tæpum tveimur árum komu margir og hittu mig og hrósuðu mér og það hvatti mig áfram til þess að gera hlutina. Menn tóku kannski ekki upp hamar og sög en maður varð þess áskynja að fólk var voða ánægt með þetta og það gefur manni ofsalega mikinn kraft og styrk í því sem maður er að brölta í. Stundum er maður í allt of mörgu. Það getur vel verið. En einhvern veginn veltist þetta áfram allt saman,“ sagði Geiri.
 

Af www.dfs.is

Skráð af Menningar-Staður

05.06.2015 08:31

5. júní 2015 - þjóðhátíðardagur Dana

 

 

5. júní 2015 – þjóðhátíðardagur Dana

 

5. júní 1849 skrifaði Friðrik sjöundi, konungur Danmerkur, undir stjórnarskrá Danmerkur.

Dagurinn er því kallaður Grundlovsdag á dönsku eða Stjórnarskrárdagur.

 

.

.


Skráð af Menningar-Staður