Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2017 Janúar

07.01.2017 06:46

Bakkablótið 2017

 

 

 

   Bakkablótið 2017


Skráð af Menningar-Staður

06.01.2017 22:32

Merkir Íslendingar - Skúli Thoroddsen

 


Skúli Thoroddsen (1859 - 1916)

 

Merkir Íslendingar - Skúli Thoroddsen

 

Skúli Thoroddsen sýslumaður og alþm. fæddist á Haga á Barðaströnd 6. janúar 1859, sonur Jóns Thoroddsen, skálds og sýslumanns, og k.h., Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur húsfreyju.
 

Skúli var einn af fjórum Thoroddsenbræðrum sem misstu föður sinn ungir frá skuldugu búi hans en komust þó allir til mennta vegna seiglu móður sinnar og með góðri hjálp frá mági hennar, Jón Árnasyni þjóðsagnasafnara. Hinir bræðurnir sem allir urðu þjóðþekktir, hver á sínu sviði og komust í góðar álnir, voru Þorvaldur, dr.phil. náttúrufræðingur í Reykjavík og Kaupmannahöfn; Þórður, læknir og alþm. í Keflavík og Reykjavík, faðir Emils tónskálds, og Sigurður, landsverkfræðingur og yfirkennari Menntaskólans, faðir Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra.
 

Eiginkona Skúla var Theodóra Thoroddsen skáldkona og er frá þeim kominn fjöldi alþm. og annarra þjóðþekktra einstaklinga.

Skúli lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1879 og embættisprófi í lögfræði frá Hafnarháskóla 1884. Hann varð bæjarfógeti og sýslumaður á Ísafirði 1884, var vikið frá um stundarsakir vegna Skúlamálsins svo kallaða 1892 sem að upphafi var vegna mannsláts á Klofningsheiði milli Önundarfjarðar og Súgandafjarðar. Skúli fékk lausn frá störfum á eftirlaunum þremur árum síðar.
 

Skúli rak verslun á Ísafirði 1895-1915, var kaupfélagsstjóri Kaupfélags Ísfirðinga 1888-1901, stofnaði og var ritstjóri Þjóðviljans frá 1886, var sjálfseignarbóndi og starfrækti prentsmiðju á Bessastöðum á Álftanesi 1901-1908 en var búsettur í Reykjavík frá 1908.
 

Skúli var alþm. Eyfirðinga 1890-92, Ísafjarðarkaupstaðar 1892-1903 og Norður-Ísafjarðarsýslu 1903-1916 og forseti Sameinaðs Alþingis 1909-11. Hann var í hópi áhrifamestu stjórnmálamanna Heimastjórnartímabilsins, eindreginn málsvari Landvarnarmanna og sjálfstæðismanna eldri og sá fulltrúi Sambandslaganefndarinnar 1907 sem hafnaði Uppkastinu sem þjóðin síðan hafnaði í sögulegum kosningum 1908.
 

Skúli lést 21.maí 1916.


Morgunblaðið - Merkir Íslendingar


Skráð af Menningar-Staður

06.01.2017 22:15

124.800 FERÐAMENN Í DESEMBER 2016

 

 

 

124.800 FERÐAMENN Í DESEMBER 2016

 

 

Ferðamenn í desember

Tæplega 125 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í desember síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 54 þúsund fleiri en í desember á síðasta ári. Aukningin nemur 76,1% milli ára. Fjöldi ferðamanna hefur ríflega sexfaldast í desember frá árinu 2010 en aldrei hefur mælst jafn mikil aukning milli ára og nú.

Þess ber að geta að tölur ná yfir allar brottfarir frá landinu. Því má gera ráð fyrir að frávik hvað varðar hlutdeild ferðamanna til landsins séu meiri í desember en aðra mánuði ársins vegna ferðalaga erlendra ríkisborgara búsettra hérlendis í tengslum við jólaleyfi.

 

Bandaríkjamenn og Bretar tæplega helmingur ferðamanna

10 fjölmennustu þjóðernin

Um 73% ferðamanna í nýliðnum desember voru af tíu þjóðernum. Bretar voru fjölmennastir eða 26,8% af heildarfjölda en fast á eftir fylgdu Bandaríkjamenn sem voru 19,6% af heildarfjölda. Þar á eftir komu Kínverjar (4,5%), Pólverjar (3,6%), Þjóðverjar (3,2%), Frakkar (3,1%), Kanadamenn (3,0%), Spánverjar (2,1%), Japanir (1,9%) og Hollendingar (1,8%).

Bandaríkjamönnum fjölgaði langmest milli ára í desember eða um 12.216 manns og voru þeir tvöfalt fleiri í ár en í fyrra. Bretum fjölgaði um 9.114 ferðamenn í desember sem er 37,5% aukning frá því í fyrra og Kínverjum um 4.662 sem er nærri tvöföldun frá því í fyrra. Þessar þrjár þjóðir báru uppi 48,2% af aukningu ferðamanna milli ára í desember.

Ferðamenn eftir markaðssvæðum

Fjöldi N-Ameríkana hefur ellefu-faldast og Breta nífaldast frá 2010

Ferðamenn hafa meira en sexfaldast í desember frá 2010. Þegar litið er til fjölda ferðamanna eftir markaðssvæðum á tímabilinu 2010 til 2016 má sjá verulega aukningu frá flestum markaðssvæðum. Þannig hefur fjöldi ferðamanna frá N-Ameríku ellefu-faldast á tímabilinu, fjöldi Breta nífaldast, fjöldi ferðamanna frá löndum sem lenda í hópnum ,,annað“ meira en áttfaldast og fjöldi ferðamanna frá Mið- og S-Evrópu nærri fimmfaldast. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað minna eða um 37,8% á tímabilinu 2010-2016.

Hlutfall Breta hækkar en Norðurlandabúa lækkar

Hlutfall ferðamanan eftir markaðssvæðum

Hlutfallsleg samsetning ferðamanna hefur breyst nokkuð frá árinu 2010 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar. Í nýliðnum desember voru Norðurlandabúar 4,9% ferðamanna. Hlutfall þeirra af heild hefur lækkað verulega síðustu ár en það var 23,4% árið 2010. Hlutdeild Breta var hins vegar 26,8% og hlutfall N-Ameríkana 22,6% í desember síðastliðnum og hefur hún farið vaxandi frá 2010. Hlutdeild Mið- og S-Evrópubúa og þeirra sem falla undir annað hefur verið jafnari á tímabilinu 2010 til 2016.

Ferðir Íslendinga utan

Um 41 þúsund Íslendingar fóru utan í desember eða 8.374 fleiri en í desember árið 2015. Um er að ræða 25,4% fleiri brottfarir en árið 2015.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Frá Ferðamálastofu


Skráð af Menningar-Staður

05.01.2017 19:48

5. janúar 1874 - Stjórnarskrá Íslands

 


Kristján IX konungur Danmerkur og Íslands með stjórnarskra Íslands frá 1874.

Ljósm.: BIB

 

5. janúar 1874 - Stjórnarskrá Íslands

 

Stjórnarskrá „um hin sérstöku málefni Íslands“ var staðfest af konungi. 

Hún tók gildi 1. ágúst. Alþingi fékk þá löggjafarvald og fjárveitingavald. 

Þetta var fyrsta stjórnarskrá landsins. 

Henni var breytt 18. maí 1920 og hún gilti að mestu óbreytt fram að lýðveldisstjórnarskránni 17. júní 1944.


Morgunblaðið 5. janúar 2017 - dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.

 


Skráð af Menningar-Staður

05.01.2017 11:18

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 5. jan. 2017

 


F.v.: Siggeir Ingólfsson, Ólafur Ragnarsson, Guðmundur Sæmundsson og Jóhann Jóhannsson.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 5. jan. 2017Vinir alþýðunnar

 
Skráð af Menningar-Staður


 

05.01.2017 08:06

Árskort í Landbúnaðarsafnið árið 2017

 

 

Forsíða bókarinnar.

 

Árskort í Landbúnaðarsafnið árið 2017

 

Við ætlum að gera tilraun með árskort í Landbúnaðarsafnið fyrir árið 2017 - en þó með sérstöku sniði:

 

Árskortið verður á formi lítillar bókar, Konur breyttu búháttum,  sagan um Mjólkurskólann á Hvanneyri og á Hvítárvöllum og ungu stúlkurnar sem með skólanum eignuðust leið til náms og þroska. Margar þeirra tóku síðan þátt í nýsköpun mjólkurvinnslu og afurðasölunnar í byrjun síðustu aldar.

 

Árskortið er því ekki aðeins aðgangslykill að Landbúnaðarsafni heldur um leið fræðandi fyrir gesti safnsins.  Kjörin eru þessi:

 

1. Kortið kostar 3.000 kr. auk sendingarkostnaðar

2. Kortið verður skráð á nafn eiganda þess og það gefið út í Landbúnaðarsafni á Hvanneyr

3. Kortið, þ.e. áðurnefnd bók, hefur þennan formála á forsíðu en hann lýsir notkun þess: 
 

Á R S K O R T

Gegn framvísun þessarar bókar hefur eigandi hennnar gjaldfrjálsan aðgang að Landbúnaðarsafni Íslands í Halldórsfjósi á Hvanneyri með einum fullorðnum gesti svo oft sem hann kýs á árinu 2017.

Afgreiðslumaður safnsins í Ullarselinu þarf aðeins að kvitta fyrir komuna með dagsetningu heimsóknar á auðu síðuna aftast í bókinni.

Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri


Skráð af Menningar-Staður

04.01.2017 07:05

Nýr safnstjóri Landbúnaðarsafnsins

 

 

Bjarkar Snorrason í Brattsholti og nýi safnstjórinn á Hvanneyri Ragnhildur Helga Jónsdóttir
í Landbúnaðarsafninu 23. maí 2015. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

 

Nýr safnstjóri Landbúnaðarsafnsins

 

Nú um áramótin varð sú breyting að Bjarni Guðmundsson lét af daglegri stjórn Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri og við tók Ragnhildur Helga Jónsdóttir frá Ausu.

 

Bjarni hefur verið verkefnisstjóri safnsins frá upphafi og þar áður yfir Búvélasafninu, undanfara þess.

 

Ragnhildur Helga hefur sömuleiðis starfað að safninu um nokkurra ára skeið, einkum við móttöku gesta og annarri fræðslu.

 

Ragnhildur Helga er landfræðingur og með meistarapróf í umhverfisfræðum. Hún hefur um árabil starfað við Landbúnaðarháskóla Íslands og er nú brautarstjóri náttúru- og umhverfisfræða.

 

Safnstjórnin verður áfram hlutastarf. Ragnhildur Helga gjörþekkir til landbúnaðar og annarrar náttúrunýtingar, hún er einnig bóndi í Ausu í Andakíl þar sem hún rekur sauðfjárbú.

 

Bjarni mun nú sem eftirlaunaþegi snúa sér að frágangi nokkurra rannsókna- og ritverka sem hann hefur dregið föng í, auk þess að vera Landbúnaðarsafni til ráðgjafar eftir þörfum og hætti.

 

Á síðasta stjórnarfundi Landbúnaðarsafns Íslands ses var Ragnhildur Helga boðin velkomin til starfa og Bjarna þakkað ómetanlegt starf hans í þágu safnsins.Af www.skessuhorn og Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri.
 


Björn Ingi Bjarnason, forseti Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi og Bjarni Guðmundsson

í Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri haustið 2014. Ljósm.: Guðmundur Sigurðsson.

Skráð af Menningar-Staður

03.01.2017 20:51

Ritdómur: - Saga baráttu og átaka til að ná fram einföldum mannréttindum

 

 

 

Ritdómur:

Saga baráttu og átaka til að ná fram einföldum mannréttindum

 

Úr fjötrum“ nefnist bók, sem Guð- jón Friðriksson, sagnfræðingur, hefur skrifað um 100 ára sögu Alþýðuflokksins.

 

Bókin er 575 blaðsíður í stóru broti og hana prýðir mikill fjöldi mynd. Guðjón rekur sögu flokksins frá stofnun 12. mars árið 1916 og þar til hann varð hluti af Samfylkingunni árið 2000. Flokkurinn var þó aldrei lagður niður og lifir enn. Forlagið gefur bókina út og kynnti hana á fjölmennri bókarkynningu um miðjan nóvember.

 

Bókmenntafélag jafnaðarmanna og nokkrir fyrrverandi félagar í Alþýðuflokknum höfðu frumkvæði að útgáfu bókarinnar. Bókmenntafélagið, hið fyrra, var stofnað árið 1929. Það gaf út bækur og tímaritið „Almanak alþýðu“. Fjöldi þekktra fræðimanna og rithöfunda kom að starfi félagsins, sem eftir nokkur ár lagði upp laupana vegna fjárskorts. Félagið var endurreist 12. mars 2011, og er núverandi formaður þess Árni Gunnarsson, fyrrum. alþingismaður.

 

Kostnaður við útgáfu bókarinnar var að hluta greiddur úr minningarsjóð Magnúsar Bjarnasonar, sem lengstum var barnakennari á Sauðárkróki. Magn- ús var eldheitur jafnaðarmaður og arfleiddi hann Alþýðuflokkinn að stærstum hluta eigna sinna þegar hann féll frá. Um hann var stofnaður minningarsjóður, sem er ætlað að styrkja framgang og kynningu á jafnaðarstefnunni. Nokkrir aðrir velviljaðir aðilar lögðu bókinni til fjármuni.

 

Á 100 ára afmæli Alþýðuflokksins í mars á þessu ári, efndi Bókmenntafé- lagið til hátíðarfundar, 8 fyrirlestra um jafnaðarstefnuna og verkalýðshreyfinguna og funda í rauðu bæjunum Hafnarfirði og Ísafirði. Þá hefur félagið opnað netsíðu >bokjafn.is< þar sem hægt er að finna fyrirlestrana og margvíslegt efni um Alþýðuflokkinn og jafnaðarstefnuna. Þá er einnig síða á fésbókinni >Alþýðuflokkurinn 100 ára>.

Fyrir nokkrum árum hófst svo söfnun gagna um Alþýðuflokkinn og verkalýðshreyfinguna, forystumenn og sögu. Þjóðskjalasafnið hefur annast skráningu gagnanna og að auki hefur handritadeild Landsbókasafnsins unnið að skráningu skjala, sem þar voru og tengdust forystumönnum flokksins. Mikið magn heimilda hefur nú verið skráð, en Ásgeir Jóhannesson hefur haft umsjón með gagnaöfluninni. Þessar heimildir. má nálgast með krækjum, sem finna má á vefnum.

 

Í formála að bókinni „Úr fjötrum“ segir Árni Gunnarsson m.a.: „Um aldamótin síðustu hvöttu nokkrir félagar, sem starfað höfðu í Alþýðuflokknum, Gylfa Gröndal, rithöfund, til að hefja ritun á sögu Alþýðuflokksins og hétu fjárhagslegum stuðningi við verkið. JPV tók að sér útgáfuna. Gylfi lauk við fyrsta bindið árið 2003 og kom það út sama ár. Bókin nefndis „Fólk í fjötrum, bar- áttusaga íslenskrar alþýðu“ og spannaði tímabilið frá því fyrir aldamótin 1900 og þar til Alþýðusambandið og Alþýðuflokkurinn komu til sögunnar árið 1916. Bókin er löng uppseld. Gylfi Gröndal hóf síðan undirbúning að öðru bindi verksins, en veiktist alvarlega og lést árið 2006“.

 

Með endurreisn Bókmenntafélags jafnaðarmanna 2011 hófust fljótlega umræður innan félagsins um að ljúka ritun á sögu Alþýðuflokksins. Félagið horfði sérstaklega til aldaramælis flokksins 12. mars 2016 og hvernig þeirra merku tímamóta yrði minnst á veglegan hátt“. Fjögurra manna ritnefnd var skipuð Guðjóni Friðrikssyni til aðstoðar og ráðuneytis um öflun gagna. Nú er þessi mikla bók og merkilega saga komin út.

 

Saga Alþýðuflokksins í 100 ár er saga mikillar baráttu og átaka til að ná fram einföldum mannréttindum alþýðu landsins til hagsbóta. Þannig náði flokkurinn fram lögum um verkamannabú- staði, vökulögum til að stöðva sleitulausa vinnu og svefnleysi sjómanna á togurum, alþýðutryggingar og síðar almannatryggingar, lögum um stéttarfé- lög og vinnudeilur, um sömu laun karla og kvenna fyrir sömu vinnu, lánasjóð íslenskra námsmanna og um eflingu tónlistarnáms um land allt.

 

Undir stjórn Alþýðuflokksins var tekin upp ný og frjálslynd hagstjórnarstefna og fyrstu skref stigin í átt til frjálsra milliríkjaviðskipta og aðildar að EFTA. Þá var aðild að evrópska efnahagssvæðinu samþykkt. Skólakerfinu var umbylt og vísindastarf stóreflt. Flokkurinn beitti sér fyrir róttækum umbótum á tekjustofnakerfi ríkisins og staðgreiðslu skatta. Þegar samþykkt voru lög um stjórn fiskveiða náði flokkurinn fram viðbótarákvæði um að tímabundinn nýtingarréttur sjávarauð- lindarinnar myndaði aldrei lögvarinn eignarétt. Þá náði flokkurinn fram nýrri félagsmálalöggjöf, jafnréttislög voru sett og stofnaður framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra. Þetta eru aðeins nokkur þeirra mála, sem Alþýðuflokknum tókst að ná fram á Alþingi.

 

En saga flokksins er einnig vörðuð miklum innbyrðisátökum, bæði í flokki og verkalýðshreyfingu. Þannig urðu átökin við kommúnista í verkalýðshreyfingunni og á Alþingi til þess að flokkurinn margklofnaði og náði aldrei því fylgi, sem jafnaðarmannaflokkar í hinum norrænu löndunum, nutu. Flokkurinn klofnaði fimm sinnum og nokkrir af helstu áhrifamönnum hans hurfu á braut og til starfa hjá öðrum flokkum, um sinn.

 

Saga flokksins, sem Guðjón Friðrikssonar ritar af þekkingu og ritfærni, er mikil og traust aldarfarslýsing og skýrir og skilgreinir þá þróun stjórnmálaflokka, sem enn starfa hér á landi. Þetta er saga mikilla örlaga, karla og kvenna, sem skipuðu sér í raðir verkalýðshreyfingar og jafnaðarmanna, og saga stjórnmálaflokks, sem náði ótrúlegum árangri í hagsmunamálum verkalýðs og almennra borgara, hélt hreinum meirihluta í rauðu bæjunum Hafnarfirði og Ísafirði í áratugi og hóf jafnaðarstefnuna til umtalsverðra áhrifa. Það er tímabært, að jöfnuður þegnanna verði á ný markmið íslenskra stjórnmála.

Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður.


 

 

Árni Gunnarsson.


Héraðsfréttablaðið Suðri


Skráð af Menningar-Staður

03.01.2017 07:09

Merkir Íslendingar - Ágúst Böðvarsson

 

 

Ágúst Böðvarsson (1906 - 1997)

 

Merkir Íslendingar - Ágúst Böðvarsson

Ágúst Böðvarsson fæddist að Hrafnseyri við Arnarfjörð 3. janúar 1906 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Böðvar Bjarnason, prófastur á Hrafnseyri, og k.h., Ragnhildur Teitsdóttir húsfreyja.
 

Böðvar var hálfbróðir Ragnheiðar, móður Jóns Leifs tónskálds, en bróðir Böðvars var Þórður kaupmaður, faðir Regínu leikkonu.
 

Bróðir Ágústar var Bjarni hljómsveitarstjóri, faðir Ragga Bjarna.
 

Eiginkona Ágústar var Sigríður Sveinbjörnsdóttir húsfreyja og sonur þeirra Gunnar Hrafn byggingaverkfræðingur.
 

Ágúst lauk námi frá VÍ 1925, var bóndi að Hrafnseyri 1926-29 en hóf störf hjá dönsku landmælingastofnuninni Geodætisk Institut, árið 1930, sem þá vann að kortlagningu Íslands og stundaði hann síðan nám í landmælingum hjá stofnuninni í Kaupmannahöfn 1935-37.
 

Ágúst vann síðan við landmælingar Íslands á árunum 1930-76 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Hann tók við gríðarlega yfirgripsmiklu og mikilvægu starfi við íslenskar landmælingar og kortagerð er Íslendingar tóku við íslenskri kortagerð af Dönum árið 1955, varð fyrsti forstjóri Landmælinga Íslands 1959-76, fór í margra mánaða ferðir um landið þvert og endilangt og var m.a. frumkvöðull við gerð loftljósmynda hér á landi.
 

Ágúst samdi texta við ýmis þekkt dægurlög fyrri tíma, s.s. Skautapolka og Ljósbrá. Hann sat í stjórn Byggingasamvinnufélags starfsmanna ríkisstofnana um árabil frá 1948, í örnefnanefnd og Hrafnseyrarnefnd.
 

Árið 1996 kom út eftir Ágúst ritið Saga landmælinga Dana á Íslandi og ljóðabók, Ljóðmæli.
 

Ágúst var heiðurfélagi Ferðafélags Íslands, var virkur félagi í Oddfellow-reglunni, stúku nr. 11., Þorgeiri, og var heiðursfélagi hennar. Hann var sæmdur Hinni íslensku fálkaorðu.

 

Ágúst lést 27. janúar 1997.

 

Morgunblaðið 3. janúar 2017.

 


Á Hrafnseyri 3. ágúst 1980. Ljósm.: BIB

 

 

Frá Arnarfirði. Til vinstri er Auðkúla og til hægri er Hrafnseyri.

Ljósm.: Mats Wibe Lund.


Skráð af Menningar-Staður

 

 

02.01.2017 21:31

Gleðilegt nýtt ár frá Eimskipafélagi Íslands

 

 

 

Gleðilegt nýtt ár frá Eimskipafélagi Íslands

Eimskipafélag Íslands óskar viðskiptavinum og landsmönnum öllum farsældar á árinu 2017. 


Á þessum árstíma kemur dagatal Eimskips ávallt út.

 

Myndirnar sem prýða dagatalið fyrir árið 2017 eru teknar af RAX, Ragnari Axelssyni ljósmyndara. 


Hægt er að nálgast dagatöl á afgreiðslustöðum Eimskips um land allt svo sem á Selfossi sem hentar Flóamönnum vel. 

Skráð af Menningar-Staður