Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2017 Mars

05.03.2017 20:51

Lava setrið opnar 1. júní næstkomandi

 


Sigurgeir Guðlaugsson, nýr framkvæmdastjóri LAVA,

Ísólfur Gylfi Pálmason og Ásbjörn Björgvinsson, fráfarandi framkvæmdastjóri LAVA
og núverandi markaðs- og sölustjóri LAVA.

 

Lava setrið opnar 1. júní næstkomandi

 

Tímamót urðu í byggðasögu Rangárþings eystra þegar reisugildi var haldið í Lava eldfjalla- og jarðskjálftasetrinu á Hvolsvelli í lok janúar, en þá var húsið fokhelt.

Framkvæmdin hefur gengið vel, fyrsta skóflustungan var tekin í maí 2016, byrjað var að reisa veggi 20. nóvember og fyrirhugað er að setrið opni 1. júní næstkomandi.

Lava setrið er mikill búhnykkur fyrir Rangárþing eystra og mun setja svip á bæjarlífið á Hvolsvelli og áreiðanlegt er að þeir sem leggja leið sína um svæðið munu reka augun í hina glæsilegu og sérstæðu byggingu sem nú er risin.

 

„Þetta er gríðarlega spennandi verkefni,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra. „Þarna skapast 25 ní störf og sveitarfélagið mun að sjálfsögðu hafa af því tekjur í formi fasteignagjalda og slíks. Rangárþing eystra er ekki beinn aðili að framkvæmdinni og á ekki hlut í setrinu, en við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að greiða götu þess. Meðal annars breyttum við deiliskipulagi svo að setrið gæti orðið að veruleika á þessum stað. Um leið var sett á skipulag lóð við hliðina á setrinu þar sem gert er ráð fyrir hóteli. Það eru ákveðnir aðilar sem eru áhugasamir um að reisa það hótel, en ég get ekki greint frá því hverjir það eru að svo stöddu.“

 

.

 Suðri greinir frá.


Skráð af Menningar-Staður

04.03.2017 09:53

Helgina 3. - 5, mars er Karlakór Kópavogs með æfingabúðir á Eyrarbakka

 


Karlakór Kópavogs.

 

Helgina 3. – 5. mars 2017 

er Karlakór Kópavogs með æfingabúðir á Eyrarbakka

 

 Í tilefni þess mun kórinn syngja nokkur lög í Eyrarbakkakirkju í dag,

laugardaginn 4. mars 2017,  kl. 16.30.

 

Stjórnandi kórsins er Garðar Cortes. 

 

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.


Skráð af Menningar-Staður

 

03.03.2017 20:33

Sveitarfélagið Árborg dæmt til að greiða Gámaþjónustunni 24 milljónir

 

.

 

 

Sveitarfélagið Árborg dæmt til

að greiða Gámaþjónustunni 24 milljónir

 

Þann 21. febrúar sl. var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Suðurlands, í máli Gámaþjónustunnar gegn Sveitarfélaginu Árborg. Þar er Svf. Árborg dæmt til að greiða Gámaþjónustunni tæpar 19 milljónir króna auk vaxtakostnaðar, vegna tapaðs hagnaðar af sorphirðu í sveitarfélaginu á árinu 2012. Auk þessa var sveitarfélagið dæmt til að greiða 5,5 milljónir í málskostnað.

 

Forsaga málsins er í stórum dráttum sú að eftir útboð sem fram fór á  sorphirðu í sveitarfélaginu ákvað meirihluti Sjálfstæðismanna að hafna þeim tilboðum sem bárust og bjóða út aftur. Svf. Árborg hafði áður verið dæmt til þess að greiða Gámaþjónustunni rúma milljón króna þar sem sveitarfélagið hafði ekki lögmætar ástæður til þess að draga útboðið tilbaka og hafna öllum tilboðum í sorphirðuna.

 

Í útboðsgögnum kom fram að samningstími væri fimm ár og því er hætt við að Gámaþjónustan muni sækja til sveitarfélagsins hagnað vegna fjögurra ára til viðbótar og þá gæti sú upphæð numið allt að 76 milljónum til viðbótar. Þessi  ákvörðun meirihluta Sjálfstæðismanna á sínum tíma gæti því kostað Svf. Árborg á endanum um 100 milljónir króna fyrir utan lögfræðikostnað við rekstur málsins. Í dómnum sem við hvetjum íbúa sveitarfélagsins til að kynna sér, á vefnum domstolar.is, er málið rakið mjög ítarlega og málefnalega og ekkert sem bendir til þess að önnur niðurstaða fengist ef dómsniðurstöðunni yrði áfrýjað til Hæstaréttar.

 

Hér að neðan eru upplýsingar um afgreiðslu málsins frá fundi bæjarráðs þann 15. desember 2011, þar sem málið er rakið og afgreiðsla þess. Í bæjarráði hafa þrír aðilar atkvæðisrétt og voru að þessu sinni tveir frá D-lista og einn frá S-lista. Síðar sama dag var málið tekið fyrir í bæjarstjórn og fór á sama veg með fimm atkvæðum meirihluta D-lista á móti fjórum atkvæðum minnihluta S-lista, B-lista og V-lista. Hin ótrúlega afgreiðsla þessa máls og gríðarleg fjárútlát Svf. Árborgar vegna dómsins eru alfarið á ábyrgð þáverandi meirihluta Sjálfstæðismanna, þeim sem þá voru og eru enn fulltrúar hans.

 

Fundur bæjarráðs 15. desember 2011
Liður 10. 1012096 – Útboð á sorphirðu 2011


Lagt var fram minnisblað Lögmanna Suðurlandi.
Lögð var fram eftirfarandi tillaga fulltrúa D-lista:

Bæjarráð samþykkir að hafna þeim tilboðum sem bárust í verkið Söfnun og flutningur úrgangs, moltugerð og þjónusta við gámastöð 2012–2016 þar sem færa megi rök fyrir því að gallar kunni að hafa verið á framkvæmd útboðsins. 
Rétt er að benda á að kostnaður við lægsta tilboð er yfir 13 milljón krónum hærri fyrir árið 2012 en kostnaður við sorphirðu fyrir árið 2011. Þá er útboðsupphæð fyrir fimm ára tímabil miðuð við núverandi sorpmagn en margt bendir til að það kunni að aukast á tímabilinu með tilheyrandi viðbótarkostnaði.
Bæjarráð felur framkvæmdastjóra sveitarfélagsins að leita samninga við núverandi sorphirðuaðila um framlengingu samnings til 1. júlí 2012. Bæjarráð felur tækni- og veitustjóra að vinna að nýju útboði.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum gegn atkvæði Eggerts Vals Guðmundssonar, S-lista.

 

Lögð var fram eftirfarandi bókun Eggerts Vals Guðmundssonar, S-lista, Helga S. Haraldssonar, B-lista, og Þórdísar Eyglóar Sigurðardóttur, V-lista:
„Sú tillaga sem hér er lögð fram af meirihluta D-lista, að hafna niðurstöðu útboðs á sorphirðu fyrir sveitarfélagið, er verulega undarleg ákvörðun. Byggð á vangaveltum um hugsanlega galla á útboðinu og aukið sorpmagn í framtíðinni . Einnig eru settar fram tölulegar upplýsingar um hærri kostnað á árinu 2012, en ekkert getið um sparnað upp á 25 milljónir á samningstímanum. Hugsanlegur kostnaður sveitarfélagsins vegna þessarar ákvörðunar er alfarið á ábyrgð meirihluta D-lista“.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, og Þórdís Eygló Sigurðardóttir, V-lista.

Lögð var fram eftirfarandi tillaga Eggerts Vals og Helga S. Haraldssonar:
„Bæjarráð samþykkir að ganga til samninga við lægstbjóðanda í útboði á sorphirðu í Sveitarfélaginu Árborg.
Greinargerð: Bæjarstjórn tók ákvörðun fyrir ári síðan að láta bjóða út sorphirðu í Sveitarfélaginu Árborg í ljósi þess að samningur við verktakann, sem hefur séð um sorphirðuna mörg undanfarin ár var runninn út. Skipaður var vinnuhópur fulltrúa  allra flokka til þess að móta framtíðarstefnu í málaflokknum sem lið í undirbúningi útboðsins. Í framhaldinu var verkfræðistofan Efla fengin til þess að gera útboðsgögn og bjóða út verkið í samræmi við vilja bæjarstjórnar. Niðurstaðan  varð sú að tvö fyrirtæki buðu í verkið, annars vegar Íslenska gámafélagið og hins vegar Gámaþjónustan. Tilboð Gámaþjónustunnar reyndist  mun hagstæðara fyrir sveitarfélagið. Ef miðað er við kostnað undanfarinna ára er tilboð Gámaþjónustunnar mjög hagkvæmt fyrir sveitarfélagið og þýðir í raun sparnað sem nemur um það bil 25 milljónum kr. á samningstímanum. Fyrir liggur einkunnargjöf unnin af fagaðilum vegna tilboðanna og skorar lægstbjóðandi hærra í þeirri einkunnargjöf. Það er því sjálfsagt og eðlilegt að ganga frá samningi við lægstbjóðanda sem allra fyrst enda gert ráð fyrir því að núverandi verktaki ljúki við sinn samning um næstu áramót og nýr verktaki taki til starfa 1. janúar 2012“.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista og Helgi S. Haraldsson, B-lista.

Tillagan var borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum gegn atkvæði Eggerts Vals Guðmundssonar, S-lista.

 

Lögð var fram bókun Eggerts Vals Guðmundssonar, S-lista, og Helga S. Haraldssonar, B-lista:
„Það er algjörlega óskiljanlegt að meirihluti D-lista skuli fella þá tillögu sem hér er lögð fram af undirrituðum fulltrúum minnihlutans, um að ganga til samninga við lægstbjóðanda eftir útboð sem sveitarfélagið stóð fyrir vegna sorphirðu í sveitarfélaginu. Ljóst er að annar tilboðsgjafanna hefur sent frá sér tilmæli um ógildingu útboðsins, sem við nánari skoðun standast ekki  sem rök fyrir ógildingu þess. Útboðsgögn voru unnin af Verkfræðistofu Suðurlands og EFLU verksfræðistofu fyrir sveitarfélagið og eru í samræmi við allar almennar reglur og lög sem um slík útboð gilda. Hefur umsjónaraðili útboðsins hjá EFLU sagt að útboðsgögnin standist alla lagalega skoðun og í þeim felist á engan hátt mismunun gagnvart tilboðsgjöfum. Í útboðsgögnum er m.a tekið fram að þeir bjóðendur sem komi til greina skuli, innan ákveðins frests, sé þess óskað, láta í té ýmsar upplýsingar um viðkomandi fyrirtæki, s.s. starfsleyfi, upplýsingar um tæki, staðfestingu á að fyrirtækið sé ekki í vanskilum með opinber gjöld o.s.frv.
Hvorugur tilboðsgjafa gerði athugasemdir þegar tilboð voru opnuð og báðir aðilar skiluðu inn þeim gögnum sem beðið var um án athugasemda  eftir að tilboð voru opnuð.  Tilboðsgjafar sátu við sama borð allt útboðsferlið.
Leitað hefur verið álits bæjarlögmanns á – Tilmælum um ógildingu útboðs – frá öðrum tilboðsgjafanum og getur bæjarlögmaður ekki gefið ótvíræð svör við því hvort gallar hafi verið á útboðinu eða ekki. Hvergi er heldur til ótvíræður úrskurður í sambærilegum málum en í úrskurði kærunefndar útboðsmála í máli nr. 12/2006 segir: „Það er meginregla í opinberum innkaupum að bjóðendur geta ekki breytt grundvallarþáttum í tilboðum sínum eftir að þau hafa verið opnuð, enda eru slíkar breytingar almennt til þess fallnar að raska samkeppni og fela í sér hættu á mismunun.” Í þessu útboði er ekki hægt að segja, að með því að kalla eftir frekari upplýsingum eftir að tilboð voru opnuð, hafi jafnræði verið brotið þar sem það kom skýrt fram í útboðsgögnum að eftir þessu yrðir kallað og báðir aðilar vissu það og báðir aðilar skiluðu inn umbeðnum gögnum á tilsettum tíma. Í útboðinu sem hér um ræðir var vægi tilboðsupphæðar 80% og vægi annarra þátta samtals 20%, en kallað var eftir upplýsingum vegna þessara þátta við opnun tilboða. Í niðurstöðum þessa útboðs hefur því tilboðsverðið svo mikið vægi að aðrir þættir geta ekki breytt niðurstöðu þess, þ.e.a.s.  hvor tilboðsgjafi skorar hærra eftir að allar viðbótarupplýsingar hafa verið skoðaðar. Það er vægast sagt undarlegt að ganga ekki nú þegar til samninga við lægstbjóðanda á grundvelli þeirra tilboða sem fyrir liggja og einkunnargjafar tilboðsgjafa, samkvæmt umbeðnum upplýsingum sem þeir báðir skiluðu inn“.


Helgi Sigurður Haraldsson, fulltrúi B-lista og Eggert Valur Guðmundsson, fulltrúi S-lista. Þórdís Eygló Sigurðardóttir, V-lista, tók undir bókunina.
 

Lögð var fram bókun bæjarfulltrúa D-lista:
„Það er ábyrgðarhluti að semja um sorphirðu til fimm ára og binda þannig sveitarfélagið. Nú liggur fyrir álit bæjarlögmanns sem staðfestir að galli kunni að vera á útboðinu. En í áliti bæjarlögmanns segir orðrétt: „Ef að lögmæti útboðsins yrði borið undir framangreinda úrskurðaraðila má færa rök fyrir því að niðurstaðan gæti orðið sú að jafnræði bjóðenda hefði ekki verið gætt með fullnægjandi hætti.“ Sá reiknaði ávinningur sem fulltrúar S- og B-lista nefna er ekki fyrir hendi, þvert á móti er ýmislegt sem bendir til annars.“

 

Helgi S. Haraldsson bæjarfulltrúi B-lista
Eggert Valur Guðmundsson bæjarfulltrúi S-lista
Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi S-lista

 


F.v.: Eggert Valur Guðmundsson (S),

Arna Ír Gunnarsdóttir (S)

og Helgi S. Haraldsson (B) bæjarfulltrúar í Árborg.


Dagskráin fimmtudaginn 1. mars 2017

 

 

 


Skráð af Menningar-Staður

 

03.03.2017 20:17

Merkir Íslendingar - Jón Þorláksson

 

 

Jón Þorláksson (1877 - 1935).

 

Merkir Íslendingar - Jón Þorláksson

 

Jón Þorláksson forsætisráðherra fæddist í Vesturhópshólum 3. mars 1877. Foreldrar hans voru Þorlákur Þorláksson, hreppstjóri þar, og k.h., Margrét Jónsdóttir húsfreyja.
 

Föðurbróðir Jóns var Þórarinn Þorláksson listmálari, en systir Jóns var dr. Björg Þorláksson, fyrsti íslenski kvendoktorinn.

Kona Jóns var Ingibjörg, dóttir Jean Valgard vann Deurs Claessen, landsféhirðis, og Kristín Eggertsdóttur Briem. Þau Jón og Ingibjörg áttu tvær kjördætur.
 

Jón lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1897, með hæstu einkunn í sögu skólans, og prófi í byggingaverkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn 1903, þriðji Íslendingurinn sem lauk verkfræðiprófi.
 

Jón rannsakaði byggingarefni og brúargerð hér á landi 1903-1905, var skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík frá stofnun 1904-1911, landsverkfræðingur 1905-1917, rak sjálfstæða verkfræðistofu og byggingavöruverslun í Reykjavík 1917-1923 og síðan verslunina í samvinnu við Óskar Norðmann til æviloka, var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1906-1908 og 1910-22, alþingismaður 1921-33, fjármálaráðherra 1924-27, forsætisráðherra 1926-27 og borgarstjóri í Reykjavík frá 1933 og til dauðadags. Hann var formaður Verkfræðingafélags Íslands, einn helsti stofnandi og seinni formaður Íhaldsflokksins 1926-29 og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins.
 

Jón var einn merkasti framfarasinni Íslandssögunnar. Hann hafði mikil áhrif á upphaf steinsteyptra húsa hér á landi, skipulagði og vann að brúa- og vegagerð, stofnaði pípugerð fyrir holræsi, stóð fyrir stofnun almenningsbaðhúss í Reykjavík 1907, rannsakaði og vann að fyrstu almenningshitaveitu í heiminum og skrifaði rit um vatnsorku landsins.
 

Jón var hægur í framgöngu, yfirvegaður og um fram allt rökfastur.
 

Ævisaga Jóns, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, kom út 1992.
 

Jón lést 20. mars 1935.

 

Morgunblaðið - Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.


Skráð af Menningar-Staður

02.03.2017 22:02

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyrarbakka í kvöld

 

 

 

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyrarbakka í kvöld

 

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyrarbakka var haldinn í kvöld, fimmtudaginn 2. mars 2017, í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka.

Fundargerð og fleira síðar.

 


Menningar-Staður færði fundinn til myndar.
 

.

.
Skráð af Menningar-Staður

02.03.2017 06:57

Vefurinn Menningar-Staður í fjögur ár

 

 

 

 

Vefurinn Menningar-Staður í fjögur ár

 
Suðri - héraðsfréttablað 2. mars 2017.

http://fotspor.is/wordpress/wp-content/uploads/2017/03/sudri_2mars_web.pdf
Skráð af Menningar-Staður

01.03.2017 21:58

1. mars 1915 - Kol úr Dufansdal í Arnarfirði

 

 

Dufansdalur í Arnarfirði.

 

1. mars 1915 - Kol úr Dufansdal í Arnarfirði

 

Íslensk kol voru seld í fyrsta sinn í Reykjavík þann 1. mars 1915. 

Þau voru frá Dufansdal við Arnarfjörð, voru ódýrari en innflutt kol og sögð gefa góðan hita.

 

Morgunblaðið.

 Auglýsing í Vísi þann 28. febrúar 1915.
Skráð af Menningar-Staður

01.03.2017 21:55

Merkir Íslendingar - Sigurður Eggerz

 


Sigurður Eggerz (1875 - 1945).

 

Merkir Íslendingar - Sigurður Eggerz

 

Sigurður Eggerz ráðherra fæddist á Borðeyri 1. mars 1875. Foreldrar hans voru Pétur Friðriksson Eggerz, kaupstjóri þar, og Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja.
 

Í ættum Sigurðar og fjölskyldu eru óvenju margir alþingismenn og ráðherrar, s.s. bróðir hans, Guðmundur, alþingismaður og sýslumaður, og tveir mágar hans, Páll Ólafsson, ritstjóri og alþingismaður, og Ólafur Thorlacius alþingismaður, faðir Kristjáns Thorlacius sem var formanns BSRB og varaþingmaður.
 

Þá var Sigurður kvæntur Solveigu, dóttur Kristjáns Jónssonar ráðherra, bróður Péturs ráðherra og Steingríms, alþingismanns og bæjarfógeta á Akureyri, en þeir voru synir Jóns Sigurðssonar, alþingismanns og héraðshöfðingja á Gautlöndum, og eru því af Gautlandsætt og Reykjahlíðarætt, fjölmennustu ráðherraætt landsins.
 

Tengdamóðir Sigurðar var hins vegar Anna Þórarinsdóttir, dóttir Þórarins Böðvarssonar alþingismanns sem átti ræturnar að Holti í Önundarfirði.
 

Sigurður lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1895 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1903. Hann var sýslumaður á nokkrum stöðum, lengst af i Vík í Mýrdal, var alþingismaður 1911-1915, 1916-1926 og 1927-1931. Hann varð ráðherra Íslands 1915 en sagði af sér ári síðar er konungur vildi ekki fallast á fyrirvarann um uppburð íslenskra mála í Ríkisráði Dana. Þá var Sigurður fjármálaráðherra 1917-20 og forsætisráðherra 1922-24.
 

Sigurður var síðan bankastjóri Íslandsbanka frá 1924 þar til bankinn var lagður niður 1930. Hann sinnti lögmannsstörfum í Reykjavík, var bæjarfógeti á Ísafirði 1932-34 og á Akureyri 1934-1945.
 

Sigurður var fyrirmannlegur og höfðinglegur á velli, þótti flekklaus, ljúfur og alþýðlegur, og umtalsverður áhugamaður um skáldskap eins og fleiri stjórnmálamenn þá.  
 

Sigurður lést 16. nóvember 1945.

Morgunblaðið.

 


Skráð af Menningar-Staður.

01.03.2017 14:56

Grímuball að Stað á Eyrarbakka 1. mars 2017

 

 
 
 

 

Grímuball að Stað á Eyrarbakka 1. mars 2017


Skráð af Menningar-Staður

01.03.2017 10:10

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 1. mars 2017

 


Vinir alþýðunnar.

F.v.: Sigurður Egilsson, Ragnar Jónsson, Haukur Jónsson, Ingvar Jónsson,
Jóhann Jóhannsson, Siggeir Ingólfsson, Reynir Jóhannsson og Ingólfur Hjálmarsson.
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 1. mars 2017

Vinir alþýðunnar

 

.
F.v.: Sigurður Egilsson, Ragnar Jónsson, Haukur Jónsson og Ingvar Jónsson. Ljósm.: BIB
.


F.v.: Jóhann Jóhannsson, Siggeir Ingólfsson, Reynir Jóhannsson og Ingólfur Hjálmarsson.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason


Skráð af Menningar-Staður