Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2017 Júní

22.06.2017 19:41

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 22. júní 2017

 


Vinir alþýðunnar:
F.v.: Jón Gunnar Gíslason Siggeir Ingólfsson, Rúnar Eiríksson, Jóhann Jóhannsson,
GUðmundur Sæmundsson, Vigfús Markússon og Ingólfur Hjálmarsson.
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka  22. júní 2017

Sérstakur gestur var Vigfús Markússon
og var hann pumpaður um sína daga og drauma.

 

.

.

Skráð af Menningar-Staður

22.06.2017 08:37

Alltaf barátta um hver fær mesta plássið

 


Góðir vin­ir. Kiriyama Family að lokn­um tón­leik­um

á Secret Solstice um síðustu helgi.

F.v.: Guðmund­ur, Hulda, Víðir, Bjarni, Kalli, Bassi

og Ásgeir Óskars­son Stuðmaður

sem leik­ur á slag­verk með þeim á tón­leik­un­um.

— Morg­un­blaðið/?Hanna

 

Alltaf barátta um hver fær mesta plássið

 

Þau skreppa ekki lengur í klukkutíma í frissbí á hljómsveitaræfingum, enda þarf að nýta tímann vel þegar fólk hefur eignast börn og er í fullri vinnu. Hljómsveitin Kiriyama Family er komin með bandarískan umboðsmann og heldur útgáfutónleika á morgun, föstudag, til að fagna nýju plötunni, Waiting For. Hljómsveitarmeðlimir eru frá Stokkseyri, Eyrarbakka, Selfossi og sveitabæjum þar í nágrenni.

Blaðamaður tók hús á þremur af sex meðlimum; þeim Kalla, Huldu og Víði.

---------------------------------------------------------------------------------------------
 

Manna­breyt­ing­ar eru helsta ástæðan fyr­ir þess­um langa tíma sem liðinn er frá því að við gáf­um fyrstu plöt­una okk­ar út, en hún kom út fyr­ir fimm árum. Einn meðlim­ur yf­ir­gaf bandið en Hulda og Bjarni komu inn í staðinn. Dýna­mík­in í band­inu breyt­ist við inn­komu nýs fólks og það er gott. Þegar kven­rödd Huldu bætt­ist við jók það held­ur bet­ur mögu­leik­ana. Við vor­um kom­in langt á leið með fullt af lög­um, svo að við þurft­um bæði að klára þau og gera ný lög.

Við erum búin af fara all­an hring­inn, mörg lög hafa farið út af plöt­unni en sum komu inn aft­ur. Við erum rosa­lega sátt við út­kom­una,“ segja þau Kalli, Víðir og Hulda, þrjú af þeim sex sem skipa hljóm­sveit­ina Kiriyama Family, um ný­út­komna plötu sína Wait­ing For....

Þau segja ástæður fyr­ir töf­um líka vera þær að sum­ir hljóm­sveit­armeðlim­ir hafi verið upp­tekn­ir við að eign­ast börn og sinna öðru sem tek­ur tíma.

„Við vor­um ekki með fyr­ir­fram­hug­mynd um ákveðinn fast­an ramma um hvernig þessi plata ætti að vera, held­ur gerðist þetta í ferl­inu. Bassi er sá sem tek­ur upp og mix­ar og hann hafði ein­hvers kon­ar úr­slita­vald um hvað fór á plöt­una og hvað ekki, en hann virðir skoðanir okk­ar og tek­ur út það sem okk­ur finnst ómögu­legt. Ég held að næsta plata verði meira eins og Kiriyama er núna, þar verði lög frá okk­ur öll­um. Nýja plat­an er meira bland úr fortíðinni og nútíðinni,“ seg­ir Víðir og bæt­ir við að stefn­an sé að láta aðdá­end­ur ekki bíða lengi eft­ir næstu plötu.

 

Aðdá­andi núm­er eitt var held­ur bet­ur til í að syngja með

 

Kiriyama Family var ein­vörðungu skipuð karl­kyns meðlim­um þar til fyr­ir fjór­um árum þegar söng­kon­an Hulda gekk til liðs við hana. Kalli seg­ir að hann hafi alltaf langað til að hafa kven­rödd í hljóm­sveit­inni, til að hafa meiri fjöl­breytni í hug­mynd­um og laga­smíðum. „Mér finnst fal­legt að hafa bæði kven- og karlrödd, það vinn­ur vel sam­an upp á hljóðheim­inn að gera. Við Hulda náðum strax mjög vel sam­an og það eru góðir straum­ar á milli okk­ar í söngn­um.“

 

Hulda seg­ir að hljóm­sveit­in henn­ar, Ara­grúi, hafi verið að æfa í Pakk­hús­inu á Sel­fossi fyr­ir fjór­um árum þar sem Bassi heyrði í henni syngja.

„Ég vann þetta sama ár söngv­ara­verðlaun og Bassi hringdi í mig og spurði hvort ég vildi syngja með þeim. Ég var meira en til í það, þar sem ég er aðdá­andi hljóm­sveit­ar­inn­ar núm­er eitt. Ég kom fyrst fram með þeim á Airwaves árið 2013 og hef sungið með þeim síðan,“ seg­ir Hulda, sem er nokkuð yngri en strák­arn­ir, en hún seg­ir það ekki hafa verið neitt mál að skapa sér pláss meðal pilt­anna.

„Ég hef fengið heil­mikið frelsi og rými. Ég á bæði texta og lag­lín­ur á nýju plöt­unni.“

Kalli bæt­ir við að á viss­an hátt sé alltaf bar­dagi á milli hljóm­sveit­armeðlima um hver fái mesta plássið.

„Enda ger­um við mikið af því að skipt­ast á að spila á hljóðfær­in.“

 

Þeim var blótað fyr­ir að vera með of mik­inn hávaða

 

Hljóm­sveit­armeðlim­ir eru all­ir frá Eyr­ar­bakka, Stokks­eyri og Sel­fossi, en Kalli er frá bæn­um Holti, rétt utan við Stokks­eyri. Kalli og Víðir eru þeir sem lengst hafa starfað sam­an í band­inu, frá 2008. Þeir segja Kiriyama í raun spretta úr ann­arri hljóm­sveit, Nil­Fisk, sem Víðir stofnaði ásamt fleir­um þegar hann var í grunn­skóla á Eyr­ar­bakka, en Nil­Fisk varð á sín­um tíma þekkt sem hljóm­sveit­in sem hitaði upp fyr­ir Foo Fig­hters í Laug­ar­dals­höll­inni árið 2003 eft­ir að Dave Grohl heyrði í henni á æf­ingu á Stokks­eyri og tók lagið með henni þar. Kalli gekk til liðs við Nil­Fisk skömmu áður en hún varð Kiriyama Family. Þeir segja að það hafi verið þó nokkuð basl að halda gang­andi hljóm­sveit í sveit­inni á unglings­ár­un­um.

 

„Við feng­um vissu­lega mik­inn stuðning úr ýms­um átt­um en það var líka blásið á móti, marg­ir blótuðu okk­ur fyr­ir að vera með hávaða og fannst við vera með of sítt hár og vera of mikl­ir rokk­ar­ar,“ seg­ir Víðir. „Við fund­um líka al­veg fyr­ir því að það var erfitt fyr­ir okk­ur sveitastrák­ana að kom­ast að í bæn­um, við vor­um ekki með sama tengslanet og hinir sem þekktu alla og voru heima­menn í Reykja­vík.

 

Er­lend­ur umboðsmaður full­ur af eld­móði

 

Bjart er fram und­an hjá Kiriyama Family, hljóm­sveit­in er kom­in með banda­rísk­an umboðsmann, Jeff Rude.

 

„Hann hafði keypt fyrri plöt­una okk­ar á sín­um tíma og líka fyrstu smá­skíf­urn­ar af þess­ari nýju og var svona líka hrif­inn. Hann hafði sam­band við okk­ur í gegn­um Face­book og vildi koma okk­ur á fram­færi og við slóg­um til, enda maður­inn full­ur af eld­móði og held­ur okk­ur við efnið. Hann hef­ur komið tvisvar til Íslands til að vera með okk­ur í því sem við erum að gera. Hann var með okk­ur á Secret Solstice um síðustu helgi þar sem við kom­um fram. Hann er að vinna í að bóka okk­ur á nokk­ur gigg úti svo við get­um farið í tón­leika­t­úr og plantað fræj­um. Hjól­in eru því far­in að snú­ast og spenn­andi að sjá hvað kem­ur út úr þessu. Ég ætla að leggja eins mik­inn metnað og ég get í það sem mér finnst skemmti­leg­ast að gera, búa til tónlist og spila fyr­ir fólk,“ seg­ir Kalli, en þau sinna öll hljóm­sveit­inni sem áhuga­máli, eru í fullu starfi þar fyr­ir utan.

„Við reyn­um að nýta tím­ann vel þegar við hitt­umst á æf­ing­um, en þegar við vor­um yngri höfðum við miklu meiri tíma og leyfðum okk­ur að slóra, skrupp­um kannski út í fris­bí í klukku­tíma meðan á hljóm­sveitaræf­ingu stóð,“ seg­ir Víðir og hlær.
 


Inn­lif­un. Kalli og Hulda á tón­leik­un­um á Secret Solstice um liðna helgi. 

— Morg­un­blaðið/?Hanna

Ung­ir. Nil­Fisk ásamt Dave Grohl úr hljóm­veit­inni Foo Fig­hters

þegar hann heim­sótti Stokks­eyri árið 2005, en Nil­Fisk

hitaði upp tveim­ur árum áður á tón­leik­um Foo Fig­hters

í Laug­ar­dals­höll. Víðir er ann­ar frá hægri.

— Ljós­mynd/?Guðmund­ur Karl

.


 

Útgáfutónleikar á morgun 23. júní 2017

 

Hljómsveitin Kiriyama Family ætlar að fagna útgáfu annarrar breiðskífu sinnar, Waiting For…, með veglegum útgáfutónleikum í Tjarnarbíói í Reykjavík á morgun, föstudag 23. júní.

Fjöldi gestahljóðfæraleikara mun koma fram ásamt hljómsveitinni til að flytja nýja verkið ásamt eldri lögum. Upphitun mun verða í höndum ný- krýndra sigurvegara Músiktilrauna 2017, Between Mountains.

 

Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl 20:30.

 

Hljómsveitarmeðlimir eru:

Karl M. Bjarnarson: söngur, gítar, bassi og hljóðgervlar.

Víðir Björnsson: gítar, bassi og hljóðgervlar.

Guðmundur Geir Jónsson: gítar, bassi og hljóðgervlar.

Hulda Kristín Kolbrúnardóttir: söngur.

Bassi Ólafsson: trommur, slagverk og mixer.

Bjarni Ævar Árnason: hljóðgervlar.

 

 Morgunblaðið fimmtudagurinn 22. júní 2017.

Krist­ín Heiða Krist­ins­dótt­ir

khk@mbl.is


Skráð af Menningar-Staður

21.06.2017 23:43

Kjólakaffi með Aubý í Húsinu

 

 

Auðbjörg Guðmundsdóttir.

 

Kjólakaffi með Aubý í Húsinu

 

Á Jónsmessumorgni 24. júní er gestum boðið í kjólakaffi með Auðbjörgu Guðmundsdóttur fyrrum húsfreyju Hússins.  Gestir þurfa að mæta í kjólum eða kjólfötum (jafnvel  jakkafötum) og þiggja svo dísæta mola og  frúarkaffi úr fínustu bollum.

 

Frítt er inn á kjólakaffið sem hefst kl. 10 að morgni og stendur til kl. 11.30. 

 

Mjög við hæfi er að skoða einnig litríka sumarsýningu safnsins Kjóllinn en þar eru sýndir kjólar Guðfinnu Hannesdóttur og Helgu Guðjónsdóttur í samspili við margskonar kjóla frá gestum. 

 

 Kjólakaffi með Aubý er hluti af sumardagskrá safnsins í tengslum við kjólasýninguna og er dagskráin styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands.

 

Að vanda er mikið líf og fjör á Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka og kjólakaffið er aðeins einn af mörgum viðburðum þennan dag. Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má sjá hér http://www.husid.com/jonsmessuhatid-a-eyrarbakka-24-juni-2017-kjolakaffi-i-husinu/

 

Meðfylgjandi ljósmynd tók © Guðmundur Jóhannesson ljósmyndari

af Auðbjörgu Guðmundsdóttur í Húsinu um 1990.

 

 

Auðbjörg Guðmundsdóttir í Húsinu.

 

af www.husid.com
Skráð af Menningar-Staður

21.06.2017 18:11

Tómas Grétar Sigfússon - Fæddur 7. mars 1921 - Dáinn 13. júní 2017 - Minning

 

 

Tómas Grétar Sigfússon (1921 - 2017).

 

Tómas Grétar Sigfússon - Fæddur 7. mars 1921

- Dáinn 13. júní 2017 - Minning

 

Tóm­as Grét­ar Sig­fús­son fædd­ist á Hurðarbaki í Flóa þann 7. mars 1921. Hann lést 13. júní 2017.

 

Hann var son­ur hjón­anna Sig­fús­ar Árna­son­ar frá Hurðarbaki, f. 20. apríl 1892, d. 1. októ­ber 1975, og Önnu Tóm­as­dótt­ur, f. á Syðri-Hömr­um í Holt­um 2. nóv­em­ber 1894, d. 10. júní 1949. Þau fluttu í Garðbæ á Eyr­ar­bakka 1923 og bjuggu þar síðan.

 

Grét­ar kvænt­ist Sig­ríði Gunn­ars­dótt­ur frá Hafnar­f­irði þann 9. mars 1946. Sig­ríður lést 26. des­em­ber 2016.

Þau bjuggu fyrst í Hafnar­f­irði en síðan á Eyr­ar­bakka til 1963 þegar þau fluttu í ný­bygg­ingu á Keldu­hvammi 1 í Hafnar­f­irði sem þau reistu ásamt Har­aldi bróður hans og Guðnýju Gunni, syst­ur Sig­ríðar. Þar bjuggu þau til 2013 er þau fengu vist á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Ísa­fold í Garðabæ.

 

Sig­ríður og Grét­ar eignuðust fimm börn:

Gunn­ar, f. 1946, kvænt­ur Elsu Marís­dótt­ur,

Sig­fús, f. 1950, kvænt­ur Odd­fríði Jóns­dótt­ur,

Guðna, f. 1953, d. 2016, kvænt­ist Arn­fríði Þrá­ins­dótt­ur og síðar Ritu Eig­minaite,

Tóm­as, f. 1959, kvænt­ur Krist­ínu Harðardótt­ur, og Önnu Mar­gréti, f. 1965, gift Jónasi Jónatans­syni. Barna­börn­in eru fjór­tán og barna­barna­börn­in orðin nítj­án.

 

Grét­ar gekk í barna­skól­ann á Eyr­ar­bakka en 14 ára gam­all fór hann á vertíð í Þor­láks­höfn og reri þaðan og frá Eyr­ar­bakka í nokk­ur ár.

Hann var tvo vet­ur í Héraðsskól­an­um á Laug­ar­vatni og sótti síðan nám til vél­stjórn­ar­rétt­inda og var vél­stjóri á ýms­um bát­um frá Hafnar­f­irði og Þor­láks­höfn, lengst af á Friðriki Sig­urðssyni ÁR 17 í Þor­láks­höfn.

Hann fór í land 1976 og hóf þá störf á far­tækja­verk­stæði ÍSAL og var þar til 70 ára ald­urs. Þá fór hann að starfa hjá Guðna syni sín­um og Birni Ágústs­syni skrúðgarðyrkju­meist­ur­um og var hjá þeim næstu 12 árin en hætti að mestu eft­ir al­var­legt um­ferðarslys.

 

Útför­in fer fram frá Frí­kirkj­unni í Hafnar­f­irði í dag, 21. júní 2017.


Morgunblaðið miðvikudagurinn 21. júní 2017.


Skráð af Menningar-Staður

21.06.2017 10:58

FIMMTA HJÓLABÓK ÓMARS SMÁRA

 

 

 

FIMMTA HJÓLABÓK ÓMARS SMÁRA

 

Hjá Vestfirska forlaginu er komin út fimmta Hjólabókin eftir Ómar Smára Kristinsson og fjallar hún um Rangárvallasýslu. 

Viltu ferðast á frábæra staði?

Viltu samt losna við fjölmenni?

Þá er reiðhjólið rétti ferðamátinn og Rangárvallasýsla rétti staðurinn. Svo segir höfundur hjólabókanna, en hann er fæddur í Rangárvallasýslu.
 

Í bókinni er lýst ellefu hjólreiðaleiðum, auðveldum og erfiðum, sem eiga það sameiginlegt að þær liggja í hring og að hægt er að loka hringnum á einum degi. Hverri leiðarlýsingu fylgja tillögur að fleiri ferðum. Þar að auki er nokkurra léttra hringleiða, sem ekki teljast til dagleiða, getið í bókinni. Einnig er í henni að finna kort af almenningssamgöngum og umferðarþunga.
 

Um eitt og hálft hundrað ljósmynda gefa innsýn í sýsluna, hvernig þar er umhorfs og hverskonar vegir og stígar bíða lesenda. 
 


Textinn er margbreytilegur, fjölhæfur og skemmtilegur líkt og í fyrri Hjólabókum Ómars Smára.

 

 

Ómar Smári Kristinsson.

 

 

 Skráð af Menningar-Staður

21.06.2017 09:17

21. júní 2017 - Sumarsólstöður

 

 

Flaggað grænlenskum fána við Fánasetur Suðurlands á Eyrarbakka.

 

21. júní 2017 - Sumarsólstöður

 

Í dag, miðvikudaginn 21. Júní 2017, eru sólstöður að sumri, en þá er dagurinn lengstur hjá okkur.  Á því augnabliki snýr norðurpóll jarðar næst sólu.
 

Upp úr þessu fara dagarnir að styttast en þrátt fyrir það mun þó líklega hlýna enn um sinn því að meðaltali er hvað hlýjast í lok júlí.

21. júní 2017 – Þjóðhátíðardagur Grænlendinga
Skráð af Menningar-Staður

21.06.2017 07:38

Eyrarbakka Ingimar lét til sín taka

 

 

Eyrbekkingurinn Ingimar Helgi Finnsson skoraði eitt

og lagði upp tvö á átta mínútna kafla.

Ljósm.: sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

Eyrarbakka Ingimar lét til sín taka

 

Knattspyrnufélag Árborgar vann öruggan sigur á Úlfunum á útivelli í 4. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Eyrbekkingurinn Ingimar Helgi Finnsson var maður kvöldsins hjá þeim bláu.

 

Árni Páll Hafþórsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks um miðjan hálfleikinn og staðan var 0-1 í leikhléi, þrátt fyrir margar góðar sóknir Árborgar.

 

Árborg stýrði leiknum í seinni hálfleiknum og fengu nokkur prýðileg færi sem öll fóru í súginn. 

 

Þegar fjórtán mínútur voru til leiksloka kom Eyrbekkingurinn Ingimar Helgi Finnsson inná hjá Árborg, í sínum 50. leik fyrir félagið. Hann hélt upp á það með því að leggja upp tvö mörk og skora eitt á átta mínútna kafla í kjölfarið.

 

Ingimar byrjaði á því að vinna boltann og senda frábæra sendingu innfyrir á Magnús Helga Sigurðsson sem lék á markmanninn og skoraði í autt markið. Fjórum mínútum síðar fengu Árborgarar hornspyrnu, boltinn barst á Ingimar á fjærstönginni sem skoraði af öryggi.

 

Aftur liðu fjórar mínútur þangað til Ingimar sendi boltann á Ingva Rafn Óskarsson sem skoraði með góðu skoti. Lokatölur 4-0.

 

Sigurinn fleytti Árborg upp í 3. sæti C-riðilsins en liðið hefur 10 stig og er þremur stigum á eftir toppliði Léttis.

 

Í A-riðlinum tapaði Hamar sínum fyrsta leik í sumar þegar liðið heimsótti Hvíta riddarann. Lokatölur urðu 1-0 en Riddararnir skoruðu sigurmarkið á 35. mínútu. Hamar gaf því eftir toppsætið í þessari umferð, en hefur 12 stig í 2. sætinu.

Af www.sunnlenska.is


Skráð af Menningar-Staður

20.06.2017 21:37

Kiriyama Family - Útgáfutónleikar 23. júní 2017

 

 


Kiriyama Family - Útgáfutónleikar 23. júní 2017

 

Hljómsveitin Kiriyama Family ætlar að fagna útgáfu annarar breiðskífu sinnar Waiting For… með veglegum útgáfutónleikum í Tjarnarbíói föstudagskvöldið 23.júní 2017.

 

Kiriyama Family hefur verið þekkt fyrir líflega og vandaða tónleika. Hljómsveitin hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi allt frá útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar sem kom út árið 2012.

 

Fjöldi gestahljóðfæraleikara munu koma fram ásamt hljómsveitinni til að flytja nýja verkið ásamt eldri lögum. Upphitun mun vera í höndum nýkrýndra sigurvegara Músiktilrauna 2017, Between Mountains.

 

Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl 20:30


 

 
  •  Tjarnarbíó
  •  Tjarnargötu 12
  •  101 Reykjavíkmidi.isSkráð af Menningar-Staður

20.06.2017 21:12

Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka 24. júní 2017

 

 

Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka 24. júní 2017

 

09:00               Fánar dregnir að húni við upphaf 19. Jónsmessuhátíðarinnar

Eyrbekkingar flagga íslenska fánanum eða Bakkafánanum og ganga frá skreytingum í hverfalitum og bjóða gesti velkomna. Björgunarsv. Björg býður upp á ókeypis veiði í Ölfusá fyrir landi Eyrarbakka.

 

09:00-21:00   Verslunin Bakki við Eyrargötu

Verslunin opin allan daginn og fram á kvöld. Börnin fá ís um miðbik dagsins. Óvænt uppákoma um miðjan dag.

 

09:30-11:00    Morgunstund í Hallskoti

Skógræktarfélag Eyrarbakka tekur á móti gestum og býður upp á hressingu í skóginum.

 

10:00-11:30    Kjólakaffi með Aubý í Húsinu

Gestir mæta í kjólum eða kjólfötum og þiggja frúarkaffi í stássstofu með fyrrum húsfreyju Hússins, Auðbjörgu Guðmundsdóttur.

 

10:30-17:00   Laugabúð við Eyrargötu

Einstakur bókamarkaður í kjallaranum – mikið úrval nýrra og gamalla bóka á frábæru tilboðsverði. Spjall í búðinni allan daginn.

 

11:00-22:00   Rauða húsið á Eyrarbakka

Rauða húsið er opið allan daginn og þar er boðið upp á ókeypis eftirrétt með öllum aðalréttum á matseðli.

 

11:00-18:00   Söfnin á Eyrarbakka

Opið í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu, Sjóminjasafninu og Kirkjubæ. Í borðstofu Hússins er sýningin KjólarÓkeypis aðgangur.

 

11:00                Unga kynslóðin skemmtir sér

Brúðubíllinn kemur í heimsókn að Sjóminjasafninu og Lilli litli heilsar upp á alla gömlu góðu vinina sína á Eyrarbakka. Boðið upp á hressingu.

Hestar teymdir undir börnum á Garðstúninu í boði Bakkahesta.

 

12:00               BMX BRÓS

BMX BRÓS sýna listir sínar á BMX hjólum við Sjóminjasafnið.

 

12:00-14:00  Bubbluboltar

Björgunarsveitin Björg verður með bubblubolta á Garðstúninu.

 

12:00-14:00   Heimboð í Garðshorn

Árleg Jónsmessusúpa og rabarbaragrautur í Garðshorni í boði húsráðenda Elínbjargar og Vigfúsar.

Allir velkomnir.

 

13:00-14:30   Diskótek fyrir yngri kynslóðina

DJ Sveppz sér um diskótek við Sjóminjasafnið og allir dansa með.

 

14:00-16:00  Tekið á móti gestum

Guðlaug Einarsdóttir og Jón Matthíasson á Túngötu 41 bjóða gestum heim til sín í spjall.

Esther Helga Guðmundsdóttir í Einarshöfn 4 – Jakobsbænum opnar hús sitt fyrir gestum og gangandi.

 

16:00-18:00  Marþari

Ásta Villa Guðmundsdóttir á Kaldbak fremur gjörning á Vesturbryggjunni.

 

16:00-17:00  Fuglasöngur og annað kvak

Valgeir Guðjónsson skemmtir ungum og öldnum með fuglasöng og öðru kvaki í Eyrarbakkakirkju.

 

20:15-21:30  Blandaði Bakkakórinn

Heimir Guðmundsson leikur undir almennan söng í stássstofu Hússins. Húsið opnað kl. 20 – þeir sem fyrstir koma fá sæti!

 

22:00             Jónsmessubrenna

Jónsmessubrenna í fjörunni vestan við Eyrarbakkaþorp. Eiríkur Már Rúnarsson ávarpar gesti og hið frábæra Bakkaband heldur svo uppi fjörinu fram eftir kvöldi.

 

23:00             Rauða húsið

Kjallarinn opinn og Grétar í Sólvangi ætlar að spila og syngja.

 

Tjaldsvæðið vestan þorpsins er opið – öll þægindi og nóg pláss.

 

Jónsmessuhátíðin er styrkt af Sveitarfélaginu Árborg, Versluninni Bakka, MS, Guðnabakaríi, Krás, Árhúsum Hellu, Bakkahestum, Ungmennafélagi Eyrarbakka og Björgunarsveitinni Björg.

 

Af www.eyrarbakki.isSkráð af Menningar-Staður

 

19.06.2017 20:40

19. júní 1915 - kon­ungs­úrsk­urður um gerð ís­lenska fán­ans

 Flaggað íslenskum fána við Fánsetur Suðurlands á Eyrarbakka.
 

 

19. júní 1915

- kon­ungs­úrsk­urður um gerð ís­lenska fán­ans

 

Þann 19. júní árið 1915 var gef­inn út kon­ungs­úrsk­urður um gerð ís­lenska fán­ans.

 

Hann átti að vera þrílit­ur:

„Heiðblár (ultram­ar­in­eblár) með hvít­um krossi og hárauðum krossi inn­an í hvíta kross­in­um.“

 

Litirnir áttu að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn. 

 

Morgunblaðið - Dag­ar Íslands-| Jón­as Ragn­ars­sonSkráð af Menningar-Staður