Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2017 Ágúst

31.08.2017 18:50

Hjalladæl - Fallegasta gatan í Árborg 2017

 

 

F.v.: Guðbjörg Víglundsdóttir Jóhann Jóhannsson
og Sandra Dís Hafþórsdóttir.

 

Hjalladæl - Fallegasta gatan í Árborg 2017

 

 

Föstudaginn 11. ágúst sl. var afhent viðurkenning fyrir fallegustu götuna í Sveitarfélaginu Árborg árið 2017.

 

Þetta árið var gatan Hjalladæl á Eyrarbakka fyrir valinu og tóku íbúar götunnar á móti skiltinu sem fær að prýða götuna næstu árin.

 

Það var Sandra Dís Hafþórsdóttir, bæjarfulltrúi sem afhjúpaði skiltið með elsta og yngsta íbúa götunnar. 

 

 Af www.arborg.is

 

 

Skráð af Menningar-Staður

30.08.2017 17:36

Kosið milli þriggja sunnlenskra presta

 

 

Skálholtsdómkirkja. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Kosið milli þriggja sunnlenskra presta

 

Sr. Kristján Björnsson, sr. Eiríkur Jóhannsson og sr. Axel Árnason Njarðvík verða í kjöri til vígslubiskups í Skálholti.

 

Þeir þrír hlutu flestar tilnefningar sem vígslubiskupsefni en 108 af 136 nýttu sér tilnefningarréttinn. Kristján hlaut 54 tilnefningar, Eiríkur 45 og Axel 35. Næstir þeim komu Jón Helgi Þórarinsson með 30 tilnefningar og Sighvatur Karlsson með níu. Alls voru 54 einstaklingar tilnefndir.

 

Sr. Kristján er sóknarprestur í Eyrarbakkaprestakalli, sr. Eiríkur er prestur við Háteigskirkju í Reykjavík og fyrrverandi prestur í Hruna og sr. Axel er héraðsprestur á Suðurlandi.

 

Vígslubiskupskjörið fer fram með póstkosningu sem hefst þann 28. september og lýkur þann 9. október.

 

.

 
 Skráð af Menningar-Staður 

29.08.2017 18:22

Höfuðdagurinn - 29. ágúst 2017

 

 

Í Skálholti. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Höfuðdagurinn - 29. ágúst 2017

 

Í dag er höfuðdagur og samkvæmt gamalli veðurtrú segir að veðurfar muni batna með Höfuðdegi og haldast þannig í þrjár vikur.

 

Höfuðdagurinn er samkvæmt gildandi tímatali 29. ágúst. Þann dag á Heródes konungur að hafa látið eftir konu sinni að Jóhannes skírari skyldi hálshöggvinn.

 

Á Vísindavefnum kemur fram að árið 1700 hafi tímatali verið breytt. Þá fluttist „gamli“ höfuðdagurinn yfir á 9. september og trúðu ýmsir á veðrabreytingar þann dag. Nú er dagurinn ávallt tengdur 29. ágúst. Trúnni á höfuðdaginn fylgdi bæði von og ótti. Mikilvægt þótti að hafa lokið heyskap fyrir höfuðdag ef tíð var góð en einnig lifðu margir í þeirri von að úr rættist við höfuðdag ef sumarið hafði verið vætusamt. 

 

Vísindavefurinn upplýsir ennfremur að íslenska heitið höfuðdagur virðist fyrst koma fyrir í bréfi frá 15. öld en þó þannig að nafnið var tengt Jóhannesi skírara, það er ákveðinn verknaður fór fram „á höfuðdaginn Johannis baptiste“. Þessi siður hélst lengi.

 

Liðið var fram á 19. öld áður en farið var að nefna daginn án tilvísunar til Jóhannesar.

 

 
Skráð af Menningar-Staður

29.08.2017 07:07

Tungumálið togar í mig

 

 

„Fyrir utan allt annað þá eru það forréttindi fyrir mig

að fá verðlaun sem afhent eru í fínasta skáldskaparbæ á landinu,

sjálfu Reykholti,“ sagði Steinunn meðal annars í ræðu sinni.

 

Tungumálið togar í mig

 

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur hlaut nýlega verðlaun úr Minningarsjóði Guðmundar Böðvarssonar, skálds á Kirkjubóli í Hvítársíðu, og Ingibjargar Sigurðardóttur, konu hans.

Það er mér sérstakur heiður og innileg ánægja að veita við- töku þessum fínu, sjaldgæfu ljóðaverðlaunum sem kennd eru við Guðmund Böðvarsson, uppáhaldsskáld – ljúfling og bónda. Takk fyrir mig, af öllu afli,“ sagði Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur á samkomu í Reykholti í Borgarfirði sem bar upp á afmælið hennar síðasta laugardag, 26. ágúst 2017. 

Fyrst fór hún með ljóðið  Kyssti mig sól  eftir Guðmund, hélt tölu um tengsl skálda við sveitina og fór með tvö ný ljóð úr eigin smiðju.

„Verðlaunin voru rausnarleg og athöfnin öll dásamleg. Hún Steinunn Jóhannesdóttur rithöfundur, sem situr í dómnefnd, flutti fyrirlestur um mig og verk mín og gerði það af alúð og innlifun. Þjóðlagasveitin Slitnir strengir, sem hlaut borgfirsku menningarverðlaunin, spilaði tvo írska ræla mér til heiðurs af því ég lærði í Dublin! Svo voru þjóðlegar veitingar,“ segir Steinunn ánægð að viðburðinum loknum. 

Guðmundur Böðvarsson lést 1974. Fyrst var veitt úr minningarsjóði hans og konu hans árið 1994 og þetta var 10. úthlutun. 

Steinunn segist hafa átt hamingjudaga á Kirkjubóli meðan þar var rithöfundaból og saman tvinnuðust skriftir og skemmtilegar stundir með fjölskyldunni á bænum. Ekki ryðgar Steinunn í tungumálinu þó hún dvelji löngum stundum í Frakklandi.

„Ég bý nú með tónskáldinu mínu, honum Þorsteini og svo les ég alltaf mikið á íslensku. En stundum finn ég fyrir því að mig langar að tala meira á íslensku og það sem togar í mig heim er ekki síst tungumálið.“ 

Hún hefur áhyggjur af lestrargetu íslenskra barna og því að þegar hún skoði smart heimili á Íslandi á netinu sjáist þar aldrei bók. „Eitt af því sem er aðlaðandi við Frakkland er að þar er bóklestur í tísku,“ segir hún og telur auðvelt að hlúa að íslenskri bókaútgáfu með því að afnema virðisaukaskatt og styðja betur við starf bókasafna. „En það sem er vel gert hér á landi eru starfslaunasjóðir listamanna. Án þeirra væri ég fyrir löngu farin út í blómaskreytingar.“

Fréttablaðið.

 Reykholtskirkja í Borgarfirði. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 
Skráð af Menningar-Staður.

28.08.2017 21:18

Miðbærinn okkar

 

 

Eyrbekkingurinn Sigurjón Vídalín Guðmundsson.

 

Miðbærinn okkar

 

Nú liggur fyrir auglýsing á deiliskipulagi fyrir nýjan miðbæ hér á Selfossi. Sitt sýnist hverjum og er það vel. Sjálfur hef ég mína skoðun á þessu fyrirhugaða skipulagi og get á margan hátt tekið undir þær gagnrýnisraddir sem heyrst hafa undanfarið og virðist þeim fara fjölgandi sem ekki eru á eitt sáttir við það skipulag og þá hugmynd sem nú er auglýst sem verðandi miðbær á Selfossi.

En hvað er það sem helst er gagnrýnt varðandi þessa hugmynd að nýjum miðbæ á Selfossi og á sú gagnrýni rétt á sér ?

Það sem margir virðast staldra fyrst við er útlit væntanlegra bygginga miðbæjarins. Í stuttu máli eiga þær að vera eftirlíkingar af gömlum húsum sem stóðu áður í hinum ýmsu bæjarfélögum vítt og breitt um landið. Á það að gefa bænum meira sögulegt gildi samkvæmt tillögunni og vera aðdráttarafl fyrir ferðamenn en mörgum þykir að hér sé verið að reyna að skreyta sig með stolnum fjöðrum og þykir það miður. Einnig hefur verið bent á að í sveitarfélaginu Árborg sé gömul söguleg byggð sem nær allt aftur að landnámi Íslands. Sú byggð er á Stokkseyri og Eyrarbakka. Ég get heilshugar tekið undir með þeim sem hafa bent á að ef stjórn sveitarfélagsins finnst vanta meiri sögu eða hún sé sýnilegri þá eigi að hlúa að henni þar sem hún á heima og byggja upp sögulegar byggingar þar sem þær stóðu eitt sinn. Í því samhengi mætti til dæmis nefna Lefolii verslunina á Eyrarbakka.

Á það hefur einnig verið bent að miðbæjarskipulagið virðist frekar miða að þörfum ferðamanna og ferðaþjónustunar heldur en þörfum íbúanna. Einnig hefur það verið gagnrýnt að svo virðist vera sem skipulagsvald miðbæjarins verði í höndum þeirra sem standa að þessari hugmynd að nýjum miðbæ en ekki í höndum sveitarfélagsins og verður það að teljast nokkuð sérstakt þar sem sveitarfélagið á stóran part af því landsvæði sem fyrirhugað er að byggja á.

Að auki er að koma fram gagnrýni á nýtingu svæðisins. Margir vilja sjá að á Sigtúnsreitinum verði gert ráð fyrir bæjargarði sem tekið geti við hlutverki Tryggvagarðs, sem löngu er orðin of lítill fyrir bæjarfélagið, en einnig þjónað íbúum á hátíðisdögum líkt og verið hefur undanfarin ár.

Án þess að telja upp alla gagnrýni sem komið hefur fram tel ég það ljóst að í miðbæjarskipulaginu sem nú er í auglýsingu hafi ekki verið tekið nægjanlegt tillit til þarfa eða óska íbúanna. Eftir því sem ég kemst næst hefur engum athugasemdum verið svarað sem gerðar voru við þetta sama skipulag þegar það var auglýst fyrir um ári síðan.

Mín skoðun er því sú að meirihlutinn í stjórn sveitarfélagsins eigi að endurskoða afstöðu sína og stuðning varðandi þessa hugmynd að nýjum miðbæ á Selfossi. Ég tel farsælla að lagst verði í heildstæða greiningu á þörfum og óskum íbúana varðandi uppbyggingu á nýjum miðbæ. Að mínu mati þarf að taka inn fagaðila sem eru bæði hæfir og óháðir til að meta hvernig best væri að skipuleggja nýjan miðbæ með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi og í sem mestri almennri sátt svo að þetta verði miðbær sem sameinar íbúana og þeir geti verið stolltir af.

 

Sigurjón Vídalín Guðmundsson,
Dverghólum 28, Selfossi.Skráð af Menningar-Staður

28.08.2017 07:01

Fylgi Flokks fólksins á fleygiferð upp

 

 

Sigurður Jónsson, ritstjóri.

Blaðið Reykjanes - leiðari.

 

Fylgi Flokks fólksins á fleygiferð upp

 

Í síðustu skoðunakönnunum hefur það birst okkur að Flokkur fólksins er að bæta verulegu fylgi við sig. Takist flokknum áfram að ná eyrum kjósenda er örugg að hér mun koma nýtt afl í sali Al- þingis. Nú segja menn þetta eru nú bara skoðunakannanir en ekki alvöru kosningar og því getum við í hinum flokkunum verið alveg róleg. Þetta mun breytast. Þau ná aldrei þessu fylgi. En er það svo? Geta gömlu flokkarnir verið alveg vissir um að halda í sína kjósendur. 

Inga Sæland er mjög öflugur talsmaður Flokks fólksins og setur sitt mál fram með rökum og bendir á marga hluti sem eru alls ekki nógu góðir. Það er sárt fyrir margt fólk,sem hefur eingöngu lágmarkslaun eða rétt þar fyrir ofan að horfa á allt óréttlætið í kringum sig.

Kjör margra eldri borgara eru mjög erfið. Margir sem hafa verið á vinnumarkaði yfir 40 ár fá skammarlega lágar greiðslur frá Lífeyrissjóði sínum. Svo er fólki refsað ætli að að vinna sér inn örfáar krónur á mánuði. 

Margir eldri borgarar og þeir sem voru á lægstu launum héldu að það væri stórt og mikið skref í réttlætisátt þegar Samfylkingin og Vinstri græn náðu hreinum meirihluta árið 2009. Þessi hreinræktaða vinstri stjórn var felld svo hressilega í kosningunum 2013 að það varð Evrópumet í fylgishruni eftir að hafa setið í ríkisstjórn. Auðvitað sátu þau við völd á erfiðum tímum og þurftu að beita niðurskurði víða. 

En forgangsröðin var furðuleg. Eldri borgarar fengu svo sannarlega að finna hressilega fyrir þeim niðurskurði,margir alveg inn að beini. Það hefur ekki tekist að vinna til baka allar þessar skerðingar. 

Það þarf því ekki að koma á óvart að eldri borgarar yfirgefi Samfylkinguna og Vinstri græn í stórum stíl Þeim dettur ekki í hug að styðja Samfylkingu og Vinstri græn vitandi um þeirra stjórunarhætti. 

Sjálfstæðisflokkurinn átti alltaf mikið fylgi meðal eldri borgara.
Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn gat treyst á það að eiga öruggt fylgi meðal eldri borgara landsins. Nú hefur orðið breyting á. Ætli Sjálfstæðisflokkurinn ekki að bretta upp ermar og sinna af alvöru málefnum eldri borgara á næstunni má gera ráð fyrir að fylgið hrynji meðal eldri borgara landsins.

Það getur ekki verið í anda stefnu Sjálfstæðisflokksins að refsa fólki fyrir að vilja leggja hluta af launum sínum gegnum tíðina til að eiga til ráðstöfunar þegar kemur að því að starfsævinni lýkur. Það getur ekki verið í anda stefnu Sjálfstæðisflokksins að refsa eldra fólki sem vill vinna sér inn tekjur með því að fólk missi 73 af hverjum 100 í skerðingar og skatta. 

Mörg sveitarfélög veita afslætti af fasteignagjöldum vilji fólk búa í sínu eigin húsnæði sem lengst. Þetta getur skipt miklu máli,en auðvitað ættu svitarfélögin að fara leið Vestmannaeyinga og fella niður fasteingaskatta hjá þeim eldri borgurum sem náð hafa 70 ára aldri. 

Tíminn líður hratt og eldri borgarar eru stór hópur kjósenda. Sjálfstæðisflokkurinn verður að átta sig á þeim breytingum sem hafa orðið meðal kjósenda. Fólk er ekki lengur bundið einum flokki alla sína ævi. Ungu fólki finnst ekkert athugavert að kjósa annan stjórnmálaflokk heldur en gert var síðast. 

Þessi þróun er í auknum mæli einnig að færast yfir til eldri borgara. Margir þola ekki lengur það óréttlæti sem viðgengst í þjóðfélaginu. Þess vegna er jarðvegur fyrir málflutning Flokks fólksins. 

Ég vil trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn, sem alla tíð hefur átt mest fylgi meðal eldri borgara átti sig á alvarleika stöðunnar. Sjálfstæðisflokkurinn er í forystu ríkisstjórnar og hefur enn möguleika á að rétta sinn hlut með því að hlusta á málflutning eldri borgara og breyta eftir því. 

Blaðið Reykjanes - leiðari
Sigurður Jónsson, ritstjóri.Skráð af Menningar-Staður

27.08.2017 22:09

Merkir Íslendingar- Finnur Magnússon

 


Finnur Magnússon (1781 - 1847).

 

Merkir Íslendingar- Finnur Magnússon

 

Finnur Magnússon fæddist 27. ágúst 1781 í Skálholti. Faðir Finns var Magnús Ólafsson lögmaður úr Svefneyjum og föðurbróðir Finns var Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld. Móðir Finns var Ragnheiður dóttir Finns Jónssonar biskups.
 

Finnur var í fóstri hjá Hannesi biskupi Finnssyni móðurbróður sínum og nam hjá honum skólavísindi og fór síðan til náms í Kaupmannahöfn. 

Finnur sneri til Íslands þegar faðir hans lést og árið 1806 var hann settur málafærslumaður við landsyfirréttinn í Reykjavík og var í því starfi þangað til Jörundur hundadagakonungur svipti hann embætti. Finnur fór þá til Kaupmannahafnar en þegar Jörundur var hrakinn frá völdum tók hann aftur við embætti sínu.

Árið 1812 fór hann aftur til Kaupmannahafnar.

 

Finnur varð prófessor og forstöðumaður leyndarskjalasafnsins í Kaupmannahöfn. Hann var etatsráð en það er tignarheiti án embættis. Finnur gegndi oft stöðu forseta eða varaforseta Kh. deildar Hins ísl. bókmenntafélags, hann var varaforseti Fornfræðafélagsins og fulltrúi Íslands á stéttaþingum. Hann var í miklu áliti meðal samtíðarmanna sinna og segir Benedikt Gröndal hann hafa verið frægan um öll lönd og hafa ekið með Alexander Humboldt og Jakob Grimm þegar þeir komu til Kaupmannahafnar.
 

Finnur rannsakaði það sem hann taldi rúnir í Runamo í Blekinge í Svíþjóð. Honum hugkvæmdist að lesa þær afturábak gegnum spegil og gat þannig lesið vísu. Hann skrifaði 750 blaðsíðna rit um rúnirnar í Runamo, en fékk mikla gagnrýni fyrir það verk og varð honum til aðhlátursefnis. Jarðvísindamenn telja að risturnar í Runamo séu jökulrákir.
 

Finnur kvæntist 6. nóvember 1821 Nikolínu Barböru Frydensberg, dóttur landfógeta en þau skildu 1836. Gröndal segir að Finni „létu betur vísindalegar rannsóknir og bókagrufl heldur en það praktíska líf“.
 

Finnur lést á aðfangadag 1847.

 

Morgunblaðið.

 

 

Skálholt, vatnslitamynd John Cleveley yngri frá 1772.

Meðal mynda frá ferðum hans með Joseph Banks um Ísland.
 

 


Skráð af Menningar-Staður

 

 

27.08.2017 09:04

GAMANMYNDAHÁTÍÐIN Á FLATEYRI UM MÁNAÐAMÓTIN

 

 

Tankurinn á Sólkakka á Flateyri.

 

GAMANMYNDAHÁTÍÐIN Á FLATEYRI UM MÁNAÐAMÓTIN

 

Gamanmyndahátíð Flateyrar verður nú haldin öðru sinni á Flateyri, fyrstu helgina í september. 

Það eru Vestfirðingarnir; þeir Eyþór Jóvinsson og Ársæll Nielsson sem standa fyrir hátíðinni en með dyggum stuðningi Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða, Ísafjarðarbæ og eigendum Tankans á Flateyri en þar fer hátíðin að mestu leyti fram.

 

Dagskráin er fjölbreytt og er skemmtileg viðbót í annars ríkulega menningarflóru svæðisins.
 

Fimmtudagurinn 31. ágúst
 

Vagninn:
21:00 – Óbeisluð Fegurð (60 mín ) – Hrafnhildur Gunnarsdóttir 10 ára afmælissýning
22:00 – Óbeislað Pub Quiz

 

Föstudagurinn 1. september
 

Tankurinn:
17:00 – Verðlaunamyndir síðasta árs
Afi Mannsi (15 mín) – Jón Bjarki Hjálmarsson
Aukaleikarar (12 mín) – Emil Alfreð Emilsson
Landsliðið (70 mín) – Hafsteinn Gunnar Sigurðsson

 

Tankurinn:
20:00 – Opnunarmyndir Gamanmyndahátíðar Flateyrar 2017

Frægð á Flateyri (30 mín) – Jón Hjörtur Emilsson
Marglita marglyttan (5 mín) – Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir
Litla stund hjá Hansa (15 mín) – Eyþór Jóvinsson
101 vs 621 (14 mín) – Jón Bjarki Hjálmarsson

 

Tankurinn:
22:00 – Snitsel í Tankinum
Janus Bragi Jakobsson sýnir vel valin og sjaldséð myndbönd undir ljúfum tónum.

 

Vagninn:
24:00 – Gítarstemming á Vagninum
Denni Dæmalausi mætir með gítarinn til að skemmta sjálfum sér og öðrum.

 

Laugardagurinn 2. september
 

Tankurinn:
12:00 – Íslenskar gamanmyndir – I
Síðustu orð Hreggviðs (21 mín) – Grímur Hakonarson
Áttu Vatn (17 mín) – Haraldur Sigjurjónsson
Naglinn (15 mín) – Benidikt Erlingsson
Jói (7 mín) – Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Leikstjórar svara spurningum úr sal.

 

Tankurinn:
14:00 – Íslenskar gamanmyndir – II
Með mann á bakinu (20 mín) – Jón Gnarr
C vítamín (11 mín) Guðný Rós Þórhallsdóttir
Gæs (23 mín) Unnur Jónsdóttir
Draumgenglar (14 mín) – Vilhjálmur Ólafsson
Leikstjórar svara spurningum úr sal.

 

Tankurinn:
16:00 – Íslenskar gamanmyndir – III
Hláturinn lengir lífið (13 mín) – Eyþór Örn Magnússon og Vigfús Þormar Gunnarsson
Makkarónumaðurinn (19 mín) – Smári Gunn
Áhugaverð einhvern veginn (12 mín) – Hólmar Freyr Sigfússon
Stórkostlegasta áhættuatriði sögunnar (1 mín) – Gunnar Björn Guðmundsson
Slavek the shit (15 mín) – Grímur Hakonarson
Leikstjórar svara spurningum úr sal.

 

Tankurinn:
21:00 – Nýtt Líf
Heiðurssýning á gamanmyndinni Nýtt Líf.
Leikstjórinn Þráinn Bertelsson verður viðstaddur og segir áður ósagðar sögur frá myndinni.

 

Tankurinn:
23:00 – Lokahóf Gamanmyndahátíðar Flateyrar 2017
Verðlaun veitt fyrir fyndnustu gamanmyndir ársins.
Veitingar í boði Bríó.

 

Vagninn:
24:00 – Sveitaball
Löðrandi sveitt sveitaball með hljómsveitinni SKE.


 

 

Vagninn á Flateyri.
Skráð af Menningar-Staður

23.08.2017 07:05

Sölvavinnsla á Sölvabakka

 

 

 

Sölvavinnsla á Sölvabakka

 
Skráð af Menningar-Staður

22.08.2017 22:00

Hundur Hrútavinafélagsins

 

 

 

Hundur Hrútavinafélagsins

-Depill-Skráð af Menningar-Staður