![]() |
Ásgeir Guðbjartsson (1928 - 2017) |
Merkir Íslendingar - Ásgeir Guðbjartsson
Ásgeir Guðbjartur Guðbjartsson fæddist í Kjós í Grunnavíkurhreppi 31. júlí 1928 . Foreldrar hans voru Jónína Þ. Guðbjartsdóttir húsfreyja, og Guðbjartur Ásgeirsson, formaður og útgerðarmaður.
Eiginkona Ásgeirs var Sigríður Guðmunda Brynjólfsdóttir sem lést 2009.
Þau eignuðust fjögur börn;
Guðbjart, f. 1949, Guðbjörgu, f. 1950, Kristínu Hjördísi, f. 1952 og Jónínu Brynju, f. 1953
Ásgeir flutti ungur með foreldrum sínum til Hnífsdals og síðan til Ísafjarðar þar sem hann ólst upp. Hann hóf sinn sjómannsferil nýfermdur og var þá á dragnót upp á hálfan hlut. Ásgeir vann um tíma hjá Norðurtanganum og við beitingu. Sextán ára fór hann að róa upp á heilan hlut á línu-, troll- og síldarbátum.
Ásgeir tók hið minna fiskimannapróf á Ísafirði 1948 og hið meira fiskimannapróf í Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1965.
Hann var skipstjóri á Valdísi ÍS 72, 1948, Bryndísi ÍS 69, 1949, Jódísi ÍS 73 sama ár, Pólstjörnunni ÍS 85 í fjórar vertíðir, Ásbirni ÍS 12 1956, en tók þá við Guðbjörgu ÍS 47 og hafa þeir bátar og skip sem hann síðan var með verið nefnd Guðbjörg, en hann var á skuttogaranum Guðbjörgu ÍS 46.
Ásgeir stofnaði útgerðarfélagið Hrönn hf. á Ísafirði ásamt fleirum, árið 1956.en það gerði út sjö báta og togara sem báru nafnið Guðbjörg ÍS. Útgerðin lét m.a. smíða fyrir sig frystitogara 1994 sem þá var talinn eitt fullkomnasta fiskiskip í heiminum.
Ásgeir hætti til sjós árið 1995, 67 ára að aldri. Þá hafði hann verið skipstjóri í meira en 45 ár.
Ásgeir var afburða aflamaður og harðsækinn. Hann var aflakóngur á Ísafirði á sextán vetrarvertíðum samfleytt og auk þess var hann oft aflakóngur á Vestfjörðum.
Ásgeir var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 17. júní 1991.
Ásgeir lést 22. febrúar 2017.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Eyrbekkingurinn Kristín Þórðardóttir - sýslumaður á Suðurlandi. |
Kristín Þórðardóttir
skipuð sýslumaður á Suðurlandi
Dómsmálaráðherra hefur skipað Eyrbekkinginn Kristínu Þórðardóttur til embættis sýslumanns á Suðurlandi frá 1. ágúst næstkomandi.
Alls bárust átta umsóknir um embættið sem auglýst var í vor.
Anna Birna Þráinsdóttir lætur nú af störfum sem sýslumaður en hún hefur verið í ársleyfi undanfarið ár til þess að sinna rekstri ferðaþjónustu sinnar undir Eyjafjöllunum. Kristín var settur sýslumaður frá 1. maí í fyrra, þegar Anna Birna fór í leyfið.
Kristín er fædd hinn 6. september 1979. Hún lauk lögfræðiprófi frá lagadeild Háskóla Íslands í júní 2006.
Kristín starfaði eftir útskrift sem fulltrúi og staðgengill sýslumanns og lögreglustjóra á Hvolsvelli en frá árinu 2015 hefur hún gegnt því starfi á sameinuðu embætti sýslumanns á Suðurlandi.
Sambýlismaður Kristínar er Friðrik Erlingsson og eiga þau þrjú börn.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Frá Auðarsýningu. mbl.is/Á?rni Sæberg |
Rösklega ár er liðið síðan Gljúfrasteinn – hús skáldsins var opnað á ný eftir umfangsmiklar viðgerðir. Að sögn Guðnýjar Dóru Gestsdóttur heppnuðust viðgerðirnar vel en myglusveppur hafði myndast í byggingunni vegna mikils raka. „Það þurfti að flytja allan safnkostinn út á meðan og ærið verkefni að raða öllum mununum aftur inn og koma safninu í samt horf. Um stóra framkvæmd var að ræða og efri hæð safnsins varð nánast bara fokheld því rífa þurfti allar klæðningar af veggjum og einangra upp á nýtt. Vanda þurfti til verka enda húsið friðað og endurbæturnar gerðar í nánu samstarfi við ráðgjafa frá Þjóðminjasafni og Minjastofnun. Gljúfrasteinn er núna orðinn eins og hann á að vera, en lítil sem engin verksummerki er að finna um viðgerðirnar.“
Starfið í húsinu heldur áfram að þróast, og áhugaverð dagskrá þar í boði árið um kring. Brotið verður blað í sögu safnsins í dag, 30. júlí, þegar þar verður opnuð ný sýning tileinkuð Auði Sveinsdóttur á Gljúfrasteini, eiginkonu Halldórs Laxness.
Yfirskrift sýningarinnar er Frjáls í mínu lífi en það var Þórunn Elísabet Sveinsdóttir sem hannaði sýninguna.
Saga Auðar er samofin húsinu og hún var merkileg manneskja fyrir margra hluta sakir. Segja má að eftir að Halldór hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum hafi Auður tekið að sér nokkurs konar forsetafrúarhlutverk. „Það þótti tilhlýðilegt að Nóbelsskáldið tæki á móti erlendum gestum sem komu í opinberar heimsóknir til landsins og stóð hún fyrir veglegum móttökum fyrir ýmis fyrirmenni og þjóðhöfðingja, þar á meðal Olof Palme og sænska konunginn sem heimsótti Gljúfrastein í tvígang,“ útskýrir Guðný. „Auður og Halldór unnu líka mikið saman, hún vélritaði mikið upp fyrir hann og lýsti því á einum stað að hún hefði verið eins og lifandi segulband sem gat leiðrétt og komið með ábendingar. Auður tók það líka að sér að svara bréfum fyrir Halldór og má segja að þau hafi í sameiningu rekið smátt en öflugt menningarheimili.“
Auður hefði orðið hundrað ára í ár, en hún fæddist í Fjölni á Eyrarbakka þann 30. júlí 1918.
„Hún og Halldór giftast í desember 1945 og skömmu síðar flytja þau inn í Gljúfrastein en Auður hafði umsjón með byggingu hússins. Hún var mjög drífandi kona og sá um alla skapaða hluti, og var svo mikið meira en rösk húsmóðir. Auður lét sig ýmis málefni varða og skrifaði heilmikið í kvennatímarit síns tíma, ritaði m.a. greinar fyrir kvennasíður Þjóðviljans, í tímaritið Melkorku og fyrir Hug og hönd,“ segir Guðný og bætir við að Auður hafi sjaldan legið á skoðunum sínum. „Í greinunum fjallar hún t.d. um íslenskar minjar og myndvefnað, en það var m.a. í vefnaði og útsaumi þar sem hún fann sköpun sinni útrás og er heilmikið til af fallegum gripum sem hún vann sjálf.“
Að vera eiginkona Nóbelsskálds gerði Auði líka að opinberri manneskju. „Hún var mikið í viðtölum og blaðamenn heimsóttu Auði á Gljúfrasteini við ýmis tækifæri,“ segir Guðný. „Það mæddi meira á Auði en mörgum samtímakonum hennar, en af viðtölum við hana að dæma var hún mjög sátt í sínu lífi og sátt í sínu hlutverki.“
Í einkalífinu virðist Auður hafa verið þungamiðja fjölskyldunnar. „Hún var mjög sjálfstæð kona, en líka með mjög stóran faðm og hélt utan um fjölskyldu sína og barnabörn. Allir þeir sem kynntust Auði lýsa henni af hlýju og væntumþykju.“
Á Gljúfrasteini höfðu hjónin hvort sitt herbergið og hefur sýningunni um Auði verið komið fyrir í herberginu hennar. „Þar bjó hún allt fram á gamalsaldur en flutti svo í íbúðir fyrir eldri borgara á Hlaðhömrum. Með hjálp fjölskyldu Auðar höfum við gert herbergið persónulegra og sýnum þar fleiri gripi sem tengjast henni. Með sýningunni er Auður að fá meira pláss í þessu húsi, og sjáum við fyrir okkur að bjóða litlum hópum upp á sérstaka leiðsögn um Gljúfrastein þar sem ævi og verk Auðar verða í forgrunni.“
Plássið á Gljúfrasteini er af skornum skammti og þurfti að beita útsjónarsemi til að koma sýningunni um Auði fyrir. „Í móttökuhúsinu, sem var áður bílskúr heimilisins, höfum við sett upp ljósmyndir af verkum Auðar, og af Maríuteppinu fræga sem hún saumaði. Einnig sýnum við búta úr bréfasafni Auðar og styðjumst þar við grúsk Mörtu Guðrúnar Jóhannesdóttur sem skrifaði meistararitgerð í safnafræði um Auði,“ útskýrir Guðný en meðal gripa sem ættingjar Auðar hafa lánað safninu vegna nýju sýningarinnar er forláta værðarvoð sem var breidd yfir bæði Halldór og Auði þegar þau létust. „Einnig er sýndur einn af fimm kjólum sem saumaðir voru fyrir Auði fyrir Nóbelsverðlaunahátíðina og til að nýta plássið sem best höfum við notað skúffurnar í kommóðu í herbergi Auðar og geymum í hverri skúffu sögubút úr lífi hennar.“
![]() |
Morgunblaðið mánudagurinn 30. júlí 2018.
Viðtal
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Friðrik VIII og Hannes Hafstein á Austurvelli í Reykjavík. |
- Þetta gerðist 30. júlí árið 1907 -
- Friðrik áttundi gengur á land í Reykjavík
Friðrik áttundi Danakonungur gekk á land í Reykjavík þann 30. júlí 1907. Nákvæmlega 33 árum áður hafði faðir hans, Kristján níundi, sótt Ísland heim fyrstur ríkjandi Danakonunga þegar hann færði Íslendingum stjórnarskrá.
Konungskomuna 1907 má rekja til þess að árið áður hafði öllum alþingismönnum verið boðið til Danmerkur og vildu þeir endurgjalda gestrisnina með því að bjóða konungi og nokkrum fjölda danskra þingmanna til Íslands.
Heimsóknin vakti gríðarlega athygli og segir í samtíma frásögnum að aldrei fyrr hafi Reykjavík verið jafn fánum skrýdd og aldrei jafn mikil viðhöfn sést.
Konungur og föruneyti hans heimsóttu meðal annars Þingvelli, Gullfoss og Geysi.
Á heimleiðinni hafði konungur svo viðkomu á Flateyri, Ísafirði, Akureyri og í Seyðisfirði.
Ákveðið var að ráðast í miklar vegaframkvæmdir fyrir konungskomuna og var kostnaður vegna þeirra um 14 prósent af útgjöldum ríkissjóðs það árið.
![]() |
Konungsskipið Birma á Flateyrarhöfn í ágúst 1907. tvö, Hekla og Geysir, tóku stefnuna á Snæfellsjökul, síðan út yfir Breiðafjörð til Vestfjarðakjálkans. Þegar komið var að Önundarfirði var ákveðið að njóta þar næðis um nóttina. Varpaði konungsflotinn síðan akkerum á góðu skipalægi fyrir framan Flateyrarkauptún. Konung langaði til að skoða þorpið og fór hann í land ásamt Hannesi Hafstein sem fylgdi konungi sem fyrr. Gengu þeir saman um þorpið og skoðuðu meðal annars minjar um hvalveiðar Norðmanna frá staðnum. Ljósm.: Hermann Wendel á Þingeyri. |
Fréttablaðið mánudagurinn 30. júlí 2018og fleira.
Skráð af menningar-Staður.
![]() |
Auður Sveinsdóttir Laxness (1918 - 2012). |
Auður fæddist á Eyrarbakka 30. júlí 1918 og ólst þar upp til sjö ára aldurs.
Foreldrar hennar voru Sveinn Guðmundsson járnsmiður og k.h., Halldóra Kristín Jónsdóttir.
Sveinn var sonur Guðmundar, b. á Nýjabæ Gíslasonar, og Margrétar, systur Hafliða, afa Ólafs K. Magnússonar ljósmyndara. Margrét var dóttir Jóns, b. á Álfsstöðum á Skeiðum, bróður Einars, afa Einars Magnússonar, rektors MR. Móðir Margrétar var Margrét Dóróthea, systir Guðmundar í Miðdal, langafa Vigdísar Finnbogadóttur og Errós.
Halldóra Kristín var systir Steinunnar Guðrúnar, móður Baldvins Halldórssonar leikara frá Arngerðareyri við Djúp, föður Páls bókmenntagagnrýnanda og Ingu Láru á Eyrarbakka, deildarstjóra Ljósmyndadeildar Þjóðminjasafns Íslands. Halldóra var dóttir Jóns, hreppstjóra á Skálmarnesmúla Þórðarsonar, b. á Þórisstöðum, bróður Þorsteins í Æðey, föður Péturs Thorsteinssonar útgerðarmanns. Móðir Jóns hreppstjóra var Guðrún, systir Jóns, föður Björns ráðherra og ritstjóra, föður Sveins forseta.
Auður lauk gagnfræðaprófi og prófum frá Handíða- og myndlistarskólanum 1946. Hún starfaði við röntgendeild Landspítalans í tólf ár, kenndi í Varmárskóla og starfaði við Þjóðminjasafnið í einn vetur.
Auður giftist á aðfangadag 1945, Halldóri Kiljan Laxness, rithöfundi og Nóbelsverðlaunahafa. Eftir það aðstoðaði hún eiginmann sinn heima og á ferðalögum, og stundaði húsmóðurstörf á hinu gestkvæma heimili þeirra að Gljúfrasteini. Hún var þar lengst af húsfreyja en flutti að Hlaðhömrum í Mosfellsbæ 2004.
Dætur Auðar og Halldórs eru Sigríður, kennari og húsfreyja, og Guðný, kvikmyndagerðarmaður.
Auður lést 29.október 2012
![]() |
tengdasonur Eyrarbakka. |
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Minnisvarðinn um Kollabúðafundi í Þorskafirði. Hrútavinir af Suðurlandi sem voru þar á ferð um Vestfirði sumarið 2009. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason. |
Þann 29. júlí 1979 var afhjúpaður minnisvarði um Kollabúðafundi í Þorskafirði.
Á þeim fundum ræddu Vestfirðingar stefnumálin á árunum 1849 til 1895.
Þegar komið er niður í byggð af Þorskafjarðarheiði, liggur leiðin yfir Músará fram hjá hinum forna þingstað, þar sem Þorskafjarðarþing voru háð.
Kollabúðarfundir voru haldnir á Músaráreyrum um og eftir miðja 19. öld. Voru þeir tilraun til þess að vekja að nýju í breyttri mynd, forna þjóðhætti og stuðluðu vafalaust að því að endurvekja sjálfstæðisþrá og fornan þjóðarmetnað.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
29. júlí 2018 - þjóðhátíðardagur Færeyja
Þjóðhátíðardagar Norðurlandanna:
Álandseyjar
9. júní Fyrsta þing Álandseyinga kemur saman 1923.
Danmörk
16. apríl eða 5. júní 16. apríl er afmælisdagur Margrétar II. (f. 1940), en yfirleitt er litið á 5. júní sem þjóðhátíðardag, þá var stjórnarskráin staðfest árið 1849.
Finnland
6. desember Finnar lýsa yfir sjálfstæði 1917.
Færeyjar
29. júlí Ólafsvaka.
Grænland
21. júní Lengsti dagur ársins.
Ísland
17. júní Fæðingardagur Jóns Sigurðssonar 1811 og lýðveldið stofnað 1944.
Noregur
17. maí Noregur fullvalda ríki í konungssambandi við Svía 1814, og stjórnarskráin frá Eiðsvelli gekk í gildi.
Svíþjóð
6. júní Gústaf I. kjörinn konungur og Svíþjóð lýst sjálfstætt þjóðríki 1523
![]() |
Þjóðfáni Færeyinga við Fánasetur Suðurlands á Eyrarbakka.
![]() |
![]() |
F.v.: Haukur Jónsson, Jóhann Jóhannsson og Ragnar Emilsson.
Ljósm og flattning Björn Ingi Bjarnason.
Sólþurrkun við Stað á Eyrarbakka
28. júlí 2015
Þorskur veiddur af Mána ÁR 70 frá Eyrarbakka.
Verkaður af Vinum alþýðunnar á Menningar-Stað.
![]() |
F.v.: Jóhann Jóhannsson, Ragnar Emilsson og Haukur Jónsson.
Ljósm og flattning Björn Ingi Bjarnason.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Minningarsteinn í Kópavogi.
28. JÚLÍ 1662
- Íslendingar samþykktu erfðaeinveldi Danakonungs
Kópavogsfundurinn var haldinn á Kópavogsþingi þann 28. júlí árið 1662.
Markmiðið með honum var að fá Íslendinga til að samþykkja erfðaeinveldi Danakonungs.
Henrik Bjelke, aðmíráll og fulltrúi konungs, kom til Íslands á fund í Kópavogi til þess að fá íslenska höfðingja til að undirrita erfðahyllinguna.
Aðdragandinn var sá að Friðrik III vildi koma á erfðaeinveldi að evrópskri fyrirmynd þar sem konungsvaldið gengi sjálfkrafa í arf, í stað þess að fulltrúar þjóða sem tilheyrðu Danaveldi samþykktu hann.
Ýmsum sögum fer af undirritun samningsins og eru sumar á þann veg að Bjelke hafi með hótunum neytt Íslendinga til að samþykkja samninginn. Því er meðal annars haldið fram að Árni Oddsson lögmaður hafi ritað undir samninginn tárvotum augum og að Brynjólfi Sveinssyni biskup hafi verið það afar óljúft líka.
Hvernig sem að því var staðið var samningurinn samþykktur og afleiðingarnar voru þær að lög sem konungur setti hlutu sjálfkrafa gildi án sérstaks samþykkis Alþingis Íslendinga.
Gilti erfðaeinveldið allt til ársins 1874 þegar Íslendingar fengu stjórnarskrá.
Fréttablaðið.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Guðmundur Hermannsson (1925 - 2003). |
Guðmundur Hermannsson fæddist á Ísafirði 28.7. 1925. Foreldrar hans voru Hermann K. Á. Guðmundsson, sjómaður og síðar verkamaður á Ísafirði, og k.h., Guðmunda K.S. Kristjánsdóttir, verkakona og húsfreyja.
Eiginkona Guðmundar var Herborg Júníusdóttir sem lést 2011 og eignuðust þau fjóra syni: Arnar, Grétar Júníus, Hermann og Rúnar.
Guðmundur stundaði nám við Gagnfræðaskólann á Ísafirði, lauk prófum frá Lögregluskólanum í Reykjavík 1954, stundaði nám hjá Scotland Yard á Englandi 1954, lauk prófum frá Metro Politan Police Driving School í London, frá Bureau of Narcotic and Dangerous Drugs í Washington DC í Bandaríkjunum og fór náms- og kynnisför til lögreglunnar í Svíþjóð 1982.
Guðmundur hóf störf hjá Lögreglunni í Reykjavík 1953, gegndi ýmsum stjórnunarstörfum þar, skipulagði t.d. slysarannsóknardeild og var forstöðumaður hennar, varð varðstjóri yfir varðsveit almennrar löggæslu 1961, var skipaður aðalvarðstjóri 1963, aðstoðaryfirlögregluþjónn 1966 og skipaður yfirlögregluþjónn 1978, varð þá yfir rannsóknardeild og síðan yfir almennri löggæslu og umferðardeild frá 1988. Þá kenndi hann við Lögregluskóla ríkisins í þrjá áratugi. Guðmundur lét af störfum fyrir aldurs sakir 1990.
Guðmundur var fjölhæfur íþróttamaður. Hann keppti í knattspyrnu og síðar í frjálsum íþróttum en hann var margfaldur Íslandsmeistari og methafi í kúluvarpi. Hann keppti margsinnis í kúluvarpi fyrir Íslands hönd, varð í 16. sæti á Ólympíuleikunum í Mexíkó árið 1968 og var kjörinn Íþróttamaður ársins af íþróttafréttamönnum árið 1967.
Guðmundur var sæmdur ýmsum heiðursmerkjum vegna lögreglustarfa og íþróttaafreka. Hann var mjög listfengur, lagði stund á skrautritun og eftir hann liggur fjöldi olíumálverka og ljóða.
Guðmundur lést 15. júní 2003.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is