Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2019 September

03.09.2019 20:54

3. SEPTEMBER 1988 - Brú yfir Ölfusárósa er opnuð formlega

 

 

 

 

- 3. SEPTEMBER 1988 -

 

Brú yfir Ölfusárósa er opnuð formlega

 

 

Óseyrarbrú var formlega tekin í notkun þennan mánaðardag árið 1988. Mikill fjöldi fólks var samankominn við eystri brúarsporðinn til að fagna mannvirkinu og þeim samgöngubótum sem það fól í sér. Sem dæmi um þær má nefna að brúin stytti leiðina milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka úr 45 kílómetrum í 15.

 

Samgöngur yfir ána á þessum stað höfðu legið niðri frá því ferjustaður var aflagður við Óseyrarnes um hundrað árum fyrr, með tilkomu Ölfusárbrúar við Selfoss.

 

Þorsteinn Pálsson, forsætisráðherra og fyrsti þingmaður Árnesinga, flutti ávarp og eftir opnunina bauð Matthías Á. Mathiesen samgönguráðherra viðstöddum í hóf á Hótel Selfossi. 


 

 
Skráð af Menningar-Bakki.

02.09.2019 13:57

Opin íbúafundur um kynningarmál á Eyrarbakka og Stokkseyri

 

 

 

 

 Opin íbúafundur

um kynningarmál á Eyrarbakka og Stokkseyri

 

 

Sveitarfélagið Árborg boðar til íbúafunda á Stokkseyri og Eyrarbakka miðvikudaginn 4. september nk. kl. 19:00 (BES Stokkseyri) og kl.20:30 ( Stað , Eyrarbakka) til að ræða hugmyndir að kynningarherferð á Sveitarfélaginu Árborg.

 

Samþykkt var af bæjarstjórn Árborgar fyrr í sumar að framleitt yrði kynningarefni til að sýna þá þjónustu og þau tækifæri sem eru í boði í samfélaginu.

 

Með þessum íbúafundum vill sveitarfélagið leita til íbúa um hugmyndir að kynningarefni og eru allir áhugasamir hvattir til að mæta.

 

 • Hvað fyllir þig stolti úr samfélaginu?
 • Hvaða sögu ætti að segja af svæðinu?
 • Hvaða áhugaverðu staðir ættu að koma fram?

 

Fundirnir fara fram á eftirfarandi tímum mið. 4. sept. nk. og eru allir velkomnir

 • Barnaskólanum á Stokkseyri kl. 19:00   
 • Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka kl. 20:30

     Skráð af Menningar-Bakki.


   

02.09.2019 06:49

Merkir Íslendingar - Lúðvík Kristjánsson

 


Lúðvík Kristjánsson (1911 - 2000).

 

 

Merkir Íslendingar - Lúðvík Kristjánsson

 

 

Lúðvík Kristjánsson fæddist 2. september 1911 í Stykkishólmi. 

Foreldrar hans voru Kristján Bjarni Árnason sjómaður, f. 4.9. 1886, d. 3.7. 1921, og k.h. Súsanna Einarsdóttir Þorkelssonar skrifstofustjóra Alþingis, f. 4.12. 1890, d. 26.8. 1961. Eiginkona Lúðvíks var Helga Proppé, f. 17.5. 1910, d. 1.4. 1989, dóttir Jóns Proppé og k.h. Guðrúnar Bjarnadóttur. Börn Lúðvíks og Helgu eru Véný kennari og Vésteinn rithöfundur.


 

Lúðvík ólst upp í Stykkishólmi, en fór suður til náms og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskóla 1929 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1932. Lúðvík var kennari í Fróðárhreppi 1929-30, við Miðbæjarbarnaskólann í Reykjavík 1934-1944 og á vélstjóranámskeiðum Fiskifélags Íslands 1937-1954. Hann var ritstjóri Ægis, tímarits Fiskifélags Íslands 1937-1954, Fálkans 1939 og Sjómannadagsblaðsins 1941 og 1943.


 

Eftir 1954 sneri Lúðvík sér alfarið að rannsóknum og ritstörfum en þá höfðu þegar komið út eftir hann bækurnar; Við fjörð og vík (1948), Bíldudalsminning Ásthildar og Péturs Thorsteinssonar (1951) og fyrsta bindi Vestlendinga (1953). Þar næst komu annað og þriðja bindi Vestlendinga (1955 og 1960), Úr bæ í borg (1957), Á slóðum Jóns Sigurðssonar (1961) og Úr heimsborg í Grjótaþorp I-II (1962-63).


 

Frá 1964 helguðu Lúðvík og Helga sig efnisöflun og samningu Íslenskra sjávarhátta sem út komu í fimm bindum 1980-86. Afmælisrit Lúðvíks, Vestræna, kom út árið 1981 en það hefur að geyma ritgerðir eftir hann. Árið 1991 kom út bókin Jón Sigurðsson og Geirungar en þar fyrir utan liggur eftir Lúðvík fjöldi blaðagreina og ritgerða í tímaritum.


 

Lúðvík hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar og var m.a. gerður heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1981 og hlaut silfurverðlaun Hins konunglega norska vísindafélags 1984.


 

Lúðvík Kristjánsson lést 1. febrúar 2000.Skráð af Menningar-Bakki.