Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

25.07.2021 07:52

Merkir Íslendingar - Steindór Hjörleifsson

 

 

Steindór Hjörleifsson (1926 - 2012).

 

 

Merkir Íslendingar - Steindór Hjörleifsson

 

 

Steindór Gísli Hjörleifsson fæddist í Hnífsdal þann 22. júlí 1926. Foreldrar hans voru Hjörleifur Kristinn Steindórsson, frá Leiru í Grunnavíkurhreppi, f. 29. mars 1895, d. 18. febrúar 1957, og Elísabet Þórarinsdóttir, f. á Blámýrum 6. júlí 1902, d. 8. október 1953.

Systkini Steindórs eru; Þorgeir Adolf, f. 14. október 1924, Jens Guðmundur, f. 13. nóvember 1927, Þórarinn Kristinn, f. 16. ágúst 1930, d. 7. janúar 2003, og Elsa Hjördís, f. 6. september 1937.

 

Þann 17. nóvember 1951 kvæntist Steindór Margréti Ólafsdóttur leikkonu. Margrét fæddist í Vestmannaeyjum 12. júní 1931. Hún lést 24. mars 2011. Foreldrar Margrétar voru Ólafur Ragnar Sveinsson og Kristjana Ragnheiður Kristjánsdóttir.

Dóttir Margrétar og Steindórs er Ragnheiður Kristín Steindórsdóttir leikkona, f. 26. júní 1952 í Vestmannaeyjum. Sambýlismaður hennar var Jón Þórisson leikmyndateiknari, f. 19. október 1948, d. 1. janúar 2016 og eiga þau saman börnin Steindór Grétar, f. 1. október 1985, og Margréti Dórotheu, f. 9. maí 1990.

 

Að loknu gagnfræðaprófi 1942 vann Steindór ýmis störf til sjós og lands, m.a. í Landsbanka Íslands 1946-61 og Seðlabanka Íslands 1961-65. Steindór lauk leiklistarnámi frá Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar 1949 og nam við leiklistardeild danska útvarpsins 1956-57. Hann var fyrsti dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar Sjónvarpsins 1965-68. 

 

Hann var leikari og leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur (LR) frá 1947, sat í stjórn þess og var formaður til fjölda ára. Steindór lék hjá Þjóðleikhúsinu 1950-52 og var fastráðinn hjá LR frá 1968 og til starfsloka 1996. Hann kenndi einnig við Leiklistarskóla LR og lék hjá Ríkisútvarpinu (hljóðvarpi og sjónvarpi) og í kvikmyndum.

 

varpi) og í kvikmyndum. Fyrsta hlutverk hans á leiksviði var klukkusveinninn í Skálholti hjá LR 1947. Hann tók þátt í öllum þremur opnunarsýningum Þjóðleikhússins 1950 og lék síðan hátt á annað hundrað hlutverka á leiksviði, í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi. Meðal þeirra eru Toby í Miðlinum, Herlöv í Ævintýri á gönguför, Candy í Músum og mönnum, Leifur Róberts í Delirium Búbónis, Jonni Pope í Kviksandi, Stígur í Hart í bak, Trampe greifi í Þið munið hann Jörund, organistinn í Atómstöðinni, Kristján í Dómínó, Hjálmar Ekdal í Villiöndinni og afi Joad í Þrúgum reiðinnar.

 

Af kvikmyndum má nefna Morðsögu, 79 af stöðinni, Atómstöðina, Stellu í orlofi og Skýjahöllina og í sjónvarpi Út í óvissuna (Running Blind), Gullna hliðið og Flugþrá. Meðal leikstjórnarverkefna eru Hitabylgja, Volpone, Equus, Refirnir og Geggjaða konan í París.

 

Steindóri hlotnuðust margar viðurkenningar. Hann fékk Silfurlampann og Skálholtssveininn leikárið 1961-62, varð heiðursfélagi LR 1987, fékk gullmerki Félags íslenskra leikara 1991, var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1993, þau hjónin voru útnefnd heiðurslistamenn Garðabæjar 1999 og Steindór var kjörinn fyrsti heiðursfélagi Halaleikhópsins. Síðasta hlutverk hans hjá Leikfélagi Reykjavíkur var í  Horft frá brúnni 1998-99.

 

Steindór Hjörleifsson lést þann 13. september 2012.

 

 Steindór Hjörleifsson og Margrét Ólafsdóttir.
 Skráð af Menningar-Bakki

 

25.07.2021 07:33

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka

 

 

 

 

 

 --- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka ---


 

                                 að morgni 25. júlí 2016

 

 

 

.

.
Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

24.07.2021 07:52

Guðrún Steinþórsdóttir - Fædd 1. mars 1938 - Dáin 14. júlí 2021 - Minning

 


Guðrún Steinþórsdóttir (1938 - 2021).

 

 

Guðrún Steinþórsdóttir - Fædd 1. mars 1938 -

 

 

Dáin 14. júlí 2021 - Minning

 

 

Guðrún Sigríður Steinþórsdóttir fædd­ist á Brekku í Þing­eyr­ar­hreppi í Dýraf­irði þann 1. mars 1938. Hún lést á Tjörn, dval­ar­heim­ili aldraðra á Þing­eyri, 14. júlí 2021.

 

Guðrún var dótt­ir hjón­anna Steinþórs Árna­son­ar frá Brekku, bónda og sjó­manns, f. 22. ág­úst 1902, en hann féll í skotárás á línu­veiðarann Fróða 10. mars 1941, og Ragn­heiðar Stef­áns­dótt­ur hús­freyju, f. 27. októ­ber 1911, d. 28. nóv­em­ber 1985. Systkini Guðrún­ar eru Steinþór Sverr­ir, vél­stjóri á Ísaf­irði, sem lést af slys­för­um 16. októ­ber 2008, f. 9. júlí 1939, Gunn­ar Steinþór, raf­virkja­meist­ari á Ísaf­irði, nú bú­sett­ur í Mos­fells­bæ, f. 25. ág­úst 1941, og Sig­ríður Krist­ín Lýðsdótt­ir, banka­starfsmaður í Reykja­vík, f. 28. nóv­em­ber 1951.

 

Guðrún gift­ist 28. júní 1964 Hall­grími Sveins­syni, f. 28. júní 1940, d. 16. fe­brú­ar 2020, fyrr­ver­andi skóla­stjóra á Þing­eyri, staðar­hald­ara á Hrafns­eyri og bóka­út­gef­anda Vest­firska for­lags­ins. For­eldr­ar hans voru Hanna Krist­ín Guðlaugs­dótt­ir hús­freyja, f. 25. sept­em­ber 1911 á Snældu­beins­stöðum í Reyk­holts­dal, Borg­ar­f­irði, d. 1997, og Sveinn Jóns­son húsa­smiður, f. 24. apríl 1885 frá Sauðtúni í Fljóts­hlíð, d. 1957. Guðrún og Hall­grím­ur voru barn­laus.

 

Guðrún út­skrifaðist úr Hús­mæðraskóla Reykja­vík­ur 1957 og starfaði sem matráðskona m.a. á for­seta­setr­inu á Bessa­stöðum og Héraðsskól­an­um á Núpi.

 

Guðrún og Hall­grím­ur voru bænd­ur og staðar­hald­ar­ar á Hrafns­eyri við Arn­ar­fjörð, fæðing­arstað Jóns Sig­urðsson­ar for­seta, í rúm 40 ár frá 1964 til 2005, og sáu um vörslu og um­hirðu staðar­ins fyr­ir hönd Hrafns­eyr­ar­nefnd­ar. Guðrún var í sókn­ar­nefnd Hrafns­eyr­ar­kirkju. Einnig var hún með fjár­bú­skap á Brekku í Dýraf­irði í mörg ár eft­ir bú­skap­ar­lok á Hrafns­eyri.

 

Útför Guðrún­ar verður gerð frá Þing­eyr­ar­kirkju í dag, 24. júlí 2021, og hefst at­höfn­in klukk­an 14.


_____________________________________________________________________________________________________


 

Minningargreinar í Morgunblaðinu 24. júlí 2021

 

 

Elsku Gulla mín,

 

Minn­ing­arn­ar eru svo ótalmarg­ar. Öll árin á Hrafns­eyri og svo á Brekku, vor­in í sauðburðinum og æðar­varp­inu, heyskap og smala­mennsku, þar sem við deild­um bæði sorg og gleði.

 

Fyr­ir rúmu ári hrundi til­vera þín er þú misst­ir klett­inn í lífi þínu er Hall­grím­ur okk­ar lést mjög skyndi­lega og reynd­ist það þér of­raun en þú varst þá fyr­ir orðin heilsu­veil.

 

Ég er þakk­lát fyr­ir að hafa fengið tæki­færi til að vera með þér og tekið þátt í umönn­un þinni síðastliðna tvo mánuði á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Tjörn á Þing­eyri en þar eydd­ir þú síðasta ævikvöld­inu.

 

Þú ferð var­lega yfir vaðið á leiðinni heim og guð fylgi þér Gunna mín, sagðir þú gjarn­an er ég kvaddi þig við vaktlok.

 

Ég bið guð að fylgja þér hjartað mitt og þakka þér fyr­ir allt sem þú hef­ur kennt mér og deilt með mér og fjöl­skyldu minni gegn­um lífið.

 

Þín nafna

 

Guðrún Steinþórs­dótt­ir (yngri).

 

---------------------------------------------

 

Þegar komið er norður yfir Hrafns­eyr­ar­heiði ligg­ur þjóðleiðin ofan við túnið á hinu forna býli Brekku í Brekku­dal í Þing­eyr­ar­hreppi. Þar bjuggu búi á önd­verðri öld­inni sem leið hjón­in Árni Guðmunds­son, stýri­maður frá Ánanaust­um í Reykja­vík, og Guðrún Mar­grét Júlía Steinþórs­dótt­ir, klæðskeri frá Brekku. Þarna var tví­býlt og bjuggu á móti þeim Árna og Guðrúnu hjón­in Soffía Ásgeirs­dótt­ir frá Bol­ung­ar­vík og Andrés Guðmunds­son frá Brekku og voru þau Guðrún og Andrés hálf­systkina­börn.

 

Börn Árna og Guðrún­ar voru fimm: Guðmunda Ágústa, hús­freyja á Þing­eyri, faðir henn­ar var Jón Jó­hanns­son sjó­maður þar; Steinþór, bóndi á Brekku, faðir Guðrún­ar, sem hér er minnst; Gunn­ar skip­stjóri á Brekku; Gyða Ólafía, kjóla­meist­ari og ann­ar eig­andi Par­ís­ar­tísk­unn­ar í Reykja­vík; og yngst var Áslaug hús­freyja í Þor­bergs­húsi á Þing­eyri.

 

11. mars 1941 varð sá hörm­ung­arat­b­urður að þýsk­ur kaf­bát­ur réðst á línu­veiðarann Fróða ÍS 454 frá Þing­eyri um 200 sjó­míl­ur suðaust­ur af Vest­manna­eyj­um. Í skot­hríðinni sem stóð með hlé­um í fulla klukku­stund féllu fimm skip­verj­ar: Steinþór, faðir Guðrún­ar, Gunn­ar skip­stjóri, föður­bróðir henn­ar, Guðmund­ur móður­bróðir henn­ar frá Hól­um í Þing­eyr­ar­hreppi, Gísli, bróðir Andrés­ar á Brekku og Sig­urður V. Jör­unds­son stýri­maður frá Hrís­ey.

 

Dótt­ur­dótt­ir Árna og Guðrún­ar, þá á fjórða ár­inu, minn­ist þess er síra Sig­urður Z. Gísla­son á Þing­eyri gekk heim túnið á Brekku að flytja fólk­inu þessa sorg­ar­fregn.

 

Og árin líða. Guðrún gekk að eiga góðan dreng, Hall­grím, kenn­ara og skóla­stjóra á Þing­eyri, Sveins­son, bónda á Hrafns­eyri og Brekku. Þau hjón voru staðar­hald­ar­ar á Hrafns­eyri í rúm 40 ár og buðu æv­in­lega upp á mynd­ar­legt kirkjukaffi eft­ir embætti hjá hinum ógleym­an­lega síra Stefáni sæla Eggerts­syni, sókn­ar­presti á Þing­eyri. Mat prest­ur Guðrúnu enda mik­ils, en þótti að vísu sá ljóður á ráði henn­ar, að hún skyldi ein­lægt þurfa að bar­dúsa í kokk­hús­inu rétt á meðan hann væri að syngja mess­una.

 

Þótt Guðrún væri viðbrigðagest­ris­in og ynni góðan beina hverj­um sem að garði bar, hafði enda starfað fyr­ir inn­an stokk hjá Ásgeiri for­seta á Bessa­stöðum, frænda sín­um af Vigurætt, hélt hún samt þeim sið fyrri hús­freyja í land­inu að setj­ast ekki sjálf til borðs, held­ur stóð hún og horfði þögul og al­var­leg í bragði á það sem fram fór.

 

Svo seg­ir í Land­náma­bók, að Gré­löðu hinni írsku, konu Ánar rauðfelds, þess er bú gerði á Eyri við Arn­ar­fjörð, hafi þótt þar hun­angsilm­ur úr grasi. Und­ir það mun Guðrún Steinþórs­dótt­ir hafa tekið heils hug­ar. Hún var fædd­ur bóndi, sem kallað er; þekkti hverja kind og hafði þessa var­færnu hönd sem gríp­ur mjúk­lega um hornið á ánni neðst svo að brotni ekki; natin vöku­kona æðar­varps; verksígjörn með af­brigðum að hverju sem gekk og stór­gjöf­ul.

 

Í mik­illi þökk og bæn er Guðrún Steinþórs­dótt­ir kært kvödd. Guð gefi frið yfir legstað henn­ar og bless­un yfir end­ur­fundi henn­ar við þau, sem á und­an henni eru far­in af þess­um heimi. Guð blessi minn­ingu henn­ar og ást­vin­ina alla.

 

Gunn­ar Björns­son,

pastor emer­it­us.

____________________________________________________________________________Minningarorð Dýrfirðingsins Bjarna Guðmundssonar, 

 

Hvanneyri - á Facebooksíðu hans í dag.


 

.
.

.


Hrafnseyri við Arrnarfjörð.

.

Skráð af Menningar-Bakki.
 

23.07.2021 07:22

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka

 

 

 

 

 --- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka ---


 

              að morgni 23. júlí 2014

 

 

.

.

Skráð af Menningar-Bakki.

 

22.07.2021 16:30

Merkir Íslendingar - Guðni Jónsson

 


Guðni Jónsson (1901 - 1974).
 

 

Merkir Íslendingar - Guðni Jónsson

 

Guðni Jónsson fæddist 22. júlí 1901 á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, einn 17 barna Jóns Guðmundssonar, f. 17.9. 1856, d. 8.9. 1941 í Vestmannaeyjum, bónda og formanns þar, og síðari konu hans, Ingibjargar Gíslínu Jónsdóttur frá Miðhúsum í Sandvíkurhr., Árn., f. 1.9. 1867, d. 2.4. 1937 í Vestmannaeyjum.
 

Faðir hans veiktist og fór Guðni tveggja vikna gamall með móður sinni að Leirubakka í Landsveit. Foreldrum hans tókst að setja saman bú að nýju, en Guðni dvaldi áfram á Leirubakka og ólst þar upp.
 

Guðni varð stúdent frá MR 1924 og mag. art. í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1930. Hann var um tíma við nám í Kaupmannahöfn 1928 og aftur 1937.

Hann var kennari við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1928-1945 og skólastjóri við sama skóla 1945-1957. Prófessor í sögu Íslands við Háskóla Íslands var hann 1958-1967, þar til hann lét af störfum vegna veikinda. Hann var forseti heimspekideildar HÍ 1959-1961. Hann varð doktor frá Háskóla Íslands 1953, en doktorsritgerð hans, Bólstaðir og bændur í Stokkseyrarhreppi, varð brautryðjandaverk í íslenskri staðháttasögu.

 

Guðni tók mikinn þátt í félagsstörfum, var forseti Sögufélagsins 1960-65, formaður Ættfræðifélagsins 1946-67 og sat í stjórn Hins ísl. þjóðvinafélags 1943-56. Hann var höfundur fjölmargra sagnfræðirita og stofnaði til stórútgáfu íslenskra fornrita 1946 og sá hann sjálfur um útgáfu 32 binda af þeim. Meðal ættfræðirita hans er Bergsætt.
 

Fyrri kona Guðna var Jónína Pálsdóttir, f. 4.4. 1906, d. 2.10. 1936, húsfreyja í Reykjavík.

Börn þeirra:

Gerður, Jón, Bjarni, Þóra og Margrét.

 

Seinni kona hans var Sigríður Hjördís Einarsdóttir, f. 28.8. 1910, d. 18.7. 1979, húsfreyja í Reykjavík.

Börn þeirra:

Einar, Bergur, Jónína Margrét og Elín.

 

Tveir sona Guðna, Jón og Bjarni, urðu einnig prófessorar við Háskóla Íslands.
 

 

Guðni Jónsson lést  þann 4. mars 1974.

 


Skráð af menningar-Bakki.

 

22.07.2021 07:26

Merkir Íslendingar - Eiríkur J. Eiríksson

 


Eiríkur J. Eiríksson (1911 - 1987).
 

 

Merkir Íslendingar - Eiríkur J. Eiríksson

 

 

Eiríkur Júlíus Eiríksson, prestur, kennari og skólastjóri að Núpi í Dýrafirði og seinna þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fæddist  22. júlí 1911 að Ekru í Vestmannaeyjum en fluttist fárra vikna gamall á Eyrarbakka.

 

Faðir hans var Eiríkur Magnússon, trésmiður frá Ölfusi. Hann fluttist til Kaliforníu í Bandaríkjunum, um það leyti sem Eiríkur fæddist, og sneri aldrei aftur. Eiríkur ólst upp hjá einstæðri móður sinni, Hildi Guðmundsdóttur frá Iðu í Biskupstungum, og móðurforeldrum sínum, Guðmundi Guðmundssyni og Jónínu Jónsdóttur á Eyrarbakka.

 

Eiríkur var í barnaskóla á Eyrarbakka og fór svo í MR og varð stúdent þaðan 1932. Hann tók kennarapróf 1934 og guðfræðipróf frá HÍ 1935. Hann fór svo í framhaldsnám til Basel í Sviss.

 

Eiríkur varð kennari á Núpi í Dýrafirði 1935, tók sér árshlé meðan hann kynnti sér skólamál á Norðurlöndunum 1936-1937, fór svo aftur að kenna á Núpi og varð skólastjóri þar 1942 til ársins 1960. Á sama tíma var hann sóknarprestur á Núpi.

 

Árið 1960 varð hann prestur og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og gegndi þeim stöðum til ársins 1981. Hann hætti þó ekki að sinna skólamálum því hann hafði mikil afskipti af Ljósafossskóla og var m.a. prófdómari þar og sat í skólanefnd.

 

Eiríkur var einn af forustumönnum ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann sat í stjórn UMFÍ frá 1936 og var formaður UMFÍ í um 30 ár. Landsmótin voru honum mikið hjartans mál og átti hann þátt í því að endurvekja þau með Landsmótinu í Haukadal 1940. Hann var ritstjóri Skinfaxa, málgagns UMFÍ, um árabil, skrifaði margar greinar í blöð og tímarit og var mikill ræðuskörungur.

 

Kona Eiríks var Dýrfirðingurinn Sigríður Kristín Jónsdóttir, f. 5. október 1917, d. 17. febrúar 1999. Foreldrar hennar voru Jón Ólafsson, bóndi á Gemlufalli í Dýrafirði og kona hans, Ágústa Guðmundsdóttir.

 

Kristín gekk í Núpsskóla þar sem hún kynntist arftaka sr. Sigtryggs Guðlaugssonar, sr. Eiríki Júlíusi Eiríkssyni frá Eyrarbakka, sem síðar varð einnig skólastjóri á Núpi um 18 ára skeið. Kristín og sr. Eiríkur giftust þann 6. nóv. 1938.

 

Húsmæðranám stundaði Kristín í Kvennaskólanum í Reykjavík en búskap sinn hófu þau í nýju prestshúsi á Núpi 1940 og þá fæddist fyrsti sonurinn, Aðalsteinn, sem skrifað hefur veglaga bók um sögu Núpsskóla og kom út árið 2017.  Átta börn til viðbótar eignuðust þau á Núpi, Guðmund, f. 1943, Jón, f. 1944, Hildur, f. 1947, Ágústa, f. 1948, Jónína, f. 1952, Magnús f. 1953, Guðmundur, f. 1954 og Ásmundur, f. 1959.

 

Á afmælisdegi Kristínar 1984 gáfu þau hjónin Héraðs- og bæjarbókasafninu á Selfossi bókasafn sitt, mikið að vöxtum, ákveðið tákn ævistarfs þeirra og hugsjóna.

 

 

Eiríkur lést í Félagsheimilinu Borg í Grímsnesi 11. janúar 1987 og hafði þá nýlokið afmælisræðu yfir vini sínum.


Hjónin sr. Eiríkur J. Eiríksson og Sigríður Kristín Jónsdóttir hvíla í kirkjugarðinum á Eyrarbakka.

 

 

 

Hjónin Eiríkur J. Eiríksson og Kristín Jónsdóttir.

.


Sr. Eiríkur J. Eríksson.
.


Að Núpi í Dýrafirði um 1950.
.


Núpur í Dýrafirði.

.

 

.


Skráð af Menningar-Bakki.

 

21.07.2021 21:27

Bornholmfáni á Bakkanum

 

 

 

 

-- Bornholmfáni á Bakkanum --


 

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

21.07.2021 09:18

Merkir Íslendingar - Sveinbjörn Finnsson

 


Sveinbjörn Finnsson (1911 - 1993).
 

 

Merkir Íslendingar - Sveinbjörn Finnsson

 

 

Svein­björn Finns­son fædd­ist þann 21. júlí 1911 á Hvilft í Önund­arf­irði.

For­eldr­ar hans voru Finn­ur Finns­son, bóndi þar, f. 1876, d. 1956, og k.h. Guðlaug Jakobína Sveins­dótt­ir, hús­freyja. For­eldr­ar Finns voru Finn­ur Magnús­son, bóndi á Hvilft, og k.h. Sig­ríður Þór­ar­ins­dótt­ir, og for­eldr­ar Guðlaug­ar voru Sveinn Rós­inkr­anz­son, út­vegs­bóndi og skip­stjóri á Hvilft, og k.h. Sig­ríður Svein­björns­dótt­ir, hús­freyja.

 

 

Svein­björn lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri árið 1933 og hag­fræðiprófí frá London School of Economics 1939.
 

Hann var verk­smiðju­stjóri Síld­ar­verk­smiðju rík­is­ins á Sól­bakka í Önund­arf­irði 1935-1937, full­trúi í Verðlags­nefnd og Tveggja­manna­nefnd 1939-1941, skrif­stofu­stjóri Viðskipta­nefnd­ar ut­an­rík­is­viðskipta 1941-1942 og fyrsti verðlags­stjóri á Íslandi 1943-1946.
 

 

Sveinbjörn Finnsson var frum­kvöðull humariðnaðar á Íslandi og byggði upp veiðar, frystiaðferðir og markaði 1950-1954.Hann var hvatamaður að stofn­un Styrkt­ar­fé­lags lamaðra og fatlaðra 1952 og var fram­kvæmda­stjóri þess 1957-1962. Hann átti sæti í fyrstu stjórn Öryrkja­banda­lags­ins.
 

Svein­björn kenndi við Voga­skóla í Reykja­vík 1963-1979 og var yfir­kenn­ari 1978-1979 og gerðist einn brautryðjenda í starfs­fræðslu í skól­um lands­ins.
 

Svein­björn var staðarráðsmaður við Skál­holt 1964-1990, en hann var einn af stofn­end­um Skál­holts­fé­lags­ins sem hef­ur unnið að því að end­ur­reisa Skál­holtsstað.
 

Svein­björn var sæmd­ur Skál­holtsorðunni, til minn­ing­ar um vígslu Skál­holts­kirkju árið 1963, og gullþjón­ustu­pen­ingi með kór­ónu af Dana­drottn­ingu árið 1973.


 

Eig­in­kona Svein­björns var Thyra Finns­son, fædd Fri­is Ol­sen 30.1. 1917, d. 8.8. 1995, frá Slag­el­se í Dan­mörku. Hún var hús­freyja og rit­ari.


Börn þeirra:


Gunn­ar, f. 1940, d. 2014, Arn­dís, f. 1943, Hilm­ar, f. 1949, og Ólaf­ur William, f. 1951.

 

 

Svein­björn Finns­son lést þann 1. apríl 1993.

 

________________________________________________

 

Í afmælisgrein um Sveinbjörn Finnsson sjötugan þann 21. júlí 1981 skrifaði Ólafur Haukur Árnason m.a. í Morgunblaðinu:

 

Ekki er á almanna vitorði þáttur Sveinbjörns Finnssonar í sigri okkar í landhelgisdeilunni við Breta þegar fært var út í 12 mílur. Þar munaði heldur betur um verk hans og mun sú saga væntanlega skráð síðar.

 

Þann dag var einnig í Morgunblaðinu:

 

Sveinbjörn Finnsson, sæll minn kæri 
senda skal þér kveðju hlýja.
Óskandi þér auðnan færi
ennþá marga daga nýja.

Enn þú heldur austurleiðir,
— ekki bregður vana þínum.
Fagurt Skálholt faðminn breiðir, 
— fagnar einkavini sínum.

 


Auðunn Bragi Sveinsson.


 


Hvilft í Önundarfirði.

Íbúðarhúsið er elsta steinhús í Önundarfirði og byggt árið 1911.
.

 

,

 

Skráð af Menningar-Bakki.
 

 

21.07.2021 07:59

Skötumessan í Garði 21. júlí 2021

 


Myndir frá Skötuveislu í Garðinum árið 2010 þar sem Hrútavinir voru áberandi.

 

 

   --- Skötumessan í Garði 21. júlí 2021---

 

 

Árleg skötumessa í Garði í Suðurnesjabæ verður í dag,  miðvikudag, 21. júní 2021, en hefð er fyrir því að veislan sé á þeim degi vikunnar næst Þorláksmessu á sumri sem er jafnan 20. júlí.

 

Samkoman verður í Gerðaskóla og hefst kl. 19. Að venju er boðið upp á skötu, saltfisk og plokkfisk með tilheyrandi tólg, kartöflum, rófum og rúgbrauði.

 

Dagskrá kvöldsins er fjölbreytt og góð. Þórólfur Þorsteinsson og Baldvin Arason leika á harmóníkur, Páll Rúnar Pálsson frá Heiði í Mýrdal syngur og félagarnir Davíð Guðmundsson og Óskar Ívarsson taka lagið.

 

Ræðumaður kvöldsins verður Óttar Guðmundsson geðlæknir. Þá tekur ung söngkona frá Hellu, Karen Guðmarsdóttir, nokkur lög en hún stundar nú söngnám í London. Jarl Sigurgeirsson tónlistarmaður stjórnar fjöldasöng. Í lokin flytja Rúnar Þór og hljómsveit hans nokkur þekkt lög.

 

„Styrkur Skötumessunnar birtist í því að það eru allir sem koma og leggja okkur lið sem eru þátttakendur í því að leggja okkar veikari bræðrum og systrum lið og góðum samfélagslegum málum,“ segir í fréttatilkynningu um verkefni þetta, þar sem Ásmundur Friðriksson alþingismaður er í forystu.

 

Árlega hafa um 450 manns mætt á Skötumessuna, sem er orðin föst í sessi.

 

Messan er nú í þriðja skipti haldin í sameinuðum Suðurnesjabæ og er því tækifæri fyrir íbúa að gera þetta að sinni árlegu bæjarskemmtun, mæta vel og styðja við góð málefni.

 

Styrkir kvöldsins, sem eru veglegir, fara meðal annars til þeirra sem standa höllum fæti eftir kórónuveirufaraldurinn. Þá eru greiddar skólamáltíðir fyrir ungt fólk og aðstoð veitt á ýmsan hátt.

 

Aðgöngumiði á hátíðina kostar 5.000 kr. og best þykir að greiða fyrirfram á reikningsnúmerið 0142-05- 70506 með kennitölunni 580711- 0650.

 

Helstu bakhjarlar Skötumessu eru Fiskmarkaður Suðurnesja, Icelandair Cargo, Suðurnesjabær og Algalíf.

 

 

.

.

 

.

.

.

.

.

.

.

.

,

,

.

 Skráð af Menningar-Bakki

 

 

20.07.2021 15:53

Merkir Íslendingar - Hagalín Guðmundsson

 


Hagalín Guðmundsson (1921 - 2019).
 

 

Merkir Íslendingar – Hagalín Guðmundsson

 

Hagalín Guðmundsson fæddist þann  20. júlí 1921 í Innri-Hjarðardal, Önundarfirði.

 

Foreldrar hans voru Sigríður Hagalínsdóttir, f. 1885, d. 1947, og Guðmundur Gilsson, f. 1887, d. 1978.

 

Systkini Hagalíns eru níu:

Gils (1914-2006), Ingibjörg (1916-2014), Helga (1918-1940), Þórunn (1920-2011), Kristján (1923-2013), Magnús (1924-2006), Ragnheiður (1925-2014), Páll (1927-2016) og Bjarni, f. 1930.

 

Árið 1950 kvæntist Hagalín Þórdísi Guðmundsdóttur (1924-1992) frá Ytra-Vatni, Skagafirði.

 

Börn þeirra eru:

1) Yngvi, f. 1950, kvæntur Guðbjörgu Halldórsdóttur. Fyrri kona hans var Sólveig Victorsdóttir. Þau eiga einn son,

2) Sigríður, f. 1952, gift Skafta Þ. Halldórssyni. Þau eiga þrjú börn,

3) Guðrún, f. 1953, gift Arne B. Vaag. Þau eiga þrjá syni,

 4) Guðmundur, f. 1956, kvæntur Ágústu Halldórsdóttur. Þau eiga þrjú börn.

 

Hagalín stundaði nám við Núpsskóla 1939-40 og síðar við Bændaskólann á Hvanneyri 1943-1945. Þau Þórdís tóku alfarið við búinu í Innri-Hjarðardal 1950 og bjuggu þar til ársins 1988 er þau fluttust í Kópavog þar sem Hagalín bjó þar til hann fór á Hjúkrunarheimilið Grund 2016.

 

Hagalín sinnti ýmsum störfum meðfram búskapnum. Hann var mjólkurbílstjóri og sláturhússtjóri á Flateyri, var í hreppstjórn Mosvallahrepps, formaður Búnaðarfélags Mosvallahrepps, Ræktunarfélags V-Ísafjarðarsýslu, og sat í skólanefnd Holtsskóla.

 

Hagalín kom á fót sjóminjasafni við Hjarðardalsnaust. Á seinni árum fékkst hann við ýmiskonar handverk, svo sem bókband en þó einkum glerlist.

 

Hagalín Guðmundsson lést þann 11. september 2019 á Hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík.

 

 

Séð yfir Vöðin í Önundarfirði, Holtsodda og í Hjarðardal.Skráð af Menningar-Bakki.