Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

21.07.2018 08:36

21. júlí 1963 - Skálholtskirkja vígð

 


Skálholtskirkja.
 

 

 

21. júlí 1963 - Skálholtskirkja vígð

 

Skál­holts­kirkja var vígð þann 21. júlí 1963 við hátíðlega at­höfn að viðstödd­um átta­tíu prest­um, próföst­um og bisk­up­um.

 

„Skál­holt er meira en minn­ing­in, hærra en sag­an,“ sagði Sig­ur­björn Ein­ars­son bisk­up í vígsluræðunni. „Heill og bless­un búi hér og breiðist héðan út.“

 

Kirkj­una teiknaði Hörður Bjarna­son, alt­ar­is­tafla er eft­ir Nínu Tryggva­dótt­ur og steind­ir glugg­ar eft­ir Gerði Helga­dótt­ur.

 

Skráð af Menningar-Staður.
 
 
 

 

 

21.07.2018 07:36

Haldið upp á fimm ára afmæli Fischerseturs

 

 

 

Haldið upp á fimm ára afmæli Fischerseturs

 

Í dag, laugardaginn 21. júlí 2018, verður þess minnst að fimm ár eru liðin frá því að Fischersetrið á Selfossi var stofnað.

 

Afmælishátíðin hefst í Laugardælakirkju kl. 15:30. Þar mun séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson, fyrrverandi sóknarprestur Selfossprestakalls, sjá um minningarathöfn og Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, flytja ræðu. Að athöfn lokinni verður boðið upp á kaffi í Fischersetri þar sem Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands, mun flytja ávarp.

 

Davíð Oddsson

var utanríkisráðherra þegar Fischer var gerður að íslenskum ríkisborgara. Fróðlegt verður að heyra Davíð segja söguna um aðdraganda þessarar ákvörðunar og átökin í kringum meistarann, en málið var afgreitt á Alþingi á 12 mínútum.

 

Guðmundur G. Þórarinsson

var í þeirri öflugu sendinefnd sem sótti meistarann til Japans þar sem hann var í fangelsi. Ennfremur var Guðmundur G. forseti Skáksambandssins þegar einvígi aldarinnar var háð í Reykjavík árið 1972.

 

Fischer var jarðaður í Laugardælakirkjugarði síðla nætur án vitundar séra Kristins Ágústs Friðfinnssonar sem þá var prestur í Laugardælakirkju. Það varð svo hlutskipti séra Kristins að jarðsyngja meistarann nokkrum sinnum og annast lokajarðaförina eftir að Fischer var grafinn upp til að ná lífsýni úr honum.

 

Allir eru velkomnir á afmælishátíðina.
Skráð af Menningar-Staður.

21.07.2018 07:23

Merkir Íslendingar - Sveinbjörn Finnsson

 

 

Sveinbjörn Finnsson (1911 - 1993).

 

 

Merkir Íslendingar - Sveinbjörn Finnsson

 

Svein­björn Finns­son fædd­ist 21. júlí 1911 á Hvilft í Önund­arf­irði. For­eldr­ar hans voru Finn­ur Finns­son, bóndi þar, f. 1876, d. 1956, og k.h. Guðlaug Jakobína Sveins­dótt­ir, hús­freyja. For­eldr­ar Finns voru Finn­ur Magnús­son, bóndi á Hvilft, og k.h. Sig­ríður Þór­ar­ins­dótt­ir, og for­eldr­ar Guðlaug­ar voru Sveinn Rós­inkr­anz­son, út­vegs­bóndi og skip­stjóri á Hvilft, og k.h. Sig­ríður Svein­björns­dótt­ir, hús­freyja.
 

 

Svein­björn lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri árið 1933 og hag­fræðiprófí frá London School of Economics 1939.

 

Hann var verk­smiðju­stjóri Síld­ar­verk­smiðju rík­is­ins á Sól­bakka í Önund­arf­irði 1935-1937, full­trúi í Verðlags­nefnd og Tveggja­manna­nefnd 1939-1941, skrif­stofu­stjóri Viðskipta­nefnd­ar ut­an­rík­is­viðskipta 1941-1942 og fyrsti verðlags­stjóri á Íslandi 1943-1946.


 

Hann var frum­kvöðull humariðnaðar á Íslandi og byggði upp veiðar, frystiaðferðir og markaði 1950-1954. Hann var hvatamaður að stofn­un Styrkt­ar­fé­lags lamaðra og fatlaðra 1952 og var fram­kvæmda­stjóri þess 1957-1962. Hann átti sæti í fyrstu stjórn Öryrkja­banda­lags­ins.


 

Svein­björn kenndi við Voga­skóla í Reykja­vík 1963-1979 og var yfir­kenn­ari 1978-1979 og gerðist einn brautryðjenda í starfs­fræðslu í skól­um lands­ins.


 

Svein­björn var staðarráðsmaður við Skál­holt 1964-1990, en hann var einn af stofn­end­um Skál­holts­fé­lags­ins sem hef­ur unnið að því að end­ur­reisa Skál­holtsstað.


 

Svein­björn var sæmd­ur Skál­holtsorðunni, til minn­ing­ar um vígslu Skál­holts­kirkju árið 1963, og gullþjón­ustu­pen­ingi með kór­ónu af Dana­drottn­ingu árið 1973.


 

Eig­in­kona Svein­björns var Thyra Finns­son, fædd Fri­is Ol­sen 30.1. 1917, d. 8.8. 1995, frá Slag­el­se í Dan­mörku. Hún var hús­freyja og rit­ari.


Börn þeirra: 
Gunn­ar, f. 1940, d. 2014, Arn­dís, f. 1943, Hilm­ar, f. 1949, og Ólaf­ur William, f. 1951.

 

 

Svein­björn Finns­son lést 1. apríl 1993.

___________________________________

 

Í afmælisgrein um Sveinbjörn Finnsson sjötugan þann 21. júlí 1981 skrifaði Ólafur Haukur Árnason m.a. í Morgunblaðinu:

 

Ekki er á almanna vitorði þáttur Sveinbjörns Finnssonar í sigri okkar í landhelgisdeilunni við Breta þegar fært var út í 12 mílur. Þar munaði heldur betur um verk hans og mun sú saga væntanlega skráð síðar.

 

Þann dag var einnig í Morgunblaðinu:

 

Sveinbjörn Finnsson, sæll minn kæri 
senda skal þér kveðju hlýja. 
Óskandi þér auðnan færi
ennþá marga daga nýja. 

 


Enn þú heldur austurleiðir, 
— ekki bregður vana þínum. 
Fagurt Skálholt faðminn breiðir, 
— fagnar einkavini sínum. 

 


Auðunn Bragi Sveinsson.

 

 
Hvilft í Önundarfirði.
 Skráð af Menningar-Staður

20.07.2018 17:21

Ísfirðingurinn Gísli Halldór Halldórsson ráðinn bæjarstjóri í Árborg

 


Ísfirðingurinn Gísli Halldór Halldórsson.

 

 

-Ísfirðingurinn-  

 

Gísli Halldór Halldórsson

 

ráðinn bæjarstjóri í Árborg

 

 

Nýr meirihluti í bæjarstjórn Árborgar hefur gengið frá ráðningarsamningi við Ísfirðinginn Gísla Halldór Halldórsson um starf bæjarstjóra í Árborg.

 

Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is í morgun. Formlega verður gengið frá ráðningu Gísla á næsta fundi bæjarráðs þann 2. ágúst og mun hann hefja störf síðar í ágústmánuði. Eggert segir nýja meirihlutann vænta mikils af störfum Gísla í framtíðinni.

 

Gísli Halldór er 51 árs gamall og hefur undanfarin fjögur ár starfað sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Áður var hann forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 2006 til 2014, auk þess að gegna formennsku í ýmsum ráðum og nefndum á vegum bæjarins.

 

Gísli Halldór lauk Cand. Oecon prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og námi í haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólanum á Akureyri árið 2010.

 

Fimmtán umsækjendur voru um starf bæjarstjóra en ráðningarferlið var í höndum ráðninga- og ráðgjafafyrirtækisins Hagvangs. Sjö umsækjendur voru boðaðir í viðtal.

 

Gísli er kvæntur Gerði Eðvarsdóttur, fjármálastjóra Snerpu, og eiga þau þrjú uppkomin börn. Þau hjónin munu flytja í sveitarfélagið á næstu vikum.Skráð af Menningar-Staður.

20.07.2018 06:48

20. júlí - Þorláksmessa að sumri

 


Í Skálholti.

Þorláksbúð og Skálholtsdómkirkja sem Hörður Bjarnason teiknaði.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

20. júlí - Þorláksmessa að sumri

 

Þorláksmessa á sumri er 20. júlí. Verndardýrlingur Íslendinga er Þorlákur helgi. Sumarið 1198 var helgi Þorláks Þórhallssonar samþykkt á Alþingi og bein hans tekin upp og skrínlögð 20. júlí. Þorláksmessa á vetur er 23. desember, á dánardegi hans. Þorláksmessa á sumar var til siðaskipta einn helsti hátíðisdagur sunnanlands  og þá var haldin mikil samkoma í Skálholti.

 


Síðustu ár eru einnig til dæmi um skötuveislur þennan dag.

 

 
Skráð af Menningar-Staður.

20.07.2018 06:41

Merkir Íslendingar - Sigurður Helgason

 


Sigurður Helgason (1921 - 2009).

 

 

Merkir Íslendingar - Sigurður Helgason

 

 

Sig­urður Helga­son fædd­ist 20. júlí 1921 í Reykja­vík.

For­eldr­ar hans voru Helgi Hall­gríms­son, f. 1891, d. 1979, full­trúi og k.h. Ólöf Sig­ur­jóns­dótt­ir, f. 1890, d. 1970, kenn­ari.

 

Sig­urður lauk námi í viðskipta­fræðum frá Col­umb­ia-há­skóla í New York árið 1947. Hann var fram­kvæmda­stjóri Orku hf. og Steypu­stöðvar­inn­ar 1948-61, vara­formaður stjórn­ar Loft­leiða hf. 1953-74, fram­kvæmda­stjóri Loft­leiða í New York 1961-74, fram­kvæmda­stjóri Flug­leiða hf. 1974-79 og for­stjóri Flug­leiða hf. 1979-84. Hann var síðan stjórn­ar­formaður Flug­leiða til árs­ins 1991. Hann sat í stjórn Car­golux í Lúx­em­borg 1977-86, þar af sem vara­formaður árin 1980-86.

 

Sig­urður sat í stjórn In­ternati­onal Hou­se í New York frá 1986, var meðlim­ur Wings Club í New York frá 1962 og sat í stjórn 1972-75. Hann var formaður Íslensk-am­er­íska fé­lags­ins 1975-87, í Rot­ary­klúbbi Reykja­vík­ur frá 1978, í full­trúaráði Landa­kots­spít­ala 1979-90, í stjórn American Scandi­navi­an Foundati­on í New York 1970-75 og frá 1982, stjórn­ar­formaður Álafoss hf. 1986-91, stjórn­ar­maður í Versl­un­ar­ráði Íslands 1982-91, í fram­kvæmda­stjórn VSÍ 1978-87, í lands­nefnd Alþjóðaversl­un­ar­ráðsins 1984-91, í stjórn­ar­nefnd Alþjóðasam­taka flug­fé­laga (IATA) 1988-90 og Sam­taka Evr­ópuflug­fé­laga 1979-90 og sat í stjórn The Must­ique Comp­any og formaður fjár­hags­nefnd­ar þess fé­lags 1994-98. Hann sat einnig í stjórn Stang­veiðifé­lags­ins Hofs­ár ehf. frá ár­inu 1999.

 

Sig­urður varð heiðurs­borg­ari Winnipeg 1965, hlaut ridd­ara­kross hinn­ar ís­lensku fálka­orðu 1972, Grand Officier af Chè­ne-orðuna í Lúx­em­borg 1986, gull­merki Flug­mála­fé­lags Íslands 1986 og Harry Ed­monds-viður­kenn­ingu In­ternati­onal Hou­se 2007.

 

Eig­in­kona Sig­urðar var Unn­ur Haf­dís Ein­ars­dótt­ir, f. 20.2. 1930, d. 1.10. 2005, hús­móðir. Börn þeirra eru Ólöf, Edda Lína, Helgi og Sig­urður Ein­ar.

 

Sig­urður lést 8. fe­brú­ar 2009


Morgunblaðið föstudagurinn 20. júlí 2018.

 


Skráð af Menningar-Staður.

19.07.2018 21:23

Fánasetur Suðurlands flaggaði sænskum

 

 

 

 

Fánasetur Suðurlands flaggaði sænskum
 


Fánasetur Suðurlands að Ránargrund á Eyrarbakka flaggaði sænska þjóðfánanum í dag, fimmtudaginn 19. júlí 2018. 


 

 

Skráð af Menningar-Staður

19.07.2018 06:47

Merkir Íslendingar - Guðmundur Guðmundarson

 

 

Guðmundur Guðmundarson (1920 - 2009).

 

 

Merkir Íslendingar - Guðmundur Guðmundarson

 

Guðmund­ur Guðmund­ar­son fædd­ist 18. júlí 1920 á Eyr­ar­bakka.

For­eldr­ar hans voru Ragn­heiður Lár­us­dótt­ir Blön­dal, f. 1875, d. 1957, hús­freyja, og Guðmund­ur Guðmunds­son, f. 1876, d. 1967, kaup­fé­lags­stjóri á Eyr­ar­bakka. Guðmund­ur var yngst­ur níu systkina og sá síðasti sem fædd­ist í Hús­inu á Eyr­ar­bakka þar sem fjöl­skyld­an bjó.

 

Guðmund­ur braut­skráðist frá Verzl­un­ar­skóla Íslands 1938 og hlaut þá sér­stök rit­gerðar­verðlaun. Hann hóf skrif­stofu­störf hjá Héðni hf. og vann þar síðar sem aðal­gjald­keri til árs­ins 1956. Hann var meðeig­andi í Hljóðfæra­versl­un Sig­ríðar Helga­dótt­ur 1947-1964 og fram­kvæmda­stjóri þar 1956-58, fram­kvæmda­stjóri og meðeig­andi Lindu­um­boðsins frá 1958 og síðar eig­andi og fram­kvæmda­stjóri heild­versl­un­ar­inn­ar ABC hf.

 

Guðmund­ur var gjald­keri í stjórn Heimdall­ar 1937-45, í stjórn styrkt­ar- og sjúkra­sjóðs VR frá 1964 í mörg ár, gjald­keri í um­dæm­is­stjórn Li­ons 1963-64, formaður Li­ons­klúbbs Ægis 1969, var í fyrstu stjórn Fé­lags aldraðra, í stjórn SÍBS frá 1962 og rit­ari þar frá 1974 í mörg ár. Hann sat í stjórn Múla­lund­ar frá 1963 og var stjórn­ar­formaður þar frá 1972 í mörg ár.

 

Guðmund­ur var hagyrðing­ur og samdi m.a. gaman­vís­ur fyr­ir Bláu stjörn­una, texta við spænsk barna­lög sem dótt­ur­dótt­ir hans, Katla María, söng inn á hljóm­plöt­ur og texta við lagið Bella síma­mær.

 

Um þrjá­tíu ára skeið skrifaði Guðmund­ur grein­ar í Morg­un­blaðið þar sem hann gagn­rýndi órímaðan kveðskap, atóm­ljóðin svo­kölluðu, en hon­um fannst slík­ur kveðskap­ur ekki verðskulda að kall­ast ljóð.

 

Guðmund­ur var kvænt­ur Gróu Helga­dótt­ur, f. 17.4. 1917, d. 13.1. 1988, pí­anó­kenn­ara.

Börn þeirra eru:
Helga Sesselja, f. 1945, Guðmund­ur Steinn, f. 1948, og Sig­urður Ingi, f. 1949.

 

Guðmund­ur lést 16. desember 2009.Morgunblaðið fimmtudagurinn 19. júlí 2018.

 

 
 Skráð af Menningar-Staður.

18.07.2018 06:58

Íbúakosning um miðbæjarskipulagið verður 18. ágúst 2018

 

 

 

 

Íbúakosning um miðbæjarskipulagið verður 18. ágúst 2018

 

 

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum á dögunum að íbúakosning um miðbæjarskipulag á Selfossi fari fram laugardaginn 18. ágúst næstkomandi.

 

Stefnt er að því að kosningin verði með hefðbundnum hætti í kjördeildum og kjörstaðir verði opnir frá kl. 9:00 – 18:00.

 

Á fundi bæjarstjórnar þann 14. maí voru samþykktar þær spurningar sem lagðar verða fyrir í íbúakosningunni. Þær eru eftirfarandi:

 

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á aðalskipulagi Selfoss vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í miðbæ Selfoss?
Hlynnt(ur)
Andvíg(ur)

 

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á deiliskipulagi fyrir miðbæ Selfoss?
Hlynnt(ur)
Andvíg(ur)

 

Verði kosningaþátttaka meiri en 29% verður niðurstaða kosninganna bindandi fyrir bæjarstjórn en ef færri en 29% taka þátt verður niðurstaðan ráðgefandi fyrir endanlega ákvörðun bæjarstjórnar um skipulagið.

 

Ákveðið hafði verið að kosningin færi fram með rafrænum hætti en nú liggur fyrir að Þjóðskrá Íslands nær ekki að undirbúa og vinna gögn fyrir sveitarfélagið nægjanlega fljótt svo það sé unnt. Því verður kosningin með hefðbundnu fyrirkomulagi í kjördeildum.

 

 

Skráð af Menningar-Staður.

 

 

 

17.07.2018 06:53

SUMARTÓNLEIKAR 17. júlí 2018 - Listasafn Sigurjóns Ólafssonar

 

 

Sigrún, Elena og Kristín.

 

 

 SUMARTÓNLEIKAR 17. júlí 2018

 

- Listasafn Sigurjóns Ólafssonar

 

 

Þriðjudaginn 17. júlí - kl. 20:30

 

„Í dag skein sól“

 

Kristín Einarsdóttir Mäntylä mezzosópran, 

Sigrún Björk Sævarsdóttir sópran

og Elena Postumipíanóleikari

 


Í dag skein sól“
 

Söng­lög eftir Pál Ísólfss­on, Jón Leifs, Emil Thorodd­sen, Edvard Grieg

og fleiri tón­skáld sem öll lærðu eða störf­uðu í Leipzig,

og eru flytj­end­urn­ir þar í námi og starfi.

 


Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 20:30 og standa án hlés í því sem næst eina klukkustund.

 

Kaffistofa safnsins er opin eftir tónleikana og gefst gestum kostur á að hitta flytjendur þar. 

 

Kristín Einarsdóttir Mäntylä

söng í kórum Langholtskirkju frá átta ára aldri og fékk þar sína fyrstu söngkennslu. Sem meðlimur Graduale Nobili söng hún á plötu Bjarkar Guðmundsdóttur Biophilia árið 2011 sem leiddi til tveggja ára tónleikaferðalags víða um heim.

Hún útskrifaðist úr Söngskóla Reykjavíkur árið 2013 hjá Hörpu Harðardóttur og hóf haustið 2014 söngnám hjá Reginu Werner-Dietrich við Tónlistarháskólann í Leipzig.

Kristín hlaut árið 2016 verðlaun Junge Stimmen Leipzig og var í ár valinn Bayreuth styrkþegi Richard Wagner félagsins í Leipzig og styrkþegi Yehudi Menuhin, Live Music Now Leipzig. Síðastliðinn vetur söng hún í óperunni í Leipzig sem fylgdarsveinn í Töfraflautunni og blómastúlka í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart. Í vor fór hún með hlutverk Nireno í óperunni Júlíus Cesar eftir Händel í tónlistarháskólanum í Leipzig og í óperunni í Dessau. Í nóvember mun Kristín syngja hlutverk Óla Lokbrár í uppfærslu íslensku óperunnar á Hans og Grétu eftir Engelbert Humperdinck.

 

Sigrún Björk Sævarsdóttir

stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík árin 2009–2013 hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur. Samhliða því nam hún verkfræði við Háskólann í Reykjavík og útskrifaðist með BSc gráðu í Heilbrigðisverkfræði vorið 2012. Hún hóf nám í óperusöng við Tónlistarháskólann í Leipzig 2013 hjá KS. R. Schubert og lauk meistaranámi í október 2016. Nú stundar hún nám í meistaradeild skólans.

 

Sigrún kemur reglulega fram sem einsöngvari í kirkjulegum verkum, á ljóðatónleikum og með hljómsveitum. Meðal óperuhlutverka hennar eru Barbarina í Brúðkaupi Fígarós, Alcina í töfraóperunni Spuk im Händelhaus og Saad og Banjospielerin í Schahrazade, allt við óperuhúsið í Halle. Við óperuna í Leipzig söng hún hlutverk fylgdarsveins í Töfraflautunni og kom fram á jólatónleikum óperunnar. Í uppfærslum háskólans hefur hún sungið hlutverk Ännchen í Der Freischütz og hlutverk Donnu Önnu í Don Giovanni í Jena og Leipzig. Árið 2017 var hún valin Bayreuth styrkþegi Richard Wagner félagsins í Leipzig.

 

Elena Postumi

er fædd og uppalin á Ítalíu. Fimm ára byrjaði hún að læra á píanó og tólf ára hóf hún nám við Conservatorio G.B. Martini í Bologna. Árið 2014 útskrifaðist hún með einleikarapróf frá Conservatorio Santa Cecilia í Róm undir handleiðslu Elisabetta Pacelli, og með meistaragráðu í kammermúsik árið 2016. Árið 2015 var hún í skiptinámi við Tónlistarháskólann í Leipzig hjá Alexander Schmalcz og Hanns-Martin Schreiber. Hún hefur tekið þátt í fjölda námskeiða, meðal annars hjá Genevieve Ibanez, Bruno Canino og Phillip Moll. Nú stundar hún meistaranám við Tónlistarháskólann í Leipzig hjá Alexander Schmalcz.

 

Elena hefur komið víða fram sem einleikari og meðleikari og hún hefur einnig getið sér gott orð sem tónskáld. Í janúar í ár fékk Elena sérstök verðlaun sem besti meðleikarinn í keppni sem kennd er við Albert Lortzing og haldin var á vegum Tónlistarháskólans í Leipzig.

 

 

Listasafn Eyrbekkingsins Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi í Reykjavík.


Skráð af Menningar-Staður.