Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

20.03.2013 06:19

Jón Ólafsson skáld fæddist 20. mars 1850

Jón Ólafsson fæddist á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði 20. mars 1850. Hann var sonur Ólafs Indriðasonar, prófasts þar og skálds, og s.k.h., Þorbjargar Jónsdóttur húsfreyju.

Bróðir Jóns, samfeðra, var Páll Ólafsson, skáld og alþm. Jón var langafi Halldórs Jónssonar, verkfræðings og forstjóra.

Jón var einn róttækasti og hvassyrtasti málsvari sjálfstæðisbaráttunnar er þyngstur var róðurinn eftir Stöðulögin 1871 og stofnun landshöfðingjaembættisins 1873. Hann varð frægur fyrir Íslendingabrag sinn, mergjaða ádeilu á Dani og „danska Íslendinga“, sunginn við franska þjóðsönginn. Hann vandaði ekki kveðjurnar fyrsta landshöfðingjanum og var sóttur til saka fyrir skrifin. Þá brá hann sér til Kanada og fór þá m.a. rannsóknarför til Alaska sem nokkurs konar pólitískur flóttamaður. Síðar skrifaði hann ritið Alaska þar sem hann hélt því fram að Íslendingar yrðu stórþjóð ef þeir stofnuðu nýlendu í Alaskaríki.

Jón var ritstjóri Göngu-Hrólfs, Skuldar á Eskifirði, Þjóðólfs, Sunnanfara og Reykjavíkur, og ritstjóri Lögbergs og Heimskringlu í Winnipeg. Hann var alþm. 1880-90 og 1909-13. Jón skrifaði mikið um stjórnmál, vakti fyrstur manna máls á þingræði hér á landi og þýddi höfuðrit um einstaklingsfrelsi, Frelsið, eftir John Stuart Mill. Hann var sannarlega fjölmenntaður heimsmaður og einn litríkasti málsvari sjálfstæðisbaráttunnar.

Í Reykjavík bjó Jón lengi í sögufrægu húsi, á Laufásvegi 5. Það hús reisti Jón Árnason þjóðsagnasafnari en síðan átti Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur húsið. Eftir það var það í eigu Jóns en 1913 eignuðust það Borgþór Jónsson bæjargjaldkeri og kona hans Stefanía Guðmundsdóttir leikkona.

Æviminningar Jóns eru býsna skemmtilegar og búa yfir miklum fróðleik um pólitíska storma þeirrar tíðar. Þær voru lesnar í útvarp fyrir allmörgum árum.

Jón lést 11. júlí 1916

Jón Ólafsson.

 

Skráð af: Menningar-Staður