Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.03.2013 06:48

Galskapurinn með flugvöllinn og fangelsið á Hólmsheiði

„Hún óx um tíu alda bil,

naut alls, sem þjóðin hafði til,“

sagði skáldið Einar Benediktsson um Reykjavík. Allir landsmenn eiga hlutdeild í höfuðborginni hún er hjartastaður landsins, hefur upp á svo margt að bjóða sem getur bara verið þar í okkar litla landi. Alveg eins eiga höfuðborgarbúar sveitina með okkur, þar er margt svo yndislegt sem hvergi er annars staðar. Óvinir höfuðborgarinnar eru þeir sem alltaf eru að staglast á því að flugvöllurinn eigi að fara burt úr borginni, þar þurfi endilega að byggja blokkir.

Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er mikilvægur staður, honum fylgir mikið líf. Reykvíkingar geta á innan við klukkutíma flogið á fjarlæga staði í sínu landi. Á Ísafjörð, Akureyri, Egilsstaði, Hornafjörð og Vestmannaeyjar og gagnkvæmt, landsbyggðarmenn á sama tíma komist til Reykjavíkur. Svo er beint flug til höfuðborga Færeyja og Grænlands með vaxandi þjónustu hér á landi. Svo tala þessir áróðursmenn um Hólmsheiði sem flugvallarstað sem liggur í eitt hundrað og þrjátíu metra hæð utan borgarinnar, fjarri allri þjónustu. Flugmenn segja mér að Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni sé öryggisflugvöllur Íslands fyrir flugið í landinu öllu. Fari hann þaðan sé innanlandsflugið sem slíkt búið. Ekki hef ég vit á því en þeim treysti ég og veit að þeir eru að segja satt. Bara eitt: Hvað skyldi þokan og verri veðrátta vindur ofl. oft umlykja Hólmsheiðina, meðan Vatnsmýrin er yfirleitt alltaf fær í flugi?

 

 

Skoðaði Hólmsheiði

Ég gerði mér ferð upp á Hólmsheiði til að skoða flugvallarstæðið og hvar fangelsið á að rísa, sem er önnur della. Ég verð að segja, það duttu af mér „allar dauðar lýs,“ staðurinn langt utan borgarinnar, fjarri allri þjónustu þar sem ekkert er og kostar milljarða að taka byggingarlandið í gagnið. Fara með flugvöll upp á öræfi Reykvíkinga til að leika sér að hættunni í fluginu og eyða milljörðum af peningum að gamni sínu í tukthús sem hægt væri að byggja fyrir tiltölulega lítinn pening niðri á Hlemmi við lögreglustöðina. Hvað gengur að fólki sem lætur svona? Eyrarbakki er orðinn í seilingarfjarlægð, þar hafa höfuðstöðvar fangelsismála verið byggðar upp. Ég er hinsvegar ekkert að efast um að hér í Reykjavík þurfi að vera lítið gæsluvarðhaldsfangelsi. En þessi leikur er sóun á almannafé, peningum sem ekki eru til.

 

Liggur eitthvað við? Já, líf liggur við

Í þessum tveimur miklu áformuðu verkum liggja margir milljarðar sem hægt er að spara, peningar sem ekki eru til í dag. Flugvöllur allra landsmanna er á réttum stað í Vatnsmýrinni. Fangelsisbygging þarna upp frá er sóun á almannafé og undarleg þráhyggja. Enn er hægt að hætta við bæði þessi áform á þessum stað og peningunum er betur varið til að gera það sem gera þarf í brýnustu málum Landspítalans og heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Sparnaðinum ætti að verja til að endurnýja ónýt tæki og koma í veg fyrir að heilbrigðiskerfið hrynji í hausinn á okkur öllum með þeim fórnum sem því fylgja. Þarna stendur hnífurinn í kúnni, í dag. Þarna liggur okkar bráðasti vandi. Eitt besta heilbrigðiskerfi á Norðurlöndum sem var er nú að hruni komið. Íslenska heilbrigðiskerfið. Líf liggur við að endurreisa það.

 

Guðni Ágústsson  -  Höfundur er fyrrv. landbúnaðarráðherra  -  Morgunblaðið þriðjudagurinn 26. mars 2013

 

 

Guðni Ágústsson við prédikun í Strandarkirkju fyrir nokkrum árum. -  

Þegar Guðni Ágústsson talar - þá er hlustað.

 

 

 

Litla-Hraun og Eyrarbakki.  Ljósm.: Mats Wibe Lund.

 

 

 

 

Skráð af: Menningar-Staður