Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.03.2013 06:34

Skóflustunga á Hólmsheiði

Tímamót verða í sögu fangelsisbygginga hinn 4. apríl nk. þegar tekin verður fyrsta skóflustunga að nýju fangelsi á Hólmsheiði.

Í rúma hálfa öld hafa menn velt fyrir sér hvar best væri að reisa nýtt fangelsi og hvernig það skyldi búið. Föngum fjölgar í takt við fjölgun íbúa og af þeim sökum hafa fangelsin verið þéttsetin. Sum fangelsanna uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til slíkra húsa í nútímanum.

Í umræðu um ný fangelsi hefur stundum verið bent á „einfaldar“ lausnir og „ódýrar“ eins og auða og yfirgefna skóla á ýmsum landshornum, fangaskip, gáma o.fl. í þeim dúr en þá hefur gleymst að fangelsi eru fyrir fólk sem nýtur mannréttinda enda þótt það hafi brotið af sér. Fangelsisbyggingar hafa verið teiknaðar og hannaðar en þær hafa ekki risið. Lengst komst þó fangelsisbyggingin við Tunguháls í Reykjavík á sínum tíma. Grunnur var steyptur en síðar var mokað yfir hann. Lengra náði ekki sú saga.

Nú er horft til þess að nýtt fangelsi verði risið á Hólmsheiði 2015. Öll undirbúningsvinna er komin það langt á veg að trauðla verður aftur snúið. Skóflustungan á Hólmsheiði í aprílbyrjun verður vonandi órækt merki um að verkið muni hafast.

Þarflaust er að taka fram að mikil undirbúningsvinna hefur farið fram og margir komið að því verki. Í nútímanum er ekki eins auðvelt og margur heldur að teikna og reisa fangelsi enda verður að uppfylla ýmsa alþjóðlega staðla og taka tillit til mannréttinda þeirra sem hljóta fangelsisdóma.

Fyrirhugað fangelsi á Hólmsheiði verður lágreist bygging, hógvær en þó festuleg þar sem hún hvílir í kyrrð heiðarinnar. Hún er í útjaðri borgarinnar eins og Hegningarhúsið var á sínum tíma að áliti margra. Nú er það gamla og virðulega hús í hringiðu borgarinnar og aldrei að vita nema sömu örlög bíði Hólmsheiðarfangelsisins en það er nú önnur saga.

Með nýju fangelsi á Hólmsheiði verður stigið tímamótaskref í byggingarsögu fangelsa hér á landi. Stefnt er að því að bæta skilyrði til afplánunar fangelsisrefsinga frá því sem nú er. Kvenfangar verða vistaðir í Hólmsheiðarfangelsinu og Kvennafangelsið í Kópavogi lagt niður. Kvenfangar hafa búið við lakari skilyrði til afplánunar en karlar; núverandi húsakynni kvennafangelsisins eru þröng og aðstaða til útivistar óviðunandi. Karlfangar eru iðulega vistaðir meðal kvenfanga og gengur stundum vel og stundum miður. Í nýja fangelsinu munu þær ekki afplána á sömu fangelsisdeildum og karlar heldur vistast sér – rými verður fyrir átta til tíu konur. Sameiginlegt rými á kvennadeild fangelsisins verður vel búið enda haft í huga að þar þurfi sumar konur að afplána langa dóma. Útivistarsvæði kvenna verður um 400 m². Þá verður og Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg 9 lokað en í nýja fangelsinu verður móttökudeild – og gæsluvarðhald. Aðstaða fanga til vinnu og náms verður stórefld. Boðið verður upp á afþreyingu og æfingaaðstöðu í útivistartíma fanga. Þá verður sérstök íbúð, heimsóknaríbúð, sem ætluð er til heimsókna maka með börn og möguleiki á að geta dvalist þar næturlangt með fanganum. Þetta fyrirkomulag er mikilvægt og mun efla tengsl fanga og barna þeirra. Börn fanga eru nefnilega ósýnilegur hópur sem þarf að gefa sérstakan gaum, styðja og vernda.

Það á að vera eitt höfuðmarkmið fangelsa nútímans að auka möguleika fanga til farsæls og heiðarlegs lífs. Á það skal bent að góður aðbúnaður í fangelsi, fjölbreyttir möguleikar til náms og starfa ásamt andlegri og líkamlegri uppbyggingu, er líklegri til að skila jákvæðum árangri heldur en ella og stuðla að hamingju. Fangavist má ekki vera innihaldslaus – vistin má ekki vera án dagskrár eða jafnvel einhvers konar tímabundið dagskrárhlé.

Lýðræðissamfélög nútímans hafa í hávegum virðingu fyrir manngildi og réttlæti. Þau mótast af raunsærri bjartsýni á manneskjuna og búa yfir miklum sveigjanleika sem tekur þó af festu á lögbrotum og lýsir yfir vanþóknun á þeim. Mannúð, virðing og velferð allra eru einkunnarorðin. Sú virðing tekur til fangans sem manneskju enda þótt hann hafi með brotum sínum hvorki sýnt virðingu né tillitssemi. Þau sem í fangelsi eru hafa hrasað á vegi lífsins og gjalda fyrir það. En samfélagið á ekki að gjalda fyrir það að fólk sitji í fangelsi og fari þaðan jafnvel verra en það kom. Fangarnir eiga ekki heldur að gjalda fyrir það að vera í fangelsi og verða fórnarlömb vistar þar sem tilgangsleysi svífur yfir vötnum, iðjuleysi og doði.

Fangelsið á Hólmsheiði verður nútímalegt fangelsi þar sem tekið er tillit til öryggis borgaranna. Einnig mun það renna traustum stoðum undir nýtt og farsælt líf þeirra sem þar vistast um lengri eða skemmri tíma. Það er allra hagur að vel sé búið að föngum og að þeir fái möguleika til að fóta sig úti í samfélaginu sem heilar og góðar manneskjur. Til þess er meðal annars nýtt fangelsi reist.

 

Hreinn S. Hákonarson   -  Höfundur er fangaprestur þjóðkirkjunnar  -  Morgunblaðið þriðjudagurinn 26. mars 2013

 

 

 

Hreinn S. Hákonarson.

 

Skráð af: Menningar-Staður