Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.04.2013 07:06

Framsóknarflokkurinn með mest fylgi

.

Framsóknarflokkurinn bætir enn við sig fylgi á kostnað Sjálfstæðisflokksins, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna breytist lítið frá síðustu könnun fyrir hálfum mánuði.

Könnunin var gerð á netinu og í gegnum síma dagana 14.mars til 1.apríl. Framsóknarflokkurinn nýtur mests fylgis, fengi 28,3% atkvæða ef kosið yrði nú, bætir við sig 2,8 prósentustigum frá síðustu könnun fyrir hálfum mánuði.

Næst kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 22,4%, sem er 4,4 prósentustigum minna en fyrir hálfum mánuði, og ívið minna en flokkurinn fékk í kosningunum 2009. Þar munar reyndar aðeins rúmu prósentustigi. Samfylkingin fengi 15% samkvæmt könnuninni, um helming af því sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Björt framtíð fengi 12,7% og Vinstri græn 8,5%. Fylgi Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna breytist lítið frá síðustu könnun.

Önnur framboð ná ekki 5% markinu og koma ekki inn manni. Næst því eru þó Píratar með 4,4%. Lýðræðisvaktin fengi 3,1%, Hægri grænir 2,1%, Dögun 1,5%, Landsbyggðarflokkurinn 1%, Regnboginn 0,5%, Húmanistaflokkurinn 0,2%, Alþýðufylkingin 0,2% og Flokkur heimilanna 0,1%. Í heildina eru þau framboð sem ekki ná manni á þing því níu talsins, samkvæmt könnuninni. Þau njóta samtals fylgis ríflega 13% kjósenda.

Samkvæmt þessu kæmu fimm framboð manni á þing, Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Björt framtíð og Vinstrihreyfingin - grænt framboð. Úrtakið var tæplega 7300 manns, átján ára og eldri. Svarhlutfall var rúm 60%.

 

Af: www.ruv.is

 

 

Núverandi og fyrrverandi leiðtogar Framsóknar í Suðurkjördæmi. F.v.: Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins og alþingismaður Sunnlendinga og Guðni Ágústsson f.v. formaður Framsóknarflokksins og f.v. alþingismaður og ráðherra.  Myndin er tekin í Húsinu á Eyrarbakka 2. maí 2007.

 

Skráð af: Menningar-Staður.