Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

05.04.2013 06:16

Af strútum og strútum - sálmurinn um fangelsið

Guðmundur Brynjólfsson á Eyrarbakka skrifar:

 

Það var á dögunum að Dagskráin greindi frá því að strút væri að finna á Stokkseyri, á Veiðisafninu. Þetta var skemmtileg frétt á jákvæðum nótum. Strútur á Stokkseyri.

Þessi frétt fékk mig til að leiða hugann að öðru og óskemmtilegra málefni, og það þarf ekki snilling til að sjá um hvaða brautir hugrenningatengslin liggja. Fangelsið á Litla Hrauni kom upp í hugann. Eða öllu heldur komu upp í hugann þeir sem eiga að vera gæslumenn vinnu og velferðar í héraðinu, þingmenn kjördæmisins komu upp í hugann og dugleysi þeirra við að verja stöðu fangelsisins á Litla Hrauni sem helsta fangelsis þjóðarinnar.

Um langt skeið hefur sú firra embættismanna í Reykjavík sveimað um í andrúmsloftinu – eins og askan frá Eyjafjallajökli – að nauðsynlegt sé að finna nýju fangelsi stað í túngarði þeirra höfuðborgarbúa. Embættismennirnir hafa nefnilega fundið það út fyrir margt löngu að það sé ómögulegt að halda áfram uppbyggingu fangelsis á Litla Hrauni - nær sé að byggja nýtt betrunarhús á Hólmsheiði en það landsvæði hefur nýlega komist í tísku meðal lærðra manna þar í borg og eiga helst allar nýframkvæmdir sem mönnum dettur í hug að fara út í að rísa á þessari heiði – þótt flest mæli á móti þeim öllum.

Ég vil biðja Árnesinga og reyndar landsmenn alla að gæta að því hvert næsta vers verður í sálminum um fangelsið. Næsta vers mun fjalla um þann mikla sparnað sem sé af því að hafa betrunarhús á Hólmsheiði (og skiptir þá engu hvort einhver sparnaður verði af því eða ekki) og í framhaldi af því verður þriðja versið ort; erindið um þá gríðarlegu hagræðingu sem hafa má af því að flytja alla fangelsisstarfsemi á Hólmsheiði. Það er að segja; það er kveðskapurinn um að leggja Litla Hraun niður sem fangelsi!

Allt þetta mun yfir koma af því að stjórnmálamenn kjördæmisins voru ekki á verði, spyrntu ekki við fótum og mótmæltu þessu fáránlega ráðslagi að færa til miðju þessarar starfsemi í landinu. Þeir stóðu aðgerðarlausir þegar ráðist var í að færa starfsemina frá þekkingarbrunni málefnisins, frá miðlægum möguleikum til vaxtar sem svo sannarlega eru til staðar á Litla Hrauni. Menn sátu aðgerðalausir þegar embættismennirnir ákváðu að færa þessa starfsemi þangað sem hún ekki einungis er verr sett heldur þar sem verið er að bjóða hættunni heim. Ég segi, bjóða hættunni heim, því að allar boðleiðir að fangelsi á Hólmsheiði eru lengri og öll umferð þangað þyngri ef upp kæmi neyðarástand í fangelsinu, lengri tíma tæki t.a.m. bakvaktamenn að komast úr hinum ýmsu hverfum höfuðborgarsvæðisins á staðinn en það tekur Eyrbekkinga, Stokkseyringa og Selfyssinga að nálgast Litla Hraun – þó allir lægju í bælinu þegar útkallið bærist.

Það er ljóst að stjórnmálamenn kjördæmisins fóru að dæmi Strútsins á Stokkseyri – vel að merkja, áður en hann settist að á Stokkseyri – og stungu hausnum í sandinn, þegar allt þetta embættismannaráðabrugg um byggingu fangelsis á Hólmsheiði stóð sem hæst. Ráðabrugg manna sem víla ekki fyrir sér að flytja störf þvert um landið svo þeir og þeirra vildarvinir geti haft allt í sem mestum hægindum og þurfi sem minnst að hreyfa sig.

Eða datt einhverjum eina mínútu í hug að einhver hefði verið að hugsa um fangana?

J – listinn sem býður fram undir merki Regnbogans hér í kjördæminu heitir því að standa vörð um þá vinnustaði sem hér eru á forræði hins opinbera og berjast með kjafti og klóm gegn þeirri öfugþróun sem felst í veikingu stofnanna og þjónustu í héraðinu. Það er komið meira en nóg af svo góðu. Vegna þess að Regnboginn er ekki stjórnmálaflokkur er hann brynvarinn fyrir spillingaröflum sem hreiðra um sig í slíkum batteríum og þess vegna á hann heldur engra hagsmuna að gæta meðal embættismannaklíkunnar í Reykjavík – og hann fóstrar enga strúta! X – J.

 

Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur og djákni á Eyrarbakka skipar annað sæti J – listans í Suðurkjördæmi í komandi kosningum.

 

Guðmundur Brynjólfsson á Eyrarbakka.

 

 

 

Litla-Hraun.

 

 

 

 

 

 

Skráð af: Menningar-Staður