Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

07.04.2013 20:39

Fimm stjörnu hótel fyrir fanga á Hólmsheiði

„Ég hef misskilið þetta alveg ef það á að vera jafngildi þess að vera á fimm stjörnu lúxushóteli þegar maður er í fangelsi," segir Júlíus Sólnes verkfræðingur og fyrrverandi ráðherra.

Fyrsta skóflustungan að fangelsi á Hólmsheiði var tekin í gær (fimmtudaginn 5. apríl 2013 ) við töluverða viðhöfn. Júlíus sagði í Reykjavík Síðdegis að fyrirhuguð byggingu væri í takt við fimm eða sex stjörnu hótel.


„Mér ofbýður algjörlega því þarna er að rísa einhver montbygging sem ég tel að ætti helst eiga erindi í arkitektabækur um allan heim til að sýna hve stórkostlega fallegur arkitektúrinn er. Mér sýnist við vera að byggja fimm eða sex stjörnu hótel fyrir fanga," segir Júlíus.

Hann segir að vel hefði verið hægt að fara ódýrari leið á sínum tíma fyrst skortur var á plássi fyrir fanga.

„Ég minni á að einu sinni voru til sölu ágætar vistaverur, vinnubúðirnar við álverið á Reyðarfirði, sem þóttu fullboðlegar verkafólkinu sem þar starfaði. Allir mjög ánægðir með þær," segir Júlíus. Vinnubúðirnar hefði mátt flytja á Hólmsheiði, reisa girðingu í kringum allt saman og kostnaðurinn ekki verið meiri en 100 milljónir króna.

Júlíus varð fyrsti umhverfisráðherra Íslendinga árið 1990. Hann segist hafa rætt fyrirhugað fangelsi við bandarískan kollega sem var hneykslaður.

„Hann varð hvumsa og taldi að hægt væri að byggja bandarískt fangelsi fyrir það sem við notum í teiknikostnaðinn fyrir þetta mannvirki," segir Júlíus. Hann minnir á að fangelsi eigi fyrst og fremst að vera þokkalega byggt.

„Það má vera forljótt í útliti. Það þarf engan arkitektúr fyrir fangelsi," segir Júlíus.

 

 

 

 

Af: www.visir.is

 

Hér skráð af: Menningar-Staður