Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

09.04.2013 06:07

Gamla fréttin - Viðskiptablaðið 19. júlí 2006 - "Kærir Nilfisk NilFisk"

Hljómsveitin NilFisk frá Stokkseyri og Eyrarbakka, sem helst hefur getið sér það til frægðar að hafa verið uppgötvuð af Dave Grohl forsprakka Foo Fighters og hitaði í kjölfarið upp fyrir stórsveitina á tónleikum í Laugardagshöll í ágúst 2003, stendur í stórræðum þessa dagana.

Ryksuguframleiðandinn Nilfisk sem að hljómsveitin dregur nafn sitt af hefur gert athugasemdir við notkun hljómsveitarinnar á Nilfisk nafninu. Aðdragandi málsins er sá að hljómsveitin hélt tónleika í Kaupmannahöfn í vor og í tengslum við þá tónleika var ákveðið að senda ryksuguframleiðandanum danska eintak af plötu sveitarinnar sem kom út um síðustu jól af góðum hug.

Að sögn Jóhanns Vignis Vilbergssonar, eins af liðsmönnum sveitarinnar, var ákveðið að senda fyrirtækinu eintak þar sem samstarf við Nilfisk umboðið á Íslandi hafði alltaf verið gott. Hann segir að oft hafi hljómsveitin í samstarfi við umboðið gert samninga um auglýsingar og kynningu af ýmsu tagi, báðum aðilum til framdráttar.

Svarið við sendingunni lét ekki á sér standa, þrátt fyrir að móttökurnar hafi verið með öðrum hætti en liðsmenn sveitarinnar bjuggust við. Í pósti kom bréf frá lögfræðingi Nilfisk ryksuguframleiðandans þar sem gerðar voru athugasemdir við notkun sveitarinnar á nafninu og þess krafist að allur varningur merktur Nilfisk, svo sem bolir, geisladiskar og annað slíkt yrði gerður upptækur.

Einnig var þess krafist að vefléninu www.nilfisk.valnir.com, sem sveitin notar, yrði lokað ef hljómsveitin vildi forðast lagalegar aðgerðir að hálfu Nilfisk ryksuguframleiðandans. Lögfræðingur Nilfisk óskaði jafnframt eftir svarbréfi innan tveggja vikna þar sem fram kæmu ítarlegar upplýsingar um hljómsveitina, hvar hún hefði komið fram og hversu oft, hversu margar hljómplötur hefðu verið seldar, hverjir skipuðu sveitina og þar fram eftir götum.

Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi og sérlegur vinur sveitarinnar aðstoðaði NilFisk hljómsveitina við að skrifa lögfræðingnum svarbréf. Í samtali við Viðskiptablaðið vildi Ólafur Helgi sem minnst tala um málið en sagðist þó hafa aðstoðað hljómsveitina við að svara bréfinu. Þar hefðu verið lagðar fram þær upplýsingar sem beðið var um auk þess sem lögfræðingi Nilfisk ryksuguframleiðandans var tjáð að stafsetning á nafni sveitarinnar væri með öðru sniði en fyrirtækisins -- NilFisk væri stafað með stórum staf í miðju orði, en nafn ryksuguframleiðandans væri Nilfisk Advance.

Auk þess var í svarbréfinu greint frá því að haft hefði verið við samband við Nilfisk ryksuguframleiðandann á Íslandi og að hann hefði sagt að notkun sveitarinnar á nafninu hefði ekki gert fyrirtækinu neinn skaða, heldur þvert á móti hefði sala á Nilfisk ryksugum aukist eftir að hljómsveitin komst í sviðsljósið.

Að lokum er í svarbréfinu óskað eftir að hljómsveitin fái að nota nafnið áfram og að einungis sé um að ræða tiltölulega lítið þekkta hljómsveit frá litlu sjávarþorpi á Íslandi skipaða fjórum 17 og 18 ára drengjum sem séu í engri fjárhagslegri aðstöðu til að svara fyrir sig í réttarsal eða sækja rétt sinn til að halda í nafnið með neinum hætti.

Auk þess var það getið að hljómsveitin hefði eingöngu selt 230 hljómplötur á ferli sínum og haldið 83 tónleika sem oftast nær færu fram í litlum sjávarþorpum á Íslandi. Ólafur Helgi sagðist jafnframt telja það skyldu sína að hjálpa drengjunum þar sem um væri að ræða sannkallað Davíð gegn Golíat mál og að Stokkseyrarbandið mætti sín lítils gegn lagalegum aðgerðum alþjóðlegs stórfyrirtækis tæki það þá ákvörðun að ganga af hörku í málið.

Enn hefur ekkert svarbréf borist frá lögfræðingi Nilfisk í Danmörku annað en tilkynning um að svarið hafi borist og að samband verði haft við sveitina von bráðar. Að sögn Jóhanns Vignis Vilbergssonar bíða NilFisk-menn bjartsýnir eftir svarbréfi og vonast til að fá að nota nafnið áfram, en eru þó tilbúnir að skipta um nafn ef ryksuguframleiðandinn ætlar að aðhafast frekar í málinu. Jóhann Vignir sagði jafnframt að auðvitað væri það fúlt að þurfa að skipta um nafn og byrja þannig upp á nýtt, en hljómsveitin tæki því sem að höndum bæri með jafnaðargeði.

 

Viðskiptablaðið í júli 2006.

 

 

Hljómsveitin NilFisk kveður Ólaf Helga áður en haldið er í tónleikaferð til Danmerkur.

F.v.: Víðir Björnsson, Jóhann Vignir VIlbergsson, Sigurjón Dan Vilhjálmsson, Sveinn Ásgeir Jónsson og Ólafur Helgi Kjartansson.

 

Teikning Eyrbekkingsins Óðins Andersen í Sunnlenska fréttablaðinu 27. júlí 2006.

 

Skráð af: Menningar-Staður