Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

12.04.2013 08:36

Ólafur Helgi Kjartansson: - "Komdu með konuna og pappírana"

Hjónavígslur eru meðal skemmtilegustu verkefna sem ég annast. Hjá þessu embætti eru þær oftast 25 til 30 á ári og í æði mörg skiptin eru pörin erlend; til dæmis frá Ástralíu, Þýskalandi og Norðurlöndunum. Ég man eftir skemmtilegri athöfn fyrir nokkrum misserum á Þingvöllum, þar sem bandarísk hjónaefni létu gefa sig saman á Þingvöllum. Bæði brúðguminn og svaramaður hans voru jarðfræðingar og að koma af ráðstefnu á Ítalíu ásamt brúðinni og eiginkonu svaramannsins. Vildu láta gefa sig saman á sprungunni þar sem jarðflekar Evrópu og Vesturheims liggja saman. Staðsetningin var vel við hæfi,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi.

 

Gaf saman 26 pör í fyrra

Borgaralegar hjónavígslur verða æ algengari. Gjarnan ganga um 1.700 pör hér á landi í hjónaband og t.d. árið 2009 voru þær um 1.400, skv. tölum frá Hagstofu Íslands. Af þeirri breytu voru fógetavígslur 352 umrætt ár. Þær voru einni færri en 2007, en það ár voru nærri 2000 íslensk pör gefin saman. Langflestar hjónavígslur eiga sér stað að undangenginni óvígðri sambúð, en 83% hjónaefna bjuggu saman áður en þau festu ráð sitt.

„Hjónavígslurnar sem ég hef annast á rúmlega tuttugu ára ferli sem sýslumaður eru orðnar um 240. Nokkrir prestar segja mér að þeim fjölda hafi þeir aldrei náð og hafa þó verið áratugi í embætti, segir Ólafur Helgi sem á sl. ári gaf alls 26 brúðhjón saman. Nokkrar vígsluathafnirnar fóru fram á sýsluskrifstofunni á Selfossi en æði margar þó úti í náttúrunni; það er á stöðum í lögsagnarumdæmi hins veraldlega yfirvalds Árnesinga

„Þegar liggur fyrir að hjónavígslur á Þingvöllum í ár verði sex eða sjö. Maður á því æði oft leið á Þingvelli, stað sem mér er afar kær. Þá eru Gulloss og Geysir vinsælir staðir í þessu efni og svo man ég eftir brúðkaupi á Langjökli. Að vísu náðum við ekki vegna veðurs þangað sem förinni var heitið svo athöfnin fór fram á þeim stað þar sem við komumst lengst,“ segir Ólafur Helgi.

 

Giftu sig í grænum hvelli

Nokkur formskilyrði þarf að uppfylla áður en brúðkaup eða hjónavígsla fer fram. Í fyrsta lagi þarf fólk að skila inn fæðingarvottorði frá Þjóðskrá, einfaldlega til að sanna tilveru sína. Þá þarf að koma með pappíra sem staðfesta að fyrra hjónabandi, ef við á, hafi verið slitið og allir lögformlegir gjörningar varðandi eignir, skuldir og veraldleg mál hafi verið til lykta leiddir.

„Ég tek daginn snemma og kem í rauðabítið á skrifstofuna. Einu sinni annaðist ég hjónavígslu og hún var afstaðin klukkan níu um það leyti sem aðrir starfsmenn hér á skrifstofunni voru að komast í fullan gang við vinnu. Þá kom einhverju sinni til mín maður, rétt áður en sýsluskrifstofan lokaði þann daginn, og spurði hvort hjónavígsla í grænum hvelli væri í boði. Hann var með alla pappíra tiltæka og konan beið úti í bíl. Því var ekkert því til fyrirstöðu að ganga í málið. Komdu með konuna og pappírana, sagði ég við manninn, svo var gengið til dagskrár og eftir fáeinar mínútur var hjónabandið orðið staðreynd,“ segir sýslumaðurinn góðkunni.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 12. apríl 2013 - sbs@mbl.is

 

 

Ólafur Helgi Kjartansson með Eyrbekkingum á Eyrarbakka.

 

 

F.v.: Inga Lára Baldvinsdóttir, Eygerður Þórisdóttir, Rúnar Eiríksson, Óalfur Helgi Kjartansson. Vilbergur Prebensson og Erlingur Bjarnason.

 

Skráð af: Menningar-Staður